Hann ‚mundi eftir skapara sínum á unglingsárum sínum‘
Hann ‚mundi eftir skapara sínum á unglingsárum sínum‘
“ADRIAN krafðist alltaf drjúgrar athygli okkar foreldranna,“ segir faðir hans. „Fjögurra ára gamall keyrði hann bílinn okkar á tré með þeim afleiðingum að allir urðu seinir á safnaðarsamkomu. Fimm ára gamall safnaði hann saman froskum í tugatali og kom með þá inn í húsið. Það tók okkur marga daga að losna við þá. Okkur leið eins og egypskri fjölskyldu í froskaplágunni sem Biblían segir frá.
Ellefu ára gamall fann hann þrjá þvottabjarnarunga við þjóðveginn, setti þá í skólatöskuna sína og tók þá með sér í skólann. Þegar kennarinn kom inn í stofuna var allt í uppnámi og börnin voru í einni þvögu í kringum skólatösku Adrians og töluðu hvert í kapp við annað. Þegar kennarinn sá þvottabirnina keyrði hann Adrian og gæludýrin hans á heimili fyrir munaðarlaus dýr. Adrian var gráti næst þegar hann hugsaði til þess að þurfa að sjá af ‚börnunum‘ sínum, en eftir að hafa skoðað heimilið og séð yrðlinga og annað ungviði í góðu yfirlæti skildi hann þvottabirnina eftir þar.“
Faðir hans heldur áfram: „Adrian var ekki óþekkur. Hann var bara einstaklega framtakssamur. Hann hafði auðugt ímyndunarafl sem gerði lífið skemmtilegt fyrir hann.“
Móðir Adrians dregur fram aðra hlið á honum — hann var einkar kærleiksríkur og heimakær drengur sem lét sér annt um fjölskylduna. Hún segir svo frá: „Skólafélagar hans lýstu honum þannig að hann gæti ekki gert öðrum mein. Ein bekkjarsystir hans var tornæm þótt ekki væri hún þroskaheft. Hún fór til og frá skóla í sama skólavagni og Adrian. Önnur börn hentu gaman að henni en móðir hennar sagði okkur að Adrian hefði alltaf sýnt henni virðingu og verið sérstaklega góðviljaður. Hann var alvörugefinn — mjög íhugull drengur með sterkar tilfinningar sem hann lét ekki oft í ljós. En þegar hann gerði það kom hann okkur á óvart með athugasemdum sem báru vitni um djúpt innsæi.“
Hún lýkur mati sínu á honum þannig: „Veikindi hans þroskuðu hann fljótt og gerðu hann enn andlega sinnaðri en áður.“
Hann var ósveigjanlegur — blóðgjöf kom ekki til greina!
Veikindi hans? Já. Þau hófust í marsmánuði árið 1993 þegar hann var 14 ára. Hraðvaxta æxli fannst í maga hans. Læknarnir vildu taka vefjarsýni en óttuðust að það gæti haft verulegar blæðingar í för með sér og sögðu að blóðgjöf gæti reynst nauðsynleg. Adrian sagði nei. Hann var ósveigjanlegur. Hann sagði jafnvel með tárin í augunum: „Ég gæti aldrei haldið sjálfsvirðingu minni ef mér væri gefið blóð.“ Hann og fjölskylda hans voru vottar Jehóva sem hafna blóðgjöfum á þeim biblíulega grundvelli sem fram kemur í 3. Mósebók 17:10-12 og Postulasögunni 15:28, 29.
Meðan Adrian beið þess á Dr. Charles A. Janeway-barnaspítalanum á Nýfundnalandi að tekið væri vefjarsýni — sem átti að gera án blóðgjafar — bað Lawrence Jardine krabbameinslæknir hann að segja skoðun sína á blóði.
„Sko,“ sagði Adrian, „það skipti engu máli hvort foreldrar mínir væru vottar Jehóva eða ekki. Ég myndi samt ekki þiggja blóð.“
„Gerirðu þér grein fyrir því að þú gætir dáið ef þú þiggur ekki blóðgjöf?“ spurði Jardine.
