Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í hverju má ég vera?

Í hverju má ég vera?

Ungt fólk spyr

Í hverju má ég vera?

Heiða gengur í átt að útidyrunum og foreldrar hennar trúa ekki sínum eigin augum.

„Ætlarðu að fara út í þessu?“ missir pabbi hennar út úr sér.

„Já, af hverju ekki?“ svarar Heiða hissa.„Ég ætla bara að kíkja í búðir með krökkunum.“

„Ekki í þessum fötum!“ segir mamma hennar.

„En mamma,“ segir Heiða í vælutón, „það eru allir í svona fötum . . . og þar að auki senda þau ákveðin skilaboð um það hver ég er.“

„Og okkur líst alls ekki á þau skilaboð!“ segir pabbi hennar ákveðið. „Farðu beint í herbergið þitt, unga dama, og skiptu um föt, annars færðu ekki að fara neitt!“

RIFRILDI um föt eru alls ekki ný af nálinni. * Þegar foreldrar þínir voru á þínum aldri áttu þeir kannski í svipuðu stríði við foreldra sína. Og á þeim tíma leið þeim sennilega eins og þér líður núna. En nú eru pabbi þinn og mamma komin í hitt liðið og umræðurnar um hvaða fötum þú megir ganga í breytast oft í deilur ykkar á milli.

Þú segir: Þau eru þægileg.

Þau segja: Þau eru drusluleg.

Þú segir: Þau eru rosalega sæt!

Þau segja: Þau eru of ögrandi.

Þú segir: Þetta er á helmingsafslætti.

Þau segja: Það er nú ekkert skrýtið . . . Það vantar helminginn af flíkinni!

Er einhver möguleiki að semja frið? Já, vissulega. Megan, sem er núna 23 ára, veit hvernig á að fara að því. Hún segir: „Það þarf ekki alltaf að rífast um málið. Það er hægt að komast að samkomulagi.“ Samkomulagi? Þýðir það að þú þurfir að klæða þig eins og þú sért 40 ára? Alls ekki. Að komast að samkomulagi þýðir bara að þú og foreldrarnir skiptist á skoðunum og leggið fram tillögur sem þeir — og þú — getið sæst á. Með hvaða árangri?

1. Þú munt líta vel út, meira að segja í augum jafnaldranna.

2. Það eru minni líkur á að foreldrar þínir finni að því hvernig þú klæðir þig.

3. Eftir að foreldrar þínir sjá að þú getur axlað ábyrgð á þessu sviði er hugsanlegt að þeir gefi þér meira frjálsræði.

Við skulum því hefjast handa. Hugsaðu um föt sem þú sást á Netinu eða í búð og þig dauðlangar í. Það fyrsta sem þú ættir að gera er . . .

Að hugleiða meginreglur Biblíunnar

Biblían talar furðulítið um klæðaburð. Það tekur þig aðeins örfáar mínútur að lesa upphátt allar leiðbeiningarnar sem hún gefur um þetta mál. En að lestrinum loknum hefurðu fundið traustar og gagnlegar viðmiðunarreglur. Eins og hverjar?

◼ Í Biblíunni eru konur hvattar til að vera „látlausar í klæðaburði“. — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.

Orðið „látleysi“ fær þig kannski til að hnykla brýnnar. Þýðir það að þú þurfir að ganga um í kartöflupoka? Langt í frá. Látleysi í þessu samhengi merkir að klæðaburður þinn beri vott um að þú hafir sjálfsvirðingu og takir tillit til tilfinninga annarra. (2. Korintubréf 6:3) Fjöldinn allur af fatnaði er innan þessara marka. Danielle, sem er 23 ára, segir: „Það kostar kannski aðeins meiri fyrirhöfn en þú getur haft flottan stíl án þess að fara út í öfgar.“

◼ Í Biblíunni er bent á að þegar við hugum að útlitinu ætti „hinn huldi maður hjartans“, eða okkar innri maður, að standa upp úr. — 1. Pétursbréf 3:4.

Ögrandi klæðnaður fær kannski einhverja til að snúa sér við og horfa á þig í smástund, en innri fegurðin, sem þú býrð yfir, ávinnur þér virðingu fullorðinna og jafnaldra þinna til langs tíma litið. Jafnaldranna? Já, meira að segja þeir geta séð hvað það er kjánalegt að elta ýktar tískusveiflur. „Mig hryllir við að sjá hvað konur leggjast lágt við að laða að sér karlmenn með því að vera ögrandi til fara!“ segir Brittany sem er 16 ára. Kay er á sama máli. Hún sagði um fyrrverandi vinkonu sína: „Hún var alltaf þannig klædd að aðrir tækju eftir henni. Hún vildi fá athygli frá strákunum og til þess að það tækist klæddist hún eins áberandi fötum og hún gat mögulega fundið.“

Tískuráð: Varastu fatastíl sem leggur áherslu á kynþokka. Slíkur klæðaburður sendir þau skilaboð að þú sért upptekin af sjálfri þér og gerir allt til að eignast kærasta. Þú gætir einnig orðið fyrir áreitni — eða einhverju þaðan af verra. Látlaus fatnaður bætir útlit þitt og leggur áherslu á góða eiginleika þína.

