Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu með staðreyndirnar á hreinu?

Ertu með staðreyndirnar á hreinu?

„Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ – ORÐSKV. 18:13.

SÖNGVAR: 126, 95

1, 2. (a) Hvað er mikilvægt fyrir okkur að læra og hvers vegna? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?

VIÐ sem erum vottar Jehóva þurfum að læra að leggja mat á upplýsingar og draga réttar ályktanir. (Orðskv. 3:21-23; 8:4, 5) Ef við gerum það ekki er hægðarleikur fyrir Satan og heiminn, sem hann stjórnar, að villa um fyrir okkur. (Ef. 5:6; Kól. 2:8) Við getum auðvitað ekki dregið réttar ályktanir nema við séum með staðreyndirnar á hreinu. Í Orðskviðunum 18:13 segir: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“

2 Í þessari grein er rætt um ýmislegt sem getur torveldað okkur að kynna okkur staðreyndir og draga réttar ályktanir. Við skoðum jafnframt hvernig við getum nýtt okkur vissar frásögur og meginreglur Biblíunnar til að læra að leggja rétt mat á upplýsingar.

EKKI TRÚA HVERJU ORÐI

3. Hvers vegna þurfum við að fara eftir meginreglunni í Orðskviðunum 14:15? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Upplýsingaflóðið, sem vefsíður, sjónvarp og aðrir fjölmiðlar dæla frá sér, virðist óendanlegt. Margir eru auk þess að drukkna í tölvupósti, textaskilaboðum og frásögum frá vinum og kunningjum sem vilja vel. Það er þó full ástæða til að vera varkár og vega og meta vandlega það sem við lesum og heyrum þar sem algengt er að fólk dreifi vísvitandi ósannindum og rangfærslum. Hvaða meginreglu er að finna í Biblíunni sem getur hjálpað okkur? Í Orðskviðunum 14:15 segir: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ – Biblían 1981.

4. Hvernig er Filippíbréfið 4:8, 9 hjálp til að velja hvað við lesum, og hvers vegna er nauðsynlegt að hafa réttar upplýsingar? (Sjá einnig rammann „ Nokkrar leiðir til að fá staðreyndir á hreint“.)

4 Við þurfum áreiðanlegar upplýsingar til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þess vegna verðum við að vera mjög vandfýsin á það sem við lesum. (Lestu Filippíbréfið 4:8, 9.) Við ættum ekki að sóa tímanum í að lesa vafasamar fréttavefsíður eða óstaðfestar fréttir sem dreift er í tölvupósti. Það er sérstaklega mikilvægt að forðast vefsíður þar sem fráhvarfsmenn viðra skoðanir sínar. Eina markmið þeirra er að brjóta niður trú þjóna Jehóva og rangfæra sannleikann. Vafasamar upplýsingar eru ávísun á slæmar ákvarðanir. Við skulum aldrei vanmeta hve sterk áhrif villandi upplýsingar geta haft á huga okkar og hjarta. – 1. Tím. 6:20, 21.

5. Hvaða ósönnu sögu fengu Ísraelsmenn að heyra og hvaða áhrif hafði hún á þá?

5 Ósannar sögur geta haft skelfilegar afleiðingar. Tökum dæmi frá dögum Móse. Tólf njósnarar voru sendir til að kanna fyrirheitna landið. Tíu þeirra gáfu mjög neikvæða og ýkta mynd af því. (4. Mós. 13:25-33) Frásögn þeirra var allsvakaleg og dró allan kjark úr þjóð Jehóva. (4. Mós. 14:1-4) Hvers vegna brást þjóðin þannig við? Kannski hugsuðu menn sem svo að þessi neikvæða frásögn hlyti að vera sönn fyrst meirihluti njósnaranna hafði þessa sögu að segja. Menn vildu ekki hlusta á góða og trúverðuga umsögn þeirra Jósúa og Kalebs. (4. Mós. 14:6-10) Í stað þess að kynna sér staðreyndirnar og treysta á Jehóva kusu þeir að trúa neikvæðu frásögunni. Það var heimskulegt.

