Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Markmið eru eins og vinnuteikningar. Með vinnu verður eitthvað úr þeim.

FYRIR UNGLINGA

12: Markmið

12: Markmið

HVAÐ FELA ÞAU Í SÉR?

Að hafa markmið er meira en að eiga sér draum eða óska sér einhvers. Til að ná markmiðum sínum þarf maður að skipuleggja sig, vera sveigjanlegur og tilbúinn að bretta upp ermarnar og vinna.

Mislangan tíma tekur að ná markmiðum sínum. Sumum er hægt að ná á nokkrum dögum eða vikum og öðrum er hægt að ná á nokkrum mánuðum. Það getur tekið heilt ár eða meira að ná langtímamarkmiðum. Þeim má skipta niður í nokkur skemmri markmið.

HVERS VEGNA ERU MARKMIÐ MIKILVÆG?

Að ná markmiðum eflir sjálfstraust, styrkir vináttubönd og eykur ánægju.

Sjálfstraust: Þegar þú setur þér markmið og nærð þeim færðu sjálfsöryggi til að setja þér stærri markmið. Þá áttu líka auðveldara með að takast á við daglegar áskoranir eins og að standast hópþrýsting.

Vinátta: Fólki finnst gott að umgangast þá sem setja sér markmið – þá sem vita hvað þeir vilja og eru fúsir til að vinna að markmiðum sínum. Þar að auki er ein besta leiðin til að styrkja vináttuböndin að vinna saman að ákveðnum markmiðum.

Ánægja: Þér finnst þú hafa áorkað einhverju þegar þú nærð markmiðum þínum.

„Mér finnst gott að hafa markmið. Þau halda mér uppteknum og gefa mér eitthvað til að vinna að. Og það er svo frábært þegar maður nær markmiðinu og getur sagt: ,Vá, mér tókst það! Mér tókst að gera það sem ég ætlaði mér.‘“ – Christopher.

MEGINREGLA: „Sá sem sífellt gáir að vindinum sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin uppsker ekki.“ – Prédikarinn 11:4.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Gerðu eftirfarandi til að setja þér markmið og ná þeim.

Forgangsraðaðu. Búðu til lista yfir markmið sem þú vilt ná og raðaðu þeim eftir mikilvægi. Byrjaðu á því sem skiptir mestu máli og farðu svo áfram niður listann.

Gerðu áætlun. Þegar þú vinnur að hverju markmiði fyrir sig skaltu gera eftirfarandi:

  • Settu þér raunhæf tímamörk.

  • Ákveddu hvernig þú ætlar að ná markmiðinu.

  • Sjáðu fyrir þér hugsanlegar hindranir og hvernig þú getur yfirstigið þær.

Framkvæmdu. Byrjaðu þó að þú hafir ekki leyst öll smáatriði. Spyrðu þig hverju þú getir byrjað á til að vinna í átt að markinu. Gerðu það svo. Fylgstu síðan með hvernig þú nálgast markið smátt og smátt.

MEGINREGLA: „Áform hins iðjusama færa arð.“ – Orðskviðirnir 21:5.