20 leiðir til að skapa sér meiri tíma
Klipptu og geymdu
20 leiðir til að skapa sér meiri tíma
„Notið hverja stund.“ — Kólossubréfið 4:5.
ENDA þótt búið sé að skilgreina hvernig deginum skuli varið, stund fyrir stund, getur verið hægara sagt en gert að koma góðum áformum í verk. Eftirfarandi tillögur gætu komið að gagni.
1 GERÐU VERKEFNALISTA FYRIR HVERN DAG. Tölusettu verkefnin í þeirri röð sem þú ætlar að taka þau fyrir. Auðkenndu þá liði sem þú vilt eyða meiri tíma í. Merktu við verkefnin sem búið er að ljúka við. Færðu ókláruð verkefni yfir á lista næsta dags.
2 SAMSTILLTU DAGBÆKURNAR. Ekki hætta á að missa af fundi af því að hann er bara skráður í aðra dagbókina. Sértu með eina dagbók í tölvunni og aðra í lófatölvunni skaltu kynna þér hvort hægt sé að samstilla þær.
3 SKRIFAÐU VERKÁÆTLUN sem inniheldur alla verkþætti, og raðaðu þeim í rétta röð.
4 SETTU AÐ JAFNAÐI MIKILVÆGUSTU VERKEFNIN FREMST. Þá verður auðveldara að finna tíma til að gera það sem minna máli skiptir.
5 SETTU ÞÉR RAUNHÆF MARKMIÐ. Það er raunhæfara að stefna að því að verða færari í ákveðnu starfi en að sækjast eftir að verða forstjóri fyrirtækisins.
6 VIÐURKENNDU AÐ ÞÚ HAFIR EKKI TÍMA TIL AÐ GERA ALLT. Láttu þýðingarmestu verkefnin hafa forgang. En hvað á að gera við önnur verkefni sem eru aðkallandi eða þarf einfaldlega að klára? Ef þú getur ekki sleppt þeim eða falið öðrum að sinna þeim skaltu athuga hvort þú getir varið minni tíma í þau. Sum verkefni, sem skipta ekki miklu máli, geta beðið mánuðum saman ef með þarf, eða hugsanlega mætti sleppa þeim. Ráðstafaðu eins miklum tíma og hægt er í viðfangsefni sem tengjast markmiðum þínum og því sem þér finnst mikilvægast.
7 SKRÁÐU Í HVAÐ TÍMINN FER. Til að átta þig á í hvað tíminn fer skaltu skrá það í dagbók í eina eða tvær vikur. Fer mikill tími í til spillis í ónauðsynleg viðfangsefni? Eiga flestar truflanir, sem þú verður fyrir, rætur að rekja til eins eða tveggja einstaklinga? Eru mestar líkur á að þú verðir fyrir truflun á vissum tímum dagsins eða vikunnar? Reyndu að losna við tímaþjófa sem hafa laumast inn í dagskrána.
8 SETTU MINNA Á DAGSKRÁ. Ef þú ætlar að kaupa í matinn, gera við bílinn, taka á móti gestum, sjá kvikmynd og lesa — allt á sama degi — lendirðu í tímahraki og hefur sennilega ekki gaman að neinu.
9 DRAGÐU ÚR TRUFLUNUM. Taktu daglega frá ákveðinn tíma þegar þú vilt ekki láta trufla þig nema brýna nauðsyn beri til. Hafðu slökkt á símanum þennan tíma, sé þess kostur. Slökktu líka á rafrænum skilaboðum ef þau trufla vinnu þína.
10 SKIPULEGGÐU DAGINN ÞANNIG AÐ ÞÚ SINNIR ERFIÐUSTU VERKEFNUNUM Á ÞEIM TÍMA DAGS SEM ÞÚ HEFUR MESTA ATORKU OG ERT BEST UPPLAGÐUR.
11 SINNTU ÓÞÆGILEGASTA VERKEFNINU EINS FLJÓTT OG HÆGT ER. Um leið og því er lokið finnst þér þú hafa meiri orku til að sinna því sem er ekki eins erfitt.
12 GERÐU RÁÐ FYRIR ÓVÆNTUM UPPÁKOMUM. Ef þú treystir þér til að mæta á ákveðinn stað innan 15 mínútna skaltu lofa að vera þar innan 25 mínútna. Ef þú heldur að fundur taki klukkustund skaltu gera ráð fyrir að hann taki klukkustund og 20 mínútum betur. Skildu eftir dálítinn tíma óbókaðan á hverjum degi.
13 NOTAÐU LAUSAN TÍMA. Hlustaðu á fréttirnar eða hljóðritun á meðan þú ert að raka þig. Lestu á meðan þú bíður eftir eða ferðast með strætisvagni. Vitnalega geturðu notað tímann til að hvíla þig. En ekki sóa tímanum og kvarta svo seinna yfir því að hann hafi farið til spillis.
14 FYLGDU 80/20 REGLUNNI. * Má segja að tvö af hverjum tíu viðfangsefnum á verkefnalista þínum séu mikilvægari en önnur? Gæti ákveðnu verkefni verið svo til lokið þegar þú hefur hugað að mikilvægustu þáttum þess?
15 ÞEGAR ÞÚ ERT AÐ DRUKKNA Í VINNU skaltu skrifa hvert verkefni fyrir sig á miða. Skiptu miðunum síðan í tvo bunka: „Gera í dag“ og „Gera á morgun“. Endurtaktu þetta svo næsta dag.
16 TAKTU ÞÉR FRÍ ÖÐRU HVERJU TIL AÐ SAFNA KRÖFTUM. Það getur verið árangursríkara að koma aftur til vinnu endurnærður á sál og líkama heldur en að vinna mikla yfirvinnu.
17 SETTU HUGSANIR ÞÍNAR Á BLAÐ. Skrifaðu niður erfitt viðfangsefni, útskýrðu hvers vegna þér finnst það erfitt og skráðu allar lausnir sem koma upp í hugann.
18 EKKI KREFJAST FLULLKOMNUNAR. Gerðu þér ljóst hvenær tími er kominn til að hætta og snúa sér að næsta áríðandi verkefni.
19 TEMDU ÞÉR FAGMANNLEG VINNUBRÖGÐ. Ekki bíða eftir að andinn komi yfir þig. Byrjaðu bara að vinna.
20 SÝNDU SVEGJANLEIKA. Þetta eru tillögur, ekki ófrávíkjanlegar reglur. Prófaðu þig áfram, reyndu að finna hvað reynist best og aðlagaðu hugmyndirnar að þörfum þínum og aðstæðum.
[Neðanmáls]
^ Þessi hugmynd gengur líka undir nafninu Pareto-lögmálið og er lauslega byggð á verkum Vilfredo Pareto sem var ítalskur hagfræðingur á 19. öld. Hann komst að því að oft skila 20 prósent vinnunnar um 80 prósentum árangursins. Þetta hefur verið heimfært upp á ýmislegt, en hér er einfalt dæmi: Þegar gólfteppi er ryksugað nást um 80 prósent óhreinindanna af um 20 prósentum teppisins, það er að segja því svæði sem mest er gengið á.