STJÓRN SEM NÆR TÖKUM Á VANDANUM
,Friðurinn mun engan enda taka‘
Sameinuðu þjóðirnar vilja að fólk verði „heimsþegnar“. Þannig hvetja þær fólk af öllum þjóðum til að vinna saman, virða mannréttindi og vernda jörðina. Hvers vegna? „Loftslagsbreytingar, skipulögð glæpastarfssemi, aukinn ójöfnuður, langvarandi stríðsátök, vaxandi flóttamannavandi, hryðjuverk á heimsvísu, smitsjúkdómar og aðrar ógnir virða engin ... landamæri,“ segir Maher Nasser í tímaritinu UN Chronicle.
Sumir hafa gengið enn lengra og kallað eftir heimsstjórn. Meðal þeirra voru ítalski heimspekingurinn, skáldið og stjórnmálamaðurinn Dante (1265-1321) og eðlisfræðingurinn Albert Einstein (1879-1955). Dante hélt því fram að friður gæti ekki viðhaldist í heimi þar sem stjórnmálaleg sundrung ríkti. Hann sagði að ríki sem væri „sjálfu sér sundurþykkt, legðist í auðn,“ og vitnaði þar í orð Jesú Krists. – Lúkas 11:17.
Skömmu eftir síðari heimsstyrjöldina, þar sem tvær kjarnorkusprengjur voru notaðar, skrifaði Albert Einstein opið bréf til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Hann skrifaði: „Sameinuðu þjóðirnar verða að bregðast strax við og skapa þær aðstæður sem þarf fyrir heimsfrið með því að leggja grunn að raunverulegri heimsstjórn.“
En myndu þeir sem sætu í slíkri stjórn vera ónæmir fyrir spillingu, vanhæfni eða því að kúga aðra? Eða myndu þeir bregðast rétt eins og aðrir sem hafa farið með völd? Þessar spurningar kallast vel á við orð breska sagnfræðingsins Actons lávarðar en hann sagði: „Allt vald spillir og algert vald spillir algerlega.“
En við þurfum engu að síður að vera sameinuð til að mannkynið njóti varanlegs friðar og einingar. En hvernig er það hægt? Og er það raunhæfur möguleiki? Biblían svarar því játandi. Það er hægt og það mun gerast. En hvernig? Það mun ekki gerast með því að treysta stjórnmálamönnum sem hægt er að spilla. Öllu heldur mun stjórn, sem Guð setur á laggirnar, ná þeim árangri. Sú stjórn mun að auki endurspegla rétt hans til að ríkja yfir sköpunarverki sínu. Hvaða stjórn er þetta? Biblían kallar hana „Guðs ríki“ eða ríki Guðs. – Lúkas 4:43.
„TIL KOMI ÞITT RÍKI“
Jesús Kristur átti við ríki Guðs þegar hann sagði í faðirvorinu: ,Til komi þitt ríki, verði þinn vilji á jörðu.‘ (Matteus 6:9, 10) Guðsríki mun sjá til þess að vilji Guðs verði gerður hér á jörð, en ekki vilji valdagráðugra og sjálfselskra manna.
Ríki Guðs er líka kallað „himnaríki“. (Matteus 5:3) Af hverju? Þó að það muni ríkja yfir jörðinni ríkir það ekki frá jörðinni heldur frá himnum. Hugleiddu hvaða áhrif það hefur. Þessi heimsstjórn hefur ekki þörf á efnislegum eða fjárhagslegum stuðningi. Hvílík blessun fyrir þegna ríkisins hér á jörð.
Orðið „ríki“ gefur til kynna að Guðsríki sé stjórn. Konungur þessarar stjórnar er Jesús Kristur, en vald sitt hefur hann fengið frá Guði. Biblían segir um Jesú:
-
„Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla ... Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ – Jesaja 9:5, 6.
- „Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans ... líður aldrei undir lok.“ –
-
„Drottinn [Guð] og Kristur hans hafa fengið valdið yfir heiminum.“ – Opinberunarbókin 11:15.
Í samræmi við faðirvorið mun Guð nota ríki sitt til að láta vilja sinn með jörðina ná fram að ganga. Undir þessari stjórn mun mannkynið læra að hugsa vel um jörðina svo að hún verði aftur gróin og iðandi af lífi.
Umfram allt munu allir þegnar Guðsríkis lúta sömu lögum. Það verða engir flokkadrættir eða klíkur. „Enginn mun gera illt, enginn valda skaða ... því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið,“ segir í Jesaja 11:9.
Íbúar jarðar verða þá eins og Sameinuðu þjóðirnar geta einungis látið sig dreyma um – friðelskandi heimsþegnar. Þeir „gleðjast yfir miklu gengi,“ segir í Sálmi 37:11. Með tímanum munu orð eins og „glæpir“, „mengun“, „fátækt“ og „stríð“ hverfa úr orðaforða okkar. En hvenær gerist þetta? Hvenær tekur Guðsríki völdin? Hvernig mun það taka völdin? Og hvernig getur þú notið góðs af því? Skoðum það í næstu grein.