Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinn undraverði maís

Hinn undraverði maís

Hinn undraverði maís

ÞAR til fyrir skömmu stundaði Harlin maísrækt við Fingurvötn í New York ríki í Bandaríkjunum. Hann var alltaf fús til að segja gestum og gangandi frá undrum maísplöntunnar. Vaknið! bað Harlin að leyfa lesendum blaðsins að njóta góðs af kunnáttu hans á þessu sviði. Og við munum skoða ýmislegt fleira um þessa undraverðu plöntu, eins og hvaðan hún er upprunnin, hvernig hún dreifðist svona víða um heim og hvaða not séu af henni. En byrjum á að heyra hvað Harlin hefur að segja um undur maísplöntunnar.

Plantan „talar“ við mann

„Fyrir mér er maísplantan bæði listaverk og stærðfræðiundur. Hún er fagurlega úr garði gerð. Allt ber merki um nákvæmni og natni, frá laufum plöntunnar að kjarna maískólfsins. Og það sem meira er, hún ‚talar‘ við mann meðan hún vex. Hún lætur vita ef hún er þyrst eða skortir næringu. Mannsbarnið grætur þegar það vantar eitthvað. Eins og margar plöntur sýnir maísplantan líka hvað hana vantar meðan hún er að vaxa, meðal annars með lit og lögun blaðanna. Galdurinn er bara að skilja hvað hún er að segja.

Purpurarauður blaðlitur getur gefið til kynna skort á fosfati. Önnur einkenni geta þýtt að plöntuna vanti magnesíum, köfnunarefni eða kalíum. Bóndinn getur einnig séð á plöntunni ef hún er sýkt eða hefur orðið fyrir skemmdum af völdum efna.

Eins og allir maísbændur sáði ég að vori svo að útsæðið næði að spíra í ylnum í jarðveginum. Fjórum til sex mánuðum síðar, þegar kom að uppskeru, var plantan orðin um tveir metrar á hæð.

Maísplantan gengur í gegnum nokkur vaxtarstig sem má greina með því að telja blöðin á henni. Á fimm blaða stiginu kemur efnafræðin og ‚stærðfræðikunnátta‘ plöntunnar vel í ljós. Til að byrja með gera ræturnar yfirgripsmikla könnun á jarðveginum. Þær upplýsingar notar plantan til að leggja grunninn að vaxtarferli sem ákvarðar hver sé hagstæðasta kólfvíddin, mæld eftir axafjöldanum sem hún hefur á að skipa. Síðan á 12 og 17 blaða stiginu fer fram önnur jarðvegskönnun sem segir plöntunni hver sé hagstæðasti kornafjöldinn á hverjum maískólfi. Í stuttu máli sagt getur hver planta á einhvern hátt reiknað út hvernig hún geti fengið sem mest út úr jarðveginum. Og enn frekari vísbending um stórkostlega hönnun er hið flókna æxlunarferli maísplöntunnar.“

Skúfar, frjóhnappar og silki

„Hver maísplanta hefur bæði karl- og kvenblóm. Spíra, sem vex upp úr stöngulenda plöntunnar, er karllegur hluti hennar. Hann kallast skúfur. Hver skúfur er með um það bil 6.000 brum eða frjóhnappa. Þeir senda frá sér milljónir frjóagna. Þær berast með vindi og frjóvga eggin í öxum nærliggjandi plantna. Eggin eru hins vegar vel hulin inni í hýðinu.

Hvernig komast frjóagnirnar inn undir hýðið sem verndar eggin? Það má segja að þær fari ‚silkiveginn‘. Ljósu mjúku þræðirnir, sem skaga upp undan hýðinu á maískólfi, eða axi, eru kallaðir silki. Hver kólfur er með mörg hundruð slíka þræði. Fylgi maður silkiþræði niður að rótum hans kemur maður að frævunni (kvenlegi plöntunnar) sem geymir eggið. Hverri frævu eða smáblómi fylgir einn silkiþráður. Og hvert smáblóm gefur af sér eitt maískorn.

Sá hluti silkisins, sem stendur upp úr hýðinu, er með fíngerð hár eða fræni. Þau grípa frjóduftið þegar frjómettuð golan leikur um þau. Þegar frjókorni er náð byrjar frækornið að spíra og myndar frjópípu sem er eins og rót og vex niður silkiþráðinn til að frjóvga blómið.

Ef korn vantar í maísstöngulinn er það merki um að einhver silki hafi ekki náð frjókorni, ef til vill vegna þess að það óx ekki nógu hratt. Þurr jarðvegur getur valdið því. Bóndinn getur yfirleitt gert eitthvað við því ef hann þekkir einkennin, og bætt uppskeruna — að minnsta kosti næstu uppskeru. Til að bæta uppskeruna hjá mér sáði ég maís annað hvert ár og sojabaunum hitt árið. Sojabaunin er belgjurt sem skilar köfnunarefni í jarðveginn. Og maísætan, sem er fiðrildalirfa, þrífst ekki á sojabaunum. *

Ég hef alltaf unun af því að sjá auðan akur grænka smátt og smátt og gefa af sér gnægð matar — og allt gerist þetta svo hljóðlega og hreinlega. Það er falleg sjón. Ég er algerlega sannfærður um að maís — og raunar allar plöntur — séu mikið sköpunarundur. Og það sem ég hef lært er aðeins lítið brot.“

Er Harlin búinn að vekja forvitni þína á þessari undraverðu plöntu? Langar þig að vita meira um hana? Skoðum sögu hennar og fjölbreytilega notkun.

