Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar athafnir verða að fíkn

Þegar athafnir verða að fíkn

Þegar athafnir verða að fíkn

EFNAFÍKN og athafnafíkn eru eins og tvær járnbrautarlestir sem stefna í sömu átt eftir sama spori. a Áfangastaður eða tilgangur beggja er sá sami: að breyta hugarástandi og fela sársaukafullar tilfinningar. Við skulum skoða nokkur dæmi um athafnafíkn.

Vinnufíkn

Vinnufíkn hefur verið kölluð hin virðingarverða fíkn. Þegar allt kemur til alls eru vinnufíklar fyrirtaksstarfsmenn. Samt finna þeir kannski ekki til fullnægjukenndar innra með sér. Vinnan getur annaðhvort orðið leið til að draga athyglina frá sársaukafullum tilfinningum eða áráttukennd leit að viðurkenningu.

Ís verndar skautamanninn fyrir því að drukkna í vatni; athafnasemi verndar vinnufíkilinn fyrir því að drukkna í tilfinningum. Líkt og skautamaðurinn getur vinnufíkillinn haldið áhrifamikla sýningu. En það er allt á yfirborðinu. Hvað leynist oft undir niðri? Linda T. Stanford, sem er ráðgjafi í geðheilbrigðismálum, skrifar: „Þegar vinnufíkillinn er ekki á kafi í vinnu geta tilfinningar sem hann hræðist, svo sem depurð eða þunglyndi, kvíði, reiði, örvænting og tómleiki, kaffært hann.

Rótgróin árátta margra vinnufíkla bendir til að hún sé langtímaeinkenni og eigi sér hugsanlega rætur í uppeldinu. Þannig var það með konu sem við skulum kalla Maríu. Frá því að hún var sex ára reyndi hún að ávinna sér ást föður síns, sem var drykkjusjúklingur, með matargerð og heimilisstörfum. „Þetta varð að áráttu,“ segir hún. „Mér fannst að ef ég gerði meira eða ef ég gerði betur myndi hann elska mig. Hið eina, sem ég hafði upp úr því, var gagnrýni.“

Sem fullorðin manneskja er María enn að berjast við þennan ranga hugsunarhátt. „Mér finnst ég enn einskis virði innst inni,“ viðurkennir hún. „Mér finnst ég enn þurfa að ávinna mér kærleika, að ég sé einskis virði nema ég sé að afkasta einhverju. Þegar fólk kemur saman útkeyri ég mig á því að elda og þjóna til borðs eins og ég sé að vinna mér inn rétt til að vera þar.“

Þeir sem eru eins og María þurfa að hafa heilbrigð viðhorf til vinnu. Biblían talar lofsamlega um það að menn leggi hart að sér. (Orðskviðirnir 6:6-8; 2. Þessaloníkubréf 3:10, 12) Jehóva Guð er sjálfur afkastamikill. (Sálmur 104:24; Jóhannes 5:17) En hann er aldrei haldinn áráttu. Jehóva var ánægður með sköpunarverk sín, ekki aðeins þegar þeim var lokið heldur jafnvel meðan á sköpunarferlinu stóð. — 1. Mósebók 1:4, 12, 18, 21, 25, 31; samanber Prédikarann 5:18.

Verkstjóri Jehóva Guðs, sonur hans Jesús, lét einnig í ljós að hann hefði ánægju af verki sínu. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Jesús hét því að það yrði líka hressandi fyrir fylgjendur hans að vinna með honum. Saman unnu þeir að áríðandi verkefni sem gekk fyrir öllu öðru. En það kom ekki í veg fyrir að þeir hvíldust. — Matteus 11:28-30; Markús 6:31; samanber Prédikarann 4:6.

Kannski gaf annað foreldra þinna í skyn að verðleikar þínir réðust af hæfni þinni og afköstum eða að þér yrði neitað um ást uns þú hefðir unnið til hennar. Þér léttir áreiðanlega við að vita að þetta er ekki afstaða Jehóva í uppeldismálum. Orð hans ráðleggur: „Feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus [„finni ekki til minnimáttarkenndar,“ The Amplified Bible].“ (Kólossubréfið 3:21) Jehóva neitar okkur ekki um kærleika þangað til við höfum unnið til hans. Hann bíður ekki með að sýna kærleika sinn uns við byrjum að elska hann og þjóna honum. Biblían segir okkur að ‚hann hafi elskað okkur að fyrra bragði,‘ já, „meðan vér enn vorum í syndum vorum“ tók Guð frumkvæðið í því að elska okkur. (1. Jóhannesarbréf 4:19; Rómverjabréfið 5:6-8) Enn fremur gagnrýnir Jehóva ekki einlæga viðleitni okkar til að gera vilja hans. Þess vegna verður þjónusta okkar við hann ósvikin tjáning kærleika okkar til hans.

