Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar – „vinnið að björgun ykkar“

Unglingar – „vinnið að björgun ykkar“

„Mín elskuðu, sem hafið alltaf verið hlýðin, vinnið að björgun ykkar með ugg og ótta.“ – FIL. 2:12, NW.

SÖNGVAR: 133, 135

1. Hvers vegna er mikilvægt að skírast? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÁR HVERT skírast biblíunemendur í þúsundatali. Margir þeirra eru ungir að árum – táningar eða jafnvel yngri. Sumir hafa alist upp í sannleikanum. Ert þú í þeim hópi? Þá áttu hrós skilið. Allir kristnir menn þurfa að skírast og það er líka nauðsynlegt til að bjargast. – Matt. 28:19, 20; 1. Pét. 3:21.

2. Hvers vegna ættirðu ekki að veigra þér við að vígjast Jehóva og skírast?

2 Það fylgir því viss ábyrgð að skírast þó að það hafi líka margs konar blessun í för með sér. Hvernig þá? Daginn sem þú skírðist varstu spurður: „Hefur þú, á grundvelli fórnar Jesú Krists, iðrast synda þinna og vígt þig Jehóva til að gera vilja hans?“ Þú svaraðir játandi. Skírnin er tákn um að þú hafir vígst Jehóva. Þú lofaðir honum hátíðlega að elska hann og láta vilja hans ganga fyrir öllu öðru. Það er alvarleg skuldbinding. Ættirðu að sjá eftir því að hafa gefið svona alvarlegt loforð? Alls ekki. Það er aldrei röng ákvörðun að leggja líf sitt í hendur Jehóva. Hugsaðu um hinn valkostinn. Sá sem þekkir ekki Jehóva er undir stjórn Satans. Satan hefur engan áhuga á að þú bjargist. Hann yrði hæstánægður ef þú tækir afstöðu með honum, hafnaðir Jehóva og fengir ekki eilíft líf.

3. Hvaða blessun fylgir því að vígjast Jehóva?

3 Veltu fyrir þér hvernig Jehóva hefur blessað þig af því að þú vígðist honum og lést skírast í stað þess að styðja Satan. Eftir að hafa gefið Jehóva líf þitt geturðu sagt af enn meira öryggi en áður: „Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gert mér?“ (Sálm. 118:6) Það er ekki hægt að hljóta meiri heiður en þann að standa með Jehóva Guði og njóta velþóknunar hans.

ÞÍN EIGIN ÁBYRGÐ

4, 5. (a) Hvers vegna má segja að hver og einn þurfi sjálfur að bera ábyrgð á vígsluheiti sínu? (b) Hvaða áskoranir eru ekki einskorðaðar við ungt fólk?

4 Þú mátt ekki líta á samband þitt við Jehóva eins og ,fjölskyldupakka‘ hjá símafyrirtæki sem foreldrar þínir borga fyrir. Eftir að þú skírist berðu sjálfur ábyrgð á því að bjargast, jafnvel þó að þú búir enn í foreldrahúsum. Af hverju er mikilvægt að hafa það í huga? Af því að þú getur ekki alltaf séð fyrir hvernig á eftir að reyna á þig í framtíðinni. Ef þú lést skírast áður en þú komst á táningsaldur máttu til dæmis búast við nýjum tilfinningum og þrýstingi á gelgjuskeiðinu. Unglingsstúlka orðar það þannig: „Barni finnst yfirleitt ekkert að því að vera vottur Jehóva þó að það fái ekki sneið af afmælistertu í skólanum. En fáeinum árum síðar, þegar kynhvötin kviknar, þarf maður að vera fullkomlega sannfærður um að það sé alltaf besti kosturinn að fylgja lögum Jehóva.“

5 Það eru auðvitað ekki bara unglingar sem þurfa að takast á við nýjar áskoranir. Þeir sem láta skírast á fullorðinsaldri verða líka fyrir ýmsum óvæntum prófraunum. Þær geta snúið að hjónabandi, heilsunni eða atvinnu. Allir, óháð aldri, lenda í aðstæðum þar sem reynir á trúfesti þeirra við Jehóva. – Jak. 1:12-14.

