Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stjórna rafræn samskipti lífi mínu?

Stjórna rafræn samskipti lífi mínu?

Ungt fólk spyr

Stjórna rafræn samskipti lífi mínu?

Hvað eiga þessir þrír einstaklingar sameiginlegt?

„Mér finnst æðislegt að senda SMS-skilaboð. Það er það skemmtilegasta sem ég geri. En það mætti kannski segja að ég hafi misst stjórnina á þessu.“ — Alan. *

„Ég var himinlifandi þegar mamma gaf mér sjónvarp til að hafa í herberginu mínu. En í stað þess að fara að sofa á kvöldin vakti ég langt fram á nætur til að horfa á sjónvarpið. Ég vildi frekar horfa á sjónvarpið en vera með fjölskyldunni og vinum mínum.“ — Teresa.

„Á tímabili gat ég hvorki farið neitt né gert neitt án þess að velta fyrir mér hvort það hefði komið eitthvað nýtt inn á vefsíðuna mína. Ef ég vaknaði um miðja nótt varð ég að fara á Netið. Ég notaði hvert tækifæri til að uppfæra bloggsíðuna mína.“ — Anna.

Hver þessara einstaklinga myndir þú segja að væri háður rafrænum miðlum?

AlanTeresaAnna

ÞEGAR foreldrar þínir voru á unglingsaldri voru útvarp og sjónvarp nánast einu rafrænu fjölmiðlarnir. Á þeim tíma voru símar bara símar — maður notaði þá til að tala við aðra og yfirleitt voru þeir festir með snúru við vegg. Hljómar þetta ótrúlega gamaldags? Önnu finnst það. Hún segir: „Foreldrar mínir ólust upp á steinöld tæknimála. Þeir eru enn að reyna að botna í því hvernig farsíminn þeirra virkar!“

Nú á dögum er hægt að hringja, hlusta á tónlist, horfa á þætti, spila tölvuleiki, senda tölvupóst til vina, taka myndir og fara á Netið — allt með einu tæki sem þú getur stungið í vasann. Þar sem þú hefur alist upp við tölvur, farsíma, sjónvarp og Netið finnst þér örugglega ekkert athugavert við að nota þessa tækni öllum stundum. En það getur verið að foreldrum þínum finnist þú vera of háður þessari tækni. Ef þeir láta í ljós áhyggjur skaltu ekki vísa þeim frá eins og þeir viti ekki hvað þeir eru að tala um. „Svari einhver áður en hann hlustar,“ sagði hinn vitri konungur Salómon, „er það heimska hans og skömm.“ — Orðskviðirnir 18:13.

Hefurðu hugsað út í hvers vegna foreldrar þínir gætu verið áhyggjufullir? Svaraðu spurningunum hér á eftir til að athuga hvort þú sért of háður símanum þínum, Netinu eða einhverju öðru.

Ertu tæknifíkill?

Í alfræðiorðabók er þessi skýring gefin á orðinu fíkn: „Endurtekið og hóflaust atferli sem einstaklingur getur ekki hætt eða vill ekki hætta þrátt fyrir skaðlegar afleiðingar.“ Í byrjun greinarinnar er vitnað í þrjá unglinga og þeir eru allir eða hafa verið tæknifíklar miðað við þessa skýringu. Hvað um þig? Skoðaðu nánar skýringuna á orðinu fíkn hér að neðan, lestu það sem unga fólkið segir og athugaðu hvort þú hefur sagt eða gert eitthvað svipað. Svaraðu síðan spurningunum.

Endurtekið og hóflaust atferli. „Ég eyddi mörgum klukkustundum í að spila tölvuleiki. Það rændi mig svefni og ég talaði varla um annað. Ég einangraði mig frá fjölskyldunni og gleymdi mér í heimi tölvuleikjanna.“ — Andrew.

Hvað finnst þér skynsamlegt að nota mikinn tíma fyrir framan skjáinn á hverjum degi? ․․․․․

Hvað finnst foreldrum þínum hæfilegur tími? ․․․․․

Hversu miklum tíma samanlagt eyðir þú á hverjum degi í að senda SMS-skilaboð, horfa á sjónvarp, skoða og setja inn myndir eða texta á vefsíður, spila tölvuleiki og svo framvegis? ․․․․․

Myndirðu segja, eftir að hafa skoðað svörin, að þú notaðir óhóflega mikinn tíma í slíka hluti?

□ Já □ Nei

Getur ekki hætt eða vill ekki hætta. „Foreldrar mínir sjá mig stöðugt senda SMS-skilaboð og segja að ég geri allt of mikið af því. En í samanburði við aðra krakka á mínum aldri sendi ég næstum engin. Ég sendi örugglega mörg miðað við foreldra mína, en það er eins og að bera saman epli og appelsínur — þau eru fertug en ég 15.“ — Alan.

Hafa foreldrar þínir eða vinir sagt að þú eyðir of miklum tíma í rafræn samskipti?

□ Já □ Nei

Viltu ekki takmarka tímann sem þú notar í slíkt eða ertu ófær um það?

