Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Kanadískir vísindamenn vildu rannsaka áhrif kláms á karla. „Við hófum rannsóknirnar á því að leita að körlum á þrítugsaldri sem hefðu aldrei komið nálægt klámi en fundum enga,“ að sögn eins úr rannsóknarteyminu. — MONTREALHÁSKÓLI, KANADA.

Burj Khalifa, hæsta bygging heims, var tekin formlega í notkun í Dubai í janúar 2010. Turninn er 160 hæðir, 828 metra hár, og hægt er að sjá hann úr 95 kílómetra fjarlægð. — GULF NEWS, SAMEINUÐU ARABÍSKU FURSTADÆMUNUM.

„Nýi gyðingdómurinn bregst hratt við breyttum tímum. Nýlega var tekin upp í tíðagerðina sérstök bæn handa þeim sem gangast undir kynskiptaaðgerð.“ — THE NEW YORK TIMES MAGAZINE, BANDARÍKJUNUM.

Slakur málþroski barna

Foreldrar nota nú minni tíma í að tala við börnin á matmálstímum eða lesa fyrir þau undir svefninn en fyrri kynslóðir gerðu. Lundúnablaðið The Times skýrir svo frá að „börn byrji í grunnskóla með málþroska á við 18 mánaða, og þeim fari fjölgandi sem geti ekki myndað einfaldar setningar“. Í blaðinu kemur fram að „18 prósent 5 ára barna [á Bretlandseyjum] (meira en 100.000 börn) hafi ekki náð þeim málþroska sem vænst er miðað við aldur“. Mörg börn skilja ekki einföld fyrirmæli eða kunna ekki að tjá þarfir sínar. Þau eru því „eins og útlendingar í kennslustofunni“ og skilja ekki hvað er að gerast.

Írskar kirkjur án presta?

„Völd presta í kaþólsku kirkjunni eru nánast á enda,“ að sögn dagblaðsins The Irish Times. Fyrir 50 árum komu fleiri prestar til starfa á Írlandi en í nokkru öðru landi. Þegar þessir prestar fara á eftirlaun innan skamms, 75 ára að aldri, verða margar sóknir prestlausar. Sumir telja að undirrót vandans sé sú tímamótaákvörðun að banna getnaðarvarnir, en hún var birt árið 1968 í umburðarbréfi páfa, Humanae Vitae. Að sögn The Irish Times hafði bréfið þau áhrif í fyrstu að „fólk tók að véfengja kenningar kirkjunnar“ og síðan „dró úr trausti fólks til leiðtoga kirkjunnar“.

Segulskaut jarðar á hreyfingu

Þegar segulskaut jarðar á norðurhveli var staðsett árið 1831 var það norðanvert í Kanada „um 2.750 kílómetra frá landfræðilegu norðurskauti“, að sögn franska dagblaðsins Le Figaro. Fram til 1989 færðist segulskautið nær landfræðilega skautinu um 5 til 15 kílómetra á ári. Að sögn stofnunarinnar Institut de Physique du Globe í París færist segulpóllinn nú „um 55 kílómetra á ári“ og árið 2007 var hann ekki nema 550 kílómetra frá landfræðilegu norðurskauti. Að sögn blaðsins verða norðurljósin, sem fylgja segulskautinu, „orðin sýnilegri yfir Síberíu en Kanada“ árið 2020, ef heldur fram sem horfir.