Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er sjálfsmorð lausnin?

Er sjálfsmorð lausnin?

Ungt fólk spyr . . .

Er sjálfsmorð lausnin?

„Ég er þreyttur á að vakna á hverjum morgni. Ég er ráðvilltur. Ég er reiður. Mig stingur í hjartað. . . . Þess vegna er ég að hugsa um að fara. . . . Mig langar ekki til að fara en mér finnst ég verða að gera það. . . . Þegar ég horfi fram í tímann sé ég bara sársauka og sorta.“ — Úr sjálfsmorðskveðju Péturs, 21 árs. a

SÉRFRÆÐINGAR fullyrða að allt að tvær milljónir ungmenna í Bandaríkjunum hafi reynt að stytta sér aldur. Því miður tekst það hjá um það bil 5000 ungmennum á hverju ári. En sjálfsmorð meðal ungs fólks eru alls ekki einskorðuð við Bandaríkin. Á Indlandi styttu um 30.000 ungmenni sér aldur árið 1990. Í löndum svo sem Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Ísrael, Kanada, Nýja-Sjálandi, Spáni, Sviss og Taílandi hefur sjálfsmorðum meðal ungs fólks fjölgað gríðarlega.

Hvað gerist ef einhver finnur til yfirþyrmandi dapurleika — eða finnst hann sitja fastur í tilfinningalegum sársauka og sér enga undankomuleið? Þá getur sjálfsmorð virst freistandi, en í rauninni er það ekkert annað en sorgleg sóun. Það skilur ekkert eftir nema óhamingju og sársauka hjá vinum og vandamönnum. Þótt framtíðin virðist svört og erfiðleikarnir magnaðir er lausnin ekki sú að fyrirfara sér.

Hvers vegna sumum líður þannig

Hinn réttláti Job þekkti örvæntingu af eigin raun. Eftir að hafa misst börn sín, eignir og góða heilsu sagði hann: „Ég kýs heldur að kafna, heldur að deyja en að vera slík beinagrind.“ (Jobsbók 7:15) Sumu ungu fólki nú á tímum hefur liðið eins. Höfundur bókar orðar það þannig: „Streita . . . leiðir til sársauka (tilfinningalegs sársauka og ótta) sem leiðir til varnar (tilrauna til að flýja sársaukann).“ Það er slæmur kostur að stytta sér aldur til að flýja sársauka sem virðist óbærilegur.

Hvað veldur slíkum sársauka? Hann getur sprottið af atburði svo sem hörkurifrildi við foreldrana, kærasta eða kærustu. Bjarni, 16 ára, fylltist örvæntingu eftir að það slitnaði upp úr með honum og kærustu hans. En hann talaði aldrei um tilfinningar sínar. Hann batt einfaldlega enda á líf sitt með því að hengja sig.

Steinunn, 19 ára, sökk niður í þunglyndi þegar foreldrar hennar uppgötvuðu að hún átti í siðlausu sambandi við kærastann sinn. „Ég vissi að mig langaði ekki til að halda áfram að lifa eins og ég gerði,“ segir hún, „þannig að ég kom bara heim eitt kvöldið og byrjaði að háma í mig aspírín. Næsta morgun kastaði ég upp blóði. Það var ekki líf mitt heldur lífsstefna sem ég vildi binda enda á.“

Skólinn getur líka haft afar mikið álag í för með sér. Foreldrar Einars (sem báðir voru læknar) þrýstu á hann að verða læknir. Svefnleysi tók að hrjá hann og hann fór að forðast umgengni við annað fólk. Þegar Einar gat ekki risið undir væntingum foreldra sinna í námi tók hann banvænan skammt af svefntöflum. Þetta minnir okkur á Orðskviðina 15:13 í Biblíunni: „Sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.“

Fjölskylduerfiðleikar

Umrót í fjölskyldulífinu — svo sem skilnaður eða samvistarslit foreldra, ástvinamissir eða búferlaflutningur — er annað atriði sem stuðlar stundum að sjálfsmorðum unglinga. Bjarni, sem minnst var á, hafði til dæmis misst tvo nána vini og einn ættingja í bílslysi. Síðan lenti fjölskylda hans í fjárhagskröggum. Bjarni bugaðist hreinlega. Honum hlýtur að hafa liðið eins og sálmaritaranum sem hrópaði: „Sál mín er mett orðin af böli . . . Þær . . . lykja um mig allar saman.“ — Sálmur 88:4, 18.