„Já.“
„Og ertu tilbúinn til þess?“
„Já, ef það kostar það.“
Móðir hans, sem var viðstödd, spurði: „Af hverju tekurðu þessa afstöðu?“
Adrian svaraði: „Mamma, það væru slæm skipti. Að óhlýðnast Guði og lengja lífið um fáein ár núna og fá svo ekki upprisu og eilíft líf í paradís á jörð vegna óhlýðni sinnar — það er nú ekki sérlega gáfulegt!“ — Sálmur 37:10, 11; Orðskviðirnir 2:21, 22.
Vefjarsýnið var tekið þann 18. mars. Í ljós kom að Adrian var með stórt eitlaæxli. Þá var tekið mergsýni sem staðfesti það sem óttast var að hann væri með hvítblæði. Jardine læknir útskýrði nú að mjög kröftug lyfjameðferð samfara blóðgjöfum væri eina lífsvon Adrians. En Adrian neitaði eftir sem áður að þiggja blóðgjöf. Lyfjameðferðin var hafin án blóðgjafa.
En núna, eftir að þessi erfiða meðferð var hafin, óttuðust foreldrarnir að barnarverndarnefnd kynni að skerast í leikinn og fá forræði Adrians dæmt af þeim þannig að hægt væri að þvinga fram heimild til blóðgjafar. Samkvæmt kanadískum lögum getur sá sem orðinn er fullra 16 ára tekið sínar eigin ákvarðanir um læknismeðferð. Eina leiðin til að barn undir 16 ára aldri hafi þann rétt er sú að það teljist vera þroskað ungmenni.
Fyrir hæstarétti Nýfundnalands
Sunnudagsmorguninn 18. júlí höfðaði settur formaður barnaverndarnefndar mál til að fá forræði Adrians. Í flýti var fenginn fær og mjög virtur lögmaður, David C. Day frá St. John’s á Nýfundnalandi, til að tala máli Adrians. Síðdegis þennan sama dag, kl. 15:30, kom hæstiréttur Nýfundnalands saman undir forsæti Roberts Wells hæstaréttardómara.
Jardine læknir lét það skýrt í ljós við dómarann þetta síðdegi að hann áliti Adrian þroskað ungmenni með djúpa sannfæringu sem meinaði honum að þiggja blóð, og að hann hefði sem læknir heitið Adrian því að hann myndi ekki gefa honum blóð samfara nokkurri meðferð. Wells dómari spurði lækninn hvort hann myndi gefa drengnum blóð ef til þess kæmi að dómstóllinn úrskurðaði svo. Jardine svaraði: „Nei, ég myndi ekki gera það sjálfur.“ Hann lét þess getið að Adrian fyndist biblíulegri von sinni um eilíft líf stefnt í voða. Einlægur vitnisburður þessa frábæra læknis kom bæði á óvart og kom
foreldrum Adrians til að vökna um augu.„Ég bið ykkur að virða mig og óskir mínar“
Þegar rétturinn kom saman mánudaginn 19. júlí lagði David Day fram skriflega, undirritaða yfirlýsingu Adrians, sem var of veikur til að koma sjálfur fyrir réttinn, þar sem hann lýsti óskum sínum um meðferð við krabbameini sínu án blóðs eða blóðafurða. Adrian sagði meðal annars:
„Maður hugsar heilmikið þegar maður er veikur, og ef maður er með krabbamein veit maður að maður getur dáið og hugsar um það. . . . Ég samþykki ekki blóðgjöf og leyfi hana ekki, alls ekki. Ég veit að ég get dáið ef mér er ekki gefið blóð. En ég hef ákveðið þetta. Enginn hefur talið mig á að taka þessa afstöðu. Ég ber mikið traust til Jardines læknis. Ég trúi því að hann standi við orð sín. Hann segist ætla beita kröftugri meðferð án þess að gefa mér nokkurn tíma blóð. Hann sagði mér hvaða áhætta fylgdi því. Ég skil það. Ég veit að þetta getur farið á versta veg. . . . Eins og ég lít á málið myndi mér finnast það vera eins og nauðgun ef mér væri gefið nokkurt blóð. Ég myndi fá óbeit á líkama mínum ef það gerðist. Ég get ekki lifað við það. Ég vil enga læknismeðferð ef blóð verður notað, ekki einu sinni ef það er aðeins möguleiki. Ég mun sporna gegn blóðgjöf.“ Yfirlýsingu Adrians lauk með þessari bón: „Ég bið ykkur að virða mig og óskir mínar.“
