FORSÍÐUEFNI | ER TIL EINHVERS AÐ LIFA?
Það er hægt að fá hjálp
„Varpið allri áhyggju ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. PÉTURSBRÉF 5:7.
Dauðinn getur virst skárri kostur en lífið ef þér finnst þú ekkert geta gert til að laga stöðu þína. En hvaða hjálp stendur þér til boða?
Bænin. Bænin er ekki aðeins til þess ætluð að deyfa tilfinningalegan sársauka eða að grípa til þegar öll sund eru lokuð. Hún er raunveruleg tjáskipti við Jehóva * Guð. Honum er annt um þig og hann langar til að þú segir sér hvað þér liggur á hjarta. Biblían hvetur okkur: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ – Sálmur 55:23.
Hvernig væri að tala við Jehóva Guð í bæn strax í dag? Ávarpaðu hann með nafni og segðu honum hvernig þér líður. (Sálmur 62:9) Jehóva vill að þú kynnist sér og eignist vináttu sína. (Jesaja 55:6; Jakobsbréfið 2:23) Bænin er samskiptaleið sem þú getur notað hvar og hvenær sem er.
„Rannsóknir hafa hvað eftir annað sýnt að langflestir sem fyrirfara sér – um 90% eða rúmlega það – hafi verið með einhverjar geðraskanir á þeim tíma. En sjaldan hafi nokkur vitað af vandamálinu, það verið greint eða meðhöndlað sem skyldi.“ – The American Foundation for Suicide Prevention.
Fólk sem er ekki sama um þig. Þú skiptir aðra máli. Fjölskyldu þinni og vinum þykir vænt um þig og hafa kannski látið í ljós að þau hafi áhyggjur af þér. Fólk, sem þú hefur kannski aldrei hitt, vill líka gjarnan hjálpa þér. Þegar vottar Jehóva boða trú sína hús úr húsi hitta þeir stundum fólk sem segist hafa hugleitt að binda enda á líf sitt og segist sárvanta hjálp. Með starfi sínu hús úr húsi hafa vottar Jehóva getað hjálpað fólki sem þannig er ástatt fyrir. Þeim er annt um náungann eins og Jesú var. Þeim er líka annt um þig. – Jóhannes 13:35.
Fagleg aðstoð. Sjálfsvígshugsanir gefa oft til kynna undirliggjandi þunglyndi eða aðrar geðraskanir. Það er engin skömm að því að þjást af geðrænum sjúkdómi frekar en að þjást af líkamlegum sjúkdómi. Þunglyndi hefur stundum verið líkt við kvef af því að það getur hent hvern sem er. Og það er hægt að meðhöndla það. *
MUNDU ÞETTA: Það er sjaldnast hægt að komast upp úr djúpu þunglyndi af sjálfsdáðum. En með því að þiggja aðstoð getur þér tekist það.
HVAÐ GETURÐU GERT NÚNA? Reyndu að finna virtan lækni sem meðhöndlar geðræn vandamál á borð við þunglyndi.