6. Af hverju eigum við ekki að láta okkur bregða þegar við heyrum fráleitar sögur af þjónum Jehóva?

6 Við þurfum að vera sérstaklega varkár þegar sögur af þjónum Jehóva verða á vegi okkar. Við megum ekki gleyma að Satan ákærir trúa þjóna Guðs. (Opinb. 12:10) Þess vegna varaði Jesús við því að andstæðingar okkar myndu ,ljúga öllu illu upp á okkur‘. (Matt. 5:11) Ef við tökum orð hans alvarlega látum við okkur ekki bregða þegar við heyrum fráleitar fullyrðingar um þjóna Jehóva.

7. Um hvað þurfum við að hugsa áður en við sendum tölvupóst eða textaskilaboð?

7 Finnst þér gaman að senda vinum og kunningjum tölvupóst og textaskilaboð? Þegar þú rekst á eitthvað nýtt í fréttamiðli eða heyrir spennandi frásögu líður þér kannski eins og fréttamanni sem vill vera fyrstur með fréttirnar. En áður en þú sendir eitthvað slíkt með textaskilaboðum eða tölvupósti skaltu spyrja þig hvort það sé örugglega satt og rétt sem þú ætlar að senda. Ertu með staðreyndirnar á hreinu? Ef þú ert ekki viss gætirðu óafvitandi verið að dreifa ósannindum meðal bræðra þinna og systra. Ef þú ert í vafa skaltu eyða póstinum í stað þess að senda hann.

8. Hvað hafa andstæðingar gert í sumum löndum og hvernig gætum við óafvitandi lagt þeim lið?

8 Það er önnur hætta samfara því að áframsenda tölvupóst eða textaskilaboð hugsunarlaust. Í sumum löndum eru lagðar hömlur á starf okkar eða það bannað með öllu. Andstæðingar okkar í þessum löndum geta átt það til að koma á kreik sögusögnum sem er ætlað að vekja ótta eða vantraust meðal okkar. Það gerðist í Sovétríkjunum á sínum tíma. Leynilögreglan KGB kom þeim kvitt á loft að ýmsir vel þekktir bræður hefðu svikið söfnuðinn. * Margir lögðu trúnað á þessi ósannindi og sögðu því miður skilið við söfnuðinn. Sem betur fer sneru margir aftur en sumir gerðu það þó aldrei. Þeir liðu skipbrot á trú sinni. (1. Tím. 1:19) Hvernig getum við forðast að lenda í slíku? Dreifðu aldrei neikvæðum eða óstaðfestum frásögum. Vertu ekki auðtrúa. Vertu með allar staðreyndir á hreinu.

ÓFULLNÆGJANDI UPPLÝSINGAR

9. Hvað annað getur gert okkur erfitt fyrir að draga réttar ályktanir?

9 Hálfsannindi eða ófullnægjandi upplýsingar geta einnig torveldað okkur að draga réttar ályktanir. Saga, sem er aðeins 10 prósent sönn, er 100 prósent villandi. Hvað getum við gert til að láta ekki blekkjast af sögum sem eru ekki sannar nema að hluta til? – Ef. 4:14.

10. Hvers vegna munaði minnstu að Ísraelsmenn færu í stríð við bræður sína en hvernig var því afstýrt?

10 Við getum dregið lærdóm af Ísraelsmönnum sem bjuggu vestan við Jórdan á dögum Jósúa. (Jós. 22:9-34) Þeir fréttu að Ísraelsmenn austan árinnar (ættkvíslir Rúbens, Gaðs og hálf ættkvísl Manasse) hefðu reist stórt og mikið altari nálægt ánni. Þessi hluti fréttarinnar átti við rök að styðjast. En þar með var ekki öll sagan sögð. Ísraelsmenn vestan árinnar drógu samt þá ályktun að bræður þeirra fyrir austan hefðu gert uppreisn gegn Jehóva. Þeir kölluðu því saman her til að berjast við þá. (Lestu Jósúabók 22:9-12.) En áður en þeir létu til skarar skríða sendu þeir sem betur fer nokkra trausta menn til að afla upplýsinga. Að hverju komust þeir? Ísraelsmenn austan Jórdanar höfðu reist altarið sem minnismerki en ekki til að færa fórnir á því. Það átti að minna komandi kynslóðir á að þeir hefðu líka verið trúir þjónar Jehóva. Ísraelsmenn vestan árinnar hljóta að hafa verið mjög ánægðir. Takmörkuð vitneskja hefði getað orðið til þess að þeir brytjuðu niður bræður sína en í staðinn gáfu þeir sér tíma til að afla sér réttra upplýsinga.

