Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Þróun

Þróun

Sumir halda því fram að lífið hafi orðið til við þróun. Aðrir fullyrða að Guð hafi einfaldlega komið sköpunarferlinu af stað en leyft lífinu svo að þróast í kjölfarið. Hvert er sjónarmið Biblíunnar?

Útilokar sköpunarsaga Biblíunnar að alheimurinn hafi orðið til í Miklahvelli?

Í Biblíunni segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Hún segir ekki nákvæmlega hvernig Guð skapaði alla hluti. Hafi alheimurinn orðið til í sprengingu í geimnum væri það því ekki í mótsögn við frásögu Biblíunnar. Öllu heldur myndi 1. Mósebók 1:1 svara því hver var valdur að Miklahvelli.

Reyndar trúa margir vísindamenn að Miklihvellur hafi gerst af sjálfu sér án íhlutunar nokkurs og orðið þess valdandi að efniseindir fóru að safnast saman og mynduðu með tímanum stjörnur og plánetur. Biblían styður ekki þá skoðun en heldur því fram að Guð hafi myndað heiminn, hvort sem hann notaði sprengingu í geimnum til þess eða einhverja aðra aðferð.

„Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ – 1. Mósebók 1:1.

Er það í samræmi við Biblíuna að lífverur geti breyst með tímanum?

Já. Biblían segir að Guð hafi skapað lifandi verur „hverja eftir sinni tegund“. (1. Mósebók 1:11, 12, 21, 24, 25) Er svigrúm fyrir breytingar innan tegundar? Já. En sannar aðlögunarhæfni innan tegundar að nýjar tegundir geti þróast með tímanum? Nei.

Tökum dæmi: Á áttunda áratug síðustu aldar rannsökuðu vísindamenn finkur á Galapagoseyjum. Þeir tóku eftir að vegna loftslagsbreytinga áttu þær finkur, sem voru með örlítið stærri gogg, auðveldara með að komast af en aðrar. Þetta fannst sumum vera sönnun fyrir þróun. En var þetta merki um þróun eða einfaldlega aðlögun tegundar? Einhverjum árum seinna voru finkur með smærri gogg aftur komnar í meirihluta. Þessi rannsókn fékk Jeffrey H. Schwartz, prófessor í mannfræði, til að álykta að þótt aðlögunarhæfni geti hjálpað tegund að lifa af við breyttar aðstæður „verði ekki til ný tegund“.

Eiga Biblían og þróunarkenningin samleið?

Biblían segir að Guð hafi „skapað alla hluti“. (Opinberunarbókin 4:11) Hann „hvíldist“ ekki fyrr en hann hafði lokið við að skapa. (1. Mósebók 2:2) Það er því greinilegt að Guð skapaði ekki einfalda lífveru og hvíldist síðan og aðhafðist ekkert á meðan lífið þróaðist í milljónir ára í ýmsar tegundir fiska, apa og menn. * Hugmyndin um stórsæja þróun (macroevolution) reiknar ekki með skapara, en Biblían segir að Guð hafi gert „himin og jörð, hafið og allt sem í því er“. – 2. Mósebók 20:11; Opinberunarbókin 10:6.

„Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti.“ – Opinberunarbókin 4:11.

Viltu vita meira? Biblían segir um Guð: „Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ (Rómverjabréfið 1:20) Þar sem Guð hefur kærleiksrík áform til handa öllum þeim sem leita hans af einlægni gefur það lífi okkar raunverulegan tilgang að kynnast honum. (Prédikarinn 12:13; Hebreabréfið 11:6) Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Vottum Jehóva eða á www.dan124.com/is. Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUSPURNINGAR.

^ gr. 12 Ólíkt því sem sköpunarsinnar halda fram, styður Biblían ekki þá hugmynd að Guð hafi skapað jörðina á sex sólarhringum. Nánari upplýsingar er að finna á bls. 24-27 í bæklingnum Var lífið skapað? sem er gefinn út af Vottum Jehóva. Hægt er að sækja hann án endurgjalds á www.dan124.com/is.