Verndaðu barn þitt fyrir slysum
Verndaðu barn þitt fyrir slysum
Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Svíþjóð
HANNA var næstum þriggja ára gömul og var með foreldrum sínum, Karl-Erik og Birgittu, að þrífa íbúð látins nágranna. Eftir nokkra stund kom Hanna út úr einu herberginu með pilluglas í hendinni. Hún hafði borðað nokkrar pillur. Birgitta var slegin óhug þegar hún skoðaði umbúðirnar. Þetta var hjartameðal nágrannans.
Farið var með Hönnu í hendingskasti á sjúkrahús þar sem hún dvaldist næturlangt á bráðamóttökunni. Enda þótt lyfjaskammturinn hefði getað valdið henni varanlegu heilsutjóni varð henni ekki meint af vegna þess að hún hafði borðað hafragraut skömmu áður en hún gleypti pillurnar. Grauturinn drakk í sig nokkuð af eitrinu og hún kastaði honum síðan upp.
Reynsla Hönnu er ekkert einsdæmi. Daglega þurfa þúsundir barna um heim allan að leita læknis eða fara á sjúkrahús vegna slysa. Árlega fær áttunda hvert barn í Svíþjóð læknishjálp vegna slyss. Líkurnar á því að þitt barn verði fyrir óhappi eru þess vegna töluverðar.
Það kemur ekki á óvart að slys á börnum verða oft í kunnuglegu umhverfi eins og á heimilinu eða í nágrenni þess. Meiðslin eru breytileg eftir aldri barnanna. Kornabarn getur auðveldlega dottið af skiptiborði eða matarbiti eða lítill aðskotahlutur staðið í hálsi þess. Ung börn detta oftsinnis þegar þau príla eða brenna sig eða verða fyrir eitrun þegar þau snerta eða bragða á því sem þau ná að teygja sig í. Börn á skólaaldri slasast oft á tíðum í umferðinni eða við leik utandyra.
Mörg þessara slysa má fyrirbyggja. Með dálítilli fyrirhyggju og vitneskju um þroskastig barnsins má koma í veg fyrir meiðsli eða jafnvel banaslys. Þetta hefur sannast í Svíþjóð þar sem slysavarnaráætlun barna hefur verið í gangi frá árinu 1954. Fyrir þann tíma dóu rösklega 450 börn á ári af völdum slysa en núna hefur dauðsföllum fækkað í um 70 á ári.
Innandyra
„Það er ekki hægt að kenna eins, tveggja eða þriggja ára gömlu barni að forðast hættur og búast síðan við að það muni eftir því,“ segir barnasálfræðingurinn Kerstin Bäckström. Ábyrgðin á slysavörnum barns hvílir því hjá foreldrum þess — eða öðrum fullorðnum sem það kann að dvelja hjá öðru hverju.
Við skulum fyrst svipast um á heimilinu. Notaðu gátlistann á næstu síðu. Með dálítilli útsjónarsemi og hugmyndaflugi má finna fleiri lausnir sem henta aðstæðum þínum.
Ef handarhöld eru á eldhússkúffum má læsa þeim með því að smeygja priki gegnum höldin. Eins má gera við ofnhurðina. Plastpokar eru miklu hættuminni séu þeir hnýttir áður en þeir eru settir í geymslu.
Kannski dettur þér fleiri einföld ráð í hug til að fyrirbyggja slys á og við heimilið, og þú gætir sagt vinum og kunningjum með lítil börn frá þeim.
Utandyra
Kannaðu svæðið þar sem barnið leikur sér. Flest slys, sem eldri börn en fjögurra ára verða fyrir, eiga sér stað við leik utandyra. Þau hrasa og meiða sig eða detta kannski af hjóli. Umferðarslys og drukknun eru algengustu banaslys þriggja til sjö ára barna utandyra.
Skoðaðu leiksvæðin gaumgæfilega og gakktu úr skugga um að leiktækin séu í góðu ásigkomulagi svo að barnið meiði sig ekki á þeim. Er sandur eða annað mjúkt undirlag undir rólum, klifurgrindum og þess háttar tækjum svo að barnið slasi sig ekki ef það dettur?
