Hve langt er „of langt“?
Ungt fólk spyr . . .
Hve langt er „of langt“?
„Getið þið ekki varað fólk við hættunni á því að ganga of langt? . . . Það þarf að koma inn á alla ‚forleikina‘ því að það eru þeir sem leiða út í kynmök. Ég spyr: Hvar liggja mörkin?“
Þannig spurði stúlka í tímariti fyrir táninga. Kannski hefur þú líka velt þessari spurningu fyrir þér.
Ef þú ert kristin(n) tekur þú orðin í 1. Þessaloníkubréfi 4:3-6 alvarlega: „Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi . . . Og enginn veiti yfirgang eða ásælist bróður sinn í þeirri grein. Því að [Jehóva] er hegnari alls þvílíks.“ — Bi. 1912.
Þótt þú gerir þér ljóst að kynmök milli ógiftra, kristinna einstaklinga séu röng er þér kannski spurn hvernig Guð líti á kossa, faðmlög og gælur við einhvern af hinu kyninu.
Eðlilegur þáttur í uppvextinum?
Í fyrsta lagi er gott að hafa í huga að Biblían fordæmir ekki að væntumþykja sé tjáð með réttmætum og hreinum hætti, án kynferðislegra undirtóna. Kristnir menn til forna voru ófeimnir að tjá hver öðrum kærleika sinn. Algengt var að þeir ‚heilsuðu hver öðrum með heilögum kossi.‘ (Rómverjabréfið 16:16; 1. Korintubréf 16:20) Kristnir menn jafnvel föðmuðu og kysstu kynbræður sína. — Samanber Postulasöguna 20:37.
Í mörgum menningarsamfélögum er það enn álitið viðeigandi að sýna öðrum ástúð með því að faðma hann og kyssa. En margir unglingar nú á tímum fara hins vegar út fyrir skynsamleg velsæmismörk í því að sýna væntumþykju sína. Tveir af hverjum þrem bandarískum unglingum, sem spurðir voru, sögðust hafa tekið þátt í einhvers konar atlotum þar sem gælt var við brjóst og kynfæri. Margir voru byrjaðir á því aðeins 14 ára gamlir. Í annarri könnun kom í ljós að 49 af hundraði höfðu gengið svo langt í þessum atlotum að þeir fengu kynferðislega fullnægingu.
Sumir réttlæta slíkar tilraunir í kynferðismálum með því að þær séu einfaldlega eðlilegur þáttur í uppvextinum. Að sögn bókarinnar The Family Handbook of Adolescence eru „ástarleikir og kynferðisleg tilraunarstarfsemi algeng meðal nálega allra eðlilegra unglinga.“ Sumir mæla jafnvel með ástaratlotum. Bókin Growing Into Love eftir Kathryn Burkhart staðhæfir: „Þar eð atlot fela ekki í sér kynmök er í flestum tilvikum hægt
að prófa sig áhyggjulaust áfram með þau og þau eru dásamleg leið til að gefa kynhvötinni útrás.“En spurningin er sú hvernig Guð lítur á slíkt hátterni.
Hvað fylgir kossi?
Kynhvötin er sterk á „blómaskeiði æskunnar.“ (1. Korintubréf 7:36, NW) Þess vegna er ekki nema eðlilegt að unglingar séu forvitnir um það hvernig tilfinning það sé að kyssa eða snerta einhvern af hinu kyninu. En The Family Handbook of Adolescence bendir á: „Kynþroski kemur stundum mörgum árum á undan tilfinningaþroska.“ Margir unglingar gera sér ekki fulla grein fyrir því að koss eða atlot geta vakið upp ástríðufullar kenndir eða sterka löngun til kynmaka.
Það er því skynsamlegt að íhuga afleiðingar þess að gera eitthvað sem kveikir kynferðislegar kenndir. Hvað nú ef þú ert of ung(ur) til að gifta þig? Til hvers þá að vera að kyssa eða gera nokkuð sem myndi örva þig kynferðislega? Það eina sem þú hefur út úr því eru vonbrigði. Ástæðan er sú að þú sem ert sannkristin(n) hefur engan möguleika á að beina þessum ástríðufullu kenndum inn í sinn eðlilega lokafarveg — kynmök. Biblían sýnir greinilega að slík mök megi aðeins eiga sér stað milli hjóna. — 1. Korintubréf 6:18.
Hugsaðu líka um hinn aðilann sem þú örvar kannski kynferðislega með ástleitni þinni. Er það ekki sviksamlegt, jafnvel grimmilegt, að kyssa eða gæla við einhvern sem þú ert ekki í aðstöðu til að giftast eða hugsar ekki einu sinni alvarlega um sem mögulegan maka? (Samanber Orðskviðina 26:18, 19.) Biblían segir í varnaðartón: „Hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.“ — Orðskviðirnir 11:17.
