Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lífsvökvinn dýrmæti — vatnið

Lífsvökvinn dýrmæti — vatnið

Lífsvökvinn dýrmæti — vatnið

SAMVERSK kona var að sækja vatn í brunn þegar Jesús sagði henni frá vatni sem gæti veitt eilíft líf. (Jóhannes 4:14) Jesús var reyndar að tala um vatn í táknrænni merkingu, en bókstaflegt vatn er mikilvægasta efnið sem við þurfum til að viðhalda lífinu, næst á eftir súrefni. Við getum lifað nokkrar vikur án matar en aðeins um fimm daga án vatns.

Næstum þrír fjórðu hlutar líkamsþyngdarinnar er vatn. Í heilanum er hlutfall vatns til dæmis 75 til 85 af hundraði og í vöðvunum er það 70 af hundraði. Vatnið hjálpar líkamanum meðal annars að melta og vinna næringarefni úr fæðunni og flytja þau til frumnanna. Það fjarlægir eiturefni og annars konar úrgang, smyr liðamót og ristil, og jafnar líkamshita. En vissirðu að við getum líka lést með því að drekka nógu mikið af vatni?

Drekktu vatn til að léttast

Í vatni eru engar hitaeiningar. Það inniheldur enga fitu eða kólesteról og lítið natríum. Þar að auki dregur það úr matarlyst og hjálpar líkamanum að brenna fitu. Hvernig þá? Ef nýrun fá ekki nægilega mikið vatn geta þau ekki starfað eðlilega. Þá þarf lifrin að hlaupa í skarðið og kemur það í veg fyrir að hún geti brennt fitu sem skyldi. Fitan geymist þá í líkamanum og við þyngjumst. Þess vegna segir Donald Robertson læknir hjá Southwest Bariatric Nutrition Center í Arizona í Bandaríkjunum að „hæfileg neysla vatns sé lykill að því að léttast. Ef fólk drekkur ekki nóg af vatni þegar það reynir að léttast getur líkaminn ekki brennt fitunni nægilega vel.“

Ástæðan fyrir því að við þyngjumst getur líka verið sú að vökvi safnast fyrir í líkamanum. Þeir sem eiga við þann vanda að glíma halda oft að lausnin sé sú að draga úr neyslu vatns. Mergur málsins er hins vegar sá að þegar líkamann skortir vatn reynir hann að halda í hvern einasta vatnsdropa með því að binda vökva til dæmis í fótum og höndum. Þess vegna mæla næringarfræðingar með því að við gefum líkamanum það sem hann þarfnast — nóg af vatni. Og mundu að því meira salt sem þú borðar þeim mun meira vatn bindur líkaminn í sér til að losa sig við saltið.

Gefðu líkamanum vatn

Húðin, lungun, þarmarnir og nýrun losa líkamann við að meðaltali um tvo lítra af vatni á hverjum degi. Við missum um hálfan lítra á dag aðeins með því að anda frá okkur. Og ef við gerum ekkert til að bæta upp þetta tap fer líkamann að skorta vatn. Merki þess að okkur skortir vökva er að við þolum illa hita, fáum höfuðverk, finnum fyrir þreytu og vöðvaeymslum, verðum þurr í munni og augum og þvagið verður dökklitað.

En hversu mikið vatn ættum við að drekka? Howard Flaks, læknir og sérfræðingur um offitu, segir: „Heilbrigð manneskja ætti að drekka að minnsta kosti átta til tíu 250 millilítra glös af vatni á dag. Hún þarf meira vatn ef hún stundar mikla líkamsþjálfun eða býr í heitu loftslagi. Og þeir sem eru of þungir ættu að drekka eitt glas aukalega á hver 10 kíló sem eru umfram kjörþyngd þeirra.“ Hins vegar segja sumir að það sé nóg að drekka vatn þegar maður er þyrstur. En ef við erum mjög þyrst getur það einmitt verið merki þess að við höfum þegar orðið fyrir þó nokkru vökvatapi.

Kemur einhver annar vökvi í staðinn fyrir vatn? Grænmetis- og ávaxtadrykkir, þynntir með vatni, eru í lagi en þeir eru samt ekki hitaeiningalausir. Og drykkir, sem innihalda mikið magn af sykri og mjólk, gera það að verkum að líkamann vantar meira vatn til að melta. Áfengi og drykkir sem innihalda koffín, eins og kaffi og te, eru vökvalosandi og þarf því að drekka meira vatn til að bæta upp þann vökva sem tapast hefur. Það er því ekkert sem kemur í staðinn fyrir vatnið, þennan dýrmæta vökva. Væri því ekki tilvalið að fá sér eitt vatnsglas núna?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 29]

Hvernig getum við aukið vatnsneysluna?

● Hafðu alltaf vatnsflösku við höndina.

● Drekktu eitt glas með hverri máltíð.

● Drekktu vatn fyrir og eftir líkamsþjálfun og meðan á henni stendur.

● Drekktu vatn í staðinn fyrir kaffi í kaffitímanum.

● Bragðbættu vatnið með sítrónusafa.

[Mynd credit line á blaðsíðu 28]

Mynd: www.comstock.com