Eru opnar tjarnir, vatnsgryfjur eða lækir nálægt heimili þínu? Tveggja til þriggja ára gamalt barn getur drukknað í aðeins nokkurra sentímetra djúpu vatni „Þegar lítið barn fellur á andlitið í poll tapar það áttum og skynjar ekki hvað snýr upp og hvað niður,“ segir Bäckström. „Það kemst hreinlega ekki á fætur af eigin rammleik.“
Það er því grundvallarregla að láta aldrei eins til þriggja ára gömul börn leika sér ein úti án umsjónar fullorðinna. Ef óbyrgt vatn er í nágrenninu skaltu bíða uns barnið er orðið töluvert eldra áður en þú leyfir því að leika sér eftirlitslausu utandyra.
Í umferðinni
Sama gildir ef bílaumferð er við heimili þitt. „Barn á forskólaaldri skilur einungis skýr og greinileg skilaboð og getur aðeins einbeitt sér
að einu í einu,“ segir Bäckström. „Í umferðinni er fullt af óskýrum og tvíræðum skilaboðum.“ Leyfðu barni þínu ekki að fara yfir götu einsömlu fyrr en það hefur náð skólaaldri. Að sögn sérfræðinga eru börn ekki álitin nógu þroskuð til að hjóla ein í umferðinni fyrr en þau eru að minnsta kosti tólf ára gömul.Kenndu barni þínu að nota öryggishjálm á reiðhjóli, hestbaki, hjólaskautum eða snjóþotu. Höfuðmeiðsli eru erfið viðureignar og geta valdið varanlegum skaða — jafnvel dauða. Sextíu af hundraði barna, sem fengu meðhöndlun á heilsugæslustöð einni eftir reiðhjólaslys, slösuðust á höfði og andliti, en þau sem notuðu hjálma komust hjá alvarlegum höfuðmeiðslum.
Tryggðu einnig öryggi barnsins í bílnum. Víða um lönd er skylt að hafa ung börn í sérstökum bílstólum og hefur það dregið mjög úr meiðslum og dauðsföllum barna í umferðarslysum. Það er góð og ódýr líftrygging að nota barnabílstól. Gakktu úr skugga um að hann sé af viðurkenndri gerð og mundu að nota þarf annars konar bílstóla fyrir smábörn en fyrir börn sem náð hafa þriggja ára aldri.
Börn eru dýrmæt gjöf frá Jehóva og við viljum gæta þeirra á allan hátt. (Sálmur 127:3, 4) Karl-Erik og Birgitta taka foreldrahlutverkið alvarlega og þeim hefur alltaf verið umhugað um öryggi barna sinna — bæði fyrir og eftir óhapp Hönnu. „Við vorum auðvitað enn varkárari eftir að þetta atvik átti sér stað,“ viðurkennir Karl-Erik. Og Birgitta bætir við: „Nú eigum við barnabörn og göngum alltaf úr skugga um að lyfin okkar séu í læstri hirslu.“
[Rammagrein á blaðsíðu 21]
Öryggi á heimilinu
• Lyf: Geymdu lyf í læstri hirslu þar sem barnið nær ekki til. Sama á við um lyf, sem ekki eru lyfseðilsskyld, og náttúrulyf. Biddu líka næturgesti um að geyma lyfin sín á tryggum stað.
• Hreinsiefni og önnur skaðleg efni: Geymdu þau utan seilingar barnsins í læsanlegum skáp og í upprunalegum umbúðum svo að þau séu greinilega merkt. Hafðu vakandi auga með efnum, sem þú ert að nota, og settu þau á öruggan stað, jafnvel þótt þú bregðir þér aðeins andartak frá. Skildu aldrei eftir leifar af þvottaefni í uppþvottavélinni.
