Úr ýmsum áttum
Heimurinn
Ofbeldi gegn konum er orðin „alvarleg ógn við lýðheilsu í heiminum og má líkja vandamálinu við faraldur“. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). „Um 35% kvenna eru beittar ofbeldi einhvern tíma á ævinni af maka eða einhverjum öðrum,“ segir í skýrslunni. „Ofbeldi af hendi maka er algengast ... 30% kvenna verða fyrir því.“
Bretland
Í könnun, sem 64.303 tóku þátt í, sögðust 79 prósent telja trúarbrögð vera „orsök mikilla hörmunga og deilna í heiminum nú á tímum“. Manntal á Englandi og í Wales árið 2011 leiddi enn fremur í ljós að aðeins 59 prósent íbúa líta á sig sem kristin. Árið 2001 var hlutfallið 72 prósent. Hlutfall þeirra sem sögðust vera utan trúarbragða jókst úr 15 prósentum í 25 á sama tímabili.
Kína
Fréttastofur skýra frá því að samkvæmt nýlegum lagabreytingum beri uppkomnum börnum ekki aðeins skylda til að heimsækja oft aldraða foreldra sína, heldur einnig að huga að „andlegri líðan“ þeirra. Í lögunum er „ekki kveðið á um refsingu“ fyrir að fylgja þeim ekki.
Evrópa
Glæpagengi eru farin að falsa alls konar hversdagslegar vörur, eins og snyrtivörur, þvottaefni og jafnvel matvæli. „Hér um bil öll hráefni matvæla eru berskjölduð fyrir fölsun. Þau þurfa ekki að vera dýr til þess,“ segir forstjóri fyrirtækis sem sérhæfir sig í matvælaráðgjöf. Sérfræðingur telur að 10 prósent matvæla, sem keypt eru í iðnríkjum, séu falsaðar vörur.