Að fá álit foreldranna

Það er ekki sniðugt að troða ögrandi fötum í bakpokann og skipta svo um í skólanum. Foreldrar þínir treysta þér betur ef þú ert opinská og heiðarleg við þá, meira að segja í málum sem þú gætir komist upp með. Reyndar væri skynsamlegt af þér að fá álit þeirra þegar þú velur þér föt. — Orðskviðirnir 15:22.

En af hverju í ósköpunum ættirðu að gera það? Er það ekki hlutverk foreldra þinna að bæla niður allt tískuvit hjá þér? Í rauninni ekki. Mamma þín og pabbi sjá kannski málin frá öðru sjónarhorni en stundum þarftu einmitt á því að halda. Nataleine er 17 ára. Hún segir: „Ég kann að meta að fá álit foreldra minna því að ég vil ekki verða mér til skammar þegar ég fer út úr húsi eða vera sú sem fólk talar illa um vegna þess hvernig ég er til fara.“

Þar að auki þarftu hvort eð er að hlýða foreldrum þínum eins lengi og þeir fara með forræði yfir þér. (Kólossubréfið 3:20) Það gæti samt komið þér á óvart hve oft þið komist að samkomulagi þegar þú byrjar að skilja sjónarmið þeirra og þeir þín. Þannig getið þið loksins hætt að rífast um föt.

Tískuráð: Þegar þú mátar föt skaltu hugsa um fleira en það sem sést í speglinum. Klæðnaður, sem virðist í lagi, gæti breyst þegar þú sest niður eða beygir þig til að ná í eitthvað. Ef hægt er ættirðu að leita álits hjá foreldri eða þroskaðri vinkonu.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype

[Neðanmáls]

^ Þótt þessari grein sé fyrst og fremst beint til stelpna eiga biblíulegu meginreglurnar við bæði kynin. Sjá rammann: „Hvað með stráka?“

TIL UMHUGSUNAR

Hugsaðu um föt sem þig langar til að kaupa. Veltu síðan fyrir þér:

◼ Hvaða „skilaboð“ gefa þau um mig?

◼ Hvaða áhrif gætu þau mögulega haft á aðra?

◼ Er ég virkilega að sækjast eftir þess konar viðbrögðum og afleiðingunum sem gætu fylgt í kjölfarið?

[Rammi/myndir á bls. 19]

fataskápurinn — verkefnablað

Leiðbeiningar: Afritaðu þessa síðu. Fylltu út dálkinn vinstra megin og biddu foreldra þína að fylla út dálkinn hægra megin. Skiptið síðan á verkefnablöðum og ræðið saman um það sem þið skrifuðuð. Kemur eitthvað á óvart? Hvað lærðuð þið um sjónarmið hvert annars sem þið vissuð ekki áður?

FYRIR ÞIG

Hugsaðu um ákveðin föt sem þig langar til að vera í eða kaupa.

◼ Hvað er það við þessi föt sem þér líkar við? Númeraðu atriðin að neðan eftir mikilvægi.

․․․․․ Vörumerki

․․․․․ Vekja athygli hjá hinu kyninu

․․․․․ Flott í augum jafnaldranna

․․․․․ Þægileg

․․․․․ Verð

․․․․․ Annað ․․․․․

◼ Það fyrsta sem foreldrar mínir munu örugglega segja um þessi föt er

„Ekki að ræða það.“

„Kannski.“

„Jú, þetta er fínt.“

◼ Ef þau segja nei er ástæðan líklega þessi

„Þetta er of ögrandi.“

„Þetta er of druslulegt.“

„Þetta er of ýkt og áberandi.“

„Þetta gefur ekki góða mynd af okkur foreldrunum.“

„Þetta er of dýrt.“

Annað ․․․․․

GETUM VIÐ KOMIST AÐ SAMKOMULAGI?

◼ Hvað er gott að vita um sjónarmið foreldra minna?

․․․․․

◼ Er hægt að gera eitthvað til að flíkin verði viðeigandi og þá hvað?

․․․․․

FYRIR FORELDRANA

Hugsaðu um ákveðin föt sem unglinginn þinn langar til að vera í eða kaupa.

◼ Hvers vegna heldurðu að unglingnum þínum líki við þessi föt? Númeraðu atriðin að neðan í þeirri röð sem þú heldur að hann eða hún myndi raða þeim.