Frá Mexíkó og út um allan heim

Maísræktun hófst í Ameríku, líklega í Mexíkó, og dreifðist þaðan. Fyrir tíma Inkanna tilbáðu indíánar í Perú maísgyðju skreytta maískólfum sem geisluðu út frá höfði hennar eins og teinar í hjóli. Joseph Kastner, sem skrifaði um náttúrufræði, sagði að indíánar í Ameríku hafi „tilbeðið [maís] sem efnið sem guðirnir búa til, efnið sem maðurinn var búinn til úr . . . Maísinn var mjög ódýr í framleiðslu. Ein planta gat brauðfætt mann í heilan dag.“ Frumbyggjar átu þó baunir að auki og það er enn algengt í Rómönsku Ameríku.

Evrópa kynntist maísnum árið 1492 eftir að Kristófer Kólumbus landkönnuður kom til eyja Karíbahafsins. Ferdinand, sonur Kólumbusar, skrifaði að faðir hans hefði séð korn „sem þeir kalla maís og er býsna bragðgott, soðið, steikt eða malað“. Kólumbus tók fræ með sér heim og „um miðja 16. öld óx það ekki bara á Spáni heldur einnig í Búlgaríu og í Tyrklandi“, skrifaði Joseph Kastner. Hann heldur áfram: „Þrælasalar fluttu maís til Afríku . . . menn Magellans [Ferdinands Magellans, portúgalsks landkönnuðar á vegum Spánar] skildu eftir mexíkósk fræ á Filippseyjum og í Asíu.“ Maísbyltingin var hafin.

Núna er maísinn annað mesta nytjakorn veraldar, eina korntegundin sem er ræktuð meira er hveiti. Hrísgrjón eru númer þrjú í röðinni. Þessar þrjár undirstöðufæðutegundir fæða flesta jarðarbúa, að ótöldum búfénaði.

Maísplantan á sér mörg afbrigði eins og aðrar plöntur af grasætt. Í Bandaríkjunum einum er að finna yfir þúsund afbrigði, að meðtöldum kynblönduðum afbrigðum. Plönturnar eru ólíkar að stærð og geta verið allt frá 60 sentimetrum á hæð og upp í heila sex metra. Maískólfarnir eru einnig í ýmsum stærðum. Sumir eru aðeins um fimm sentímetrar en aðrir eru hvorki meira né minna en 60 sentímetra langir. Í bókinni Latin American Cooking segir: „Sumar tegundir af suðuramerískum maís, sem er ræktaður núna, gefur af sér kólfa sem eru í laginu eins og ruðningsbolti og eru með flötum kornum, um tveimur og hálfum sentímetra löngum og álíka breiðum.“

Maísinn er einnig til í mörgum litum. Fyrir utan þann gula er til rauður, blár, bleikur og svartur maís. Og stundum eru kornin þannig að kólfurinn verður í blönduðum litum, doppóttur eða jafnvel röndóttur. Það er vel skiljanlegt að svo litskrúðugir maískólfar séu stundum hafðir til skrauts í stað þess að vera settir í pottinn.

Korn með margvíslegt notagildi

Hin ýmsu afbrigði maískorns eru flokkuð í sex megintegundir: dældaðan maís, harðan maís, mjölmaís, sykurmaís, vaxmaís og poppmaís. Aðeins lítill hluti maísræktunar er sætur maís. Sæta bragðið kemur af galla í efnaskiptum sem veldur því að minna af sykrum breytist í sterkju en venjulegt er. Yfir 60 prósent maísframleiðslu í heiminum er til að fóðra búfé. Tæplega 20 prósent eru til manneldis. Afgangurinn er notaður í iðnað eða útsæði. Þessi hlutföll eru að sjálfsögðu nokkuð mismunandi eftir löndum.

Maísinn er notaður í ótalmargt. Kornið í heild eða að hluta er notað í allt mögulegt: lím, majónes, bjór, einnota bleiur og svo mætti lengi telja. Maísinn er meira að segja farinn að skipa sér sess í eldsneytisiðnaðinum — í framleiðslu etanóls — þótt sú framleiðsla sé umdeild. Eitt er víst. Saga þessarar undraverðu og fjölhæfu plöntu er enn í mótun.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Býr hönnun að baki? Ótrúleg samvinna niðri í moldinni“ á blaðsíðu 23.

[Rammi á blaðsíðu 11]

Kynbættur maís

Víða um lönd rækta bændur kynbættan maís því að hann gefur vel af sér. Kynbættar plöntur, aðallega af dælduðum maís, eru ræktaðar fram með því að blanda saman völdum afbrigðum og innrækta plöntur með eftirsóttum eiginleikum. Það hefur hins vegar í för með sé að bændur þurfa að kaupa útsæði fyrir hverja sáningu. Það er vegna þess að sæði síðustu plantna getur verið misjafnt að gæðum og gefið minna af sér.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Til eru hundruð maísafbrigða í heiminum.

[Credit lines]

Með góðfúslegu leyfi Sams Fentress

Með góðfúslegu leyfi Jenny Mealing/flickr.com