6. (a) Hvað merkir það að vígast Jehóva skilyrðislaust? (b) Hvað má læra af Filippíbréfinu 4:11-13?

6 Mundu að þú vígist Jehóva skilyrðislaust. Það hjálpar þér að vera honum trúr undir öllum kringumstæðum. Þú lofaðir Drottni alheims að þjóna honum hvað sem á dynur, jafnvel þótt vinir þínir eða foreldrar hætti því. (Sálm. 27:10) Hverjar sem aðstæður þínar eru geturðu staðið við vígsluheit þitt með hjálp Jehóva. – Lestu Filippíbréfið 4:11-13.

7. Hvað merkir það að vinna að björgun sinni „með ugg og ótta“?

7 Jehóva vill eiga þig að vini. En þú þarft að leggja eitthvað á þig til að viðhalda vináttunni og vinna að björgun þinni. Í Filippíbréfinu 2:12 erum við meira að segja hvött til að ,vinna að björgun okkar með ugg og ótta‘. Þessi orð bera með sér að þú þurfir að hugleiða vel hvernig þú getur viðhaldið vináttusambandinu við Jehóva og verið honum trúr hvað sem drífur á daga þína. Þú mátt ekki vera of öruggur með þig. Það eru jafnvel dæmi um að fólk hafi farið út af sporinu eftir að hafa þjónað Jehóva árum saman. Hvað geturðu þá gert til að vinna að björgun þinni?

BIBLÍUNÁM ER MIKILVÆGT

8. Hvað er fólgið í sjálfsnámi og hvers vegna er það mikilvægt?

8 Vinátta við Jehóva byggist á gagnkvæmum tjáskiptum – að hlusta og tala. Við hlustum fyrst og fremst á Jehóva með sjálfsnámi í Biblíunni. Það er fólgið í því að afla sér þekkingar með því að lesa og hugleiða Biblíuna og biblíutengd rit. Þegar þú gerir það skaltu hafa hugfast að biblíunám er annað og meira en hugarleikfimi. Markmiðið ætti ekki að vera bara að leggja staðreyndir á minnið eins og til að ná prófi. Árangursríkt biblíunám er eins og könnunarleiðangur þar sem þú rannsakar og uppgötvar eitthvað nýtt um Jehóva. Þannig nálgastu Jehóva og hann nálgast þig. – Jak. 4:8.

Hversu góð tjáskipti áttu við Jehóva? (Sjá 8.-11. grein.)

9. Hvað hefur hjálpað þér í sjálfsnámi þínu?

9 Söfnuður Jehóva hefur látið í té fjölmörg hjálpargögn til að auðvelda þér að stunda innihaldsríkt sjálfsnám. Á jw.org er til dæmis að finna Biblíuverkefni undir valmyndinni Unglingar þar sem hvatt er til að draga lærdóma af atburðum sem sagt er frá í Biblíunni. Námsverkefnin Hvað kennir Biblían? geta hjálpað þér að styrkja trúarsannfæringu þína. Þú getur notað þau til að læra að útskýra trú þína fyrir öðrum. Finna má fleiri hugmyndir í greininni „Sjö skref til að hafa gagn af biblíulestri“ í Varðturninum 1. október 2010. * Biblíunám og hugleiðing er mikilvægur þáttur í að vinna að björgun sinni. – Lestu Sálm 119:105.

ÞAÐ ER MIKILVÆGT AÐ BIÐJA

10. Hvers vegna er mikilvægt fyrir skírðan þjón Jehóva að biðja?

10 Við hlustum á Jehóva meðal annars með sjálfsnámi en þegar við biðjum erum við að tala við hann. Þjónn Guðs ætti ekki að líta á bænina sem innihaldslausan trúarsið eða hugsa sér að hún virki eins og verndargripur og auki líkurnar á að manni gangi vel. Við erum bókstaflega að tala við skapara okkar þegar við biðjum. Jehóva vill heyra það sem liggur þér á hjarta. (Lestu Filippíbréfið 4:6.) Biblían ráðleggur okkur að varpa áhyggjum okkar á hann. (Sálm. 55:23) Trúirðu að það sé gott að gera það? Milljónir bræðra og systra geta staðfest að það sé mikil hjálp að biðja. Það getur líka hjálpað þér.

