Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti ég að binda enda á líf mitt?

Ætti ég að binda enda á líf mitt?

Ungt fólk spyr

Ætti ég að binda enda á líf mitt?

Milljónir ungmenna í heiminum reyna að fyrirfara sér ár hvert. Þúsundum tekst það. Í ljósi þess hve sjálfsvíg eru algeng meðal unglinga telja útgefendur „Vaknið!“ rétt að fjalla um þetta mál.

„TAKTU líf mitt því að mér er betra að deyja en lifa.“ Hver sagði þetta? Var það trúleysingi? Manneskja sem hafði snúið baki við Guði? Eða var það manneskja sem Guð hafði snúið baki við? Nei, þetta var guðrækinn maður sem hét Jónas. * (Jónas 4:3) Hann var í mikilli kreppu þegar hann sagði þessi orð. Biblían lætur ósagt hvort hann var kominn á fremsta hlunn með að svipta sig lífi en eitt er víst — örvænting hans er skýrt dæmi um það að jafnvel þeir sem þjóna Guði geta orðið svo miður sín að þeim finnst þeir betur settir dánir en lifandi. — Sálmur 34:20.

Stundum kemur fyrir að unglingar eru gripnir þvílíkri örvæntingu að þeir sjá enga ástæðu til að lifa lengur. Þeim líður kannski eins og Láru, * 16 ára, sem segir: „Ég hef fengið mörg þunglyndisköst á síðustu árum. Ég hugsa oft um að stytta mér aldur.“ Hvað geturðu gert ef þú þekkir einhvern sem hefur gefið í skyn að sig langi til að binda enda á líf sitt — eða ef það hefur hvarflað að þér? Áður en við leitum svara við því skulum við kanna af hverju slíkar hugsanir geta leitað á fólk.

Að baki örvæntingunni

Af hverju ætli nokkrum manni detti í hug að stytta sér aldur? Fyrir því geta verið margar ástæður. Svo eitthvað sé nefnt lifum við á erfiðum tímum og mörgum unglingum finnst þeir vera að sligast undan álagi lífsins. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Ófullkomleiki okkar mannanna getur einnig valdið því að sumir hugsa ákaflega neikvætt um sjálfa sig og aðstæður sínar í lífinu. (Rómverjabréfið 7:22-24) Stundum má rekja það til þess að þeir hafa sætt illri meðferð af einhverju tagi. Í öðrum tilfellum má rekja það til sjúkdóma. Athygli vekur að í einu landi er talið að meira en 90 prósent þeirra sem sviptu sig lífi hafi átt við geðræn vandamál að stríða. *

Enginn er ónæmur fyrir áföllum lífsins. Í Biblíunni segir hreinskilnislega að ‚öll sköpunin stynji og hafi fæðingarhríðir‘, það er að segja þjáist. (Rómverjabréfið 8:22) Unga fólkið er meðtalið. Eftirfarandi getur til dæmis haft geysisterk áhrif á unglinga:

◼ Dauði ættingja, vinar eða gæludýrs.

◼ Rifrildi í fjölskyldunni.

◼ Að falla á prófi.

◼ Ástarsorg.

◼ Ill meðferð (þar á meðal ofbeldi eða kynferðisleg misnotkun).

Fyrr eða síðar kynnast næstum allir unglingar einu eða fleiru af því sem hér er upp talið. Af hverju virðast sumir eiga auðveldara með að standa það af sér en aðrir? Sérfræðingar segja að unglingum, sem vilja gefast upp, finnist þeir algerlega hjálparvana og sjái enga lausn á vandamálunum. Þeir halda með öðrum orðum að þeim séu allar bjargir bannaðar, þeir geti ekkert gert til að bæta ástandið og þeir sjá enga vonarglætu. „Yfirleitt langar þessa unglinga ekki til að deyja. Þeir vilja bara losna við sársaukann,“ sagði dr. Kathleen McCoy í viðtali við Vaknið!

Engin undankomuleið?

Kannski þekkirðu einhvern sem ‚vill bara losna við sársaukann‘ — svo ákaft að hann hefur gefið í skyn að hann langi til að stytta sér aldur. Hvað geturðu þá gert?

Ef vinur eða vinkona er á barmi örvæntingar og vill helst binda enda á líf sitt skaltu hvetja hann eða hana til að leita sér hjálpar. Síðan skaltu tala við einhvern fullorðinn, sem kemur málið við, sama hvað vininum eða vinkonunni finnst um það. Hafðu ekki áhyggjur af því hvort slitni upp úr vináttu ykkar. Með því að láta vita sýnirðu að þú ert sannur vinur sem „lætur aldrei af vináttu sinni“ og þú „reynist . . . sem bróðir“ þegar á móti blæs. (Orðskviðirnir 17:17) Þú getur ef til vill bjargað mannslífi með því að gera viðvart!

