Hvers vegna breytast gildin?
Hvers vegna breytast gildin?
„Hvað er mikilvægast í lífinu?“
Þessi spurning var lögð fyrir 50.000 manns í 60 löndum. Að sögn Gallupkönnuðanna var algengasta svarið frá nálega öllum heimshlutum „að lifa hamingjusömu fjölskyldulífi“ og „að vera heilsugóður“.
SVO gæti virst sem fólk um allan heim sé sameinað um háleit gildi. Því miður er veruleikinn allt annar. Áður fyrr byggði fólk lífsgildin á trú og siðferðisreglum. En tímarnir breytast hratt. Rannsakandinn Marisa Ferrari Occhionero segir varðandi Ítalíu: „Ungt fólk lætur foreldra, siðvenjur og trú hafa sífellt minni áhrif á lífsgildi sín.“ Sömu sögu er að segja af bæði ungum sem öldnum annars staðar í heiminum.
Ronald Inglehart, prófessor og umsjónarmaður könnunar á gildismati fólks í heiminum, segir: „Æ fleira bendir til þess að djúpstæðar breytingar séu að verða á viðhorfum heimsins.“ Hvað veldur slíkum breytingum? Inglehart fullyrðir: „Þessar breytingar endurspegla efnahagsbreytingar og tækniframfarir.“
Gallupkönnunin leiddi til dæmis í ljós að í velmegunarlöndum var atvinna „nokkuð neðarlega á listanum“ yfir það sem mestu máli skipti í lífinu. En í þróunarlöndunum var atvinna efst á listanum. Já, lífsbjörgin er forgangsmál hjá fátækum. Þegar efnahagsvelmegun eykst fær heilsan, hamingjusamt fjölskyldulíf og sjálfstjáning meiri forgang.
Þróunarlöndin verða óhjákvæmilega fyrir áhrifum af þessum gildum vegna þeirrar tækniframfara sem eiga sér stað. Tímaritið The Futurist segir: „Trú okkar og lífsgildi mótast af því sem við sjáum og heyrum.“ Fjölmiðlarnir hafa haft gífurleg áhrif á vestræn gildi. The Futurist heldur áfram: „Þessir miðlar hafa áhrif á allan heiminn.“
Hvaða breytingar sjáum við á hegðun manna og viðhorfum? Hvaða áhrif hafa þessar breytingar á gildum manna á þig og fjölskyldu þína?