□ Já □ Nei

Skaðlegar afleiðingar. „Vinir mínir eru alltaf að senda SMS-skilaboð, jafnvel á meðan þeir keyra. Það er stórhættulegt!“ — Julie.

„Fyrst eftir að ég fékk farsíma var ég alltaf að hringja eða senda SMS-skilaboð. Ég gerði nánast ekkert annað. Það hafði mjög slæm áhrif á samband mitt við fjölskylduna og jafnvel suma vini mína. Nú tek ég eftir því þegar ég er að tala við vini mína að þeir eru stöðugt að grípa fram í og segja: ,Bíddu aðeins, ég þarf að svara þessum skilaboðum.‘ Þetta er ein ástæða þess að ég hef ekki tengst þeim nánari vinaböndum.“ — Shirley.

Kemur það fyrir að þú lest eða sendir SMS-skilaboð í miðri kennslustund eða þegar þú ert að keyra?

□ Já □ Nei

Svararðu oft tölvupósti, símhringingum eða SMS-skilaboðum á meðan þú ert að ræða við fjölskyldu þína eða vini?

□ Já □ Nei

Notarðu það mikinn tíma í slíka hluti að það rænir þig svefni eða truflar þig við nám?

□ Já □ Nei

Að finna rétta jafnvægið

Þegar þú notar tölvu, farsíma eða eitthvað slíkt skaltu spyrja þig spurninganna hér að neðan. Ef þú fylgir ráðum Biblíunnar ásamt nokkrum tillögum um það hvað þú ættir að gera og hvað ekki, hjálpar það þér að hafa stjórn á hlutunum og forðast hættur.

1. Um hvað snúast samskiptin? „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

Þú ættir að eiga samskipti við vini og fjölskyldu og deila með þeim jákvæðum fréttum og skoðunum. — Orðskviðirnir 25:25; Efesusbréfið 4:29.

Þú ættir ekki að bera út skaðlegt slúður, senda ósiðlegar myndir eða SMS-skilaboð, eða horfa á siðspillandi myndskeið eða þætti. — Kólossubréfið 3:5; 1. Pétursbréf 4:15.

2. Hvenær nota ég þetta? „Öllu er afmörkuð stund.“ — Prédikarinn 3:1.

Þú ættir að ákveða hversu mikinn tíma þú ætlar að nota í að tala í símann, senda og lesa SMS-skilaboð, horfa á sjónvarp eða spila tölvuleiki. Sýndu þá kurteisi að slökkva á símanum þegar þú ert á mikilvægum samkomum, svo sem trúarsamkomum. Þú getur alltaf svarað skilaboðum síðar.

Þú ættir ekki að eyða tíma í rafræn samskipti eða annað slíkt þegar þú nýtur samvista við vini eða fjölskyldu, ert að læra eða tekur þátt í trúarlegum athöfnum. — Efesusbréfið 5:15-17; Filippíbréfið 2:4.

3. Hverja hef ég samskipti við? „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Korintubréf 15:33.

Þú ættir að nota rafræn samskipti til að styrkja vináttuböndin við þá sem hvetja þig til að temja þér góða siði. — Orðskviðirnir 22:17.

Þú ættir ekki að blekkja sjálfan þig. Þú munt tileinka þér sömu viðhorf, sama málfar og sama hugsunarhátt og þeir sem þú velur að hafa samneyti við í gegnum tölvupóst, SMS-skilaboð eða Netið. Það sama á við þegar þú horfir á sjónvarp og mynddiska. — Orðskviðirnir 13:20.

4. Hve mikinn tíma nota ég í þetta? „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ — Filippíbréfið 1:10.

Þú ættir að athuga hversu mikinn tíma þú notar í rafræn samskipti, til að horfa á sjónvarp eða spila tölvuleiki.

Þú ættir ekki að hunsa ábendingar vina eða leiðbeiningar foreldra þinna ef þeir segja að þú notir of mikinn tíma í slíka hluti. — Orðskviðirnir 26:12.

Andrew, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir um það að hafa rétt jafnvægi: „Öll þessi tæki eru skemmtileg, en aðeins ef þú takmarkar notkunina. Ég hef lært að láta ekki tæknina komast upp á milli mín og fjölskyldu minnar eða vina.“

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/​ype

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Rammi/​myndir á bls. 25]

HVAÐ SEGJA JAFNALDRARNIR?

„Foreldrar mínir sögðu oft við mig: ,Þú notar farsímann þinn svo mikið að við gætum allt eins límt hann við þig.‘ Í fyrstu fannst mér þetta fyndið en svo áttaði ég mig á því að þeim var alvara. Nú takmarka ég notkun mína á símanum og er miklu ánægðari.“

„Áður varð ég að fara inn á Netið í hvert skipti sem tækifæri gafst til að athuga hvort ég hefði fengið tölvupóst. Ég vanrækti heimavinnuna og annað nám. Núna hef ég dregið verulega úr þessu og finnst eins og þungu fargi hafi verið af mér létt. Maður verður að kunna sér hóf.“

[Myndir]

Jovarny

Mariah

[Rammi á bls. 26]

ÉG VAR ORÐIN HÁÐ SAMSKIPTASÍÐUM Á NETINU“

„Fyrir nokkrum árum fluttum við fjölskyldan. Ég vildi halda sambandinu við vini mína og þeir spurðu hvort ég vildi skrá mig á samskiptasíðu þar sem við gátum deilt myndum. Þetta virtist upplagt til að halda tengslum við þá. Ég myndi bara hafa samskipti við fólk sem ég þekkti en ekki ókunnuga. Hvað gat farið úrskeiðis?

