Loftslagsráðstefnur – innantóm orð?
Loftslagsráðstefnur – innantóm orð?
„Þjóðir heims þurfa að taka höndum saman til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Vísindamenn eru flestir sammála um að verði ekkert að gert valdi það meiri þurrkum og hungursneyð og gífurlegum fólksflutningum. Það leiðir síðan af sér enn meiri átök næstu áratugina.“ – Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
AÐ MATI sumra vísindamanna er jörðin orðin veik. Hún er komin með háan hita. Þeir segja að hlýnun jarðar sé líklega að nálgast þolmörkin – þau mörk þar sem örlítið hærri hiti getur, að sögn breska blaðsins The Guardian, „valdið stórkostlegum breytingum á umhverfinu sem ýta síðan undir enn meiri hlýnun“.
Hvernig varð ástandið svona slæmt? Er hægt að snúa þessari þróun við? Er mannkynið yfirleitt fært um að leysa úr þeim vanda sem hlýnun jarðar er, samhliða því að glíma við mörg önnur alvarleg vandamál?
Margir vísindamenn telja að vandinn sé að miklu leyti af mannavöldum. Hann hafi hafist með iðnbyltingunni og vaxið þegar menn fóru í auknum mæli að nýta jarðefnaeldsneyti eins og kol og olíu. Hluti af vandanum er hömlulaus eyðing skóga. Skógarnir eru eins og lungu jarðar. Trén drekka í sig sumar gróðurhúsalofttegundir en með eyðingu skóga fer stór hluti þessara lofttegunda beint út í andrúmsloftið og veldur hlýnun jarðar. Þjóðarleiðtogar hafa í gegnum tíðina hist og fundað um það hvernig megi takast á við vandann.
Kýótóbókunin
Með Kýótóbókuninni frá 1997 voru sett ný viðmið um losun koldíoxíðs. Með því að samþykkja bókunina hafa lönd Evrópusambandsins og 37 iðnríki til viðbótar skuldbundið sig til að draga úr losun koldíoxíðs um að meðaltali fimm prósent miðað við losun árið 1990. Þau hafa samþykkt að gera það á fimm ára tímabili, frá 2008 til 2012.
En þó var ýmislegt við Kýótóbókunina að athuga. Bandaríkin samþykktu hana til dæmis aldrei. Stærri þróunarríki eins og Kína og Indland vildu heldur ekki skuldbinda sig til að setja sér ákveðin losunarmörk. En samt losa Bandaríkin og Kína um 40 prósent af öllu koldíoxíði sem sleppt er út í andrúmsloftið um allan heim.
Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn
Loftslagsráðstefnan í Kaupmannahöfn (COP 15) var haldin til að gera nýjan samning í stað Kýótóbókunarinnar og setja ný viðmið frá og með 2012. * Fulltrúar 192 þjóða, þar á meðal 119 þjóðhöfðingjar, fylktu liði á ráðstefnuna í desember 2009. Á fundinum var brýnast að ná samkomulagi um eftirfarandi þrjú mál:
1. Að ná lagalega bindandi samkomulagi. Myndu iðnríkin sætta sig við að þurfa að takmarka
losun koldíoxíðs og væru helstu þróunarlöndin tilbúin til að takmarka hve mikið þau auka losun gróðurhúsalofttegunda?2. Að fjármagna varanlega lausn. Þróunarlöndin þyrftu að fá milljarða Bandaríkjadala um áraraðir, bæði til að takast á við afleiðingarnar af síaukinni hlýnun jarðar og til að taka upp umhverfisvæna tækni.
3. Að koma sér saman um leið til að hafa eftirlit með losun gróðurhúsalofttegunda. Það myndi auðvelda hverju ríki fyrir sig að halda sig innan losunarmarka. Það myndi einnig sjá til þess að þróunarlöndin færu rétt með peningastyrki.
