Hvað þarf ég að vita um samskiptasíður á Netinu? – 2. hluti
Ungt fólk spyr
Hvað þarf ég að vita um samskiptasíður á Netinu? – 2. hluti
Númeraðu atriðin hér að neðan eftir því hvað þér er annast um.
․․․․․ persónulegar upplýsingar
․․․․․ tímann
․․․․․ mannorð þitt
․․․․․ vináttu
HVAÐA atriði hér að ofan skipti þig mestu máli? Allt þetta, þar með talið það sem þú merktir númer eitt, gæti verið í hættu eða spillst ef þú notar samskiptasíður á Netinu.
Ættirðu yfirleitt að vera með aðgang að samskiptasíðum? Ef þú býrð enn hjá foreldrum þínum ættu þeir að ákveða það. * (Orðskviðirnir 6:20) Eins og nánast öll notkun Netsins geta samskiptasíður verið gagnlegar en einnig falið í sér ákveðnar hættur. Ef foreldrar þínir vilja ekki að þú sért með aðgang að samskiptasíðum ættirðu að fara að óskum þeirra. – Efesusbréfið 6:1.
En hvernig geturðu forðast hætturnar ef foreldrar þínir leyfa þér á annað borð að nota samskiptasíður? Í greininni „Ungt fólk spyr“, sem birtist í Vaknið! í október-desember 2011, var rætt um tvö mikilvæg atriði – persónulegar upplýsingar og tímann. Hér verður fjallað um mannorð og vináttu.
MANNORÐ ÞITT
Ef þér er annt um mannorð þitt þarftu að passa þig að gefa ekki öðrum ástæðu til að fá slæma mynd af þér. Til að lýsa þessu gætirðu hugsað þér að þú eigir glænýjan bíl. Hann er hvorki beyglaður né rispaður. Myndirðu ekki vilja halda honum áfram í þannig ástandi? Hvernig liði þér ef bíllinn þinn eyðilegðist í árekstri bara vegna þess að þú varst kærulaus?
Á samskiptasíðum gæti eitthvað svipað komið fyrir mannorð þitt. „Með einni mynd eða athugasemd, sem maður setur inn í hugsunarleysi, er hægt að eyðileggja mannorð sitt,“ segir stelpa sem heitir Cara. Veltu því fyrir þér hvaða áhrif eftirfarandi atriði geta haft á mannorð þitt.
● Myndirnar þínar. Páll postuli skrifaði: „Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.“ (Rómverjabréfið 12:17) Hverju hefurðu tekið eftir ef þú hefur skoðað myndir á samskiptasíðum?
„Stundum hefur einhver sem ég hafði mikið álit á verið með myndir af sér þar sem hann eða hún virtist vera drukkin.“ – Ana, 19 ára.
„Ég þekki stelpur sem setja inn myndir af sér í ögrandi stellingum. Þær eru svo ólíkar sjálfum sér á myndunum sem þær birta á samskiptasíðunum.“ – Cara, 19 ára.
Hvað myndirðu hugsa um manneskju sem setur inn myndir af sér á samskiptasíðu þar sem hann eða hún (1) er ögrandi klædd(ur) eða (2) virðist vera drukkin(n)?
1 ․․․․․
2 ․․․․․
● Athugasemdir þínar. „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni,“ stendur í Efesusbréfinu 4:29. (Biblían 1981) Sumir hafa tekið eftir að ljótt orðbragð, slúður eða siðlaus málefni læðast inn í umræður á samskiptasíðum.
„Fólk heldur síður aftur af sér á samskiptasíðum. Orðin hljóma ekki eins illa þegar maður skrifar þau og þegar maður segir þau upphátt. Fólk blótar kannski ekki en gæti leyft sér að daðra, vera frakkari eða jafnvel vera klæmið.“ – Danielle, 19 ára.
Hvers vegna heldurðu að fólk haldi síður aftur af sér í samskiptum á Netinu?
․․․․․
Skiptir það einhverju máli hvaða athugasemdir og myndir þú setur inn? Já. Jane, sem er 19 ára, segir: „Þetta hefur verið mikið í umræðunni í skólanum. Sagt er að sumir atvinnurekendur skoði samskiptasíður hjá umsækjendum til að grennslast fyrir um þá.“
Dr. B. J. Fogg segir í bókinni Facebook for Parents að hann geri einmitt það þegar hann ræður fólk í vinnu. „Mér finnst það vera skylda mín,“ segir hann. „Ef ég hef aðgang að síðu umsækjanda og sé eitthvað sem mér líst ekki á hefur það ekki góð áhrif. Ég myndi ekki ráða hann. Hvers vegna? Vegna þess að samstarfsfólk mitt þarf að hafa góða dómgreind.“
Ef þú ert kristinn er annað sem þú þarft að hafa í huga sem er enn þá mikilvægara, og það er hvaða áhrif það sem þú setur inn hefur á trúsystkini þín og aðra. Páll postuli skrifaði: „Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar.“ – 2. Korintubréf 6:3; 1. Pétursbréf 3:16.