11. Hvers vegna ættirðu alltaf að þakka Jehóva?

11 En við ættum ekki aðeins að fara með bæn til að biðja Jehóva um hjálp. „Verið þakklát,“ segir í Biblíunni. (Kól. 3:15) Við getum orðið svo upptekin af okkar eigin vandamálum að við missum sjónar á öllu því góða sem við höfum. Hvernig væri að hugsa um að minnsta kosti þrennt á hverjum degi sem þú mátt vera þakklátur fyrir? Síðan skaltu þakka Jehóva fyrir það í bæn. Abigail skírðist 12 ára og er nú á unglingsaldri. Hún segir: „Mér finnst Jehóva eiga þakkir okkar skildar meira en nokkur annar í öllum alheimi. Við ættum að nota hvert tækifæri til að þakka honum fyrir það sem hann hefur gefið okkur. Einhvern tíma heyrði ég sagt: Hvað myndum við eiga á morgun ef við hefðum ekki annað það sem við þökkuðum Jehóva fyrir í dag?“ *

EIGIN REYNSLA ER VERÐMÆT

12, 13. Af hverju er mikilvægt að hugleiða hvernig þú hefur sjálfur fundið fyrir gæsku Jehóva?

12 Jehóva hjálpaði Davíð konungi að komast gegnum margar erfiðar raunir. Davíð talaði af eigin reynslu þegar hann orti: „Finnið og sjáið að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“ (Sálm. 34:9) Þetta vers ber með sér að við þurfum að kynnast gæsku Jehóva af eigin raun. Þegar þú lest í Biblíunni og biblíutengdum ritum og þegar þú sækir samkomur kemstu að raun um hvernig Jehóva hefur hjálpað öðrum að vera honum trúir. En þegar þú ræktar sambandið við hann þarftu að finna sjálfur fyrir styrkri hönd hans. Hvernig hefurðu fundið og séð með eigin augum að Jehóva er góður?

13 Allir þjónar Jehóva hafa fundið á einn ákveðinn hátt að hann er góður. Hann hefur boðið þeim að eiga náið samband við sig og son sinn. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóh. 6:44, Biblían 1981) Finnst þér þessi orð eiga við þig? Unglingur hugsar kannski sem svo: Jehóva dró foreldra mína til sín og ég fylgdi bara með. En þegar þú vígðir þig Jehóva og lést skírast sýndirðu að þú hefðir eignast sérstakt samband við hann. Hann þekkir þig. Í Biblíunni segir: „Sá sem elskar Guð er þekktur af honum.“ (1. Kor. 8:3) Vertu alltaf þakklátur fyrir að Jehóva skuli leyfa þér að tilheyra söfnuði sínum.

14, 15. Hvernig getur boðunin hjálpað þér að styrkja trúna?

14 Þú finnur líka að Jehóva er góður þegar hann hjálpar þér að segja öðrum frá trú þinni. Þú hefur tækifæri til þess bæði þegar þú boðar trúna með formlegum hætti og ert í skólanum. Sumum finnst erfitt að tala við skólafélagana um trúna. Þú skilur sennilega hvers vegna. Þú hefur ekki hugmynd um hvernig þeir bregðast við. Það reynir sérstaklega á þetta ef þú þarft að tala við stóran hóp en ekki bara einn og einn í senn. Hvernig geturðu undirbúið þig?

15 Í fyrsta lagi skaltu velta fyrir þér hvers vegna þú sért sannfærður um það sem þú trúir. Notaðu vel námsverkefnin á jw.org. Þau eru samin til að hjálpa þér að hugleiða það sem þú trúir, hvers vegna þú trúir því og hvernig þú getur útskýrt það fyrir öðrum. Ef þú hefur sterka sannfæringu og ert vel undirbúinn langar þig eflaust til að segja frá Jehóva. – Jer. 20:8, 9.

