Blóðgjafir — eiga þær framtíð fyrir sér?
Blóðgjafir — eiga þær framtíð fyrir sér?
„Blóðgjafarfræðin er og verður ekki ósvipuð því að ganga um regnskóg í hitabeltinu þar sem þekktar slóðir eru greiðfærar þó að sýna þurfi ýtrustu aðgát, en nýjar og óþekktar hættur geta leynst við næstu beygju ef maður er ekki varkár.“ — Ian M. Franklin prófessor í blóðgjafarfræði.
EFTIR að alnæmisfaraldurinn beindi athygli almennings að blóði á níunda áratug síðustu aldar var leitin að ‚óþekktum hættum‘ blóðs hert til muna. Engu að síður eru enn þá mörg ljón á veginum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin viðurkenndi í júní 2005: „Líkurnar á að blóðgjöf sé örugg . . . eru gríðarlega mismunandi eftir löndum.“ Hvernig stendur á því?
Margar þjóðir hafa ekkert samræmt kerfi til að tryggja að fylgt sé góðum öryggisreglum um söfnun, skimun og flutning blóðs og blóðhluta. Stundum eru blóðbirgðir jafnvel geymdar við hættulegar aðstæður — í lélegum kæliskápum sem ætlaðir eru til heimilisnota og í kæliboxum undir matvæli! Ef engar öryggisreglur eru í gildi geta sjúklingar beðið skaða af blóði frá manneskju sem býr í hundruða eða jafnvel þúsunda kílómetra fjarlægð.
Ósýkt blóð er torsótt markmið
Sumar þjóðir halda því fram að blóðbirgðir sínar hafi aldrei verið öruggari en núna. Engu að síður er ástæða til að sýna ýtrustu aðgát. Í sameiginlegu dreifibréfi Samtaka bandarískra blóðbanka, Blóðbankaþjónustu Bandaríkjanna og Bandaríska rauða krossins, segir á fyrstu blaðsíðu: „VIÐVÖRUN: Þar sem heilblóð og blóðhlutar eiga uppruna sinn í mannslíkamanum er hugsanlegt að þeir geti innihaldið smitefni, t.d. veirur. . . . Hættan er fyrir hendi þó svo að blóðgjafar séu valdir af varfærni og tiltækum skimunaraðferðum sé beitt.“
Það er gild ástæða fyrir orðum Peters Carolans en hann er yfirmaður hjá Alþjóða rauða krossinum og Rauða hálfmánanum: „Aldrei verður hægt að tryggja að blóðbirgðir séu fullkomlega öruggar.“ Hann bætir við: „Það verða alltaf til ný smitefni sem finnast ekki við skimun.“
Segjum nú að nýtt smitefni kæmi fram á sjónarsviðið, smitefni sem bærist auðveldlega með blóði og gæti verið lengi í blóðinu án þess að finnast við skimun, rétt eins og HIV. Harvey G. Klein er læknir og starfar við Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna. Hann sagði gestum á læknaráðstefnu í Prag í Tékklandi að þetta væri alvarlegt umhugsunarefni og bætti við: „Þeir sem safna blóðhlutum yrðu varla betur undir það búnir að koma í veg fyrir farsótt, sem smitast með blóðgjöfum, heldur en menn voru þegar alnæmisfaraldurinn braust út.“
Mistök og blóðgjafarmeinsvörun
Í hinum þróuðu löndum heims er alvarlegasta hættan samfara blóðgjöfum fólgin í mannlegum mistökum og ónæmissvörunum. Kanadíska dagblaðið Globe and Mail fjallaði árið 2001 um könnun sem gerð var þar í landi. Blaðið sagði að í þúsundum tilfella hefði litlu mátt muna að illa færi vegna þess að „blóðsýni voru tekin úr röngum sjúklingi, blóðsýni voru rangt merkt og pantað var blóð fyrir rangan sjúkling“. Mistök af þessu tagi urðu að minnsta kosti 441 sjúklingi að bana í Bandaríkjunum á árabilinu 1995 til 2001.
