Litið við á glereyjunni
Litið við á glereyjunni
Eftir fréttaritara Vaknið! á Ítalíu
HANDVERKSMAÐURINN setur blásturspípuna inn í gægjugatið á drynjandi bræðsluofninum. Bráðið glerið, sem hann tekur út, er rauðglóandi eins og sólin þegar hún er að setjast. Fíngerður, glóandi þráður sést um stutta stund milli ofnsins og pípunnar og hverfur svo. Handverksmaðurinn veltir bráðnu glerinu á borði úr málmi og kúlan verður sívalningslaga. Hann blæs snöggt í pípuna þannig að glerið þenst út, veltir því svo aftur, lyftir því, skoðar það og stingur svo aftur inn í eldinn.
Við erum stödd á lítilli eyju á Feneyjalóni. Hún heitir Murano og er fræg fyrir glervörur sínar. Glerblástur hefur verið stundaður á svæðinu í meira en 1000 ár og á nágrannaeyjunni Torcello eru leifar glersmiðju frá sjöundu öld. En fyrstu vísbendingarnar um gleriðnað í sjálfum Feneyjum er að finna í skjali frá 982 þar sem „Domenicus glerblásari“ var vitundarvottur.
Árið 1224 gerðu glerblásarar í Feneyjum með sér félag. Árið 1291 skipuðu stjórnvöld í Feneyjum svo fyrir að glerbræðsluofnar skyldu fluttir frá borginni, ef til vill af öryggisástæðum. Margir voru fluttir hingað til Murano, sem liggur um kílómetra frá landi, og hafa þeir verið þar síðan.
Hvers vegna frægt?
Hvers vegna er glerið frá Murano eða Feneyjum svona sérstakt þar sem glerblástur hefur verið stundaður frá alda öðli víðs vegar í heiminum? Talið er að glerblásarar á þessu svæði hafi náð framúrskarandi árangri í að fága list sína sökum þess að Feneyjar áttu mikil samskipti við önnur svæði þar sem glerblástur átti sér langa sögu, eins og Egyptaland, Fönikíu, Sýrland og Korintu á dögum Býsansríkisins. Svo virðist sem elstu glersmiðjur í Feneyjum, sem vitað er um, hafi sótt margar af aðferðum sínum og hugmyndum til glerblásara í austri. Þær aðferðir, sem notaðar voru í Murano, komu glerblásturslistinni á hærra stig en þekktist annars staðar í Evrópu.
Á 13. og 14. öld voru Feneyjar „eina miðstöð glergerðar [í Evrópu] sem var fær um að framleiða ,listaverk‘ úr blásnu gleri“, segir í bókinni Glass in Murano. Vörur frá Feneyjum voru seldar víða um lönd — við austanvert Miðjarðarhaf og í Norður-Evrópu. Árið 1399 leyfði Ríkharður konungur annar á Englandi að glermunir væru seldir í tveim galeiðum frá Feneyjum sem voru bundnar við höfnina í London. Á sama tímabili komust glermunir frá Feneyjum í eigu franskra aðalsmanna. Með tímanum varð Murano þekkt meðal annars fyrir spegla, ljósakrónur, litaða glermuni, gull- og glerungsskreytingar, kristalla, eftirlíkingar af gimsteinum, bikara með skrautlegum stilk og muni með fínu munstri.
Feneyjamenn reyndu allt hvað þeir gátu til að varðveita leyndardóm iðnarinnar og koma í veg fyrir samkeppni um framleiðslu vandaðra glermuna. Strax á 13. öld var glerblásurum bannað að flytja í burtu. Gerðar voru sífellt fleiri varúðarráðstafanir og aðeins þeim sem höfðu fullan ríkisborgararétt var leyft að vinna sem glerblásarar eða lærlingar. Um tíma var glerblásurum, sem flýðu svæðið og náðust, gert að greiða háar fjársektir og róa galeiðu í fimm ár með fætur í járnum.
Þrátt fyrir þessar aðgerðir komust glerblásarar úr landi. Þeir fóru til staða víðs vegar á Ítalíu og í Evrópu og hófu samkeppni við Murano með því að framleiða sömu vörurnar með sömu aðferðunum. Í mörgum tilfellum er ógerningur að greina á milli framleiðslu þeirra og glerblásara í Murano. Þessar vörur voru kallaðar à la façon de Venise eða Feneyjastíll.
Listfengi Feneyinga náði hátindi á 15. og 16. öld. Frá Murano komu ýmsir skrautmunir á borð við blásinn kristal, málað smelt, ógegnsætt lattimo (hvítt gler) og reticello (blúndumunstrað gler), svo fátt eitt sé nefnt. Murano réð yfir markaðnum og glervörur þaðan voru jafnvel á borðum konunga.
