Hvað er efnishyggja?
Sjónarmið Biblíunnar
Hvað er efnishyggja?
MÖNNUM eru áskapaðar andlegar hneigðir og löngun til að tilbiðja Guð. Mennirnir voru samt skapaðir úr frumefnum og hafa efnislegar þarfir og geta notið efnislegra hluta. Sumir kristnir menn eiga mikil efnisleg auðæfi. En ber það í sjálfu sér vott um efnishyggju og litla rækt við andlegu málin? Eða eru minni líkur á því að þeir sem eru fátækir séu efnishyggjumenn og því líklegri til að vera andlega sinnaðir?
Þú ert áreiðanlega sammála því að efnishyggja er miklu meira en það að eiga mikið af efnislegum eigum. Lítum á eftirfarandi dæmi úr Biblíunni sem sýna hvað efnishyggja er í raun og veru og hvernig hægt sé að forðast hana.
Þau voru auðug og virt
Biblían segir frá ýmsum þjónum Guðs sem voru bæði auðugir og virtir. Abraham var til dæmis „stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli“. (1. Mósebók 13:2) Job var sagður vera „meiri öllum austurbyggjum“ vegna þess hve auðugur hann var að búpeningi og vinnuhjúum. (Jobsbók 1:3) Konungar Ísraels, eins og Davíð og Salómon, eignuðust með tímanum geysimikil auðæfi. — 1. Kroníkubók 29:1-5; 2. Kroníkubók 1:11, 12; Prédikarinn 2:4-9.
Einstaka auðmenn voru í kristna söfnuðinum á fyrstu öldinni. (1. Tímóteusarbréf 6:17) Lýdía var „kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg . . . er verslaði með purpura“. (Postulasagan 16:14) Purpuralitun og purpuralitaður fatnaður var mjög dýr og venjulega ætlaður hástéttarfólki og auðmönnum. Það kann því að vera að Lýdía hafi sjálf verið töluvert efnuð.
Aftur á móti var ákveðinn hópur trúfastra tilbiðjenda Jehóva á biblíutímanum mjög fátækur. Náttúruhamfarir, slys og dauðsföll steyptu sumum fjölskyldum niður í sárustu fátækt. (Prédikarinn 9:11, 12) Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir bágstadda að horfa upp á aðra njóta auðæfa og efnislegra eigna. Samt hefði það verið rangt af þeim að dæma þá ríku sem efnishyggjumenn eða álykta að eignalausir þjónuðu Guði af meiri heilindum. Hvers vegna? Við skulum athuga hver sé grundvallarorsök efnishyggjunnar.
Fégirndin
Í orðabók er efnishyggja skilgreind sem „sú afstaða að leggja fremur áherslu á efnið en
andann eða hugann“. Efnishyggjan á því rætur sínar að rekja til girnda okkar, þess sem við leggjum aðaláherslu á og hefur forgang í lífi okkar. Eftirfarandi tvö dæmi úr Biblíunni staðfesta þetta greinilega.Jehóva gaf Barúk, ritara Jeremía spámanns, eindregnar ráðleggingar. Barúk var sennilega fátækur vegna ástandsins í Jerúsalem og vegna þess að hann átti náið samband við hinn óvinsæla Jeremía. Þrátt fyrir það sagði Jehóva: „Þú ætlar þér mikinn hlut! Girnst það eigi!“ Vera má að Barúk hafi verið orðinn efnishyggjumaður, upptekinn af auði eða efnislegu öryggi annarra. Jehóva minnti Barúk á að hann, Jehóva Guð, myndi frelsa hann frá ógæfunni sem kæmi yfir Jerúsalem en myndi ekki varðveita eignir hans. — Jeremía 45:4, 5.
Jesús brá upp líkingu af manni sem var líka upptekinn af efnislegum hlutum. Þessi maður var með allan hugann við auðæfi sín fremur en að nota það sem hann átti til að þjóna Guði betur. Ríki maðurinn sagði: „Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri . . . Og ég segi við sálu mína: ‚Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.‘“ Jesús sagði þá: „En Guð sagði við hann: ‚Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?‘ Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ — Lúkas 12:16-21.
Á hvað er verið að benda í þessum tveim frásögum? Þær sýna okkur að efnishyggja fer ekki eftir því hve mikið maðurinn á heldur hve upptekinn hann er af efnislegum hlutum. Páll postuli sagði: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Það sem veldur harmkvælunum er löngunin í efnislega hluti og sú ákvörðun að verða ríkur.
Sjálfsrannsókn er nauðsynleg
Kristnir menn gæta þess að varast gildru efnishyggjunnar, hver svo sem efnahagurinn kann að vera. Vald auðæfanna er tælandi og getur kæft andlega viðleitni. (Matteus 13:22) Athygli okkar gæti óvænt beinst frá andlegum málefnum og að veraldlegum efnum, með sorglegum afleiðingum. — Orðskviðirnir 28:20; Prédikarinn 5:9.
Kristnir menn ættu þess vegna að íhuga hverju þeir sækjast mest eftir í lífinu. Hvort sem maður á lítið eða mikið í efnislegu tilliti leggur andlega sinnað fólk sig fram um að fylgja þeirri áminningu Páls að setja ekki von sína á ‚fallvaltan auð heldur á Guð sem lætur okkur allt ríkulega í té til nautnar‘. — 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.