Þeir geta stolið auðkennum þínum!
Þeir geta stolið auðkennum þínum!
UNGA konan byrjaði að fá klúr skilaboð frá karlmönnum inn á símsvarann. Síðan hringdi maður til hennar og sagðist vera að svara ósiðlegu tilboði frá henni á Netinu. En hún átti ekki einu sinni tölvu! Það tók hana nokkurn tíma að finna út að einhver hafði komið fram á Netinu og þóst vera hún, og sett upp auglýsingar í nafni hennar. Og hinn óþekkti þrjótur gaf upp heimilisfang hennar, leiðarlýsingu á staðinn og meira að segja ráðleggingar um það hvernig hægt væri að komast fram hjá þjófavörnum hússins!
Flestir líta á auðkenni sín, svo sem nafn, fæðingarvottorð, kennitölu, ökuskírteini, vegabréf, nafnskírteini og þvíumlíkt, sem sjálfsagðan hlut. Við erum þau sem við erum og getum sannað deili á okkur sé það véfengt. En nú er orðið svo auðvelt að stela upplýsingum sem við notum til að sanna hver við erum, eða falsa þær, að menn eru farnir að tala um „auðkennisþjófnað.“
Svikafaraldur
Þessi tegund afbrota er lúmsk og býsna flókin, og getur valdið þolendum miklu tjóni. Fórnarlömbin uppgötva allt í einu að einhver tekur út fé af bankareikningum þeirra, gjaldfærir úttektir á kreditkortareikninga þeirra og veldur ýmsu öðru tjóni í nafni þeirra. Víða njóta þolendur lagaverndar og þurfa ekki að greiða fyrir þessar úttektir, en hins vegar sitja þeir kannski uppi með mannorðshnekki og skert lánstraust.
Lögregla, lánastofnanir og neytendasamtök viðurkenna að milljarðar króna tapist vegna afbrota af þessu tagi á hverju ári. Ógerlegt er að meta með nokkurri vissu hve margir verða fyrir barðinu á þjófum sem stela auðkennum fólks. Helsti vandinn er fólginn í því að mánuðir geta liðið frá stuldinum þangað til þolandinn uppgötvar hann. Sum lögregluyfirvöld segja að auðkennisþjófnaður vaxi hraðast allra afbrota í Bandaríkjunum. Ástandið er svipað víða annars staðar.
Það gerir illt verra að þjófar vita að erfitt er að rannsaka fjársvik sem rakin eru til auðkennisþjófnaðar og sjaldan er ákært fyrir þau. „Afbrotamönnunum finnst þeir ekki vera að níðast á fólki,“ segir Cheryl Smith sem rannsakar brot af þessu tagi. „Fórnarlambið er banki eða stórverslun. Þeim finnst þeir ekki vera að vinna einstaklingum tjón.“
Níðst á nafni þínu
Auðkennisþjófar stela yfirleitt mikilvægum persónuupplýsingum, svo sem kennitölu
eða ökuskírteini sem þeir nota síðan til að villa á sér heimildir og opna viðskiptareikninga í þínu nafni. Þeir láta síðan senda alla pappíra í eigið pósthólf. Þeir reyna að eyða sem mestu á sem skemmstum tíma og þú hefur ekki hugmynd um það sem er að gerast fyrr en bankinn eða innheimtustofnun rukkar þig.Hvernig fara óprúttnir menn að því að stela persónuupplýsingum? Það er sáraeinfalt. Fyrsta skrefið er oft það að safna upplýsingum, sem margir eru vanir að láta símasölufólki í té, eða skrifa á lánsumsóknir. ‚Sorptunnurótarar‘ gramsa í sorptunnum í leit að pappírum með upplýsingum um bankareikninga, kreditkortareikninga eða afborganir af lánum. Sumir hnupla pósti með fjármálatengdum upplýsingum úr póstkössum. Og ‚númeranjósnarar‘ nota myndavélar eða sjónauka til að sjá hvaða leyninúmer eru slegin inn í hraðbanka, sjálfsala eða almenningssíma. Í sumum löndum liggur mikið af upplýsingum á lausu hjá dómstólum, í opinberum skjölum eða á Netinu.
Að stela góðu mannorði
Með kennitölu annars manns í farteskinu, ásamt heimilisfangi, símanúmeri og fölsuðu ökuskírteini með mynd af sér, getur þrjóturinn hafist handa. Hann byrjar á því að sækja um banka- eða greiðslukortaviðskipti, annaðhvort í eigin persónu eða í pósti. Hann gefur gjarnan upp tilbúið heimilisfang og segist vera nýfluttur. Stundum liggur fyrirtækjum svo mikið á að veita úttektarheimildir að þau sannreyna ekki persónuupplýsingar eða heimilisföng.
