ÞEIR TÓKU Á VANDANUM
Frásögur Ricardos og Andresar
Menntun byggð á Biblíunni býr yfir einstökum mætti til að bæta líf fólks. Skoðum tvö dæmi um það: Ricardo og Andres.
RICARDO: Ég gekk til liðs við glæpagengi þegar ég var áhrifagjarn unglingur, aðeins 15 ára. Nýju félagarnir höfðu mikil áhrif á mig. Það hljómar kannski heimskulega en ég setti mér það markmið að sitja í fangelsi í tíu ár. Í hverfinu mínu var litið upp til þeirra sem höfðu setið í fangelsi og borin var virðing fyrir þeim. Ég vildi verða eins og þeir.
Ég tók þátt í öllu sem tengdist því að vera í gengi, meðal annars að neyta fíkniefna, stunda kynlíf og beita ofbeldi. Eitt kvöld tók ég þátt í skotbardaga. Ég hélt að ég myndi deyja en ég slapp ómeiddur. Eftir það hugsaði ég alvarlega um líf mitt og markmið og ákvað að ég vildi breyta mér. En hvernig átti ég að gera það? Hvar gæti ég fengið hjálp?
Flestir ættingjar mínir voru óhamingjusamir. Þeir glímdu við ýmis vandamál. En þannig var það ekki hjá einum frænda mínum. Ég vissi að fjölskylda hans lifði í samræmi við meginreglur Biblíunnar og að þau væru gott fólk. Þau höfðu eitt sinn sagt mér að nafn Guðs væri Jehóva. Stuttu eftir skotbardagann bað ég því til Jehóva. Ég ávarpaði hann með nafni og bað hann að hjálpa mér. Mér til mikillar undrunar bankaði einn af vottum Jehóva upp á hjá mér daginn eftir. Hann varð síðar biblíukennari minn.
Fljótlega stóð ég frammi fyrir stórri áskorun. Gömlu vinirnir hringdu oft og báðu mig að hitta sig. Ég svaraði neitandi þó að það hafi ekki verið auðvelt. Ég var ákveðinn í að halda áfram að kynna mér Biblíuna og er ánægður að hafa gert það. Líf mitt hefur stórbatnað og ég hef fundið sanna hamingju.
Ég man eftir að hafa sagt við Guð í bæn að ég hafi eitt sinn verið tilbúinn að sitja í fangelsi í tíu ár til að ávinna mér virðingu sem meðlimur í gengi. Ég bað hann því að leyfa mér að þjóna honum í að minnsta kosti 10 ár sem boðberi í fullu starfi til að hjálpa öðrum á sama hátt og mér var hjálpað. Guð svaraði bæn minni og ég hef nú verið boðberi í fullu starfi í 17 ár. Og ég get bætt því við að ég fór aldrei í fangelsi.
Aftur á móti hafa margir gömlu vina minna fengið langan fangelsisdóm og aðrir hafa látið lífið. Þegar ég lít til baka er ég innilega þakklátur ættingjum mínum sem eru vottar. Þeir voru fúsir til að vera öðruvísi og lifa í samræmi við Biblíuna. Ég ber meiri virðingu fyrir þeim en ég bar nokkurn tíma fyrir einhverjum í genginu. Framar öllu er ég þakklátur Guði fyrir að kenna mér bestu leiðina til að lifa lífinu.
ANDRES: Ég er fæddur og uppalinn í fátækrahverfi þar sem fíkniefni, fjárkúgun, vændi og morð voru algeng. Faðir minn var alkóhólisti og háður kókaíni. Foreldrar mínir voru sífellt að beita hvort annað andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að drekka áfengi og neyta fíkniefna. Ég var ekki mikið heima fyrir heldur fór út að stela og seldi síðan það sem ég stal. Eftir því sem ég varð eldri reyndi faðir minn að eignast nánara samband við mig, en hann notaði ekki góða aðferð til þess. Hann kenndi mér að smygla fíkniefnum og öðrum ólöglegum vörum inn í landið og selja þær. Ég eignaðist fljótt fullt af peningum. Síðar var ég handtekinn á heimili mínu og dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir morðtilraun.
Einn morguninn kom tilkynning í hátalarakerfinu í fangelsinu að föngum væri boðið að vera viðstaddir biblíuumræður sem vottar Jehóva héldu. Ég ákvað að mæta. Mér fannst það sem ég heyrði vera rökrétt og fór því að kynna mér Biblíuna með hjálp vottanna. Þeir útvötnuðu ekki það sem stendur í Biblíunni heldur sýndu mér háleitar siðferðiskröfur Guðs.
Mér varð fljótlega ljóst að ég gæti ekki gert nauðsynlegar breytingar án hjálpar, sérstaklega þegar mér var hótað af samföngum sem líkaði ekki það sem ég var að gera. Ég bað Jehóva um styrk og visku og hann hjálpaði mér. Í stað þess að láta undan hótunum fékk ég kjark til að tala um Biblíuna við samfangana.
Þegar ég var látinn laus varð ég svo kvíðinn að ég vildi helst vera lengur í fangelsi. Margir fangar vinkuðu til mín í kveðjuskyni þegar ég labbaði út. Sumir þeirra sögðu hlýlega: „Farðu heim, litli prédikari.“
Það er óhugnanlegt að hugsa til þess hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði ekki leyft Guði að fræða mig. Ég er virkilega þakklátur fyrir að Guð elskar mig og að hann hafi ekki litið á mig sem óforbetranlegan. *
^ Fleiri dæmi, sem sýna fram á mátt Biblíunnar til að breyta lífi fólks, er að finna á jw.org/is. Farðu inn á BÓKASAFN og leitaðu að greinaröðinni „Biblían breytir lífi fólks“.