․․․․․ Vörumerki

․․․․․ Vekja athygli hjá hinu kyninu

․․․․․ Flott í augum jafnaldranna

․․․․․ Þægileg

․․․․․ Verð

․․․․․ Annað ․․․․․

◼ Það fyrsta sem ég myndi segja er

„Ekki að ræða það.“

„Kannski.“

„Jú, þetta er fínt.“

◼ Ástæðan fyrir því að ég segi nei er þessi

„Þetta er of ögrandi.“

„Þetta er of druslulegt.“

„Þetta er of ýkt og áberandi.“

„Þetta gefur ekki góða mynd af okkur foreldrunum.“

„Þetta er of dýrt.“

Annað ․․․․․

GETUM VIÐ KOMIST AÐ SAMKOMULAGI?

◼ Er það einungis smekkur okkar sem veldur því að okkur líkar ekki við þessi föt?

Hugsanlega Nei

◼ Er hægt að gera eitthvað til að flíkin verði viðeigandi og þá hvað?

․․․․․

NIÐURSTAÐA

․․․․․

[Rammi/myndir á bls. 20]

ÞAÐ SEM JAFNALDRAR ÞÍNIR SEGJA

„Það er allt í lagi að hafa ákveðinn ,stíl‘ svo framarlega sem hann stangast ekki á við meginreglur Biblíunnar. Það eru til fullt af flottum fötum sem maður getur keypt sem hneyksla engan.“ — Derrick.

„Þegar ég var unglingur vildi ég vera sjálfstæð. Mér fannst óþolandi að láta segja mér hvaða fötum ég mátti vera í. En með tímanum varð mér ljóst að ég fékk ekki þá virðingu sem ég vildi — ekki fyrr en ég byrjaði að taka mið af áliti foreldra minna og annarra sem voru fullorðnir.“ — Megan.

„Þegar ég sé stelpur í efnislitlum fötum missi ég virðingu fyrir þeim. En þegar ég sé fólk sem er látlaust en aðlaðandi til fara hugsa ég með mér: ,Svona vil ég að aðrir sjái mig.‘“ — Nataleine.

[Rammi/mynd á bls. 21]

HVAÐ MEÐ STRÁKA?

Þær meginreglur Biblíunnar, sem fjallað er um í þessari grein, eiga líka við um stráka. Vertu látlaus. Láttu hinn hulda mann hjartans — þinn innri mann — skína í gegn. Þegar þú ert að skoða föt skaltu hugleiða þessar tvær spurningar: Hvað segja þau um mig? Endurspegla þau þann mann sem ég hef að geyma? Mundu að maður tjáir sig með því hvernig maður klæðir sig. Gakktu úr skugga um að klæðnaður þinn varpi réttu ljósi á þau gildi sem þú trúir á.

[Rammi á bls. 21]

TIL FORELDRA

Leiddu hugann að samtalinu í upphafi greinarinnar og ímyndaðu þér að Heiða sé dóttir þín. Þú kemst ekki hjá því að taka eftir fötunum sem hún er í — eða öllu heldur hve lítið þau hylja að þínu mati. Þú segir undir eins við hana: „Farðu í herbergið þitt, unga dama, og skiptu um föt, annars færðu ekki að fara neitt!“ Slík viðbrögð bera líklega árangur. Dóttir þín hefur jú um lítið annað að velja en að gera eins og þú segir. En hvernig geturðu kennt henni að skipta um viðhorf og ekki aðeins um föt?

◼ Í fyrsta lagi skaltu muna að það er mikilvægt að afleiðingarnar, sem fylgja ögrandi klæðaburði, séu unglingnum jafn ljóslifandi og þær eru þér. Innst inni vill unglingurinn þinn ekki líta kjánalega út eða vekja athygli sem hann kærir sig ekkert um að fá. Útskýrðu með þolinmæði að það er í rauninni ekkert flott að vera ögrandi til fara. * Bentu á aðra valkosti.

◼ Í öðru lagi skaltu muna að sýna sanngirni. (Títusarbréfið 3:2) Þú gætir spurt þig: Gengur þessi flík í berhögg við meginreglur Biblíunnar eða er þetta bara smekksatriði? (2. Korintubréf 1:24) Ef málið snýst bara um ólíkan smekk gætirðu þá gefið eftir?

◼ Í þriðja lagi skaltu ekki bara segja unglingnum hvað sé ekki viðeigandi. Aðstoðaðu hann við að finna föt sem henta betur. Þeim tíma og vinnu er vel varið.

[Neðanmáls]

^ Unglingurinn þinn er líklega mjög meðvitaður um líkama sinn. Gættu þess því að gefa alls ekki í skyn að útlit hans sé að einhverju leiti gallað.