Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leiðin að sönnu frelsi

Leiðin að sönnu frelsi

„Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir.“ – JÓH. 8:36.

SÖNGVAR: 54, 36

1, 2. (a) Hvernig sjáum við að frelsi er fólki mikilvægt? (b) Til hvers hefur frelsisbarátta oft leitt?

NÚ Á tímum er mikið talað um jafnrétti og frelsi. Fólk víðs vegar um heim vill verða frjálst undan kúgun, mismunun og fátækt. Aðrir berjast fyrir málfrelsi, valfrelsi og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Alls staðar virðist fólk þrá að geta gert það sem það vill og lifað því lífi sem það vill.

2 Að uppfylla þessa þrá er þó allt annað mál. Þegar um er að ræða samfélagsleg eða pólitísk mál grípa margir til þess ráðs að mótmæla, fara í kröfugöngur, gera uppreisn og æsa jafnvel til stjórnarbyltingar. En hefur slík barátta borið tilætlaðan árangur? Þvert á móti hefur hún oft leitt til manntjóns og mikilla harmleikja. Þetta, eins og svo margt annað, vitnar um sannleiksgildi þess sem Salómon konungi var innblásið að skrifa: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ – Préd. 8:9.

3. Hvað getum við gert til að finna sanna hamingju og lífsfyllingu?

3 Lærisveinninn Jakob benti á lykilinn að því að finna sanna hamingju og lífsfyllingu. Hann skrifaði: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það ... verður sæll í verkum sínum.“ (Jak. 1:25) Jehóva gaf okkur þessi fullkomnu lög og hann veit best hvað mennirnir þurfa til að vera hamingjusamir og ánægðir. Hann gaf fyrstu mannhjónunum allt sem þau þurftu til að vera hamingjusöm – þar með talið raunverulegt frelsi.

ÞEGAR MENNIRNIR HÖFÐU RAUNVERULEGT FRELSI

4. Hvers konar frelsis nutu Adam og Eva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Þegar við lesum tvo fyrstu kaflana í 1. Mósebók er auðvelt að sjá að Adam og Eva nutu frelsis sem menn nú á dögum geta aðeins vonast eftir – frelsis frá ótta, kúgun og frá áhyggjum af nauðsynjum. Fyrstu hjónin voru algerlega laus við áhyggjur af mat, vinnu, veikindum og dauða. (1. Mós. 1:27-29; 2:8, 9, 15) Þýðir það að Adam og Eva hafi búið við algert frelsi? Skoðum málið.

5. Hvað er nauðsynlegt til að fólk geti notið frelsis, öfugt við það sem margir halda?

5 Margir nú á dögum hugsa sem svo að þeir geti ekki verið raunverulega frjálsir nema þeir geti gert allt sem þeir vilja, sama hvaða afleiðingar það hefur. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia skilgreinir frelsi sem það „að geta valið og beitt valfrelsi sínu“. Hún heldur áfram: „Frá lagalegu sjónarmiði er fólk frjálst ef þjóðfélagið setur því engar ranglátar, óþarfar eða ósanngjarnar skorður.“ Þetta gefur til kynna að ákveðin takmörk séu nauðsynleg til að allir í þjóðfélaginu geti notið frelsisins sem þar ríkir. En þá er spurningin: Hver hefur réttinn til að ákveða hvaða takmörk séu réttlát, nauðsynleg og sanngjörn?

6. (a) Hvers vegna býr Jehóva einn yfir algeru frelsi? (b) Hvers konar frelsis geta menn notið og af hverju?

6 Lykilatriði, sem við ættum að hafa í huga, er að Jehóva Guð einn býr yfir því sem kalla má algert og ótakmarkað frelsi. Af hverju segjum við það? Af því að hann er skapari alls og alvaldur drottinn alheims. (1. Tím. 1:17; Opinb. 4:11) Hugsum um fallega lýsingu Davíðs konungs á þeirri einstöku og háleitu stöðu Jehóva sem hann einn hefur. (Lestu 1. Kroníkubók 29:11, 12.) Í samræmi við þessa lýsingu er frelsi allra sköpunarvera á himni og jörð afstætt. Þær þurfa að viðurkenna að Jehóva Guð fer með æðsta vald til að setja takmörk sem hann ákveður að séu réttlát, nauðsynleg og sanngjörn. Og það hefur hann reyndar gert allt frá upphafi mannkyns.

7. Hvað gerum við sem er okkur eðlislægt en veitir okkur ánægju?

7 Upphaflega nutu Adam og Eva frelsis á marga vegu en þó voru þeim takmörk sett. Sum voru þeim eðlislæg en þau urðu engu að síður að lúta þeim. Til dæmis vissu foreldrar mannkyns að þeir þurftu að anda, borða, sofa og svo framvegis til að viðhalda lífinu. Fannst þeim það skerða frelsi sitt að þurfa að gera þetta? Nei, því að Jehóva sá til þess að jafnvel þessir hversdagslegu hlutir veittu þeim ánægju og gleði. (Sálm. 104:14, 15; Préd. 3:12, 13) Hverjum finnst ekki gott að anda að sér fersku lofti, borða uppáhaldsmatinn sinn eða vakna eftir góðan nætursvefn? Við gerum þessa nauðsynlegu hluti án þess að finnast okkur vera íþyngt eða að við séum þvinguð til þess. Adam og Evu leið eflaust eins.