Fólk, sem fær blóð úr annarri manneskju, tekur eiginlega sömu áhættu og fólk sem fær grætt í sig líffæri úr öðrum. Ónæmiskerfi líkamans hefur tilhneigingu til að hafna framandi vef. Í sumum tilfellum getur blóðgjöf hreinlega hindrað eðlileg ónæmisviðbrögð. Slík ónæmisbæling gerir sjúklinginn varnarlítinn gegn sýkingum í kjölfar aðgerðar og gegn veirum sem hafa verið óvirkar fram að þessu. Prófessor Ian M. Franklin, sem vitnað var til í byrjun greinarinnar, segir: „Læknar verða að hugsa sig um einu sinni, tvisvar og þrisvar áður en þeir gefa sjúklingi blóð.“
Sérfræðingar segja skoðun sína
Með slíka vitneskju í farteskinu hafa æ fleiri heilbrigðisstarfsmenn gerst gagnrýnni á blóð- og blóðhlutagjafir. Handbókin Dailey’s Notes on Blood segir: „Sumir læknar halda því fram að ósamgena blóð [blóð úr annarri manneskju] sé hættulegt lyf og að notkun þess yrði bönnuð ef það væri metið eftir sama mælikvarða og önnur lyf.“
Síðla árs 2004 sagði prófessor Bruce Spiess eftirfarandi um blóðhlutagjöf við hjartaskurðaðgerð: „Það kemur sjaldan ef nokkurn tíma fyrir að [læknisfræði-]greinar gefi til kynna að blóðhlutagjöf bæti batahorfur sjúklings.“ Hann segir jafnvel að blóðgjafir geti gert „meira ógagn en gagn í nálega öllum tilfellum nema slysatilfellum“ og þær auki „hættuna á lungnabólgu, sýkingu, hjartaáfalli og heilablæðingu“.
Það kemur mörgum á óvart að viðmið um það hvenær gefa skuli blóð eru alls ekki eins stöðluð og ætla mætti. Gabriel Pedraza læknir minnti starfsbræður sína í Síle á það fyrir nokkru að „blóðgjöf sé illa skilgreind aðferð“ þar sem „erfitt er . . . að fylgja almennt viðurkenndum viðmiðunarreglum“. Brian McClelland, sem er forstöðumaður blóðgjafarþjónustu Edinborgar og suðausturhluta Skotlands, biður lækna þar af leiðandi að „muna að blóðgjöf er líffæraflutningur og er því ekki léttvæg
ákvörðun“. Hann hvetur lækna til að íhuga spurninguna: „Myndi ég fallast á blóðgjöf ef þetta væri ég eða barnið mitt?“Sannleikurinn er sá að býsna margir heilbrigðisstarfsmenn eru svipaðrar skoðunar og blóðsjúkdómafræðingurinn sem sagði í viðtali við Vaknið!: „Við blóðgjafarfræðingar viljum helst ekki þiggja blóð eða gefa blóð.“ Hvernig ættu sjúklingar að hugsa úr því að sumir sem eru sérmenntaðir í faginu eru þessarar skoðunar?
Á læknisfræðin eftir að breyta um afstöðu?
Þér er ef til vill spurn hvers vegna blóðgjöfum sé beitt í jafnmiklum mæli og raun ber vitni fyrst þær eru svona áhættusamar, ekki síst þegar á það er litið að til eru aðrir valkostir. Ein ástæðan er sú að margir læknar eru hreinlega tregir til að breyta um aðferðir eða vita ekki af þeim aðferðum sem beitt er núna í stað blóðgjafa. „Læknar taka ákvörðun um blóðgjöf á grundvelli þess sem þeim hefur verið kennt, þess sem þeir hafa vanist og eftir ‚klínísku mati‘,“ að því er segir í grein í tímaritinu Transfusion.
Færni skurðlæknis getur einnig haft mikið að segja. Beverly Hunt, læknir í Lundúnum, segir að „blóðmissir sé afar breytilegur eftir skurðlæknum og vaxandi áhugi sé fyrir því að þjálfa skurðlækna í fullnægjandi aðferðum til að stöðva blæðingar“. Aðrir halda því fram að læknismeðferð án blóðgjafar sé of dýr en greinargerðir hafa verið birtar sem sýna hið gagnstæða. Margir læknar taka þó eflaust undir með lækningaforstjóranum Michael Rose sem segir: „Sjúklingur, sem fær læknismeðferð án blóðgjafar, fær í reynd skurðaðgerð í hæsta gæðaflokki sem völ er á.“ *
Viltu fá læknismeðferð í hæsta gæðafokki? Ef svo er áttu eitt sameiginlegt með þeim sem færðu þér þetta blað. Við hvetjum þig til að lesa áfram og kynna þér afstöðu þeirra til blóðgjafa.
