Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að sætta trú og vísindi

Að sætta trú og vísindi

Að sætta trú og vísindi

„Trú og vísindi [eru] ekki lengur talin ósættanleg.“ —The Daily Telegraph, Lundúnum, 26. maí 1999.

Í SINNI göfugustu mynd eru bæði trú og vísindi helguð leitinni að sannleikanum. Vísindin opinbera okkur stórfenglega reglu í alheimi sem vitnar greinilega um afburðasnjalla hönnun. Sönn trú gefur þessum uppgötvunum gildi með því að kenna að skipulagið, sem birtist í efnisheiminum, sé snilligáfu skaparans að þakka.

„Trúin eykur gildi vísindanna verulega í huga mér,“ segir Francis Collins sem er sameindalíffræðingur. „Þegar ég uppgötva eitthvað í sambandi við genamengi mannsins fyllist ég lotningu fyrir leyndardómi lífsins og segi við sjálfan mig: ‚Hugsa sér! Hingað til hefur enginn nema Guð vitað þetta.‘ Þetta er unaðsleg og hrífandi tilfinning sem eykur aðdáun mína á Guði og auðgar vísindin fyrir mig.“

Hvað getum við gert til að sætta vísindin og trúna?

Þrotlaus leit

Sættu þig við takmörkin: Alheimurinn er óendanlegur og tíminn sömuleiðis, þannig að spurningum okkar verður seint svarað. Líffræðingurinn Lewis Thomas sagði: „Þessi leit er endalaus því að forvitni mannsins er óseðjandi. Við erum sífellt að rannsaka, leita og reyna að skilja eðli hlutanna. Leitinni mun aldrei ljúka. Ég get ekki ímyndað mér nokkurn endapunkt þegar við öll vörpum öndinni léttara og segjum: ‚Nú skiljum við allt.‘ Lausnin verður alltaf utan seilingar.“

Leitin að sannleika á vettvangi trúarinnar er sömuleiðis án enda. Einn af biblíuriturunum, Páll postuli, sagði: „Nú sjáum vér gegnum gler í þoku . . . nú þekkjum vér að nokkru leyti.“ — 1. Korintubréf 13:12, Biblían 1859.

En þó að þekking okkar á vísindum og trúmálum sé ófullkomin getum við engu að síður dregið rökréttar ályktanir af þeim staðreyndum sem við þekkjum. Við þurfum ekki að vita allt um uppruna sólarinnar til að vera fullkomlega örugg um að hún rísi á morgun.

Láttu staðreyndirnar tala sínu máli: Við þurfum að hafa áreiðanlegar meginreglur að leiðarljósi í leitinni að svörum. Við þurfum að gera þá kröfu að fá haldbærar sannanir, annars gætum við hæglega leiðst afvega í leitinni að trúarlegum og vísindalegum sannleika. Það er auðvitað ekki raunhæft að ætla sér að leggja mat á alla þá vísindaþekkingu og hugmyndir sem fylla stærstu bókasöfn heims. Biblían inniheldur hins vegar aðgengilegt safn trúarkenninga, og þekktar staðreyndir skjóta styrkum stoðum undir orð hennar. *

Sú regla gildir hins vegar um þekkingu almennt — jafnt á sviði trúar sem vísinda — að fólk þarf að leggja sig fram um að gera greinarmun á staðreyndum og getgátum, á veruleika og blekkingum. Eins og biblíuritarinn Páll benti á þurfum við að hafna ‚mótsögnum hinnar rangnefndu þekkingar.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:20) Til að sætta vísindin og Biblíuna þurfum við að forðast ágiskanir og getgátur. Við þurfum að láta staðreyndirnar tala sínu máli og kanna hvernig þær styðja og styrkja hver aðra.

Tökum dæmi: Þegar við áttum okkur á því að Biblían notar orðið „dagur“ um mislöng tímabil er ljóst að sköpunardagarnir sex, sem talað er um í 1. Mósebók, þurfa ekki að stangast á við þá ályktun vísindanna að aldur jarðar sé um það bil fjórir og hálfur milljarður ára. Að sögn Biblíunnar hafði jörðin verið til um ótilgreindan tíma áður en sköpunardagarnir hófust. (Sjá rammagreinina „Voru sköpunardagarnir einn sólarhringur hver?“) Þó svo að vísindin endurskoðuðu aldur jarðar og kæmu fram með nýja tölu myndu orð Biblíunnar eftir sem áður vera rétt. Á þessu sviði og fleirum stangast vísindin ekki á við Biblíuna heldur láta þau okkur í té margþættar viðbótarupplýsingar um efnisheim fortíðar og nútíðar.

Trú en ekki trúgirni: Biblían veitir okkur vitneskju um Guð og ásetning hans sem við getum ekki fengið annars staðar frá. Hvers vegna ættum við að treysta Biblíunni? Hún hvetur okkur til að ganga úr skugga um að hún fari rétt með staðreyndir. Hún er sögulega nákvæm, raunsæ, heiðarleg og hreinskilin og ritararnir eru opinskáir. Við getum byggt upp sterka trú á Biblíuna og sannfærst um að hún sé orð Guðs með því að rannsaka nákvæmni hennar, þar á meðal það sem hún segir um vísindaleg efni, en ekki síður hvernig hundruð spádóma hafa ræst með óbrigðulli nákvæmni allt frá fornu fari og fram á okkar dag. Að trúa Biblíunni er ekki trúgirni heldur traust byggt á óbrigðulli nákvæmni hennar.

