Nauðlending!
Nauðlending!
CÉSAR MUÑOZ SEGIR FRÁ
Eftir ánægjulega heimsókn til fjölskyldu minnar í borginni Monterrey í Mexíkó var ég tilbúinn til að fara aftur á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Mexíkóborg þar sem ég þjóna. Þetta var sunnudaginn 1. desember árið 2002. Ég steig um borð í flug 190 og við fórum í loftið klukkan 19:00.
EFTIR að hafa flogið í um einn og hálfan tíma fórum við að lækka flugið. Allt hafði gengið snurðulaust fyrir sig en skyndilega hækkaði vélin flugið hratt og öllum var brugðið þegar ægilegur hávaði heyrðist neðan úr henni. Síðan tilkynnti flugstjórinn að hlífarnar fyrir lendingarhjólunum hefðu ekki opnast. Þær stóðu á sér. Sumir farþeganna grétu af hræðslu. Aðrir báðu upphátt. Ég fór að velta fyrir mér hvað myndi gerast.
Flugstjórinn sagði okkur að hann ætlaði að reyna að losa hlífarnar með því að hrista vélina til. Þegar við flugum yfir Mexíkóborg rykkti hann vélinni upp og niður og til hliðanna í um klukkutíma. Þetta var verra en nokkur rússíbani sem ég hef farið í. Og auðvitað var það engin skemmtun. Flugstjórinn tilkynnti síðan: „Því miður opnuðust hlífarnar ekki. Það eina sem við getum gert er að nauðlenda án lendingarhjóla.“ Við horfðum öll örvæntingarfull hvert á annað og bjuggumst við því versta.
Við fengum leiðbeiningar um hvað við ættum að gera í nauðlendingu. Við fórum úr skónum, fjarlægðum allt sem gæti valdið meiðslum og settum okkur í þá stellingu sem mælt var með. Ég var viss um að við myndum brotlenda á flugbrautinni. Ég bað til Jehóva Guðs og fylltist innri ró. — Filippíbréfið 4:6, 7.
Ég hafði alltaf heyrt að þegar maður er við það að deyja fljúgi ævin í gegnum hugann og maður hugsi með eftirsjá um allt sem maður hefði átt að gera. Ég sá eftir því að hafa ekki talað um Guðsríki við stelpuna sem sat við hliðina á mér. Ég einsetti mér að ef ég lifði af ætlaði ég að nýta hvert tækifæri sem gæfist til að vitna um trúna. Ég velti líka fyrir mér í fljótu bragði hvort ég þjónaði Jehóva eftir bestu getu.
Þegar vélin lækkaði flugið sá ég slökkviliðsbíla, sjúkrabíla og mikið af fólki í viðbragðsstöðu. Höggið var gríðarlegt þegar vélin magalenti. Hún rann eftir flugbrautinni og mikið neistaflug varð vegna núnings málmsins við brautina. Slökkviliðsbílar báðum megin flugbrautarinnar úðuðu strax vatni yfir vélina til að kæla hana niður.
Loks nam vélin staðar eftir nokkur kvíðaþrungin augnablik. Það braust út ákaft lófatak. Okkur var öllum stórlega létt að flugstjóranum skyldi hafa tekist að koma okkur heilum og höldnum niður á jörðina. Síðan var okkur sagt að yfirgefa vélina þegar í stað. Við fórum snarlega að útgöngunum og renndum okkur niður brattar neyðarrennurnar á grasið milli flugbrautanna.
Ég stóð í öruggri fjarlægð og horfði á vélina sem lá þversum á flugbrautinni. Ég skalf við tilhugsunina um það sem hefði getað gerst. Sem betur fer slösuðust mjög fáir og það aðeins lítillega. Aðrir fengu áfallahjálp í nálægum sjúkrabílum.
Ég hafði ætlað mér að vera kominn heim um klukkan níu um kvöldið. Mér seinkaði um fjóra tíma en ég var mjög þakklátur fyrir að vera á lífi. Þessi lífsreynsla hefur fengið mig til að hugsa um hverfulleika lífsins. Maður finnur fyrir smæð sinni þegar maður áttar sig á því að allt getur horfið á svipstundu. Þegar líf manns hangir á bláþræði getur verið um seinan að bæta ráð sitt eða byggja upp gott mannorð hjá Guði með góðum verkum. Núna met ég mun meira en áður að hafa tækifæri til að nota líf mitt viturlega og þjóna Jehóva, Guði mínum, eins vel og ég get á hverjum degi. — Sálmur 90:12.