Stjórn sem heldur á loft andlegum gildum
Stjórn sem heldur á loft andlegum gildum
HUGSAÐU þér heim þar sem væri aðeins ein stjórn yfir öllum mönnum af öllum kynþáttum og tungumálum. Hugsaðu þér stjórn sem væri þekkt fyrir að standa vörð um hin háleitustu gildi og fyrir að uppræta styrjaldir, hatur, glæpi, fátækt, mengun, veikindi og jafnvel dauðann!
,Þetta væri yndislegt, en það er ómögulegt,‘ kannt þú að segja. En þetta er ekki ómögulegt heldur í raun óumflýjanlegt. Jesús Kristur lofaði slíkri stjórn og kenndi fylgjendum sínum að biðja um hana: „En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ —Þetta eru kunnugleg orð því að milljónir manna víðs vegar um heiminn kunna þessa bæn eða hafa heyrt um hana. En hefurðu einhvern tíma hugleitt hvað þessi orð merkja í raun og veru? Taktu eftir að ríkið tengist því að vilji Guðs sé gerður á jörðinni. Hvað er ríki Guðs? Og hver er vilji Guðs með jörðina?
Hvað er Guðsríki?
Guðsríki er verkfæri Jehóva Guðs til að beita alheimsdrottinvaldi sínu. Jesús Kristur, sonur hans, er konungur þessa ríkis. Sálmur 37:10, 11 segir skýrt og greinilega um vilja Guðs með jörðina: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“
Ef þú finnur fyrir vonleysi vegna þess hve gildum manna fer hrakandi geturðu hert upp hugann. Biblían lofar að bráðlega eigi sér stað róttækar breytingar á ástandinu í heiminum og á lífsgildum manna. Við getum verið fullviss um að Guðsríki muni innan skamms ríkja yfir jörðinni og halda uppi þeim gildum sem Jehóva setur.
Við getum fundið til meira öryggis með því að læra að treysta loforðunum um Guðsríki. Hugsaðu um þau gildi sem þessi stjórn mun halda á loft: „Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu. Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ (Sálmur 46:9, 10) Þetta er dásamlegt loforð um frið og öryggi.
Í Sálmi 72:12-14 er sagt um konung Guðsríkis, Jesú Krist: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“
Biblíuleg gildi
Lítum á nokkur af þeim gildum sem Biblían hvetur til: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína því að himnaríkið tilheyrir þeim.“ (Matteus 5:3, NW) Og annað: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — Orðskviðirnir 3:5, 6.
Biblían bendir líka á að við berum öll ábyrgð á því hvaða gildum við kjósum að lifa eftir. Prédikarinn 11:9 segir: „Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.“ Ábyrgðinni er greinilega lýst í Orðskviðunum 2:21, 22: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“
Það er uppörvandi að hafa þessa von um réttláta stjórn og þess vegna er það okkur til góðs að mynda náið vináttusamband við Guð. Það er mjög gagnlegt að umgangast þá sem langar líka til að vera þegnar Guðsríkis. Það auðveldar okkur að lifa þannig að við fáum að vera undir þessari dýrlegu stjórn og njóta ávaxtanna af þeim háleitu gildum sem hún stendur fyrir.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hinir hógværu „fá landið til eignar“ og „gleðjast yfir ríkulegri gæfu“. — SÁLMUR 37:11.