16. Hvað geturðu kannski gert ef þú hikar við að tala um trúna?

16 Þótt þú sért vel undirbúinn ertu kannski samt hikandi við að tala um trú þína. Átján ára systir, sem skírðist 13 ára, segir: „Ég veit hverju ég trúi en stundum á ég erfitt með að orða hugsun mína.“ Hvernig tekst hún á við það? Hún reynir að tala um sannleikann á eðlilegan og afslappaðan hátt. „Bekkjarfélagarnir tala óhikað um það sem þeir gera,“ segir hún. „Ég ætti að geta gert það líka þannig að ég minnist lauslega á eitthvað eins og: ,Ég var að segja frá Biblíunni um daginn og ...‘ Síðan held ég áfram að segja frá því sem ég ætlaði að koma á framfæri. Þó að umræðuefnið snúist ekki beinlínis um Biblíuna er fólk oft forvitið um biblíukennsluna. Stundum er ég spurð út í það. Því oftar sem ég nota þessa aðferð því auðveldara verður það. Og mér líður rosalega vel á eftir.“

17. Hvað annað getur hjálpað þér að tala um trúna?

17 Ef aðrir finna að þú berð virðingu fyrir þeim og að þér er ekki sama um þá eru góðar líkur á að þeir virði þig og trú þína. Olivia er 17 ára en lét skírast áður en hún komst á unglingsaldur. „Ég óttaðist alltaf að ég yrði álitin ofstækisfull ef ég kæmi inn á Biblíuna þegar ég rabbaði við fólk,“ segir hún. En síðan breyttist hugarfar hennar. Hún hætti að láta óttann ráða ferðinni og hugsaði sem svo: „Fullt af unglingum veit ekki neitt um Votta Jehóva. Við erum einu vottarnir sem þeir hitta. Við getum ráðið miklu um það hvernig þeir bregðast við. Hvað gerist ef við erum feimin við að tala um trú okkar eða förum öll í hnút þegar við opnum munninn? Þá halda þeir kannski að við skömmumst okkar fyrir að vera vottar. Viðbrögð þeirra eru kannski neikvæð af því að okkur skortir sjálfstraust. En ef við eigum auðvelt með að tala um trú okkar og gerum það eðlilega og af sannfæringu eru meiri líkur á að þeir virði okkur.“

HALTU ÁFRAM AÐ VINNA AÐ BJÖRGUN ÞINNI

18. Hvernig geturðu unnið að björgun þinni?

18 Eins og fram hefur komið er það ábyrgð hvers og eins og vinna að björgun sinni. Þú þarft að taka þessa ábyrgð alvarlega. Það er meðal annars fólgið í því að lesa í Biblíunni og hugleiða efni hennar, biðja til Jehóva og velta fyrir þér hvernig hann hefur blessað þig. Ef þú leggur þig fram við þetta finnurðu sterklega fyrir því að Jehóva er vinur þinn. Það er þér síðan hvatning til að segja öðrum frá trú þinni. – Lestu Sálm 73:28.

19. Hvers vegna er það erfiðisins virði að vinna að björgun sinni?

19 Jesús sagði: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matt. 16:24) Til að fylgja Jesú þarf hver og einn að vígjast Jehóva og skírast. Það er upphafið að ríkulegri blessun núna og síðan hlýturðu eilíft líf í nýjum heimi Guðs. Þú hefur því ærna ástæðu til að halda áfram að vinna að björgun þinni.

^ gr. 9 Sjá einnig greinina „Young People Ask ... How Can I Make Bible Reading Enjoyable?“ í Vaknið! (erlendri útgáfu) í apríl 2009.

^ gr. 11 Fleiri tillögur er að finna í greininni „Ungt fólk spyr – af hverju ætti ég að fara með bænir?“ ásamt tilheyrandi vinnublaði á jw.org.