Hvers vegna eru kynþáttamálinn slíkt hitamál?
Hvers vegna eru kynþáttamálin slík hitamál?
ALLA tíð frá upphafi skráðrar sögu hefur hugmyndin um „okkur“ og „hina“ ráðið hugsunarhætti fólks. Margir hafa sannfært sjálfa sig um að þeir einir séu eðlilegir og geri hlutina rétt. Þetta er það sem vísindamenn kalla þjóðhverfu, sú hugmynd að eigið fólk og leiðir séu það eina sem máli skiptir.
Grikkum til forna fannst til dæmis ekki mikið til um „barbarana“ en það hugtak notuðu þeir yfir alla nema Grikki. Orðið „barbari“ kom til af því hvernig erlendar tungur hljómuðu í eyrum Grikkja, eins og flaumur af óskiljanlegu „bar-bar.“ Á undan Grikkjum höfðu Egyptar talið sig fremri öðrum þjóðum, og á eftir þeim gerðu Rómverjar slíkt hið sama.
Um aldaraðir nefndu Kínverjar land sitt Zhong Guo, Miðjuríkið, af því að þeir voru sannfærðir um að Kína væri miðpunktur heimsins, ef ekki alheimsins. Seinna, þegar evrópskir trúboðar með rautt hár, græn augu og rjóðir í andliti komu til Kína, kölluðu Kínverjar þá „útlenda djöfla.“ Þegar Austurlandabúar fyrst fóru að sjást í Evrópu og Norður-Ameríku urðu skásett augu og það sem mönnum þótti furðulegir siðir á sama hátt tilefni aðhláturs og tortryggni.
En eins og bókin The Kinds of Mankind segir þarf að taka mikilvæga staðreynd með í reikninginn: „Það er eitt að trúa á [kynþáttar-] yfirburði sína; það er allt annað að reyna að sanna þá með því að nota uppgötvanir vísindanna.“ Tilraunir til að sanna að einn kynþáttur sé öðrum æðri er tiltölulega nýtt fyrirbæri. Mannfræðingurinn Ashley Montagu skrifaði að „sú hugmynd, að mannkynið skiptist í náttúrlega eða líffræðilega kynþætti sem á séu bæði andlega og líkamlega ólíkir, mótaðist ekki fyrr en á seinni hluta átjándu aldar.“
Hvers vegna komst spurningin um kynþáttayfirburði svo mjög í sviðsljósið á 18. og 19. öld?
Þrælaverslun og kynþættir
Ein meginástæðan er sú að þá hafði hin ábatavænlega þrælaverslun náð hátindi sínum og verið var að taka hundruð þúsunda Afríkubúa með valdi og gera þá að þrælum í Evrópu og Ameríku. Oft var fjölskyldum tvístrað
og menn, konur og börn send til mismunandi heimshluta og sáust aldrei framar eftir það. Hvernig gátu þrælasalar og þrælaeigendur, sem flestir þóttust vera kristnir, varið svona ómannúðlegar aðfarir?Með því að breiða út það viðhorf að svartir Afríkumenn væru óæðri af náttúrunnar hendi. „Mér býður í grun að allir negrar, og almennt séð allir aðrir kynflokkar mannsins, séu af náttúrunnar hendi óæðri hvíta manninum,“ skrifaði skoski heimspekingurinn David Hume á 18. öld. Hann fullyrti reyndar að ekki væri hægt að finna „nokkra snjalla uppfinningu hjá [negrum], enga list, engin vísindi.“
Slíkar fullyrðingar áttu þó ekki við rök að styðjast. Í The World Book Encyclopedia (1973) er sagt: „Háþróuð negraríki voru til á ýmsum stöðum í Afríku fyrir mörg hundruð árum. . . . Milli 1200 og 1600 stóð afrísk-arabískur háskóli í blóma í Timbúktú í Vestur-Afríku og varð frægur um gervallan Spán, Norður-Afríku og Austurlönd nær.“ Þeir sem hlut áttu í þrælaversluninni voru engu að síður fljótir að tileinka sér viðhorf heimspekinga eins og Humes að svertingjar væru kynþáttur óæðri hvíta manninum, teldust satt að segja vart til manna.
Trúarbrögð og kynþættir
Kynþáttaviðhorf þrælasalanna naut verulegs stuðnings trúarleiðtoganna. Þegar um miðja 15. öld lögðu opinberar tilskipanir frá rómversk-kaþólskum páfum blessun sína yfir undirokun og þrælkun „heiðingja“ og „vantrúaðra“ til þess að „sálir“ þeirra mættu frelsast fyrir „Guðsríki.“ Með blessun kirkjunnar í veganesti var samviskan ekkert að ónáða evrópska landkönnuði og þrælasala við hrottalega meðferð þeirra á innfæddu fólki.