Ógnvekjandi fjöldi unglinga verður fyrir annars konar álagi: líkamlegum og tilfinningalegum misþyrmingum og kynferðislegri misnotkun. Í Keralaríki á Indlandi er einhver hæsta sjálfsmorðstíðni unglinga þar í landi. Fjöldi unglingsstúlkna þar hafa reynt að fyrirfara sér vegna þess að feður þeirra misnotuðu þær kynferðislega. Misnotkun barna af ýmsu tagi hefur vaxið eins og farsótt um heim allan, og álagið getur verið gríðarlegt fyrir saklaus fórnarlömbin.

Aðrar orsakir

En sjálfsmorðshugleiðingar eru ekki alltaf sprottnar af ytri skilyrðum. Rannsóknarskýrsla segir um ógifta táninga: „Piltum og stúlkum, sem tóku þátt í kynlífi og neyttu áfengis, var hættara við sjálfsmorði en þeim sem gerðu það ekki.“ Lauslæti Steinunnar olli þungun — sem hún batt enda á með fóstureyðingu. (Samanber 1. Korintubréf 6:18.) Þá sótti sektarkennd á hana og hana langaði til að deyja. Bjarni hafði verið að fikta við áfengi frá því að hann var 14 ára og fór nokkuð reglulega á fyllirí. Já, þegar áfengi er misnotað getur það ‚bitið eins og naðra.‘ — Orðskviðirnir 23:32.

Sjálfsmorðshugleiðingar geta jafnvel sprottið af ‚miklum áhyggjum‘ sjálfra okkar. (Sálmur 94:19) Læknar segja að stundum séu ýmsar líffræðilegar orsakir fyrir þunglyndishugsun. Pétur, sem minnst var á í upphafi, hafði greinst með efnamisvægi í heilanum áður en hann svipti sig lífi. Depurð eða þunglyndi getur vaxið ef ekkert er að gert og sjálfsmorð farið að líta út eins og valmöguleiki.

Leitaðu hjálpar

Það ætti þó ekki að líta á sjálfsmorð sem valmöguleika. Hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki höfum við öll það sem geðlæknarnir Alan L. Berman og David A. Jobes kalla ‚innri og ytri styrk til að ráða við streitu og árekstra.‘ Fjölskylda og vinir gætu verið hluti af þessum styrk. Orðskviðirnir 12:25 segja: „Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.“ Já, vingjarnlegt orð frá skilningsríkum einstaklingi getur skipt öllu máli!

Ef einhver er niðurdreginn eða áhyggjufullur er þess vegna ekki ráðlegt fyrir hann að þjást einn. (Orðskviðirnir 18:1, New World Translation) Hinn þjáði getur úthellt hjarta sínu fyrir einhverjum sem hann treystir. Að tala við einhvern hjálpar til við að draga úr tilfinningahitanum og sjá vandamálin í nýju ljósi. Ef einhver er harmi lostinn yfir því að hafa misst vin eða ástvin í dauðann ætti hann að ræða það við trúnaðarvin. Það verkar eins og hughreysting að viðurkenna sársaukann af slíkum missi og finna til hryggðar. (Prédikarinn 7:1-3) Það gæti verið gott fyrir einstaklinginn að lofa að hafa samband við trúnaðarvin ef sjálfsmorðshvötin skyldi koma upp aftur.

