Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í hverju liggur vandinn?

Í hverju liggur vandinn?

Í hverju liggur vandinn?

EF SAGT er að trúarbrögðin séu ein helsta orsök styrjalda í heiminum liggur það í orðunum að styrjöldum myndi fækka ef engin væru trúarbrögðin. Eru þetta trúverðug rök? Væri hægt að útrýma styrjöldum með því einu að útrýma trúarbrögðunum? Á hvorn veginn sem þú svarar er eitt ljóst: Trúarbrögðin hafa ekki sameinað mannkynið. Lítum á nokkrar ástæður fyrir því.

Trúarbrögðin sundra

Linnulaus togstreita á milli helstu trúarbragða heims á drjúgan þátt í því að sundra mannkyninu. Er einhver ástæða til að ætla að búddatrúarmenn, gyðingar, hindúar, kristnir menn og múslímar eigi einhvern tíma eftir að búa saman í sátt og samlyndi?

Það er líka dapurleg staðreynd að þessar stóru trúardeildir skuli vera margklofnar. Sumir áætla, svo dæmi sé tekið, að kristni heimurinn sé klofinn í meira en 30.000 sértrúardeildir. Íslam er einnig klofið vegna ólíkra trúarkenninga. Fréttastofa í Mið-Austurlöndum hefur eftir múslímskum fræðimanni, Mohsen Hojjat að nafni, að „sundrungin meðal múslíma sé undirrót þeirra vandamála sem við er að glíma í heimi íslams“. Önnur útbreidd trúarbrögð, svo sem búddismi, gyðingdómur og hindúismi, eru sömuleiðis klofin í marga sértrúarflokka.

Trúarbrögð og stjórnmál

Trúarbrögðin virðast hafa sett mark sitt á nálega öll svið hins veraldlega lífs. Í fréttatímaritinu The Economist kemur fram að „trúað fólk sé í auknum mæli farið að tjá skoðanir sínar um alls konar mál, meðal annars viðskipti. Trúin er líka farin að láta til sín taka á sviði efnahagsmála.“ Og þetta virðist frekar sundra fólki en sameina. En mest hafa þó trúarbrögðin látið til sín taka í stjórnmálum. Þau afskipti eiga sér langa sögu og þar hefur skaðinn verið mestur.

Í greininni á undan var vitnað í nýlega greinargerð sagnfræðinga þar sem fram kemur að „hættan á að trúarbrögð valdi stríði aukist þegar trúarbrögðin og ríkisvaldið séu nátengd eða samtvinnuð“. Og veruleikinn er sá að trúarbrögðin hafa lengi verið nátengd og samtvinnuð hernaðar- og stjórnmálaöflum og eru enn.

Eldfim blanda

Víða um lönd eru ráðandi trúarbrögð orðin tákngervingur kynþáttar og þjóðernis. Það hefur orðið til þess að mörkin eru vart greinanleg milli þjóðernishaturs, þjóðernisátaka, kynþáttafordóma og fjandskapar af völdum trúar. Þessi eldfima blanda inniheldur alla þá efnisþætti sem þarf til að splundra heiminum.

Það er furðuleg þversögn í öllu þessu að stór hluti trúarbragðanna telur sig vera fulltrúa Guðs Biblíunnar, skaparans. Er heil brú í því að alvaldur, alvitur og kærleiksríkur skapari eigi eitthvað saman að sælda við sundurlynd og blóðsek trúarbrögð?

[Mynd á bls. 6]

Þúsundir votta Jehóva hafa setið í fangelsi vegna hlutleysis síns.