Um leið og svikahrappurinn er búinn að opna fyrsta reikninginn getur hann notað hann ásamt öðrum persónuupplýsingum til að gera sig trúverðugri og auka fjársvikamöguleikana. Núna er þorparinn á góðri leið með að auðgast, en í leiðinni spillir hann lánshæfi annarra og góðu mannorði.
Það getur reynst bæði erfitt, tímafrekt og ergilegt að bæta tjónið. Mari Frank er lögfræðingur í Kaliforníu. Hún komst að raun um hve erfitt þetta gæti reynst þegar svindlara tókst að stofna til 9.000.000 króna skuldar í hennar nafni. „Ég þurfti að skrifa 90 bréf og leggja 500 klukkustunda vinnu í að hreinsa mannorð mitt,“ segir hún. „Þetta er barátta um lánshæfi manns og vitglóruna. . . . Maður veit sjaldnast hver er að verki og þorparinn næst aldrei.“
Hvað er til ráða?
Sá sem lendir í því að fé er svikið út í nafni hans þarf fyrst af öllu að hafa samband við banka og kreditkortafyrirtæki sem hann á viðskipti við. Síðan þarf hann að fylgja tilkynningunni eftir með bréfi og fara fram á að haft sé samband við sig ef óskað er eftir úttektarheimild í nafni hans.
Því næst þarf hann að kæra málið til lögreglunnar. Rétt er að fá afrit af lögregluskýrslu því að það gæti
reynst nauðsynlegt að láta lánardrottnum afrit í té.Þó að þjófurinn hafi notað stolnar upplýsingar til að falsa ný kreditkort er öruggast að láta ógilda öll kort, sem maður á, og gefa út ný. Hafi verið tekið út af bankareikningum getur þurft að loka þeim og opna nýja. Og nauðsynlegt er að fá ný leyninúmer.
Er lausn í sjónmáli?
Stjórnvöld, lögregla og lánastofnanir gera allt hvað þau geta til að koma í veg fyrir þjófnað á auðkennum fólks. Sums staðar hafa verið sett ströng viðurlög við brotum af þessu tagi í von um að vernda persónuupplýsingar betur. Og ýmsar tæknilausnir hafa verið nefndar til sögunnar. Þar má nefna stafræn fingraför dulrituð á kortið, debet- og kreditkort sem þekkja lófafar eiganda síns eða raddmynstur, snjallkort með örgjörva þar sem geymdar eru upplýsingar um blóðflokk og fingraför og kort með rithandarsýnishorni sem ekki er hægt að afmá.
Auk þessara flóknu forvarnaraðgerða er ýmislegt hægt að gera sér til verndar. (Sjá rammann „Að verjast auðkennisþjófnaði.“) Með nokkurri fyrirhyggju og skipulagningu geturðu dregið úr hættunni á því að óprúttnir menn steli persónuupplýsingum um þig.
[Rammagrein á blaðsíðu 14]
Að verjast auðkennisþjófnaði
● Gefðu ekki upp kennitölu að óþörfu.
● Gakktu ekki með aukakreditkort, nafnskírteini, fæðingarvottorð eða vegabréf í vasanum eða veskinu nema nauðsyn krefji.
● Tættu eða eyðileggðu með öðrum hætti úttektarmiða, símareikninga, kreditkortakvittanir og annað þess háttar áður en þú hendir því.
● Skýldu með höndinni þegar þú slærð inn leyninúmer í hraðbanka eða sjálfsala eða hringir með hjálp úttektarkorts. ‚Númeranjósnarar‘ geta fylgst með þér með hjálp myndavélar eða sjónauka.
● Hafðu öruggan lás á póstkassanum til að pósti verði síður stolið.
● Geymdu lista með öllum reiknings- og kortanúmerum á öruggum stað.
● Gefðu aldrei upp kreditkortanúmer eða aðrar persónuupplýsingar í síma nema þú sért viss um að hægt sé að treysta fyrirtækinu, sem þú átt viðskipti við, eða þú hafir sjálfur hringt í það.
● Leggðu leyninúmer á minnið. Geymdu þau alls ekki í veskinu.
● Fáðu reglulega yfirlit yfir banka- og kortaviðskipti.
● Láttu eyða nafni þínu úr kynningarskrám kreditkortafyrirtækja eða fyrirtækja sem veita upplýsingar um lánshæfi þitt.
[Mynd á blaðsíðu 13]
‚Númeranjósnarar‘ eiga það til að fylgjast með fólki slá inn leyninúmer í almenningssíma, sjálfsala eða hraðbanka.
[Mynd á blaðsíðu 14]
‚Sorptunnurótarar‘ leita að persónuupplýsingum í sorptunnum.