Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver var fyrsta syndin?

Hver var fyrsta syndin?

Sjónarmið Biblíunnar

Hver var fyrsta syndin?

ÞESSI spurning er langt frá því að vera bara fræðilegs eðlis vegna þess að óhlýðni Adams og Evu hafði áhrif á allt mannkynið og hefur enn. Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) En hvernig gat það haft svona hörmulegar afleiðingar að taka ávöxt af einu tré og borða hann?

Þegar Guð skapaði Adam og Evu setti hann þau í fallegan garð fullan af matjurtum og ávaxtatrjám. Þeim var aðeins bannað að borða af einu tré — „skilningstrénu góðs og ills“. Þau gátu ákveðið að hlýða Guði eða óhlýðnast honum þar sem þau höfðu frjálsan vilja. Adam fékk samt þessa viðvörun: „Jafnskjótt og þú etur af [skilningstrénu], skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 1:29; 2:17.

Viðeigandi bann

Það var ekki erfitt að virða þetta eina bann. Adam og Eva gátu borðað af öllum öðrum trjám í garðinum. (1. Mósebók 2:16) Og bannið var hvorki þess eðlis að þeim væru ætlaðar rangar tilhneigingar með því né að þau væru rænd reisn sinni. Ef Guð hefði lagt bann við einhverri ónáttúru, grimmd eða morði gætu einhverjir haldið því fram að fullkomið fólk hefði haft auvirðilegar tilhneigingar sem þyrfti að halda í skefjum. Það var hins vegar alveg sjálfsagt og eðlilegt að borða.

Var forboðni ávöxturinn kynmök eins og sumir álíta? Biblían styður ekki þá skoðun. Í fyrsta lagi var Adam einsamall þegar Guð setti bannið og var það eitthvað áfram. (1. Mósebók 2:23) Í öðru lagi sagði Guð Adam og Evu að ‚vera frjósöm, margfaldast og uppfylla jörðina‘. (1. Mósebók 1:28) Hann hefði áreiðanlega ekki fyrirskipað þeim að brjóta lög sín og dæmt þau síðan til dauða fyrir það. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Í þriðja lagi borðaði Eva af ávextinum á undan Adam og gaf síðan honum. (1. Mósebók 3:6) Ávöxturinn var greinilega ekki kynmök.

Seilst eftir siðferðilegu sjálfstæði

Skilningstréð var bókstaflegt tré. En það táknaði rétt Guðs til að fara með stjórn og ákveða hvað væri gott og illt fyrir mennskar sköpunarverur sínar. Að borða af ávexti trésins var því meira en þjófnaður, það er að segja að taka það sem tilheyrði Guði. Það var ósvífin tilraun til að verða siðferðilega óháður Guði. Taktu eftir að þegar Satan hafði logið því að Evu að hún og maður hennar myndu „vissulega . . . ekki deyja“ fullyrti hann: „Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills“. — 1. Mósebók 3:4, 5.

Adam og Eva fengu samt engan guðlegan skilning um gott og illt þegar þau borðuðu af ávextinum. Eva sagði reyndar við Guð: „Höggormurinn tældi mig“. (1. Mósebók 3:13) Hún vissi þó alveg af boði Guðs og endurtók það meira að segja við höggorminn, málpípu Satans. (Opinberunarbókin 12:9) Hún óhlýðnaðist því af ásettu ráði. (1. Mósebók 3:1-3) Adam lét hins vegar ekki tælast. (1. Tímóteusarbréf 2:14) Hann hlustaði á konu sína og fylgdi sjálfstæðisstefnu hennar í stað þess að hlýða trúfastur skapara sínum. — 1. Mósebók 3:6, 17.

Með því að lýsa yfir sjálfstæði sínu sköðuðu Adam og Eva samband sitt við Jehóva óbætanlega og settu mark syndarinnar á líkama sinn, alveg niður í erfðaefni hans. Þau lifðu að vísu í margar aldir en „jafnskjótt“ og þau syndguðu byrjuðu þau að deyja rétt eins og trjágrein sem er skorin af stofninum. (1. Mósebók 5:5) Þar að auki skorti þau í fyrsta sinn innri frið. Þeim fannst þau vera berskjölduð og reyndu að fela sig fyrir Guði. (1. Mósebók 3:7, 8) Þau fundu einnig fyrir sektarkennd, óöryggi og skömm. Syndin kom róti á tilfinningar þeirra því að samviskan nagaði þau fyrir að syndga.

Guð var trúr heilögum mælikvarða sínum og réttlátur þegar hann dæmdi Adam og Evu til dauða og rak þau út úr Edengarðinum. (1. Mósebók 3:19, 23, 24) Þar með voru paradís, hamingja og eilíft líf horfin en synd, þjáning og dauði komin til sögunnar. Þetta var sorgleg þróun mála fyrir mannkynið. En strax eftir að Guð kvað upp dóm yfir fyrstu hjónunum lofaði hann að afmá allan skaða sem syndin olli. Hann gerði það samt þannig að það stangaðist ekki á við réttlátan mælikvarða hans.

Jehóva ákvað að gera afkomendum Adams og Evu kleift að losna undan valdi syndar og dauða. Hann kom því til leiðar fyrir milligöngu Jesú Krists. (1. Mósebók 3:15; Matteus 20:28; Galatabréfið 3:16) Fyrir milligöngu hans mun Guð afmá syndina ásamt öllum áhrifum hennar og gera jörðina alla að paradís eins og hann ætlaði í upphafi. — Lúkas 23:43; Jóhannes 3:16.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hvernig vitum við að forboðni ávöxturinn var ekki kynmök? — 1. Mósebók 1:28.

◼ Hvað táknaði það að borða forboðna ávöxtinn? — 1. Mósebók 3:4, 5.

◼ Hvaða ráðstafanir hefur Guð gert til að afmá áhrif syndarinnar? — Matteus 20:28.

[Innskot á blaðsíðu 15]

Forboðni ávöxturinn var ekki kynmök.

[Mynd á blaðsíðu 14, 15]

Eva vildi vera eins og Guð og ákveða sjálf hvað væri gott og illt.