Við getum lært að vera friðsöm
Við getum lært að vera friðsöm
ÞÓTT við fæðumst með rangar tilhneigingar er ofbeldisfull hegðun oftast eitthvað sem við höfum tamið okkur. Það sama á við um friðsemd. En hver getur kennt okkur að vera friðsöm? Skapari okkar er án efa besti kennarinn en viska hans er óviðjafnanleg. Skoðum eftirfarandi fimm ábendingar og heilræði Biblíunnar sem eiga við þær.
1 „Öfundaðu ekki ofbeldismanninn.“ (Orðskviðirnir 3:31) Eiginleikar á borð við sjálfstjórn og mildi eru merki um styrk. „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi,“ segir í Orðskviðunum 16:32. Hann stenst þann þrýsting að grípa til ofbeldis þegar honum er ögrað, rétt eins og sterkur stífluveggur. Hann bregst mildilega við en það „stöðvar bræði“. (Orðskviðirnir 15:1) Reiðigjarn maður rýkur hins vegar upp við minnsta áreiti. – Orðskviðirnir 25:28.
2 Vertu vandlátur á vini. „Ofbeldismaðurinn ginnir náunga sinn,“ segir í Orðskviðunum 16:29. En „eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur“. (Orðskviðirnir 13:20) Þegar við umgöngumst jafnlynt og friðsamt fólk reynum við eflaust að líkja eftir því.
3 Ræktaðu með þér sannan kærleika til annarra. Í 1. Korintubréfi 13:4-7 má finna bestu lýsingu sem til er á kærleikanum. Hún hljóðar að hluta til svona: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður . . . hann reiðist ekki, er ekki langrækinn . . . Hann breiðir yfir allt . . . umber allt.“ Jesús sagði að ef við vildum líkja eftir kærleika Guðs yrðum við jafnvel að elska óvini okkar. – Matteus 5:44, 45.
4 Treystu Guði til að refsa hinum vondu. „Gjaldið engum illt fyrir illt . . . Hafið frið við alla menn . . . Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu . . . eins og ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ (Rómverjabréfið 12:17-19) Þegar við treystum Guði og loforðum hans njótum við innri friðar sem er erfitt fyrir fólk að skilja ef það treystir ekki á Guð. – Sálmur 7:14-16; Filippíbréfið 4:6, 7.
5 Treystu því að Guðsríki komi á friði á jörð. Guðsríki er himnesk stjórn sem mun von bráðar þurrka út illskuna og ríkja yfir allri jörðinni. (Sálmur 37:8-11; Daníel 2:44) Þegar Guðsríki hefur tekið völdin „mun hinn réttláti blómstra“ og það verður „friður og farsæld uns tunglið er ekki framar til“. – Sálmur 72:7.
Heilræði Biblíunnar hafa hjálpað milljónum manna að temja sér frið, það á meðal þeim sem voru ofbeldishneigðir. Lestu um Salvador Garza í greininni hér á eftir.