Að vísu getur verið erfitt að treysta öðrum. En er það ekki áhættunnar virði þegar sjálft lífið er í húfi? Líklegt er að hvötin til að vinna sjálfum sér tjón líði hjá ef rætt er út um málin. ‚Við hvern?‘ spyrja sumir. Hvernig væri að reyna að ‚gefa foreldrum þínum hjarta þitt‘ ef þeir óttast Guð. (Orðskviðirnir 23:26) Þeir eru kannski skilningsríkari en margir halda og geta ef til vill hjálpað. Ef það lítur út fyrir að meiri aðstoðar sé þörf — svo sem læknisrannsóknar — geta þeir komið henni í kring.

Einnig er hægt að sækja hjálp og styrk til meðlima kristna safnaðarins. Hinir andlegu öldungar safnaðarins geta stutt og hjálpað þeim sem eru í nauðum. (Jesaja 32:1, 2; Jakobsbréfið 5:14, 15) Eftir að Steinunn reyndi að stytta sér aldur fékk hún hjálp boðbera í fullu starfi (brautryðjanda). Steinunn segir: „Hún stóð með mér gegnum þykkt og þunnt. Ef hennar hefði ekki notið við hefði ég bókstaflega gengið af vitinu.“

Að glíma við vandann

Þá er einnig hægt að nota sér innri styrk sinn. Stafar sektarkenndin til dæmis af einhverjum röngum verknaði? (Samanber Sálm 31:11.) Í stað þess að láta slíkar tilfinningar magnast upp ætti maður að leiðrétta það sem þarf. (Jesaja 1:18; samanber 2. Korintubréf 7:11.) Það væri jákvætt skref að viðurkenna verknaðinn fyrir foreldrum sínum. Að vísu gætu foreldrar manns komist í uppnám í fyrstu. Sennilega einbeita þeir sér þó að því að hjálpa. Við erum líka fullvissuð um að Jehóva ‚fyrirgefi ríkulega‘ þeim sem iðrast einlæglega. (Jesaja 55:7) Lausnarfórn Jesú breiðir yfir syndir iðrunarfullra manna. — Rómverjabréfið 3:23, 24.

Kristnir menn hafa líka trú, þekkingu á Ritningunni og samband sitt við Jehóva Guð sér til stuðnings. Við ýmis tækifæri var sálmaritarinn Davíð svo aðþrengdur að hann sagði: „Óvinurinn . . . slær líf mitt til jarðar.“ Hann lét ekki örvæntingu ná tökum á sér. Hann skrifaði: „Ég hrópa hátt til [Jehóva], hástöfum grátbæni ég [Jehóva].“ „Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ — Sálmur 142:2; 143:3-5.

Ef löngunin til að vinna sjálfum sér tjón verður áleitin ætti maður að ákalla Jehóva í bæn. Hann skilur sársaukann og vill að hinn þjáði lifi! (Sálmur 56:9) Hann getur gefið „ofurmagn kraftarins“ til að hjálpa manni að glíma við sársaukann. (2. Korintubréf 4:7) Maður ætti líka að hugsa um sársaukann sem það ylli ættingjum, vinum og Jehóva ef maður stytti sér aldur. Slíkar hugleiðingar geta hæglega hjálpað einstaklingi að halda lífi.

Þótt sumum geti virst sem sársaukinn eigi aldrei eftir að hverfa geta þeir treyst því að margir aðrir hafa gengið gegnum hið sama og lifað það af. Þeir geta sagt af eigin reynslu að aðstæður bæði geta breyst og gera það. Aðrir geta hjálpað manni að þrauka þau tímabil þegar sársaukinn sækir á. Þeir sem eru niðurdregnir eða þunglyndir ættu að leita þeirrar hjálpar sem þeir þarfnast og verðskulda — og halda áfram að lifa!

[Neðanmáls]

a Nöfnunum hefur verið breytt.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Það hjálpar að ræða út um sársaukafullar tilfinningar við einhvern.