Það sem þú getur gert
Ef foreldrar þínir leyfa þér að nota samskiptasíður skaltu skoða myndirnar sem þú hefur sett inn og velta fyrir þér hvað þær segja um þig. Er þetta sú mynd sem þú vilt gefa af sjálfum þér? Myndirðu fara hjá þér ef foreldrar þínir, öldungur í söfnuðinum eða tilvonandi yfirmaður sæi þessar myndir? Ef svarið við síðari spurningunni er já ættirðu að skipta þeim út. Kate, sem er 21 árs, gerði það. Hún segir: „Öldungur í söfnuðinum talaði við mig um forsíðumyndina mína á samskiptasíðunni. Ég var honum mjög þakklát því að ég skildi að honum var annt um mannorð mitt.“
Skoðaðu líka vandlega athugasemdir sem þú hefur sett inn – og sem aðrir hafa sent á þína síðu. Láttu ekki heimskulegar umræður eða „ósæmandi spé“ rata inn á síðuna þína. (Efesusbréfið 5:3, 4) „Stundum notar fólk ljótt orðbragð eða setur inn texta sem er tvíræður“, segir Jane. „Jafnvel þótt þú hafir ekki skrifað það sjálfur gefur það slæma mynd af þér af því að það er á þinni síðu.“
Hvaða mörk ætlarðu að setja varðandi myndir og athugasemdir, sem þú setur inn, til að passa upp á mannorð þitt?
․․․․․
VINIR ÞÍNIR
Ef þú ættir glænýjan bíl, myndirðu þá bjóða hverjum sem er inn í hann? Ef foreldrar þínir leyfa þér að hafa aðgang að samskiptasíðu þarftu á svipaðan hátt að ákveða hverja þú ætlar hafa – eða samþykkja – sem vini þína. Hversu vel ætlarðu að vanda valið?
„Hjá sumum er aðalmarkmiðið að eignast sem flesta vini, því fleiri því betra. Þeir bæta jafnvel fólki á vinalistann sem þeir í rauninni þekkja ekki.“ – Nayisha, 16 ára.
„Samskiptasíður gera þér kleift að endurnýja gamla vináttu. En stundum væri betra að leyfa slíkum vináttuböndum að tilheyra fortíðinni.“ – Ellen, 25 ára.
Það sem þú getur gert
Tillaga: Endurskoðaðu og breyttu. Skoðaðu vinalistann og breyttu honum ef þörf er á. Veltu eftirfarandi fyrir þér:
1. Hversu vel þekki ég þennan netvin í raun og veru?
2. Hvers konar myndir og athugasemdir setur vinurinn inn á síðuna?
3. Hefur þessi vinur jákvæð áhrif á mig?
„Ég skoða yfirleitt vinalistann minn í hverjum mánuði. Ef einhver er á honum sem ég þekki ekki vel eða er ekki sátt við að hafa þar eyði ég honum af listanum.“ – Ivana, 17 ára.
Tillaga: Settu þér ákveðin mörk við val á vinum. Þú ættir að setja þér mörk þegar þú velur þér vini á Netinu alveg eins og þú gerir við val á vinum almennt. (1. Korintubréf 15:33) Ung kona, sem heitir Leanne, segir til dæmis: „Ég hef þá reglu að samþykkja ekki vinabeiðnir frá þeim sem ég þekki ekki. Ef ég sé eitthvað sem mér líkar ekki á síðu netvinar eyði ég honum af vinalistanum og samþykki hann ekki aftur.“ Aðrir hafa sett sér svipuð mörk.
„Ég leyfi ekki hverjum sem er að verða vinur minn á samskiptasíðum. Það gæti boðið hættunni heim.“ – Erin, 21 árs.
„Ég hef fengið vinabeiðnir frá gömlum skólafélögum. En hvers vegna ætti ég að vingast við þá núna þar sem ég reyndi að forðast náinn félagsskap við þá þegar ég var í skóla?“ – Alex, 21 árs.
Skrifaðu hér að neðan hvaða mörk þú ætlar að setja um val á vinum á Netinu.
․․․․․
Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype
[Neðanmáls]
^ Vaknið! mælir hvorki með né fordæmir ákveðnar samskiptasíður. Kristnir einstaklingar ættu að ganga úr skugga um að þeir brjóti ekki gegn meginreglum Biblíunnar þegar þeir eru á Netinu. – 1. Tímóteusarbréf 1:5, 19.
[Innskot á bls. 14]
Í Biblíunni stendur: „Ef þú þarft að velja milli þess að eiga gott mannorð eða mikinn auð, veldu þá gott mannorð.“ – Orðskviðirnir 22:1, Today’s English Version
[Rammi á bls. 16]
SPYRÐU FORELDRA ÞÍNA
Skoðaðu þessa grein með foreldrum þínum og einnig greinina „Ungt fólk spyr“ sem birtist í Vaknið! í október-desember 2011. Ræðið saman um hvað netnotkun þín getur haft í för með sér varðandi (1) persónulegar upplýsingar, (2) tímann, (3) mannorð þitt og (4) vináttu.