„Á sjöunda áratug 18. aldar, og í marga næstu áratugi, lögðu prestar og guðfræðingar kaþólsku, anglíkönsku, lútersku, öldunga- og siðbótarkirkjunnar blessun sína yfir þrælkun svertingja,“ segir bókin Slavery and Human Progress. „Engin kirkja eða trúarhópur samtímans reyndi að letja meðlimi sína þess að eiga eða jafnvel að versla með svarta þræla.“
Þó að sumar kirknanna töluðu um alheimsbræðralag kristinna manna héldu þær einnig á lofti kenningum sem mögnuðu upp deilurnar um kynþættina. Til dæmis segir bókin Encyclopaedia Judaica að „það hafi ekki verið fyrr en eftir langvarandi baráttu og guðfræðilegar deilur að Spánverjar viðurkenndu að innfæddu kynþættirnir, sem þeir hittu fyrir í Ameríku, væru menn með sál.“
Af þessu var leidd sú ályktun að það skipti ekki máli hvernig þessir innfæddu kynþættir væru meðhöndlaðir líkamlega, svo lengi sem „sálir“ þessa fólks væru „frelsaðar“ með því að snúa þeim til kristni. Og hvað snerti stöðu svertingja héldu margir trúarleiðtogar því fram að þeir væru hvort sem er undir bölvun Guðs. Ritningargreinum var misbeitt til að reyna að sanna það. Klerkarnir Robert Jamieson, A. R. Fausset, og David Brown staðhæfðu í biblíuskýringariti sínu: „Bölvaður sé Kanaan [1. Mósebók 9:25] — þessi örlagadómur hefur uppfyllst með eyðingu Kanverja — niðurlægingu Egyptalands og þrælkun Afríkumanna, afkomenda Kams.“ — Commentary, Critical and Explanatory, on the Whole Bible.
Í Biblíunni er einfaldlega ekki fótur fyrir þeirri kenningu að forfaðir svarta kynþáttarins hafi verið bölvaður. Sannleikurinn er sá að svarti kynstofninn er kominn af Kús, ekki Kanaan. Á 18. öld hélt John Woolman því fram að notkun þessarar biblíulegu bölvunar, til að réttlæta þrælkun svertingja og svipta þá þannig náttúrlegum réttindum sínum, væri „of gróf tilgáta til að nokkur maður, sem í einlægni vildi láta stjórnast af áreiðanlegum frumreglum, gæti sætt sig við hana.“
Gervivísindi og kynþættir
Menn beittu einnig fyrir sig gervivísindum til að reyna að styðja þá kenningu að svertingjar séu óæðri kynþáttur. Með bókinni Essai sur l’inégalité des races humaines (Ritgerð um ójöfnuð kynþátta mannsins) lagði franski rithöfundurinn
Joseph de Gobineau á 19. öld grunninn að mörgum slíkum verkum sem á eftir komu. Í henni skipti Gobineau mannkyninu í eftirfarandi þrjá aðskilda kynþætti eftir ágæti: hvíta, gula og svarta. Hann hélt því fram að eiginleikar hvers kynþáttar fyrir sig bærust með blóðinu og þess vegna myndi sérhver blöndun með hjónaböndum leiða til hnignunar og yfirburðaeiginleikarnir glatast.Gobineau hélt því fram að eitt sinn hafi verið til hreinn kynþáttur hvítra manna, hávaxinna, ljóshærðra og bláeygðra, og nefndi hann þá Aría. Hann fullyrti að það hefðu verið Aríar sem fluttu menninguna og sanskrít til Indlands og að það hefðu verið Aríar sem komu á fót menningunni í Grikklandi og Róm til forna. En með blóðblöndun við óæðra fólk, sem fyrir var, hafi þessi menning, sem eitt sinn var svo dýrleg, glatast ásamt snilli og góðum eiginleikum aríska kynstofnsins. Þá sem kæmust næst því að vera hreinir Aríar væri að finna í Norður-Evrópu, að því er Gobineau staðhæfði, nánar tiltekið meðal norrænna manna og, í útvíkkuðum skilningi, meðal Germana.