• Eldavélin: Láttu aldrei sköft og höldur á pottum standa fram af eldavélinni. Settu hlíf fyrir framan hellurnar ef hægt er og veggfestu eldavélina svo að hún sporðreisist ekki ef barnið prílar upp á ofnhurðina. Öryggislæsing ætti að vera á ofnhurðinni. Ef hætta er á að barnið brenni sig á hurðinni þegar hún er heit er best að útbúa hlíf á hana.
• Hættuleg eldhúsáhöld: Hnífar, skæri og hættuleg tæki eiga að vera í skápum eða skúffum með læsingum eða festingum, eða geymd þar sem barnið nær ekki til. Þegar þú notar slík áhöld og þarft að leggja þau frá þér stutta stund, skaltu setja þau langt frá borðbrúninni, utan seilingar barnsins. Eldspýtur og plastpokar geta líka skapað smábörnum hættu.
• Stigar: Settu hlið, minnst 75 sentímetra há, fyrir stiga bæði að ofanverðu og neðanverðu.
• Gluggar og svaladyr: Settu barnalæsingar eða aðrar festingar efst á glugga og svaladyr til að koma í veg fyrir að barnið opni eða smeygi sér út þegar verið er að lofta út.
• Bókahillur: Ef barnið hefur tilhneigingu til að príla og hanga í innanstokksmunum skaltu festa bókahillur og önnur há húsgögn við vegg svo að þau velti ekki um koll.
• Rafmagnstenglar og -snúrur: Setja þarf barnalæsingar í alla ónotaða rafmagnstengla. Festa ætti borðlampasnúrur við vegg eða húsgögn svo að barnið geti ekki togað lampa niður og fengið þá í höfuðið. Annars er best að fjarlægja þá. Skildu aldrei straujárnið eftir á straubrettinu og láttu snúruna ekki hanga fram af því.
• Heitt vatn: Ef þú getur stillt hitann á vatninu skaltu ekki hafa það heitara en 50 gráður svo að barnið brenni sig ekki ef það skrúfar frá krananum.
• Leikföng: Fargaðu leikföngum með oddhvössum brúnum eða hornum. Hentu smáleikföngum og leikföngum sem hægt er að rífa í smástykki því að þau geta staðið í barninu ef það setur þau upp í sig. Augu og nef á leikfangaböngsum þarf að festa tryggilega. Kenndu eldri systkinum að fjarlægja smáleikföng þegar litla barnið er á gólfinu.
• Sælgæti og nasl: Skildu ekki eftir sælgæti og nasl, svo sem jarðhnetur eða brjóstsykur, þar sem kornabörn ná til. Þetta getur staðið í þeim.
[Credit line]
Heimild: Skrifstofa umboðsmanns barna í Svíþjóð.
[Rammagrein á blaðsíðu 21]
Ef slys ber að höndum
• Eitrun: Ef barnið hefur gleypt eitraðan vökva skaltu skola munn þess rækilega og gefa því eitt til tvö glös af vatni eða mjólk að drekka. Kallaðu síðan á lækni eða hafðu samband við eitrunarupplýsingastöð sjúkrahúss til að fá ráðleggingar. Ef barnið hefur fengið ætandi efni í augun skaltu skola þau tafarlaust með miklu vatni í að minnsta kosti tíu mínútur.
• Brunasár: Kældu minniháttar brunasár í minnst 20 mínútur með köldu vatni (en ekki of köldu). Ef sárið er stærra en lófi barnsins eða á andliti þess, liðamótum, neðri hluta kviðar eða kynfærum skaltu fara með barnið á bráðamóttöku. Læknir verður alltaf að meðhöndla djúp brunasár.
• Köfnun: Ef aðskotahlutur festist í barka barnsins þarf að losa hann sem allra fyrst. Frekari upplýsingar um rétt viðbrögð má fá í handbókum, hjá heimilislækni eða á námskeiði í skyndihjálp.
[Credit line]
Heimild: Sænski Rauði krossinn.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Reiðhjólahjálmur veitir góða vörn.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Öruggur í bílstól.