8. Hvaða fyrirmæli gaf Guð fyrstu hjónunum og hvers vegna?

8 Jehóva gaf Adam og Evu þau fyrirmæli að þau skyldu fylla jörðina fólki og annast hana. (1. Mós. 1:28) Skerti þetta boð frelsi þeirra með einhverjum hætti? Auðvitað ekki. Það gerði mönnunum kleift að eiga þátt í að framfylgja fyrirætlun skaparans – að gera jörðina alla að paradís þar sem fullkomið mannkyn myndi lifa að eilífu. (Jes. 45:18) Nú á dögum stríðir það ekki gegn vilja Jehóva að fólk kjósi að vera einhleypt eða að hjón velji að vera barnlaus. Margir ákveða samt að giftast og eignast börn þrátt fyrir erfiðleikana sem kunna að fylgja því. (1. Kor. 7:36-38) Af hverju? Af því að við eðlilegar aðstæður veitir það ánægju og lífsfyllingu. (Sálm. 127:3) Adam og Eva hefðu getað notið hjónabandsins og þeirrar gleði að vera með fjölskyldunni um alla eilífð.

HVERNIG GLATAÐIST HIÐ SANNA FRELSI?

9. Hvers vegna voru fyrirmæli Guðs í 1. Mósebók 2:17 ekki ranglát, óþörf eða ósanngjörn?

9 Jehóva gaf Adam og Evu önnur fyrirmæli, en þeim fylgdu skýr refsiákvæði ef þau brytu gegn þeim. Hann sagði: „Af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ (1. Mós. 2:17) Var þetta boð með nokkrum hætti ranglátt, óþarft eða ósanngjarnt? Rændi það Adam og Evu frelsinu? Alls ekki. Margir biblíufræðingar benda reyndar á hve rökrétt og skynsamlegt þetta boð hafi verið. Einn þeirra segir til dæmis: „Ályktunin, sem við getum dregið af boði Guðs í [1. Mósebók 2:16, 17], er sú að það er aðeins Guð sem veit hvað er mönnunum til góðs ... og aðeins hann veit hvað þeim er ekki til góðs ... Til að geta notið hins ,góða‘ þurfa menn að treysta Guði og hlýða honum. Ef þeir óhlýðnast þurfa þeir að ákveða sjálfir hvað er gott ... og hvað er slæmt.“ Það er byrði sem mennirnir geta ekki borið sjálfir ef vel á að ganga.

Val Adams og Evu hafði skelfilegar afleiðingar. (Sjá 9.-12. grein.)

10. Hvers vegna megum við ekki rugla saman frjálsa viljanum og réttinum til að ákveða hvað er gott og hvað er illt?

10 Margir sem lesa þessi fyrirmæli Jehóva til Adams nú á tímum myndu segja að Adam hafi verið neitað um frelsi til að gera það sem hann vildi. Þannig rugla þeir saman frjálsa viljanum og réttinum til að ákveða hvað er gott og hvað er illt. Adam og Eva höfðu frelsi til að kjósa hvort þau myndu hlýða Guði eða ekki. En það er aðeins Jehóva sem hefur algeran rétt til að ákveða hvað er gott og hvað er illt, rétt eins og „skilningstré góðs og ills“ í Edengarðinum var tákn um. (1. Mós. 2:9) Við verðum að viðurkenna að við vitum ekki alltaf til hvers ákvarðanir okkar leiða né hvort þær verði okkur alltaf til góðs. Þess vegna sjáum við fólk svo oft taka ákvarðanir sem leiða til þjáninga, ógæfu eða harmleiks – þó að þær hafi verið teknar af góðum ásetningi. (Orðskv. 14:12) Að miklu leyti er það vegna þess að mennirnir eru takmörkum háðir. Með fyrirmælum sínum kenndi Jehóva Adam og Evu hvernig þau ættu að fara með hið sanna frelsi. Hvernig þá? Og hvernig brugðust þau við?

11, 12. Hvers vegna reyndist ákvörðun Adams og Evu vera hörmuleg? Lýstu með dæmi.

11 Foreldrar mannkyns kusu því miður að óhlýðnast. Satan laug að Evu og sagði: „Augu ykkar [ljúkast] upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“ Þessi freisting reyndist ómótstæðileg fyrir Evu. (1. Mós. 3:5) Átti val Adams og Evu eftir að auka frelsi þeirra með einhverjum hætti? Nei. Ákvörðun þeirra veitti þeim ekki það sem Satan hafði lofað. Fljótlega komust þau að raun um að þegar maður hafnar leiðsögn Jehóva og fer sínar eigin leiðir endar það með hörmungum. (1. Mós. 3:16-19) Af hverju? Einfaldlega af því að Jehóva gaf mönnunum ekki frelsi til að ákveða sjálfir hvað er gott og hvað er illt. – Lestu Orðskviðina 20:24 *; Jeremía 10:23.