[Rammi á bls. 17]
TIL FORELDRA
Börnin þín vita kannski meira um Netið en þú. Hins vegar hefur þú betri dómgreind. (Orðskviðirnir 1:4; 2:1-6) Parry Aftab, sem er sérfræðingur í öryggismálum á Netinu, orðar það svona: „Börn vita meira um tækni en foreldrar vita meira um lífið.“
Samskiptasíður hafa orðið mjög vinsælar á undanförnum árum. Hefur unglingurinn þinn þroska til að nota þær? Það er þitt að ákveða það. Það getur verið áhættusamt að keyra bíl eða nota kreditkort og eins eru vissar hættur fólgnar í því að nota samskiptasíður. Lítum á nokkrar.
PERSÓNULEGAR UPPLÝSINGAR. Margir unglingar gera sér ekki grein fyrir afleiðingum þess að setja of miklar upplýsingar inn á Netið. Þegar þeir gefa upp heimilisfang sitt, í hvaða skóla þeir eru eða hvenær þeir eru heima eða að heiman getur það stofnað öryggi allrar fjölskyldunnar í hættu.
Það sem þú getur gert. Þegar börnin þín voru yngri kenndirðu þeim að horfa í báðar áttir áður en þau gengu yfir götuna. Núna þegar þau eru orðin eldri þarftu að fræða þau um öryggi á Netinu. Lestu það sem kom fram varðandi persónulegar upplýsingar í greininni „Ungt fólk spyr“ í síðasta tölublaði af Vaknið! Þú getur einnig skoðað greinar í erlendri útgáfu af Vaknið! frá október 2008, bls. 3-9. Ræddu þetta síðan við unglinginn. Hvettu hann til að sýna „visku og gætni“ þegar hann er á Netinu. – Orðskviðirnir 3:21.
TÍMINN. Maður getur ánetjast samskiptasíðum. „Bara nokkrum dögum eftir að ég fékk mér aðgang var ég orðinn háður samskiptasíðunni,“ segir Rick sem er 23 ára. „Ég var tímunum saman að skoða myndir og athugasemdir.“
Það sem þú getur gert. Lestu og ræddu við börnin þín um greinina „Ungt fólk spyr . . . Stjórna rafræn samskipti lífi mínu?“ sem birtist í Vaknið! í apríl-júní 2011. Skoðið sérstaklega rammann „Ég var orðin háð samskiptasíðum á Netinu“ á bls. 26. Hjálpaðu unglingnum að sýna sjálfstjórn og að setja sér tímamörk við notkun á Netinu. (1. Tímóteusarbréf 3:2) Minntu hann á að lífið snúist ekki bara um samskipti á Netinu.
MANNORÐIÐ. Í orðskviði í Biblíunni stendur: „Hið góða eða slæma sem börnin gera sýnir hver þau eru.“ (Orðskviðirnir 20:11, Contemporary English Version) Þetta á sannarlega við þegar þau eru á Netinu. Samskiptasíður eru aðgengilegar almenningi og þess vegna getur það sem börnin þín setja þar inn haft áhrif á mannorð þeirra en einnig á mannorð fjölskyldunnar.
Það sem þú getur gert. Unglingar þurfa að vita að það sem þeir setja á Netið gefur til kynna hverjir þeir eru. Þeir þurfa líka að skilja að það sem fer á Netið verður áfram á Netinu. Dr. Gwenn Schurgin O’Keeffe skrifar í bókinni CyberSafe: „Það er ekki alltaf auðvelt fyrir börn að skilja að það sem fer á Netið sé varanlegt. En það er nauðsynlegt að þau skilji það um leið og þau byrja að nota Netið. Ein leið til að kenna þeim það er að minna þau á að setja ekkert á Netið sem þau myndu ekki segja fólki sem þau hitta.“
VINIRNIR. „Margir unglingar vilja líta út fyrir að vera vinsælir,“ segir Tanya sem er 23 ára. „Það gerir þá fúsari til að samþykkja ,vini‘ sem þeir þekkja ekki eða sem leggja lítið upp úr góðu siðferði.“
Það sem þú getur gert. Hjálpaðu syni þínum eða dóttur að setja mörk varðandi val á vinum. Alicia, sem er 22 ára, bætir yfirleitt ekki vinum vina sinna á listann. Hún segir: „Ef ég þekki þá ekki eða hef ekki hitt þá bæti ég þeim ekki á listann bara af því að við eigum sameiginlega vini.“
Tim og Julia fengu sér aðgang að netsíðu og þannig geta þau séð hverjir eru vinir dóttur þeirra og hvað hún og þeir setja inn. „Við settum þau skilyrði að við værum á vinalistanum hennar,“ segir Julia. „Manni finnst nánast eins og þeir sem hún hefur samband við sitji í stofunni hjá okkur. Við viljum vita hverjir þeir eru.“
[Mynd á bls. 15]
Bíll getur eyðilagst ef maður er kærulaus í akstri. Eins getur maður eyðilagt mannorð sitt ef maður setur óviðeigandi myndir og athugasemdir inn á Netið.
[Mynd á bls. 16]
Myndirðu bjóða ókunnugum far? Ættirðu þá að bjóða einhverjum sem þú þekkir ekki að vera vinur þinn á samskiptasíðu?