Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað ef systkini mitt hefur bundið enda á líf sitt?

Hvað ef systkini mitt hefur bundið enda á líf sitt?

Ungt fólk spyr

Hvað ef systkini mitt hefur bundið enda á líf sitt?

Líf Karenar breyttist daginn sem pabbi hennar sagði henni tíðindin. „Sigga er dáin“ var það eina sem hann gat sagt. Feðginin féllust í faðma, algerlega ráðvillt. Systir Karenar hafði fyrirfarið sér. *

ÞEGAR barn eða unglingur deyr beinir fólk oft athyglinni að foreldrunum og reynir að hugga þá. Það er auðvitað vel meint. Systkini hins látna eru spurð: „Hvernig líður pabba ykkar og mömmu?“ en það gleymist kannski að spyrja: „Hvernig líður þér?“ Það er ekki að ástæðulausu að eftirlifandi systkini eru stundum kölluð gleymdu syrgjendurnir.

Rannsóknir sýna að systkinamissir hefur djúpstæð áhrif á börn og unglinga. „Slíkur missir hefur neikvæð áhrif á heilsu barna, hegðun, skólanám, sjálfsmat og þroska,“ segir Pleasant Gill White geðlæknir í bók sinni Sibling Grief — Healing After the Death of a Sister or Brother.

Systkinamissir hefur líka mikil áhrif á fólk þó að unglingsárin séu liðin hjá. Karen var 22 ára þegar Sigga, yngri systir hennar, svipti sig lífi. Stundum fannst henni sorgin óbærileg. „Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi þjáðst meira en foreldrar mínir,“ segir hún, „en ég held að ég hafi átt erfiðara með að takast á við það.“

Hefur þú misst systkini líkt og Karen? Þá er þér kannski innanbrjósts eins og sálmaskáldinu Davíð sem sagði: „Ég er beygður og mjög bugaður, eigra um harmandi daginn langan.“ (Sálmur 38:7) Hvernig geturðu tekist á við sorgina?

„Bara að ég hefði . . . “

Ef bróðir þinn eða systir bindur enda á líf sitt er ekki ósennilegt að þú sért altekinn sektarkennd. Þú segir kannski við sjálfan þig: ‚Bara að ég hefði farið öðruvísi að, þá væri systkini mitt enn á lífi.‘ Og kannski finnst þér ýmislegt styðja skoðun þína. Kristinn var 21 árs þegar 18 ára bróðir hans fyrirfór sér. „Ég var sá síðasti sem talaði við bróður minn,“ segir hann, „svo að mér fannst ég hefði átt að gera mér grein fyrir því að eitthvað var að. Ég ímyndaði mér að ef ég hefði bara verið hlýlegri í viðmóti hefði hann kannski opnað sig og talað við mig.“

Ekki bætti það úr skák að Kristni og bróður hans hafði ekki komið vel saman. „Á miðanum, sem hann skildi eftir, sagði hann að ég hefði getað verið betri bróðir,“ segir Kristinn og sársaukinn leynir sér ekki. „Ég veit auðvitað að hann var ekki heill heilsu en hugsunin sækir samt á mig.“ Minningar um hvöss orðaskipti áður en systkinið dó ýta oft undir slíkar hugsanir. „Margir, sem hafa misst systkini, hafa sagt mér að þeir séu þjakaðir af sektarkennd vegna rifrildis sem þeir lentu í fyrir mörgum mánuðum eða jafnvel árum,“ sagði Pleasant Gill White í viðtali við Vaknið!

Ef þér finnst þú bera sök á því að systkini þitt svipti sig lífi skaltu spyrja þig: ‚Getur nokkur maður haft fulla stjórn á hegðun annarrar manneskju?‘ Karen segir: „Maður var ekki fær um að koma í veg fyrir þær þjáningar sem hinn var að reyna að flýja og gat ekki heldur hindrað að hann gerði það á þennan hryllilega hátt.“

En hvað er til ráða ef þér tekst ekki að gleyma tillitslausum eða hranalegum orðum sem þú sagðir einhvern tíma við systkini þitt? Biblían getur hjálpað þér að sjá hlutina í réttu ljósi. Þar segir: „Öll hrösum við margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn.“ (Jakobsbréfið 3:2; Sálmur 130:3) Þú magnar bara upp sorgina með því að vera sífellt að hugsa um atvik þegar þú varst hranalegur við systkini þitt eða komst illa fram við það. Þó að minningarnar um þetta geti verið sársaukafullar er það engu að síður staðreynd að það er ekki þér að kenna að systkini þitt dó. *

Að vinna úr sorginni

Engar tvær manneskjur syrgja nákvæmlega eins. Sumir gráta að öðrum ásjáandi og það er ekkert að því. Í Biblíunni segir að Davíð hafi grátið hástöfum þegar Amnon, sonur hans, dó. (2. Samúelsbók 13:36) Jesús grét líka þegar hann horfði upp á ástvini syrgja Lasarus, vin sinn. — Jóhannes 11:33-35.