Virtu vísindin, viðurkenndu gildi trúarinnar: Vottar Jehóva hvetja íhugandi fólk, bæði vísindalega sinnað og trúhneigt, til að leita sannleikans á báðum sviðum. Í söfnuðum Votta Jehóva er stuðlað að heilnæmri virðingu fyrir vísindum og uppgötvunum þeirra, og þeirri sannfæringu að sannleikann í trúmálum sé aðeins að finna í Biblíunni, enda segir hún berum orðum að hún sé orð Guðs og styður það með yfrið nógum sönnunum. Páll postuli sagði: „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:13.

En trúin hefur mengast skaðlegum ósannindum og siðum, ekki síður en vísindin. Þar af leiðandi er bæði til sönn trú og fölsk. Þess vegna hafa margir sagt skilið við stóru kirkjufélögin og gengið til liðs við kristinn söfnuð Votta Jehóva. Þeir voru vonsviknir vegna þess að trúfélagið, sem þeir tilheyrðu, vildi ekki afneita erfikenningum manna og ýmsum bábiljum í skiptum fyrir opinberaðan sannleika og staðreyndir.

Sannkristnir menn finna raunverulegan tilgang í lífinu sem byggist á því að þekkja skaparann vel, eins og hann opinberar sig í Biblíunni, og á því að þekkja yfirlýstan vilja hans með mannkynið og jörðina sem við byggjum. Vottar Jehóva hafa fundið fullnægjandi svör í Biblíunni við spurningum svo sem: Hvers vegna erum við til? Hvað verður um okkur? Þeir eru meira en fúsir til að miðla þér af vitneskju sinni.

[Neðanmáls]

^ Sjá bæklinginn Bók fyrir alla menn, gefinn út af Vottum Jehóva.

[Rammi á blaðsíðu 10]

Voru sköpunardagarnir einn sólarhringur hver?

Sumir bókstafstrúarmenn staðhæfa að allur efnisheimurinn hafi verið myndaður á aðeins sex sólarhringum fyrir sex til tíu þúsund árum. En með því að halda þessu fram ýta þeir undir óbiblíulega ranghugmynd sem veldur því að margir hæðast að Biblíunni.

Er orðið „dagur“ notað í merkingunni sólarhringur alls staðar þar sem það kemur fyrir í Biblíunni? Fyrsta Mósebók 2:4 talar um ‚þann dag er Drottinn Guð gerði himin og jörð.‘ (Biblíurit, ný þýðing 1994) Þessi eini dagur nær yfir alla sköpunardagana sex sem um er getið í 1. kafla 1. Mósebókar. Í Biblíunni er orðið dagur notað um afmarkað tímabil svo sem eitt þúsund ár upp í mörg þúsund. Sköpunardagar Biblíunnar kunna að hafa verið mörg þúsund ár hver um sig. Og jörðin sjálf var til áður en sköpunardagarnir hófust. (1. Mósebók 1:1) Þessi þáttur Biblíunnar fer því saman við sönn vísindi. — 2. Pétursbréf 3:8.

Sameindalíffræðingurinn Francis Collins segir: „Sú skoðun að sköpunardagarnir hafi verið sólarhringur á lengd hefur spillt meira fyrir trúarskilningi hugsandi manna en nokkuð annað í sögu nútímans.“

[Rammi á blaðsíðu 11]

Fylgja vísindin göfugri siðfræði en trúarbrögðin?

Það er skiljanlegt að margt vísindalega þenkjandi fólk skuli hafa hafnað trúarbrögðunum vegna átakanlegrar sögu þeirra, hræsni og grimmdar, og vegna andstöðu þeirra gegn framförum vísindanna. John Postgate, prófessor í örverufræði, segir: „Trúarbrögð heims . . . bera sök á hryllilegum mannafórnum, krossferðum, fjöldamorðum og rannsóknarrétti. Þessi skuggahlið trúarbragðanna er orðin hættuleg því að trúarbrögðin eru ekki hlutlaus eins og vísindin.“

Postgate ber saman þessa skuggahlið trúarbragðanna og þá skynsemi, hlutlægni og ögun sem eignuð er vísindunum, og segir að „vísindin fylgi göfugri siðfræði“ en trúarbrögðin.

En er siðfræði vísindanna sérstaklega göfug? Nei, svo er ekki. Postgate viðurkennir að „heimur vísindanna fái sinn skerf af afbrýði, ágirnd, fordómum og öfund.“ Hann bætir við að „einstaka vísindamenn hafi verið tilbúnir til að myrða í rannsóknarskyni eins og gerðist í Þýskalandi á valdatíma nasista og í fangabúðum Japana.“ Og þegar tímaritið National Geographic fól rannsóknarblaðamanni að kanna hvernig staðið hefði á því að fjallað var um falsaðan steingerving sem staðreynd á síðum blaðsins, nefndi blaðamaðurinn „óeðlilega launung og óverðskuldað traust, djúpstæðan ágreining þóttafullra manna, sjálfsupphafningu, óskhyggju, barnalegar hugmyndir, mannleg mistök, þrjósku, fölsun, baktal, lygar [og] spillingu.“

Og það eru auðvitað vísindin sem hafa gefið mannkyninu hryllileg stríðsvopn, svo sem eiturgas, flugskeyti, stýriflaugar, kjarnasprengjur og sýkla sem nota má til hernaðar.

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Stjörnuþokan Maurinn (Menzel 3), ljósmynduð með Hubble-sjónaukanum.

[Credit line]

NASA, ESA og The Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

[Myndir á blaðsíðu 9]

Vísindin hafa opinberað okkur ótal merki um snjalla hönnun.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Vottar Jehóva virða sönn vísindi og viðurkenna gildi þess að trúa á Biblíuna.