Sjónvarpsfíkn

Sumir kalla óhóflegt sjónvarpsgláp sjónvarpsfíkn. „Reynslan af sjónvarpi,“ skrifar Marie Winn í bókinni The Plug-In Drug, „er ekki ósvipuð og af fíkniefnum eða áfengi að því leyti að áhorfandinn getur skrúfað fyrir heim raunveruleikans og komist í ánægjulegt og óvirkt hugarástand.“

Auðvitað er ekkert rangt við það að dreifa huganum frá ábyrgð lífsins — um stund. En sumir sjónvarpsáhorfendur komast aldrei aftur til veruleikans. Eiginmaður, sem gat skyndilega ekki horft á sjónvarpið þegar tækið bilaði, viðurkenndi: „Mér finnst hugurinn hafa verið algerlega úr sambandi öll þessi ár. Ég var límdur við kassann og gat einhvern veginn ekki losað mig.“ Ungur piltur, Kai, lýsir svipaðri áráttu: „Mig langar ekki til að horfa eins mikið á sjónvarp og ég geri en ég ræð ekki við það. Sjónvarpið fær mig til þess.“

Óhóflegt sjónvarpsgláp stendur í vegi fyrir íhugunarsemi. Biblían mælir með íhugunarsemi sem kallar á vissa einveru. (Jósúabók 1:8; Sálmur 1:2, 3; 145:5; Matteus 14:23; Lúkas 4:42; 5:16; 1. Tímóteusarbréf 4:15) Slík einvera hræðir marga. Þeir verða taugaóstyrkir þegar þögn umlykur þá. Þeir eru hræddir við að vera einir með hugsunum sínum. Þeir leita æðislega að einhverju til að fylla í tómarúmið. Sjónvarpið verður eins og fljótvirkur fíkniefnaskammtur. En jafnvel þegar best lætur er sjónvarpið aðeins varaskeifa raunveruleikans.

Spilafíkn

Fjárhættuspil er sprottið af ágirnd. En spilafíkn snýst oft um meira en peninga. b „Ég þarfnaðist spennunnar til að forðast veruleikann,“ segir Nigel. „Það var alveg eins og fíkniefni.“ Fyrir spilafíkilinn er spilið sjálft oft umbun í sjálfu sér. Afleiðingarnar skipta ekki máli. Nigel tapaði vinum sínum. Aðrir tapa fjölskyldunni. Margir tapa heilsunni. Og nálega allir tapa peningunum sínum. En fáir hætta af því að málið snýst ekki um það að vinna eða tapa. Það er spilið sjálft — athöfnin — sem breytir hugarástandinu og veldur vímuáhrifum.

Fjárhættuspil getur beint athyglinni frá vandamálum lífsins en það leysir þau ekki. Alvarlega slasaður maður þarf meira en aðeins verkjalyf. Það þarf að gera að sárum hans. Ef einhver sár hafa leitt einstakling út í fjárhættuspil ætti hann að koma auga á þau og gera að þeim. Það kostar hugrekki en það borgar sig til langs tíma litið.

Slíttu þig lausan

Sá sem vill slíta sig lausan frá einhverjum fíkniávana verður að horfast í augu við hina innri kvöl sem kynti undir fíkniávananum. Fíkillinn verður að reyna að ráðast að rótum vandans. Það er áskorun. „Maður hættir ekki bara rétt si svona eftir 30 ára fíkniefna- og áfengisneyslu,“ segir fyrrverandi fíkill, „sér í lagi ef fíkniávaninn var felubúningur djúpstæðs vandamáls.“

En það er þess virði að slíta sig lausan úr fíkniánauðinni. María, vinnufíkillinn sem minnst var á fyrr í greininni, lýsir því vel. „Í mörg ár,“ segir hún, „forðaðist ég hluti sem ég þorði ekki að horfast í augu við. Núna, eftir að ég horfðist í augu við þá, er furðulegt hve smávægilegir þeir eru orðnir.“

Þetta er reynsla margra sem hafa unnið bug á fíkniávana. Í stað þess að vera „þrælar skaðlegra venja“ hafa þeir beðið um „ofurmagn kraftarins“ til að horfast í augu við þá áskorun að sigrast á fíkniávananum. — 2. Pétursbréf 2:19, Today’s English Version; 2. Korintubréf 4:7.

[Neðanmáls]

a Mikið er um það deilt hvað megi kalla fíkniávana og hvað ekki. Sumir vilja heldur kalla athafnafíkn „áráttu.“ Í þessum greinum höfum við fjallað um hlutverk fíkniávana sem tilfinningalegrar „undankomuleiðar.“ Þar eð hægt er að nota athafnir í sama tilgangi köllum við þær „fíkn“ hér í greininni.

b Ólíkt vinnu og sjónvarpi forðast kristnir menn fjárhættuspil algerlega í öllum sínum myndum. (Samanber Jesaja 65:11.) Nánari upplýsingar er að finna í Vaknið! (á erlendum málum) þann 8. júní 1992, bls. 3-11.

[Innskot á blaðsíðu 9]

‚Nota má orðið fíkniávani um alls konar áráttuhegðun.‘ — Dr. J. Patrick Gannon.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Vinnufíklinum finnst vinnan mikilvægari en fjölskyldan.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Fjárhættuspil getur breytt hugarástandi og valdið vímuáhrifum eins og fíkniefni.