11. (a) Hverju varð Mefíbóset fyrir? (b) Hvernig hefði Davíð getað afstýrt þessu ranglæti?

11 Við gætum líka orðið fyrir því óréttlæti að hálfsannindum eða ófullnægjandi upplýsingum sé dreift um okkur. Mefíbóset lenti í því. Davíð konungur var góður og örlátur við hann og skilaði honum öllum jarðeignum Sáls, afa hans. (2. Sam. 9:6, 7) En síðar var Davíð sögð ófögur saga af Mefíbóset. Davíð hafði ekki fyrir því að sannreyna söguna heldur ákvað að svipta hann öllum eigum hans. (2. Sam. 16:1-4) Þegar Davíð loks talaði við hann og áttaði sig á mistökum sínum gaf hann honum aftur hluta af eignunum. (2. Sam. 19:25-30) Hægt hefði verið að afstýra þessu ranglæti ef Davíð hefði gefið sér tíma til að afla sér upplýsinga í stað þess að taka fljótfærnislega ákvörðun byggða á takmarkaðri vitneskju.

12, 13. (a) Hvað gerði Jesús þegar logið var upp á hann? (b) Hvað getum við gert ef einhverju er logið upp á okkur?

12 En hvað er til ráða ef einhver ber út lygasögur um þig? Jesús og Jóhannes skírari urðu fyrir því. (Lestu Matteus 11:18, 19.) Hvernig brást Jesús við? Hann eyddi ekki miklum tíma og kröftum í að verja sig heldur hvatti fólk til að líta á staðreyndirnar – hvað hann gerði og hvað hann kenndi. „Spekin sannast af verkum sínum,“ eins og hann sagði. – Matt. 11:19.

13 Við getum dregið verðmætan lærdóm af Jesú. Fólk getur stundum verið gagnrýnið og ósanngjarnt í okkar garð. Okkur langar til að njóta sannmælis og við vildum geta gert eitthvað til að hreinsa mannorð okkar. Og eitt getum við reyndar gert. Ef einhver breiðir út lygar eða hálfsannindi um okkur getum við lifað þannig að enginn trúi lyginni. Við lærum af Jesú að hægt er að hrekja ósannindi með góðri hegðun sinni og líferni.

HVERNIG LÍTURÐU Á SJÁLFAN ÞIG?

14, 15. Á hvaða hátt er varhugavert að treysta á sjálfan sig?

14 Eins og við höfum séð getur verið erfitt að afla sér réttra upplýsinga. Ófullkomleiki okkar mannanna getur líka valdið erfiðleikum. Við höfum kannski þjónað Jehóva dyggilega áratugum saman og aflað okkur visku og reynslu. Fólk virðir okkur fyrir skynsemi okkar og góða dómgreind. En getur einhver hætta verið fólgin í því?

15 Já, við gætum farið að treysta um of á sjálf okkur. Tilfinningar okkar og eigin hugmyndir gætu farið að stjórna hugsun okkar. Við gætum talið okkur trú um að við værum fær um að skilja ákveðnar aðstæður þó að við þekktum ekki allar hliðar málsins. Það er mjög varhugavert. Biblían varar eindregið við því að reiða sig á eigið hyggjuvit. – Orðskv. 3:5, 6; 28:26.

