Það sem vísindamenn geta ekki frætt okkur um
Vísindamenn virðast hafa rannsakað flest í hinum þekkta alheimi. Samt eru margar mikilvægar spurningar sem þeir eiga ekki svör við.
Geta vísindin svarað því hvernig alheimurinn og lífið urðu til? Nei. Sumir segja að sú grein vísindanna sem kallast heimsmyndarfræði eigi skýringu á því hvernig alheimurinn varð til. En Marcelo Gleiser, sem er efasemdamaður og prófessor í stjörnufræði við Dartmouth-háskólann, segir: „Við höfum ekki útskýrt neitt um uppruna alheimsins.“
Í grein í tímaritinu Science News segir líka um uppruna lífsins: „Það verður líklega aldrei hægt að segja með vissu hvernig lífið á jörðinni hófst. Flestir steingervingar sem hefðu getað sagt okkur hvað gerðist snemma í sögu jarðarinnar eru löngu horfnir.“ Þetta gefur til kynna að vísindin hafi ekki enn getað svarað því hvernig alheimurinn og lífið urðu til.
En þú veltir kannski fyrir þér: Ef það býr hönnun að baki lífinu á jörðinni, hver er þá hönnuðurinn? Þú hefur kannski líka velt fyrir þér eftirfarandi spurningum: Ef til er vitur og kærleiksríkur skapari, hvers vegna leyfir hann þá að mennirnir þjáist? Hvers vegna leyfir hann svo mörg ólík trúarbrögð? Hvers vegna leyfir hann tilbiðjendum sínum að gera svona margt slæmt?
Vísindin geta ekki svarað þessum spurningum. En það þýðir ekki að það sé ekki hægt að finna viðunandi svör. Margir hafa fundið fullnægjandi svör í Biblíunni.
Farðu inn á jw.org ef þig langar til að sjá hvers vegna sumir vísindamenn sem hafa tekið sér tíma til að rannsaka Biblíuna segjast trúa á skapara. Leitaðu að „það sem sumir segja um uppruna lífsins“.