[Neðanmáls]
^ Sjá rammann „Læknismeðferð án blóðgjafar“ á bls. 8.
[Innskot á blaðsíðu 6]
„Læknar verða að hugsa sig um einu sinni, tvisvar og þrisvar áður en þeir gefa sjúklingi blóð“. — Prófessor Ian M. Franklin.
[Innskot á blaðsíðu 6]
„Myndi ég fallast á blóðgjöf ef þetta væri ég eða barnið mitt?“ — Brian McClelland.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]
Bráð lugnaskemmd tengd blóðgjöf
Það var snemma á síðasta áratug sem fyrst var greint frá bráðri lungnaskemmd tengdri blóðgjöf, en hún lýsir sér sem lífshættuleg ónæmissvörun í kjölfar blóðgjafar. Vitað er að sjúkdómurinn veldur hundruðum dauðsfalla á ári. Sérfræðinga grunar hins vegar að talan sé mun hærri því að margir heilbrigðisstarfsmenn þekkja ekki einkennin. Ekki er vitað með vissu hvað það er sem veldur ónæmissvöruninni. Þó segir í tímaritinu New Scientist að blóðið, sem veldur henni, „virðist einkum vera úr fólki sem hefur komist í snertingu við marga blóðflokka, til dæmis . . . fólk sem hefur fengið margar blóðgjafir“. Í greinargerð einni segir að bráð lungnaskemmd tengd blóðgjöf sé ein af algengustu dánarorsökum sem rekja megi til blóðgjafa í Bandaríkjunum og Bretlandi og sé „alvarlegri vandi fyrir blóðbankana en alþekktir sjúkdómar á borð við alnæmi“.
[Rammi/Skýringarmynd á blaðsíðu 8, 9]
Samsetning blóðs
Blóðgjafar gefa yfirleitt heilblóð en stundum blóðvökva. Í sumum löndum er venja að gefa sjúklingum heilblóð en algengara er þó að aðskilja blóðhlutana fjóra áður en þeir eru skimaðir og gefnir sjúklingum. Lítum nánar á fjóra meginhluta blóðs, starfsemi þeirra og innbyrðis hlutföll.
BLÓÐVÖKVINN er á bilinu 52 til 62 prósent af heilblóði. Þetta er gulleitur vökvi sem ber með sér blóðkorn, prótín og önnur efni í sviflausn.
Blóðvökvinn er 91,5 prósent vatn. Prótín, sem blóðvökvaþættirnir eru unnir úr, eru 7 prósent blóðvökvans (þar á meðal er albúmín sem er um 4 prósent blóðvökvans, glóbúlín sem eru um 3 prósent og fíbrínógen sem er minna en 1 prósent). Í þeim 1,5 prósentum, sem þá eru eftir, eru næringarefni, hormón, öndunarlofttegundir, rafvakar, vítamín og úrgangsefni (köfnunarefnissambönd).
HVÍTKORN (hvít blóðkorn) nema minna en 1 prósenti heilblóðs. Þau ráðast á og eyða aðskotaefnum sem geta verið hættuleg.
BLÓÐFLÖGUR eru innan við 1 prósent heilblóðs. Þær mynda blóðkekki til að stöðva blæðingar úr sárum.
RAUÐKORN (rauð blóðkorn) nema á bilinu 38 til 48 prósentum heilblóðs. Þau halda vefjum líkamans lifandi með því að bera þeim súrefni og fjarlægja frá þeim koldíoxíð.
Hægt er að vinna ýmsa blóðþætti úr blóðvökvanum og eins er hægt að einangra ýmsa aðra smáa efnisþætti úr hinum blóðhlutunum. Blóðrauði er til dæmis einn þáttur rauðu blóðkornanna.
