Horft á heiminn
Horft á heiminn
Stórkostleg fjölbreytni í hafinu
„Sjávarlíffræðingar frá ýmsum löndum uppgötva rúmlega 30 nýjar tegundir á viku,“ segir í þýska dagblaðinu Leipziger Volksezeitung. Tilkynning þessi kom fram í fyrstu skýrslu um talningu á sjávarlífverum. Þetta er tíu ára verkefni um 300 vísindamanna frá 53 löndum sem hófst árið 2000. Í blaðinu segir að vísindamennirnir álíti að „líklega séu yfir tvær milljónir dýra- og jurtategunda í hafinu. Ef til vill eru rösklega 95 af hundraði dýrategunda hafsins enn þá óþekktar.“
Svefnleysi er blekkjandi
„Fólk, sem kemst af með lítinn svefn, gerir sér oft ekki grein fyrir því að það á æ erfiðara með að hugsa og finnst það ekkert sérstaklega syfjað.“ Þetta kemur fram í tímaritinu Science News. Tveggja vikna rannsókn á 48 sjálfboðaliðum á aldrinum 21 til 38 ára leiddi í ljós að stöðugt svefnleysi dregur á örfáum dögum úr hæfni hugans, árvekni og snerpu. Sjálfboðaliðarnir höfðu allir sofið að meðaltali sjö til átta tíma á hverri nóttu en í rannsókninni var þeim skipt í fjóra hópa. Þátttakendur þriggja hópa fengu ýmist að sofa í átta, sex eða fjóra tíma á nóttu. Fjórði hópurinn fékk ekki að sofa neitt í þrjá sólarhringa. Prófanir sýndu fram á stöðugt minni getu bæði hjá sex og fjögurra tíma hópunum en enga skerðingu hjá þeim sem sváfu í átta tíma.
Trúlaus prestur
Á síðasta ári fékk lúterski presturinn Thorkild Grosbøl í Tårbæk-sókninni í nánd við Kaupmannahöfn mikla athygli þegar hann sagði að það væri „enginn himneskur Guð, ekkert eilíft líf og engin upprisa“. Samkvæmt fréttastofunni BBC News var honum vikið úr starfi um stuttan tíma en síðan var hann endurráðinn sem prestur. Lise-Lotte Rebel, biskup í biskupsdæminu á Helsingjaeyri, sagði að hann hefði „beðist afsökunar á ummælum sínum“ og viðurkennt skyldur sínar gagnvart kirkjunni. Grosbøl hélt samt áfram að prédika á svipuðum nótum. Í júní 2004 sagði biskupinn að ef Grosbøl segði ekki af sér þyrfti að ákveða fyrir dómstóli hvort hann fengi að starfa áfram sem prestur.
Þunglyndi karlmanna
„Eitt af því dapurlegasta við þunglyndi er goðsögnin, sem löngum hefur verið við lýði, að þunglyndi sé að mestu leyti ‚kvennakvilli‘ og að ‚sannir karlmenn‘ séu erfðafræðilega varðir gegn því.“ Þetta segir í fréttablaðinu The Star í Jóhannesarborg. „Sérfræðingar segja að þunglyndi komi ekki í ljós hjá karlmönnum því að þeir leiti sjaldnar til læknis en konur. Þeir fái því færri tækifæri til að tala um vandamál sín“ og geti síður „talað um tilfinningalega vanlíðan“. Læknar þekkja því betur algeng einkenni hjá konum sem þjást af þunglyndi. „Hjá konum birtast þunglyndiseinkennin allt öðruvísi en hjá körlum,“ er útskýrt í læknatímaritinu JAMA. Hver eru algengustu þunglyndiseinkenni hjá karlmönnum? Reiði, þreyta, skapstyggð, árásarhneigð, versnandi vinnubrögð og tilhneiging hins þjáða til að einangra sig frá ástvinum og félögum. „Þunglyndi birtist ekki alltaf í depurð — sérstaklega ekki hjá karlmönnum,“ segir í Reader‘s Digest sem gefið er út í Suður-Afríku.