Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góð gildi eru eins og áttaviti sem hjálpar börnunum að velja rétta stefnu.

FYRIR FORELDRA

7: Gildismat

7: Gildismat

HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR?

Gildismat eru þeir staðlar sem þú ákveður að lifa eftir. Ef þú leggur þig til dæmis fram um að vera alltaf heiðarlegur viltu eflaust kenna börnunum þínum að vera það líka.

Gildismat felur einnig í sér vinnusemi, sanngirni og tillitssemi við aðra – þetta eru eiginleikar sem best er að þroska með sér á meðan maður er enn ungur.

MEGINREGLA: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ – Orðskviðirnir 22:6.

HVERS VEGNA ER GILDISMAT MIKILVÆGT?

Núna á tímum tækniframfara er nauðsynlegt að hafa gott gildismat. „Hægt er að verða fyrir slæmum áhrifum hvenær sem er, í hvaða snjalltæki sem er,“ segir móðir að nafni Karyn. „Börnin okkar gætu jafnvel setið við hliðina á okkur á meðan þau horfa á eitthvað óviðeigandi.“

MEGINREGLA: „[Fullorðnir] hafa agað hugann til að greina gott frá illu.“ – Hebreabréfið 5:14.

Góð hegðun er einnig nauðsynleg. Hún felur í sér almenna kurteisi eins og að þakka fyrir sig og taka tillit til annarra. Þetta eru gildi sem eru orðin sjaldgæf þar sem flestir virðast hafa meiri áhuga á tækjum en fólki.

MEGINREGLA: „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ – Lúkas 6:31.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Segðu barninu hvert þitt gildismat er. Til dæmis sýna rannsóknir að unglingar eru mun líklegri til að halda sig frá kynlífi fyrir hjónaband ef þeim hefur verið kennt að það sé rangt.

RÁÐ: Notaðu atburði líðandi stundar til að hefja samræður um gildismat. Ef það er til dæmis rætt um hatursglæp í fréttunum gætirðu sagt: „Það er hræðilegt að fólk sé svona reitt og fordómafullt í garð annarra. Af hverju heldurðu að fólk verði svona?“

„Það er mikið erfiðara fyrir börn að velja á milli þess sem er rétt og rangt ef þau þekkja ekki muninn á réttu og röngu.“ – Brandon.

Kenndu börnunum góða hegðun. Jafnvel ung börn geta lært að þakka fyrir sig og taka tillit til annarra. „Þegar börn gera sér grein fyrir að þau eru ekki bara einstaklingar heldur hluti af hópi – fjölskyldu, skóla og samfélagi – verða þau fúsari til að gera eitthvað sem gagnast öllum en ekki bara þeim sjálfum,“ segir í bókinni Parenting Without Borders.

RÁÐ: Láttu börnin taka þátt í heimilisstörfunum til að hjálpa þeim að læra gildi þess að gera eitthvað fyrir aðra.

„Ef börnin okkar venjast því að sjá um heimilisstörf núna verður það ekki skellur fyrir þau að flytja að heiman. Þau verða vön að bera ábyrgð.“ – Tara.