Hjá sumum kemur sorgin hins vegar eftir á, ekki síst ef dauðsfallið ber óvænt að. „Mér fannst ég vera frosin,“ segir Karen. „Ég hætti hreinlega að virka um tíma.“ Þessi viðbrögð eru býsna algeng þegar systkini sviptir sig lífi. „Sjálfsvíg er mikið áfall og maður verður að vinna úr áfallinu á undan sorginni,“ sagði Pleasant Gill White í viðtali við Vaknið! „Sálfræðingar reyna stundum að fá fólk til að gráta og syrgja áður en það er tilbúið til þess. Það er enn þá dofið eftir áfallið.“

Það tekur sinn tíma að venjast þeirri tilhugsun að systkinið sé dáið og það er skiljanlegt í ljósi þess hvílíkt áfall það er. „Fjölskyldan er eins og mölbrotinn vasi sem er búið að líma saman,“ segir Kristinn. „Núna hættir okkur frekar til að ‚bresta‘ undan tiltölulega litlu álagi.“ Reyndu eftirfarandi til að vinna úr sorginni:

Skrifaðu hjá þér hughreystandi biblíuvers og lestu þau að minnsta kosti einu sinni á dag. — Sálmur 94:19.

Talaðu við umhyggjusaman trúnaðarvin. Stundum líður manni betur eftir að hafa rætt um málið. — Orðskviðirnir 17:17.

Hugleiddu loforð Biblíunnar um upprisu. — Jóhannes 5:28, 29.

Sumum finnst líka gott að halda dagbók, að minnsta kosti um tíma, til að sjá tilfinningar sínar í réttu ljósi. Kannski geturðu notað rammann hér að neðan sem fyrirmynd.

Þú mátt treysta því að „Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt“. (1. Jóhannesarbréf 3:20) Hann þekkir betur en nokkur maður hvað olli því að systkini þínu leið jafn illa og raun bar vitni. Hann þekkir þig líka — og það betur en þú þekkir sjálfan þig. (Sálmur 139:1-3) Þú getur því treyst að hann skilur það sem þú ert að ganga í gegnum. Þegar sorgin virðist vera að buga þig skaltu rifja upp það sem stendur í Sálmi 55:23: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“

Hughreysting fyrir þá sem syrgja

Í bæklingnum Þegar ástvinur deyr má finna nánari upplýsingar um það hvernig hægt er að takast á við ástvinamissi. Bæklingurinn er gefinn út af Vottum ­Jehóva.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

[Neðanmáls]

^ Nöfnum í greininni hefur verið breytt.

^ Það er eins ef systkini deyr af slysförum eða af völdum sjúkdóms. Sama hve vænt þér þótti um systkini þitt hafðir þú litla eða enga stjórn á ‚tíma og tilviljun‘ sem varð því að bana. — Prédikarinn 9:11.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Við hvern geturðu talað ef tilfinningarnar eru að bera þig ofurliði?

◼ Hvernig geturðu stutt við bakið á unglingi sem syrgir látið systkini?

[Rammi á blaðsíðu 28]

Til að takast á við sorgina getur verið mikil hjálp að setja hugsanir sínar niður á blað. Þú gætir reynt að fylla í eyðurnar og svara spurningunum hér að neðan.

Þrjár góðar minningar sem ég á um systkini mitt:

1․ ․․․․․

2․ ․․․․․

3․ ․․․․․

Ég hefði viljað segja þetta við systkini mitt meðan það var á lífi:

․․․․․

Hvað geturðu sagt við yngra barn sem kennir sjálfu sér um dauða systkinis síns?

․․․․․

Hvaða ritningarstaður finnst þér sérlega hughreystandi og af hverju?

□ „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ — Sálmur 34:19.

□ „Hvorki fyrirleit hann hinn hrjáða né virti að vettugi neyð hans. Hann huldi ekki auglit sitt fyrir honum heldur heyrði hróp hans á hjálp.“ — Sálmur 22:25.

□ „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [Jesú] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.