16. Hvað gerist á veitingahúsinu í þessu ímyndaða dæmi og hvað hugsar Tómas?

16 Ímyndum okkur eftirfarandi aðstæður: Kvöld eitt er reyndur öldungur, sem við skulum kalla Tómas, staddur á veitingahúsi. Honum bregður illilega að sjá Jón, samöldung sinn, sitja við borð ásamt ókunnugri konu. Þetta er ekki eiginkona hans. Þau hlæja og skemmta sér greinilega vel. Að lokum faðmast þau innilega. Tómas er mjög áhyggjufullur. Ætli þetta leiði til hjónaskilnaðar? Hvað verður um konuna hans Jóns? Og hvað um börnin þeirra? Tómas hefur séð eitthvað svona lagað gerast áður. Hvernig hefði þér verið innanbrjósts ef þú hefðir séð eitthvað þessu líkt?

17. Hvað uppgötvaði Tómas og hvað má læra af því?

17 En bíðum nú við. Tómas ályktaði í fljótfærni að Jón væri konu sinni ótrúr. En þekkti hann allar hliðar málsins? Síðar um kvöldið hringdi hann í Jón. Þú getur rétt ímyndað þér hve létt honum var þegar hann komst að raun um að konan var systir Jóns og var í stuttri heimsókn í bænum. Þau höfðu ekki hist í mörg ár. Hún var á hraðferð og þau Jón höfðu gripið tækifærið til að hittast þarna og borða saman. Eiginkona Jóns hafði ekki tök á að vera með þeim. Sem betur fer hafði Tómas ekki sagt öðrum frá því sem hann ímyndaði sér að væri í gangi. Hvað lærum við af þessu? Þótt við höfum langa reynslu í þjónustu Jehóva kemur það ekki í staðinn fyrir að kynna sér staðreyndir.

18. Hvernig geta samskiptaörðugleikar slævt dómgreindina?

18 Ef við eigum í samskiptaörðugleikum við bróður í söfnuðinum getur það sömuleiðis torveldað okkur að draga réttar ályktanir. Það er hætta á að við verðum tortryggin í hans garð ef við erum sífellt að hugsa um missættið. Ef við heyrum síðan eitthvað neikvætt um hann trúum við því kannski eins og nýju neti. Hver er lærdómurinn? Ef okkur er illa við einhvern í söfnuðinum getur það haft þau áhrif að við drögum rangar ályktanir sem byggjast ekki á staðreyndum. (1. Tím. 6:4, 5) Við getum varðveitt fulla dómgreind með því að láta ekki öfund og afbrýði festa rætur í hjarta okkar. Jehóva vill að við elskum trúsystkini okkar og fyrirgefum þeim af öllu hjarta. Gleymum því aldrei. – Lestu Kólossubréfið 3:12-14.

MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR VERNDA OKKUR

19, 20. (a) Hvaða meginreglur hjálpa okkur að leggja rétt mat á upplýsingar? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

19 Það er enginn hægðarleikur að kynna sér staðreyndir máls og leggja rétt mat á þær vegna þess að það er mikið af vafasömum upplýsingum og hálfsannindum í umferð. Auk þess þurfum við að glíma við okkar eigin ófullkomleika. Hvað er þá til ráða? Við þurfum að þekkja meginreglur Biblíunnar og fara eftir þeim. Ein þeirra er sú að það sé heimska og skömm að svara áður en maður er með staðreyndirnar á hreinu. (Orðskv. 18:13) Í annarri meginreglu erum við minnt á að trúa ekki hverju orði. (Orðskv. 14:15, Biblían 1981) Og að síðustu megum við ekki reiða okkur á eigið hyggjuvit, óháð því hve mikla reynslu við höfum í þjónustu Jehóva. (Orðskv. 3:5, 6) Meginreglur Biblíunnar eru okkur til verndar ef við drögum réttar ályktanir og tökum skynsamlegar ákvarðanir byggðar á staðreyndum sem við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir.

20 Sú tilhneiging okkar að dæma eftir ytra útliti er enn ein ástæða fyrir því að okkur getur fundist erfitt að komast til botns í málum. Í næstu grein skoðum við nokkrar algengar tálgryfjur á þessu sviði og könnum hvernig við getum forðast þær.

^ gr. 8 Sjá árbók Votta Jehóva 2004, bls. 111-112, og árbókina 2008, bls. 133-135.