Adrian var ófær um að yfirgefa spítalann meðan réttarhöldin fóru fram og Wells dómari var svo vinsamlegur að heimsækja hann þangað. Day lögmaður var viðstaddur og þegar hann greindi frá viðtali dómarans og Adrians nefndi hann að Adrian hefði talað með þeim hætti að það hefði ekki verið annað hægt en að hlusta. Það sem hann sagði við dómarann var efnislega þetta eitt: „Ég veit að ég er fárveikur og ég veit að ég gæti dáið. Sumir hér á spítalanum segja að blóð geti hjálpað mér. Ég trúi því ekki eftir allt sem ég hef lesið um hætturnar af blóðgjöfum. En hvort sem blóð kemur að gagni eða ekki er trú mín á móti því. Virtu trú mína, þá ertu að virða mig. Ef þú virðir ekki trú mína mun mér finnast ég hafa verið svívirtur. Trúin er hér um bil það eina sem ég á og núna er hún það langbesta sem ég hef til að berjast gegn sjúkdómnum.“
David Day hafði sitthvað að segja frá eigin brjósti um Adrian: „Hann var skjólstæðingur sem var fær um að takast þolinmóður, æðrulaus og hugrakkur á við sjúkdóm sinn. Það var einbeitni í augnaráði hans, traust í rödd hans, hugprýði í fasi hans. En fyrst og fremst sagði rödd hans og fas mér að hann hefði varanlega trú. Höfuðeinkenni hans var trú. Vægðarlaus sjúkdómur útheimti að hann brúaði bilið milli æskudraumanna og veruleika fullorðinsáranna. Trúin hjálpaði honum til þess. . . . Hann var fullkomlega einlægur og, að mér virðist, sannsögull. . . . Mér var ljós sá möguleiki að foreldrar hans hefðu þvingað andstöðu sinni gegn blóði til læknismeðferðar upp á hann. . . . Ég sannfærðist um að hann væri að láta í ljós sjálfstæða skoðun sína er hann óskaði eftir læknismeðferð án blóðgjafar.“
Við annað tækifæri lét David Day þau orð falla að trú Adrians væri honum „kærari en lífið sjálft“ og bætti svo við: „Þessi staðfasti ungi piltur, sem stendur frammi fyrir slíkum vandamálum, vekur þá tilfinningu með mér að allir erfiðleikar lífs míns séu ekkert. Mynd hans verður greypt í huga mér að eilífu. Hann er þroskað ungmenni sem býr yfir gífurlegu hugrekki, innsæi og gáfum.“
Úrskurðurinn — Adrian er þroskað ungmenni
Mánudaginn 19. júlí lauk vitnaleiðslum og Wells dómari felldi úrskurð sinn sem var síðar birtur í Human Rights Law Journal þann 30. september 1993. Hér fylgir úrdráttur:
„Af eftirfarandi ástæðum er kröfu formanns barnaverndarnefndar vísað frá; barnið er ekki
verndarþurfi; ekki hefur verið sýnt fram á að gjöf eða innspýting blóðs eða blóðafurða sé nauðsynleg, og við hinar sérstöku aðstæður þessa tilfellis gæti hún reynst skaðleg.Nema því aðeins að breyttar aðstæður útheimti nýjan úrskurð er notkun blóðs eða blóðafurða við meðferð hans bönnuð: og drengurinn er lýstur þroskað ungmenni þannig að virða ber ósk hans um að fá læknismeðferð án blóðs eða blóðafurða. . . .
Enginn vafi leikur á að þessi ‚ungi einstaklingur‘ er með afbrigðum hugrakkur. Ég álít að hann njóti stuðnings ástríkrar og umhyggjusamrar fjölskyldu og ég tel að hann horfist í augu við sjúkóm sinn með miklu hugrekki. Trúarsannfæring hans segir honum meðal annars að það sé rangt af honum að taka við blóðafurðum inn í líkama sinn, hver sem tilgangurinn með því er . . . Ég hafði tækifæri til að lesa yfirlýsingu A. í gær og ég hef haft tækifæri til að heyra vitnisburð móður hans og hef einnig haft tækifæri til að tala við A. sjálfan.
Ég er sannfærður um að hann trúi af öllu hjarta að það væri rangt af honum að þiggja blóð og að væri hann þvingaður til að þiggja blóð við þær aðstæður, sem hér um ræðir, myndi hann skynja það sem slíka árás á líkama sinn, sem sem skerðingu á friðhelgi einkalífs síns og sem árás á alla persónu sína, að það myndi veikja verulega styrk hans og hæfni til að takast á við þá miklu þrekraun sem hann þarf að ganga í gegnum, hver sem útkoman annars verður.