Sagnfræðingur, sem sérhæfir sig í glerlistasögu, segir að í þá daga hafi „forvitinn ferðalangur, sem kom í lónið á þeim tíma þegar bræðsluofnarnir voru í gangi, ekki viljað missa af því að sjá þá“. Og það viljum við ekki heldur. Þess vegna förum við í vaporetto, vélbát sem flytur fólk frá Canàle Grande til Murano. Viltu ekki slást í för með okkur?
Bræðsluofnar og sýningarsalir
Þegar við stígum frá borði við fyrsta viðkomustaðinn í Murano er okkur vísað á næstu glersmiðjur þar sem við getum séð ókeypis sýnikennslu á glerblæstri. Við horfum á þegar glerblásari blæs og sveiflar kúlu úr bráðnu gleri þangað til úr verður ílöng glerblaðra á enda blásturspípunnar. Með æfðum hreyfingum notar hann tengur og skæri til að toga, teygja og klippa ómótaðan massann þar til úr verður haus, fætur og fax á stólpagæðingi.
Við yfirgefum fyrstu smiðjuna og röltum meðfram Rio dei vetrai, glerblásaraskurðinum, þar sem eina umferðin er á gangstéttunum og á vatninu eins og víðast hvar í Feneyjum. Við komumst að raun um að í Murano er ógrynni af glervinnustofum og sýningarsölum. Sums staðar eru sýndir vandaðir munir, testell, lampar og tilkomumiklar styttur úr gegnheilu gleri, sem án efa krefjast mikillar færni og nákvæmni í framleiðslu.
Annars staðar eru seldir hlutir á viðráðanlegra verði, allt frá perlum upp í vasa og marglitar bréfapressur. Margir eru mjög fallegir og allir handunnir.Við heillumst af því hvernig hinir ýmsu hlutir eru búnir til. Glerið frá Murano, sem er 70 prósent sandur og 30 prósent natríumkarbónat, kalksteinn, nítrat og arsenik, er fljótandi við 1400 gráður á Celsíus en er orðið stíft við um 500 gráður. Við rétt hitastig á milli þessara tveggja er glerið mjúkt og mótanlegt. Þess vegna þarf að setja gler reglulega inn í eldinn til að halda því mjúku svo að hægt sé að blása það og móta. Glerblásarar sitja á bekkjum milli láréttra arma sem þeir nota til að velta blásturspípunni á. Um leið og þeir velta pípunni með annarri hendinni móta þeir glerið með hinni og nota til þess verkfæri eða mjög hitaþolið mót úr peruviði sem er gegnumvættur.
Við fylgjumst með þegar glerblásari blæs glerkúlu inn í rifflað mót, lætur aðstoðarmann skera endann af kúlunni og síðan snarsnýr hann blásturspípunni til að kúlan opnist eins útsprungið blóm. Hann heldur áfram að hita og móta og snyrtir kantinn með töngum svo að úr verður liljulaga skermur fyrir ljósakrónu.
Til að lita glært gler dreifir handverksmaðurinn lituðu dufti yfir það. Duftið bráðnar og blandast glerinu. Murrine-aðferðin er notuð til að gefa hlutnum blómablæ. Þá er bætt við þunnum skífum sem búnar eru til úr glerstöngum með lituðu munstri út í gegn. Glerstöngum eða sneiðum af þeim er raðað saman á málmborð og sívalningslaga glermassa er síðan velt yfir þær svo að þær þekja hann. Þegar glermassinn er settur aftur í ofninn bráðna þessar stengur eða sneiðar, sem geta verið marglitaðar, blúndumunstraðar eða spírallaga, og samlagast glermassanum. Síðan er hægt að blása vasa, lampa eða hvaða form sem er úr þessum massa. Til að gera hluti úr þykku efni er þeim dýft í mismunandi bræðslupotta til að bæta utan á þá lögum af lituðu eða glæru gleri.
Já, allir munirnir virðast eiga sér sögu að baki og ákveðna tækni. Svo er aldagömlum hefðum fyrir að þakka að glerblásarar á hinni sögufrægu eyju Feneyja geta notað eld til að breyta sandi í falleg og glitrandi listaverk.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Rio dei vetrai, Murano, Ítalíu.
[Mynd á blaðsíðu 16]
„Barovier bikar“ frá 15. öld.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Handskorinn bikar frá 16. öld.
[Myndir á blaðsíðu 17]
1. Gægjugatið
2. Glerblásari mótar glermassa.
3. Glerið er endurhitað til að mykja það.
4. Glerblásarinn notar tengur og skæri tl að mynda fætur á gæðinginn.
5. Fullklárað verk.
[Credit line]
Myndir: Með góðfúslegu leyfi http://philip.greenspun.com.