Náðist samkomulag um þessi mál? Viðræðurnar sigldu í strand og það virtist ekki einu sinni gerlegt að ná sáttum um mun smærri mál. Á síðustu klukkustundum ráðstefnunnar tókst þó leiðtogum 28 ríkja að koma sér saman um skjal sem kallað var Kaupmannahafnarsamkomulagið. Að sögn Reuters-fréttastofunnar var það formlega staðfest með frekar óljósu orðalagi: „Þessi ráðstefna . . . tekur mið af Kaupmannahafnarsamkomulaginu.“ Það var sem sagt undir ríkjunum sjálfum komið hvort þau færu eftir því.
Hvað tekur svo við?
Fleiri ráðstefnur hafa verið haldnar eða eru á döfunni. Fólk virðist þó efast um að þær muni bera árangur. „Jörðin heldur áfram að hitna,“ skrifar Paul Krugman, dálkahöfundur hjá dagblaðinu The New York Times. Það gerist allt of oft að stundlegur ávinningur í stjórnmálum eða viðskiptum virðist skipta meira máli en ávinningur fyrir umhverfið til langs tíma litið og það ýtir undir óbreytta viðskiptahætti. Paul Krugman bætir við: „Ef þig langar til að skilja af hverju sumir eru mótfallnir því að tekist verði á við loftslagsvandann skaltu kanna hverjir hafa peningavaldið.“ Hann bendir einnig á að í heimalandi hans stendur oftast það sama í veginum fyrir því að tekist sé á við loftslagsbreytingar, það er að segja „græðgi og [pólitískt] hugleysi“.
Hlýnun jarðar er að vissu leyti eins og fellibylur. Veðurfræðingar geta mælt styrk fellibylsins og sagt til um stefnu hans með töluverðri nákvæmni, til góðs fyrir þá sem búa á hættusvæðum. En þótt allir vísinda-, stjórnmála- og kaupsýslumenn heims legðust á eitt gætu þeir samt ekki stöðvað hann. Það virðist líka eiga við um hlýnun jarðar og minnir óneitanlega á það sem Jeremía spámaður sagði: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ – Jeremía 10:23, Biblían 1981.
Guð ætlar að stöðva hlýnun jarðar
Í Biblíunni er sagt um Guð: „Hann mótaði jörðina og bjó hana til . . . hann skapaði hana ekki sem auðn.“ (Jesaja 45:18) Þar segir líka: „Jörðin stendur að eilífu.“ – Prédikarinn 1:4.
Guð leyfir því aldrei að gerast að jörðin verði óbyggileg. Hann skerst í leikinn og bindur enda á misheppnaða stjórn mannanna og tekur úr umferð þá sem bera enga virðingu fyrir jörðinni. Jafnframt bjargar hann öllum sem halda sér siðferðilega hreinum og langar í einlægni til að gleðja hann. Í Orðskviðunum 2:21, 22 segir: „Hinir hreinlyndu munu byggja landið og hinir ráðvöndu verða þar áfram. En hinir ranglátu verða upprættir úr landinu og hinum svikulu verður tortímt.“
[Neðanmáls]
^ Ráðstefna aðildarríkja, skammstafað COP (Conference of the Parties), er haldin reglulega í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
[Rammi á bls. 13]
Gróðurhúsalofttegund er lofttegund í andrúmsloftinu sem drekkur í sig geislun frá yfirborði jarðar. Margar þeirra lofttegunda, sem losaðar eru út í andrúmsloftið við nútímaiðnað, eru gróðurhúsalofttegundir. Þær eru meðal annars koldíoxíð, klórflúorkolefni, metan og nituroxíð. Meira en 25 milljörðum tonna af koldíoxíði einu saman er sleppt út í andrúmsloftið ár hvert. Rannsóknir benda til þess að frá því að iðnvæðingin hófst hafi koldíoxíð í andrúmsloftinu aukist um 40 prósent.
[Rétthafi myndar á bls. 12]
Jörð: NASA/The Visible Earth (http://visibleearth.nasa.gov/). Barack Obama: ATTILA KISBENEDEK/AFP/Getty Images.