Það ætti ekki að vera neitt leyndarmál fyrir biblíunemanda að ástleitin snerting eða koss getur vakið upp sterka kynferðislega löngun. Biblían segir frá því hvernig vændiskona táldregur ungan mann. Hún segir: „Hún þrífur í hann og kyssir hann.“ (Orðskviðirnir 7:13) Slíkur koss eða snerting getur hleypt af stað mjög sterkum, líkamlegum viðbrögðum. Eftir því sem atlotin ganga lengra verða pilturinn og stúlkan æstari. Í hreinskilni sagt er líkaminn að búa sig undir kynmök.
Ef um hjón er að ræða geta þau svalað ástríðum sínum á unaðslegan og heiðvirðan hátt. En ef ógift par gefur ástríðum sínum lausan tauminn í ástarleik eru vandamál örugglega á næsta leiti. Rithöfundurinn Nancy Van Pelt komst að raun um í könnun að margir unglingar, sem leiddust út í ástarleik, viðurkenndu hreinskilnislega að þeir hefðu „misst stjórn á sér.“ Ung stúlka, sem lét þvinga sig til að ganga lengra en hún hafði gert nokkurn tíma fyrr, er dæmigerð. Þótt hún hafi ekki haft kynmök leyfði hún piltinum að snerta kynfæri sín. Hún segir: „Mér líður hræðilega núna.“ Var það sem hún leyfði piltinum að gera raunverulega rangt?
Hve langt er „of langt“ gengið?
Sumir unglingar halda að svo framarlega sem þeir hafi ekki kynmök sé ekki of langt gengið og þeir séu í rauninni ekki að gera neitt rangt. Biblían er á öðru máli. Í Galatabréfinu 5:19-21 sagði Páll postuli: „Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, . . . þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.“
Hvað er frillulífi? Frumgríska orðið, sem þýtt er frillulífi, er porneiʹa. Það lýsir notkun kynfæranna við kynlífsathafnir utan hjónabands. Stúlka, sem tímaritið Seventeen sagði frá, leyfði vini sínum að fá sig til að eiga við sig munnmök. „Mér finnst ég vera alger auli,“ sagði hún, „vegna þess að allar vinkonur mínar segjast gera þetta með kærustunum sínum, og að hann hætti að vera með mér ef ég geri þetta ekki.“ Rannsóknir sýna að ógnvekjandi fjöldi unglinga hefur tekið þátt í þessari tegund siðleysis. Engu að síður eru slíkar athafnir porneiʹa og hafa í för með sér vanþóknun Guðs.
Páll postuli tengdi einnig frillulífi við ‚óhreinleika.‘ Frumgríska orðið, akaþarsiʹa, nær yfir hvers kyns óhreinleika, jafnt í orðum sem verkum. Vissulega væri það óhreinleiki að láta hendur sínar laumast inn undir föt hins aðilans, færa hann úr fötum eða þukla vissa líkamshluta, svo sem brjóstin. Biblían setur það að gæla við brjóstin í samband við þann unað sem er einungis ætlaður hjónum. — Orðskviðirnir 5:18, 19; samanber Hósea 2:2.
Sumir unglingar bjóða þessum stöðlum Guðs engu að síður blygðunarlaust birginn. Þeir ganga of langt af ásettu ráði eða sækjast áfergjulega eftir sem flestum félögum til að stunda kynferðislegan óhreinleika sinn með. Þeir eru þannig sekir um það sem Páll postuli kallaði „saurlífi.“
Ýmis heimildarrit sýna að frumgríska orðið, sem þýtt er „saurlífi“ eða „taumleysi“ (aselʹgeia), merkir ‚svívirðileg verk, óhóf, ósvífni, taumlausa ástríðu og svívirðu.‘ Unglingar, sem stunda saurlífi eða taumleysi, eru eins og heiðingjarnir sem Páll talaði um. Vegna „síns harða hjarta“ höfðu þessir heiðingjar ‚misst alla siðferðisvitund og ofurselt sig lostalífi svo að þeir frömdu alls konar siðleysi af græðgi.‘ (Efesusbréfið 4:17-19) Þú vilt vafalaust ekki fá yfir þig slíka fordæmingu!
Gerðu þér því ljóst að það er hægt að ganga „of langt“ í augum Jehóva án þess að hafa kynmök. Ef þú ert of ung(ur) til að ganga í hjónaband ættu ástleitnar snertingar og kossar að vera á „bannlista“ hjá þér. Og þeir sem eru í tilhugalífinu verða að gæta sín að ganga ekki svo langt í að tjá væntumþykju sína að það verði óhreinleiki. Að vísu er það alls ekki auðvelt að halda sér við staðla Guðs, en hann segir í Jesaja 48:17: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ — Sjá einnig Galatabréfið 5:16.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Ef þið eruð ógift geta athafnir, sem vekja upp ástríðufullar tilfinningar, leitt til vonbrigða og þess sem verra er.