En hvað nú ef það hefur hvarflað að sjálfum þér að binda enda á líf þitt? „Leitaðu hjálpar,“ hvetur McCoy. „Segðu einhverjum hvernig þér er innanbrjósts — foreldri, öðrum ættingja, vini, kennara, presti — einhverjum sem er annt um þig, tekur þig alvarlega, hlustar á þig og fær aðra, sem skipta máli í lífi þínu, til að heyra það sem þér liggur á hjarta.“

Þú hefur allt að vinna og engu að tapa með því að tala um erfiðleika þína. Líttu á dæmi í Biblíunni. Réttlátur maður, sem hét Job, sagði einu sinni: „Mér býður við lífi mínu,“ en bætti svo við: „Ég ætla að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn, tala af bitrum huga.“ (Jobsbók 10:1) Job var örvæntingarfullur og þurfti að fá að tala um kvöl sína. Þú getur létt svolítið á hjarta þínu með því að tala við þroskaðan vin.

Vottar Jehóva, sem eru í nauðum staddir, eiga enn eitt úrræði — þeir geta leitað til safnaðaröldunganna. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Erfiðleikarnir hverfa auðvitað ekki við það eitt að tala um þá. Hins vegar getur það hjálpað þér að sjá þá í réttu ljósi. Og traustur vinur getur líklega veitt þér þann stuðning sem þú þarft á að halda til að finna lausnir sem virka.

Ástandið breytist fyrr eða síðar

Þegar við erum í kreppu er gott að muna að ástandið breytist fyrr eða síðar, sama hve vonlaust það virðist vera. Sálmaskáldið Davíð þurfti að þola margt á lífsleiðinni og hann sagði í bæn til Guðs: „Ég er úrvinda af andvörpum mínum, lauga rekkju mína tárum hverja nótt, væti hvílu mína táraflóði.“ (Sálmur 6:7) Í öðrum sálmi sagði hann hins vegar: „Þú breyttir gráti mínum í gleðidans.“ — Sálmur 30:12.

Davíð þekkti af eigin reynslu að vandamál lífsins koma og fara. Sum geta reyndar virst yfirþyrmandi — að minnsta kosti meðan á þeim stendur. En þolinmæðin þrautir vinnur allar. Ástandið breytist fyrr eða síðar, oft til hins betra. Stundum gerist það með öðrum hætti en þú hefðir getað ímyndað þér og stundum uppgötvarðu nýjar leiðir til að takast á við vandamálin. Kjarni málsins er sá að þjakandi erfiðleikar haldast ekki óbreyttir til eilífðarnóns. — 2. Korintubréf 4:17.

Gildi bænarinnar

Bænin er verðmætasta samskiptaleiðin sem þú átt völ á. Þú getur beðið eins og Davíð: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi og leið mig hinn eilífa veg.“ — Sálmur 139:23, 24.

Bænin er annað og meira en hækja. Þegar við biðjum erum við í alvöru að tala við föður okkar á himnum og hann hvetur okkur til að ‚úthella hjörtum okkar fyrir sér‘. (Sálmur 62:9) Líttu á eftirfarandi staðreyndir um Guð:

◼ Hann þekkir þær aðstæður sem stuðla að vanlíðan þinni. — Sálmur 103:14.

◼ Hann þekkir þig betur en þú sjálfur. — 1. Jóhannesarbréf 3:20.

◼ Hann ber umhyggju fyrir þér. — 1. Pétursbréf 5:7.

◼ Í nýja heiminum ætlar hann að „þerra hvert tár“ af augum þínum. — Opinberunarbókin 21:4.

Ef vandinn er heilsufarslegur

Eins og áður hefur verið nefnt geta sjálfsvígshugleiðingar átt sér rætur í einhvers konar veikindum. Ef það er ástæðan í þínu tilfelli skaltu ekki skammast þín fyrir að leita hjálpar. Jesús sagði að þeir sem væru sjúkir þyrftu á læknishjálp að halda. (Matteus 9:12) Góðu tíðindin eru þau að margt er hægt að lækna eða halda í skefjum. Og meðferðin getur stórbætt líðan þína.

Í Biblíunni er því lofað að í nýjum heimi Guðs muni „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er veikur.‘“ (Jesaja 33:24) Þangað til skaltu gera þitt besta til að takast á við erfiðleika lífsins. Heidi, sem býr í Þýskalandi, gerði það. „Stundum var þunglyndið svo svakalegt að mig langaði bara til að deyja,“ segir hún, „en núna get ég lifað eðlilegu lífi af því að ég bið oft til Guðs og fæ læknishjálp.“ Þér ætti að takast það líka. *

Í næsta tölublaði verður fjallað um hvernig hægt sé að takast á við sorgina þegar systkini bindur enda á líf sitt.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr. . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

[Neðanmáls]

^ Rebekka, Móse, Elía og Job létu í ljós áþekkar tilfinningar. — 1. Mósebók 27:46; 4. Mósebók 11:15; 1. Konungabók 19:4; Jobsbók 3:21; 14:13.

^ Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ Rétt er þó að nefna að fæstir þeirra unglinga, sem eiga við geðræn vandamál að stríða, svipta sig lífi.