Grundvallarhugmyndir Gobineaus — skiptingin í þrjá kynþætti, blóðarfur og kynþáttur Aría — studdust ekki við neinar vísindalegar forsendur og nútímavísindi hafna þeim algerlega. Engu að síður voru aðrir fljótir til að taka þær upp. Meðal þeirra var Englendingurinn Houston Stewart Chamberlain sem var svo heillaður af hugmyndum Gobineaus að hann settist að í Þýskalandi og varð ötull málsvari þess að með Þjóðverjum væri eina vonin til að varðveita hreinleika aríska kynstofnsins. Ekki þarf að taka það fram að ritsmíðar Chanberlains voru mikið lesnar í Þýskalandi og útkoman varð ófögur.
Ófögur útkoma kynþáttafordóma
Í bók sinni Mein Kampf (Barátta mín) staðhæfði Adolf Hitler að germanski kynþátturinn væri aríski ofurkynþátturinn sem væri ætlað að ríkja yfir heiminum. Hitler taldi að Gyðingar, sem hann sagði hafa unnið skemmdarverk á efnahag Þjóðverja, tálmuðu þeim við að sinna þessu dýrlega hlutverki sínu. Það leiddi til útrýmingarherferðar gegn Gyðingum og öðrum minnihlutahópum í Evrópu, og er það óumdeilanlega einn svartasti kafli mannkynssögunnar. Þetta var hin hörmulega útkoma af
hugmyndum kynþáttahataranna, þar á meðal hugmynda Gobineaus og Chamberlains.Slík mannvonska takmarkaðist þó ekki við Evrópu. Handan hafsins, í hinum svokallaða nýja heimi, leiddu sams konar tilhæfulausar hugmyndir ósegjanlegar þjáningar yfir saklaust fólk svo kynslóðum skipti. Þó að afrískir þrælar fengju að lokum frelsi í Bandaríkjunum eftir Þrælastríðið voru sett lög í mörgum ríkjum sem komu í veg fyrir að svertingjar hefðu mörg þau réttindi sem aðrir borgarar nutu. Hvers vegna? Hvítir íbúar álitu að svarti kynstofninn væri ekki nægilega gáfaður til að taka þátt í borgaralegum skyldum og stjórnsýslu.
Hversu rótgróin slík afstaða til kynþáttanna var má sjá af máli sem tengdist lögum gegn kynþáttablöndun. Þessi lög bönnuðu hjónabönd milli svartra og hvítra. Þegar dómari sakfelldi hjón sem brutu þessi lög sagði hann: „Alvaldur Guð skapaði kynþættina hvíta, svarta, gula, malajíska og rauða og setti þá á sitt hvert meginlandið, og það væri engin ástæða til slíkra hjónabanda ef menn væru ekki að trufla þetta fyrirkomulag hans.“
Það var ekki á 19. öldinni eða í einhverjum afdal sem dómarinn lét þessi orð falla heldur árið 1958 — ekki lengra en 100 kílómetra frá höfuðborg Bandaríkjanna! Það var raunar ekki fyrr en árið 1967 að hæstiréttur Bandaríkjanna ógilti öll lög gegn hjónaböndum milli kynþátta.
Slík lög, sem mismuna fólki, svo og aðskilnaður kynþátta í skólum, kirkjum og öðrum opinberum stofnunum og mismunun gagnvart atvinnu og húsnæði hafa leitt til þeirrar ólgu, mótmælaaðgerða og ofbeldis sem er orðinn sá raunveruleiki sem fólk býr við í Bandaríkjunum og víða annars staðar. Þótt litið sé fram hjá mann- og eignartjóni er ekki annað hægt en að telja þá angist, hatur og persónulega niðurlægingu og þjáningar sem þetta hefur haft í för með sér, hneisu og smánarblett á siðmenntuðu samfélagi sem svo er nefnt.
Kynþáttahrokinn hefur þannig orðið eitt mesta sundrungarafl mannlegs samfélags. Sannarlega ber okkur öllum skylda til að líta í eigin barm og spyrja: Hafna ég sérhverri kenningu um að einn kynþáttur sé öðrum æðri? Hef ég þá leitast við að losa mig við hverja þá kynþáttafordóma sem kunna að hafa búið í mér?
Það er líka viðeigandi að spyrja: Hvaða von er til þess að þeir kynþáttafordómar og -átök, sem eru svo skefjalaus nú á tímum, verði nokkurn tíma upprætt? Getur fólk með mismunandi þjóðerni, tungu og siði búið saman í friði?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Margir hvítir menn töldu svertingja vart til manna.
[Rétthafi]
Endurgert eftir bókinni DESPOTISM — A Pictorial History of Tyranny.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Útrýmingarbúðir nasista voru hörmuleg afleiðing hugmynda kynþáttahatara.
[Rétthafi]
Mynd: U.S. National Archives.