Spurningar frá lesendum
Geta kristin hjón litið á lykkjuna sem ákjósanlega getnaðarvörn?
Öll kristin hjón geta skoðað vandlega hvernig lykkjan virkar og hvaða meginreglur Biblíunnar eiga við. Síðan ættu þau að taka ákvörðun sem gerir þeim kleift að hafa góða samvisku frammi fyrir Guði.
Á þeim tíma, sem aðeins tvær manneskjur voru á jörðinni (og átta eftir flóðið), gaf Jehóva þessi fyrirmæli: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur.“ (1. Mós. 1:28; 9:1) En Biblían segir ekki að þessi fyrirmæli eigi við um kristna menn. Hjón þurfa því að ákveða hvort þau ætli að nota einhvers konar getnaðarvörn til að takmarka barneignir eða til að ákveða hvenær þau eignist börn. Hvað ættu þau að hafa í huga?
Þjónar Guðs ættu að taka mið af meginreglum Biblíunnar þegar þeir taka ákvörðun um notkun getnaðarvarna. Þeir myndu því aldrei nota fóstureyðingu til að koma í veg fyrir barneignir. Fóstureyðingar stríða gegn því sem Biblían segir um að virða lífið. Kristnir menn myndu ekki binda enda á líf sem myndi annars þroskast og með tímanum fæðast sem manneskja. (2. Mós. 20:13; 21:22, 23; Sálm. 139:16; Jer. 1:5) En hvernig líta þeir á notkun lykkjunnar?
Þetta mál var rætt í Varðturninum 1. janúar 1980, bls. 23-24. Flestar lykkjur, sem voru algengar á þeim tíma, voru lítil plaststykki sem komið var fyrir í leginu til að koma í veg fyrir þungun. Í greininni kom fram að ekki væri að fullu vitað hvernig lykkjan virkaði. Margir sérfræðingar sögðu að hún ylli viðbrögðum í leginu sem kæmu í veg fyrir að sæði næði til eggs konunnar og frjóvgaði það. Ef getnaður átti sér ekki stað hafði ekki myndast nýtt líf.
Þó voru vísbendingar um að egg gat stundum frjóvgast. Nýfrjóvgað eggið gat þá vaxið í eggjaleiðara (utanlegsfóstur) eða ferðast inn í legið. Í síðari tilvikinu gæti lykkjan komið í veg fyrir að frjóvgað eggið byggi um sig í legslímhúðinni og héldi áfram að þroskast eins og við eðlilega meðgöngu. Að binda enda á líf á þessu stigi væri talið fóstureyðing. Í greininni var komist að þessari niðurstöðu: „Einlægur kristinn maður, sem veltir fyrir sér hvort rétt sé að nota lykkjuna, ætti alvarlega að vega og meta slíkar upplýsingar í ljósi þeirrar virðingar sem Biblían sýnir að borin skuli fyrir heilagleika lífsins.“ –Hafa orðið einhverjar vísindalegar eða læknisfræðilegar framfarir á þessu sviði síðan þessi grein kom út árið 1980?
Tvær tegundir af lykkjum hafa bæst við. Önnur þeirra inniheldur kopar, en hún hefur verið fáanleg um nokkurra áratuga skeið. Nokkru síðar kom auk þess á markaðinn lykkja sem gefur frá sér hormón. Hvað er vitað um áhrif þessara tveggja tegunda af lykkjum?
Koparlykkja: Eins og fram hefur komið virðist lykkjan torvelda sæðinu að komast gegnum legið og ná til eggsins. Auk þess gefur lykkjan frá sér kopar sem virðist eitra fyrir sæðinu og virka eins og sæðisdrepandi efni. * Þessar lykkjur hafa einnig áhrif á legslímhúðina.
Hormónalykkja: Til eru mismunandi tegundir af lykkjum sem innihalda svipað hormón og það sem finna má í getnaðarvarnarpillum. Þessar lykkjur gefa frá sér hormón í leginu og það virðist koma í veg fyrir egglos hjá sumum konum. Þegar ekkert egglos verður getur egg auðvitað ekki frjóvgast. Þar fyrir utan hefur verið bent á að hormónið í þessum lykkjum þynni legslímhúðina. * Það þykkir einnig slím leghálsins og hindrar þannig að sæðið komist frá leggöngunum inn í legið. Þessi verkun bætist við þá verkun sem lykkjur án efna eða hormóna hafa.
Eins og fram hefur komið virðast báðar þessar tegundir lykkja breyta legslímhúðinni. En hvað ef egglos á sér stað og eggið nær að frjóvgast? Það gæti komist inn í legið en ekki getað búið um sig í slímhúðinni þar sem hún er ekki eins móttækileg og áður. Þannig yrði endi bundinn á meðgöngu snemma í ferlinu. Þó er talið sjaldgæft að slíkt gerist. Og reyndar gæti þetta líka gerst við notkun getnaðarvarnarpillunar.
Enginn getur því sagt með vissu að egg geti aldrei frjóvgast þegar notuð er lykkja sem inniheldur kopar eða hormón. Vísindalegar rannsóknir sýna þó að vegna þeirra margþættu áhrifa lykkjunnar, sem rætt hefur verið um hér að ofan, er mjög sjaldgæft að kona verði þunguð ef hún notar slíka getnaðarvörn.
Kristin hjón, sem velta fyrir sér hvort þau vilji nota lykkjuna, gætu rætt við lækni um hvaða lykkjur séu í boði og um hugsanlega kosti þeirra og áhættur fyrir konuna. Hjón ættu ekki að ætlast til eða leyfa þriðja aðila, þar með talið lækni, að ákveða hvað þau gera. (Rómv. 14:12; Gal. 6:4, 5) Þetta er ákvörðun sem hjón þurfa sjálf að taka. Það ætti að skipta þau miklu máli að ákvörðunin sé Guði þóknanleg og að þau hafi hreina samvisku frammi fyrir honum. – Samanber 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19; 2. Tímóteusarbréf 1:3.
^ gr. 4 Í upplýsingariti, sem opinber heilbrigðisþjónusta á Englandi gaf út, segir: „Lykkjur, sem innihalda mikinn kopar, veita meira en 99% vörn. Það þýðir að á hverju ári verður innan við ein af hverjum 100 konum, sem nota lykkjuna, barnshafandi. Lykkjur, sem innihalda minna magn kopar, veita ekki eins góða vörn.“
^ gr. 5 Þar sem hormónalykkjan þynnir legslímhúðina hafa læknar stundum mælt með að giftar eða ógiftar konur noti hana til að minnka blæðingar ef þær eru mjög miklar.