^ Nánari upplýsingar um það hvernig hægt sé að takast á við alvarlega sálarkreppu má finna í greinaröðunum „Það er þess virði að lifa“ í Vaknið! janúar-mars 2002, „Help for Depressed Teens“ í enskri útgáfu blaðsins 8. september 2001 og „Understanding Mood Disorders“ sem birtist í ensku útgáfunni 8. janúar 2004.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Sagt hefur verið að sjálfsvíg leysi engin vandamál, þau færist hreinlega yfir á einhvern annan. Hvernig stendur á því?

◼ Við hvern geturðu talað ef þú finnur fyrir áköfum kvíða?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 29]

ÁBENDING TIL FORELDRA

Sums staðar í heiminum eru sjálfsvíg óhugnanlega tíð meðal ungs fólks. Svo dæmi sé tekið er sjálfsvíg þriðja algengasta dánarorsök fólks á aldrinum 15 til 25 ára í Bandaríkjunum, og á síðustu tveim áratugum hefur tíðni sjálfvíga í aldurshópnum 10 til 14 ára tvöfaldast þar í landi. Mest er áhættan meðal barna og unglinga sem eiga við geðraskanir að stríða, hafa áður reynt að fyrirfara sér eða hafa átt nána ættingja sem fyrirfóru sér. Nokkur helstu einkenni þess að unglingur sé ef til vill að hugsa um að fyrirfara sér eru þessi:

◼ Einangrar sig frá ættingjum og vinum.

◼ Breyttar matar- og svefnvenjur.

◼ Missir áhuga á því sem hann hafði ánægju af áður.

◼ Greinileg breyting á persónuleika.

◼ Neysla fíkniefna eða ofneysla áfengis.

◼ Gefur frá sér persónulega hluti.

◼ Talar um dauðann eða einbeitir sér að málum sem snerta dauðann.

Dr. Kathleen McCoy sagði í viðtali við Vaknið! að einhver alvarlegustu mistök foreldra séu að gefa ekki gaum að slíkum einkennum. „Alla óar við þeirri tilhugsun að eitthvað geti verið að barninu þeirra þannig að sumir foreldrar fara í afneitun,“ segir hún. „Þeir segja við sjálfa sig: ‚Þetta er tímabundið‘, ‚þetta líður hjá‘ eða ‚hún hefur alltaf verið svolítið ýkt‘. Það er hættulegt að hugsa þannig. Það á alltaf að taka svona einkenni alvarlega.“

Það er ástæðulaust að skammast sín fyrir að leita aðstoðar ef sonur eða dóttir er alvarlega þunglynd eða á við aðrar geðraskanir að stríða. Ef þig grunar að unglingurinn sé að velta fyrir sér að svipta sig lífi skaltu spyrja hann beint. Það er rangt að umræður um sjálfsvíg séu unglingnum hvatning til að fyrirfara sér. Oft er það léttir fyrir unglinga ef foreldrar brydda upp á málinu. Ef unglingurinn viðurkennir að hafa hugleitt sjálfsvíg skaltu kanna hvort hann sé búinn að úthugsa hvernig hann ætli að gera það og hve ítarleg áætlunin sé. Því ítarlegri sem hún er þeim mun brýnna er að gera viðeigandi ráðstafanir. *

Það ætti ekki að gera ráð fyrir að þunglyndið lagist af sjálfu sér. Og þó að það virðist lagast ætti ekki að hugsa sem svo að vandamálið sé leyst. Sérfræðingar hafa bent á að þá sé hættan hvað mest. Af hverju? Dr. McCoy svarar: „Meðan unglingur er alvarlega þunglyndur er óvíst að hann orki að fyrirfara sér. Þegar þunglyndinu léttir af honum hefur hann kannski nægan kraft til að láta verða af því.“

Það er sorglegt til þess að hugsa að sumir unglingar skuli vera svo örvilnaðir að þeir hugleiði að stytta sér aldur. Foreldrar og aðrir fullorðnir, sem láta sér annt um unglinginn, þurfa að vera vakandi fyrir einkennunum og bregðast við þeim. Þeir geta hughreyst unglinginn og verið honum eins og skjól og athvarf. — 1. Þessaloníkubréf 5:14.

[Neðanmáls]

^ Sérfræðingar benda einnig á að hættan sé mest á heimilum þar sem til eru lyf sem geta verið banvæn í stórum skömmtum eða þar sem hægt er að komast í hlaðin skotvopn. Í riti frá bandarískri stofnun, sem beitir sér fyrir vörnum gegn sjálfsvígum, segir: „Flestir byssueigendur segjast hafa vopnin á heimilinu til ‚verndar‘ eða ‚sjálfsvarnar‘. Staðreyndin er hins vegar sú að 83 prósent þeirra sem deyja af völdum skotvopna á þessum heimilum fyrirfara sér, og oft er það annar en byssueigandinn.“

[Mynd á blaðsíðu 28]

Bænin er mikilvægasta samskiptaleiðin.