12 Lýsum þessu með dæmi. Flugmaður þarf yfirleitt að fylgja fyrirframákveðinni flugleið til að komast örugglega á áfangastað. Hann þarf að nota leiðsögutæki vélarinnar og halda sambandi við flugumferðarstjóra á leiðinni. Ef flugmaðurinn ákveður að hunsa þessa leiðsögn og fljúga hvaða leið sem er gæti það haft skelfilegar afleiðingar. Adam og Eva vildu fara sínar eigin leiðir, rétt eins og þessi flugmaður. Þau höfnuðu leiðsögninni frá Guði. Hver var afleiðingin? Þau lentu í hörmulegu slysi sem kallaði synd og dauða yfir þau sjálf og ófædda afkomendur þeirra. (Rómv. 5:12) Þau sóttust eftir að fá að ráða sér sjálf en glötuðu þannig hinu sanna frelsi sem þau höfðu fengið.

HVERNIG HLJÓTUM VIÐ HIÐ SANNA FRELSI?

13, 14. Hvernig getum við öðlast hið sanna frelsi?

13 Sumir halda að því meira frelsi sem þeir hafa því betra. En raunin er sú að óheft frelsi er tvíeggjað sverð. Frelsi hefur vissulega marga kosti en okkur hrýs hugur við tilhugsuninni um hvernig heimurinn liti út ef engar hömlur væru til staðar. The World Book Encyclopedia segir: „Lög hvers skipulagðs þjóðfélags mynda flókið mynstur frelsis og hamla sem þurfa að vera í jafnvægi.“ „Flókið“ er sannarlega rétta orðið. Hugsum bara um þær endalausu raðir lögbóka sem menn hafa skrifað, svo ekki sé minnst á allan þann herskara lögfræðinga og dómara sem þarf til að túlka þessi lög og framfylgja þeim.

14 Jesús Kristur benti hins vegar á einfalda leið til að geta notið hins sanna frelsis. Hann sagði: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóh. 8:31, 32) Þessar leiðbeiningar Jesú um að öðlast hið sanna frelsi fela tvennt í sér. Í fyrsta lagi þurfum við að taka við sannleikanum sem hann kenndi og í öðru lagi að verða lærisveinar hans. Ef við gerum það hljótum við hið sanna frelsi. En frelsi frá hverju? Jesús útskýrði það í framhaldinu: „Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar ... Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir.“ – Jóh. 8:34, 36.

15. Hvers vegna er frelsið, sem Jesús lofaði, hið sanna frelsi?

15 Frelsið, sem Jesús lofaði lærisveinum sínum, er greinilega miklu æðra því samfélagslega og pólitíska frelsi sem flestir þrá núna. Þegar Jesús sagði: „Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir,“ var hann að tala um frelsi frá mestu fjötrum og kúgun sem mannkynið hefur nokkurn tíma upplifað – að vera ,þrælar syndarinnar‘. Syndin veldur því ekki bara að við gerum það sem er rangt heldur getur hún einnig komið í veg fyrir að við gerum það sem við vitum að er rétt eða að við gerum okkar ýtrasta til að gera gott. Þannig erum við þrælar syndarinnar og afleiðingin er vonbrigði, sársauki, þjáningar og að lokum dauði. (Rómv. 6:23) Páll postuli fann sterklega fyrir þessari kvöl og angist. (Lestu Rómverjabréfið 7:21-24.) Það er ekki fyrr en við losnum úr fjötrum syndarinnar sem við getum hlotið hið sanna frelsi sem Adam og Eva nutu.

16. Hvernig getum við hlotið hið sanna frelsi?

16 Orð Jesú, „ef þér farið eftir því sem ég segi“, gefa til kynna að við þurfum að uppfylla ákveðnar kröfur ef við viljum njóta frelsisins sem hann býður okkur. Sem vígðir fylgjendur Krists höfum við afneitað sjálfum okkur og kosið að lifa innan þeirra marka sem hann setti lærisveinum sínum. (Matt. 16:24) Eins og Jesús lofaði hljótum við hið sanna frelsi þegar við fáum að njóta góðs af lausnarfórn hans til fulls.

17. (a) Hvað veitir okkur hamingju og raunverulegan tilgang í lífinu? (b) Hvað er rætt í næstu grein?

17 Það veitir okkur hamingju og raunverulegan tilgang í lífinu að vera lærisveinar Jesú og halda okkur við það sem hann kenndi. Það gerir okkur síðan kleift að geta losnað algerlega undan þrælkun syndar og dauða. (Lestu Rómverjabréfið 8:1, 2, 20, 21.) Í næstu grein er rætt hvernig við getum notað skynsamlega frelsið sem við höfum núna þannig að við getum heiðrað Jehóva, Guð hins sanna frelsis, að eilífu.

^ gr. 11 Orðskviðirnir 20:24, neðanmáls (NW): „Jehóva stýrir skrefum mannsins. Hvernig getur maðurinn vitað hvaða veg hann á að fara?“