Ég fellst á að læknirinn hafi tekið afar skynsamlega afstöðu er hann sagði að sjúklingurinn verði að vera samvinnuþýður og hugarástand hans jákvætt gagnvart lyfjameðferð og annarri krabbameinsmeðferð til að það sé einhver von, einhver raunveruleg von um bata, og að meðferðarhæfni sjúklings, sem er neyddur til að taka við einhverju gegn dýpstu trú sinni, sé stórlega skert. . . .
Ég álít að það sem A. hefur gengið í gegnum hafi þroskað hann í þeim mæli sem er óhugsandi fyrir 15 ára ungling sem horfist ekki í augu við það sem hann þarf að horfast í augu við og lifir ekki við það sem hann þarf að lifa við. Ég get ekki ímyndað mér erfiðari lífsreynslu en þá sem hann hefur orðið fyrir og mig grunar að trú þeirra sé eitt af því sem heldur honum og fjölskyldu hans gangandi. Ég tel að það sem gerst hefur hafi þroskað A. umfram það sem eðlilegt er að búast við hjá 15 ára unglingi. Ég álít að drengurinn, sem ég talaði við í morgun, sé mjög ólíkur venjulegum 15 ára unglingum, vegna þessarar sorglegu lífsreynslu.
Ég álít hann nógu þroskaðan til að láta í ljós sannfærandi sjónarmið og hann hefur tjáð mér þau . . . Ég er líka sannfærður um að það sé rétt . . . af mér að taka tillit til óska hans og ég geri það. Óskir hans eru þær að blóðafurðir verði ekki notaðar og ég er einnig sannfærður um að það myndi hafa greinileg og mjög skaðleg áhrif á velferð hans ef formaður barnaverndarnefndar myndi, samkvæmt úrskurði þessa dómstóls, ganga gegn þessum óskum á einhvern hátt . . . Enn fremur, ef hann bíður lægri hlut fyrir þessum sjúkdómi — og það mjög sennilegt — myndi hann, miðað við trúarskoðanir hans, gera það í mjög svo óheppilegu og hryggilegu hugarástandi sem er alls ekki æskilegt. Ég tek mið af öllu þessu. . . .
Í ljósi aðstæðnanna tel ég rétt af mér að synja beiðninni um að blóðafurðir verði notaðar við meðferð A.“
Kveðja Adrians til Wells dómara
Þessi ungi piltur, sem vissi að hann var deyjandi, sendi Robert Wells dómara mjög svo hugulsama kveðju með David Day lögmanni: „Ég talaði stuttlega við skjólstæðing minn eftir að þú fórst af spítalanum í dag og það væri vanræksla af minni hálfu ef ég kæmi því ekki á framfæri að hann þakkaði þér af öllu hjarta, og það er stórt hjarta, fyrir að hafa fjallað um mál hans bæði fljótt, af nærfærni og af mikilli sanngirni. Hann er þér einstaklega þakklátur, herra dómari, og ég vil að bækurnar sýni það. Kærar þakkir.“
Móðir Adrians lýkur sögunni.
„Eftir réttarhöldin spurði Adrian Jardine lækni: ‚Hvað á ég langt eftir?‘ ‚Eina eða tvær vikur,‘ svaraði læknirinn. Ég sá son minn fella eitt tár sem braust fram milli fastklemmdra augnalokanna. Ég ætlaði að taka utan um hann en hann sagði: ‚Ekki, mamma, ég er að biðja.‘ Stuttu síðar spurði ég: ‚Ræðurðu við þetta, Adrian?‘ ‚Mamma, ég á eftir að lifa hvort eð er, jafnvel þótt ég deyi. Og ef ég á bara tvær vikur ólifaðar langar mig til að njóta þeirra, þannig að þú verður að vera í góðu skapi.‘
Hann langaði til að heimsækja útibú Varðturnsfélagsins í Georgetown í Kanada. Hann gerði það. Hann synti í sundlauginni þar með einum af vinum sínum. Hann fór á leik með Blue Jays hafnaboltaliðinu og fékk tekna mynd af sér með sumum leikmannanna. En það mikilvægasta var að hann hafði í hjarta sér vígt sig til að þjóna Jehóva Guði og núna vildi hann gefa tákn um það með vatnsskírn. En nú hafði honum hrakað svo að það þurfti að leggja hann aftur inn á spítalann og hann gat ekki farið þaðan. Hjúkrunarkonurnar voru svo vinsamlegar að koma því í kring að hann mætti nota eitt af stálkerjunum á sjúkraþjálfunarstofunni. Hann var skírður þann 12. september. Hann dó daginn eftir, þann 13. september.