[Skýringarmynd]
BLÓÐVÖKVI
VATN 91,5%
PRÓTÍN 7%
ALBÚMÍN
GLÓBÚLÍN
FÍBRÍNÓGEN
ÖNNUR EFNI 1,5%
NÆRINGAREFNI
HORMÓN
ÖNDUNARLOFTTEGUNDIR
RAFVAKAR
VÍTAMÍN
ÚRGANGSEFNI
[Credit line]
Bls. 9: Myndir af blóðfrumum: Þetta verkefni er kostað að hluta til eða að öllu leyti af opinberu fé frá National Cancer Institute, National Institutes of Health, samkvæmt samningi N01-CO-12400. Efni þessa rits endurspeglar ekki endilega sjónarmið eða stefnu heilbrigðisráðuneytis Bandaríkjanna (Department of Health and Human Services) né heldur ber að líta svo á að vörumerki, vörur eða fyrirtæki, sem getið er, njóti stuðnings bandarískra stjórnvalda.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 8, 9]
Læknismeðferð án blóðgjafar
Síðastliðin sex ár hafa spítalasamskiptanefndir Votta Jehóva dreift myndbandinu Transfusion-Alternative Strategies — Simple, Safe, Effective í tugþúsundatali til heilbrigðisstarfsmanna um allan heim. Myndbandið er nú fáanlegt á um 25 tungumálum. * Á myndbandinu fjalla heimsþekktir læknar um áhrifaríkar leiðir til að veita læknismeðferð án blóðgjafar. Og myndbandið vekur athygli. Í árslok 2001 sendi blóðabankaþjónusta Bretlands stjórnendum allra blóðbanka og öllum ráðgefandi blóðsjúkdómafræðingum í landinu eintak af myndbandinu. Í meðfylgjandi bréfi voru þeir hvattir til að horfa á myndbandið vegna þess að „menn gera sér æ betur grein fyrir því að eitt af markmiðum góðrar læknisþjónustu sé að forðast blóðgjafir eftir því sem kostur er“. Í bréfinu kom fram að boðskapur myndbandsins sé „lofsverður og blóðbankaþjónusta Bretlands styðji hann heilshugar“.
[Neðanmáls]
^ Þeir sem vilja sjá mynddiskinn Transfusion Alternatives — Documentary Series geta snúið sér til Votta Jehóva.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 9]
Blóðþættir og notkun þeirra við lækningar
Vísindi og tækni hafa gert mönnum kleift að einangra og vinna ýmsa smáa efnisþætti úr blóði. Lýsum þessu með dæmi: Sjór er 96,5 prósent vatn en það er hægt að vinna úr honum önnur efni, svo sem magnesíum, bróm og auðvitað salt. Blóðvökvinn er meira en helmingur af rúmmáli blóðs og yfir 90 prósent blóðvökvans er vatn. Það er sömuleiðis hægt að vinna marga smáa efnisþætti úr honum, til dæmis prótín eins og albúmín, fíbrínógen og ýmis glóbúlín.
Læknir gæti ráðlagt sjúklingi að þiggja sterka blöndu ákveðinna efnisþátta sem unnir eru úr blóðvökva. Sem dæmi má nefna prótínauðugt kuldabotnfall sem er einangrað með því að frysta og þíða blóðvökva. Þessi blóðvökvaþáttur er óuppleysanlegur en inniheldur mikið af storkuþáttum. Hann er yfirleitt gefinn í þeim tilgangi að stöðva blæðingar. Ýmis lyf innihalda blóðþætti, þar sem blóðþátturinn er annaðhvort í örlitlu magni eða aðalefni lyfsins. * Sum blóðvökvaprótín eru notuð að staðaldri sem stungulyf til að styrkja ónæmi gegn sýkingum sem fólk kann að hafa orðið fyrir. Flestir blóðþættir, sem notaðir eru í lækningaskyni, eru prótín unnin úr blóðvökva.
Að sögn tímaritsins Science News hafa vísindamenn „aðeins einangrað nokkur hundruð prótín af þúsundum sem ætlað er að finna megi í blóðrás manna“. Með vaxandi þekkingu á samsetningu blóðs eiga trúlega eftir að koma fram ný lyf unnin úr þessum prótínum.
[Neðanmáls]
^ Í sumum lyfjum eru notaðir þættir sem eru unnir úr dýrablóði.
[Mynd á blaðsíðu 6, 7]
Margir heilbrigðisstarfsmenn gæta þess mjög vandlega að komast ekki í snertingu við blóð.