Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Spænskir skattgreiðendur eiga sjálfir að ráðstafa hálfu prósenti af sköttunum sínum annaðhvort til góðgerðasamtaka eða kaþólsku kirkjunnar. Jafnvel þótt 80 prósent Spánverja aðhyllist kaþólska trú velja aðeins 20 prósent að framlagið renni til kirkjunnar. — EL PAÍS, SPÁNI.

„Karlmenn um þrítugt, sem reykja, stytta lífslíkurnar um 5 12 ár en konur á sama aldri um meira en 6 12 ár“. Þetta kemur fram í ævilengdartöflum frá tryggingafræðistofunni Institute of Actuaries. Þeir sem hætta að reykja um þrítugt draga hins vegar verulega úr líkunum á að deyja úr sjúkdómum tengdum reykingum. — THE TIMES, ENGLANDI.

Olíunotkun á heimsvísu jókst um 3,4 prósent á árinu 2004 og fór að lokum upp í 82,4 milljónir tunna á dag. Helming aukningarinnar er hægt að skrifa á reikning Bandaríkjanna og Kína en þessi lönd nota nú annars vegar 20,5 milljónir og hins vegar 6,6 milljónir tunna af olíu á dag. — VITAL SIGNS 2005, WORLDWATCH INSTITUTE.

„Vertu móður þinni þakklátur“

Þegar gert var mat á störfum heimavinnandi húsmæðra í Kanada var áætlað að ef húsmóðir með tvö börn fengi borgað fyrir alla þá þjónustu, sem hún innir af hendi, myndu árstekjur hennar, að yfirvinnu meðtalinni, nema sem svarar um rúmlega 8 milljónum íslenskra króna. Samkvæmt dagblaðinu Vancouver Sun er upphæðin reiknuð með hliðsjón af meðallaunum og 100 stunda vinnuviku sem skiptist í sex 15 stunda vinnudaga og einn 10 stunda vinnudag. Meðal verkefna, sem hvíla á heimavinnandi húsmóður, eru daggæsla barna, kennsla, akstur, heimilisþrif, eldamennska, hjúkrun og almenn viðhaldsstörf. Dagblaðið gefur eftirfarandi heilræði: „Vertu móður þinni þakklátur, hún fær líklega of lítið borgað.“

Ósamræmi í siðferðisgildum unglinga

Ungir Finnar eru í auknum mæli „að búa til sína eigin siðferðisstaðla“ segir í fréttapistli frá háskólanum í Jyväskylä í Finnlandi. Það er alvanalegt nú til dags að „móta sína eigin trú með því að taka eitthvað hér og eitthvað þar eins og um búðarferð væri að ræða“ segir í pistlinum. Árangurinn er stundum mótsagnarkenndur. Unga fólkinu þykir til dæmis mikilvægt að auði sé réttlátlega skipt og að allir búi við hagsæld en „trúa um leið á blygðunarlausa og harðskeytta samkeppni“.

Dreymir um tággrannan líkama

Rannsóknir sýna að „jafnvel fimm ára gamlar stúlkur eru óánægðar með líkamsvöxt sinn og vildu helst að þær væru grennri“. Þetta segir dagblaðið The Sydney Morning Herald og vitnar í skýrslu um rannsókn sem gerð var á stúlkum á aldrinum fimm til átta ára. Nær helmingur stúlknanna vildi verða grennri og svipaður fjöldi sagðist „myndi fara í megrun ef þær bættu á sig“. Einn rannsóknarmannanna benti á að villandi hugmyndir um líkamsvöxt „gætu leitt til lágs sjálfsmats, þunglyndis og átraskana seinna á ævinni“.

Vopn og stríð

Þegar kalda stríðinu lauk dróst hergagnaiðnaðurinn saman. En á undanförnum árum hefur hann blómstrað á ný. Alþjóðafriðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi (SIPRI) segir hernaðarútgjöld heims hafa numið þúsund milljörðum Bandaríkjadala árið 2004. Það samsvarar rúmlega 10.000 krónum á hvert mannsbarn í heiminum. Að sögn SIPRI voru 19 stríð háð árið 2004 sem kostuðu yfir 1.000 mannslíf hvert. Sextán þeirra höfðu varað í meira en áratug.