Útför hans var sú fjölmennasta sem menn höfðu séð þar um slóðir — þar voru hjúkrunarkonur, læknar, foreldrar sjúklinga, bekkjarsystkini, nágrannar og margir af andlegum bræðrum hans og systrum úr hans eigin söfnuði og öðrum söfnuðum. Sem foreldar gerðum við okkur aldrei grein fyrir öllum þeim dásamlegu eiginleikum sem komu í ljós í fari sonar okkar þegar hann gekk í gegnum sínar mörgu prófraunir, eða góðvildinni og hugulseminni sem voru hluti þess kristna persónuleika sem hann var að þroska. Hinn innblásni sálmaritari sagði: „Synir eru gjöf frá [Jehóva].‘ Hann var það svo sannarlega og við hlökkum til að sjá hann í nýjum réttlátum heimi Jehóva sem verður bráðlega að veruleika í paradís á jörð.“ — Sálm. 127:3; Jakobsbréfið 1:2, 3.
Megum við treysta að fyrirheit Jesú í Jóhannesi 5:28, 29 rætist á Adrian: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“
Með því að hafna blóðgjöfum, sem hefðu hugsanlega getað lengt núverandi líf hans, sýndi Adrian Yeatts að hann var eitt hinna mörgu ungmenna sem láta Guð sitja í fyrirrúmi.
[Rammi á blaðsíðu 5]
‚Lífið er í blóðinu‘
Blóð er ótrúlega flókið að gerð og berst til hverrar einustu frumu líkamans. Í einum dropa eru 250.000.000 rauðkorna sem flytja frumunum súrefni og fjarlægja koldíoxíð, 400.000 hvítfrumur sem leita uppi og eyða óvinum, 15.000.000 blóðflagna sem safnast á augabragði þangað sem myndast hefur sár og byrja að storkna til að loka gatinu. Allt svífur þetta í tærum, gulleitum blóðvökva sem er myndaður úr hundruðum efna er gegna öll mikilvægu hlutverki í hinum mörgu skyldustörfum blóðsins. Vísindamenn skilja ekki alla starfsemi blóðsins til fullnustu.
Það er engin furða að Jehóva Guð, skapari þessa undraverða vökja, skuli lýsa yfir að ‚lífið sé í blóðinu.‘ — 3. Mósebók 17:11, 14.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Hjartaígræðsla án blóðgjafar
Í október síðastliðnum var Chandra Sharp, sem var þriggja ára, lögð inn á spítala í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum. Hún var með stækkað hjarta sem var einnig að gefa sig. Hún var vannærð, hægvaxta og vó aðeins 9 kg, og bráðvantaði nýtt hjarta. Henni var gefin aðeins nokkurra vikna lífsvon. Foreldrar hennar féllust á hjartaígræðslu en ekki blóðgjafir. Þau eru vottar Jehóva.
Það var ekkert vandamál fyrir skurðlækninn, Charles Fraser. Tímaritið The Flint Journal í Michigan sagði svo frá þann 1. desember 1993: „Fraser sagði að á Cleveland Clinic og öðrum spítölum væru menn orðnir þrautþjálfaðir í margs konar skurðaðgerðum — þeirra á meðal líffæraígræðslum — án þess að gefa sjúklingum framandi blóð. ‚Við höfum lært heilmikið um það að koma í veg fyrir blæðingar og að fylla á hjarta- og lungnavélina með öðrum vökvum en blóði,‘ sagði Fraser.“ Síðan bætti hann við: „Sumir sérspítalar hafa gert stórar hjartaskurðaðgerðir án blóðgjafa um áratuga skeið. . . . Við reynum alltaf að skera upp án blóðs [blóðgjafa].“
Þann 29. október græddi hann nýtt hjarta í Chandra án blóðs. Mánuði seinna var skýrt svo frá að Chandra væri á góðum batavegi.