Í fyrstu gekk allt eins og í sögu. Ég fór á Netið einu sinni í viku til að skoða myndir vina minna og skrifa inn athugasemdir við þær og lesa hvað þeir höfðu að segja um mínar. En fljótlega varð ég gagntekin af þessu. Fyrr en varði var ég orðin háð því að fara inn á síðuna. Þar sem ég var svona mikið á Netinu fóru vinir vina minna að taka eftir því og bjóða mér að verða vinir sínir. Það þarf ekki meira til en að vinir manns segi að einhver sé skemmtilegur þá samþykkir maður hann eða hana sem vin. Áður en þú veist af ertu komin með 50 vini á Netinu.

Fljótlega uppgötvaði ég að ég var stöðugt að hugsa um að komast á Netið. Jafnvel þegar ég var inni á samskiptasíðunni hugsaði ég um hvenær ég gæti skoðað hana næst og að ég þyrfti að setja inn nýjar myndir. Ég las athugasemdir og setti inn myndskeið og áður en ég vissi af hafði tíminn flogið frá mér.

Svona gekk þetta í um það bil eitt og hálft ár en að lokum gerði ég mér grein fyrir að ég var orðin háð þessu. Núna takmarka ég tímann sem ég nota á Netinu og einbeiti mér að því að eignast vini sem ég get hitt og umgengist og sem ég veit að hafa sömu siðferðisgildi og ég. Sumir vina minna skilja ekki hvers vegna ég geri þetta en ég hef lært af reynslunni.“ — Ellen, 18 ára.

[Rammi á bls. 26]

SPYRÐU FORELDRA ÞÍNA

Ef þú talar við foreldra þína um afþreyingarefni gæti það stundum komið þér á óvart hvað þeir hafa að segja. „Einu sinni grunaði pabba að geisladiskur, sem ég átti, innihéldi skaðlega tónlist,“ segir stúlka að nafni Cheryl. „Ég spurði hann hvort við gætum hlustað á allan diskinn saman. Hann samþykkti það. Eftir að við vorum búin að hlusta á diskinn sagði hann að það væri ekkert athugavert við tónlistina.“

Skrifaðu niður það sem þú myndir vilja spyrja foreldra þína um varðandi rafræn samskipti og aðra tækni.

[Rammi á bls. 27]

TIL FORELDRA

Eyðir unglingurinn allt of miklum tíma á Netinu eða í að senda og lesa SMS-skilaboð? Á hann kannski betra samband við MP3-spilarann sinn en við þig? Hvað geturðu gert ef það er tilfellið?

Þú gætir auðvitað bara tekið tækið af barninu þínu. En líttu samt ekki á öll samskiptatæki sem eitthvað slæmt. Þú notar örugglega sjálfur einhver samskiptatæki sem foreldrar þínir höfðu ekki aðgang að á sínum tíma. Í staðinn fyrir að taka tækið af unglingnum — nema rík ástæða sé til þess — ættirðu kannski að nota tækifærið til að kenna syni þínum eða dóttur að nota slík tæki af skynsemi og í hófi. Hvernig geturðu gert það?

Sestu niður með unglingnum og ræddu við hann. Segðu honum frá áhyggjum þínum. Hlustaðu síðan vel á hvað hann hefur að segja. (Orðskviðirnir 18:13) Eftir það getið þið rætt um hvað hægt sé að gera í málinu. Vertu ekki hræddur við að setja skýr mörk en sýndu samt sanngirni. (Títusarbréfið 3:2) „Á tímabili var ég alltaf að senda SMS-skilaboð,“ segir Ellen sem vitnað var í fyrr í greininni. „Foreldrar mínir tóku þó ekki af mér símann heldur settu mér skýrar reglur. Það hvernig þau tóku á þessu hefur hjálpað mér að hafa stjórn á símanotkun minni jafnvel þegar þau eru ekki að fylgjast með mér.“

Hvað ef sonur þinn eða dóttir fer í vörn? Ekki draga strax þá ályktun að þú hafir talað fyrir daufum eyrum. Vertu þess í stað þolinmóður og gefðu unglingnum tíma til að hugsa málið. Það gæti verið að hann sé í raun sammála þér og muni fara eftir ráðleggingunum. Margir unglingar hafa verið í svipuðum sporum og Hailey. Hún segir: „Til að byrja með móðgaðist ég við foreldra mína þegar þau sögðu að ég væri orðin tölvufíkill. En þegar ég hugsaði málið skildi ég að þau höfðu rétt fyrir sér.“

[Mynd á bls. 27]

Hefurðu stjórn á tækjanotkun þinni eða stjórna tækin þér?