NÁMSGREIN 51
Jehóva hjálpar þeim sem eru niðurdregnir
„Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ – SÁLM. 34:19.
SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir
YFIRLIT *
1, 2. Hvað er til umræðu í þessari grein?
STUNDUM finnst okkur líf okkar stutt og fullt af erfiðleikum. (Job. 14:1, NW) Það er því skiljanlegt að við verðum stundum niðurdregin. Mörgum þjónum Jehóva til forna leið þannig. Sumir vildu jafnvel deyja. (1. Kon. 19:2–4; Job. 3:1–3, 11; 7:15, 16) En Jehóva Guð – sá sem þeir treystu – hughreysti þá alltaf og styrkti. Frásögur þeirra voru skrifaðar til að veita okkur huggun og til að við gætum lært af þeim. – Rómv. 15:4.
2 Í þessari grein verður fjallað um nokkra þjóna Jehóva sem urðu niðurdregnir, það er að segja, Jósef son Jakobs, ekkjuna Naomí og Rut tengdadóttur hennar, Levítann sem skrifaði Sálm 73 og Pétur postula. Hvernig styrkti Jehóva þau? Og hvað getum við lært af reynslu þeirra? Svörin við þessum spurningum fullvissa okkur um að Jehóva sé „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta“ og að hann ,hjálpi þeim sem hafa sundurkraminn anda‘. – Sálm. 34:19.
JÓSEF VARÐ FYRIR GRIMMILEGU ÓRÉTTLÆTI
3, 4. Hvað henti Jósef þegar hann var ungur maður?
3 Jósef var um 17 ára þegar hann dreymdi tvo drauma frá Guði. Draumarnir gáfu til kynna að dag einn myndi fjölskylda Jósefs sýna honum virðingu vegna stöðu hans. (1. Mós. 37:5–10) En stuttu eftir að Jósef dreymdi draumana umturnaðist líf hans. Í stað þess að sýna honum virðingu seldu bræður hans hann í þrældóm. Hann endaði á heimili Pótífars sem var egypskur ráðamaður. (1. Mós. 37:21–28) Á stuttum tíma breyttist líf Jósefs mikið. Hann hafði búið heima hjá föður sínum sem elskaði hann en nú var hann lítilsmetinn þræll hjá heiðnum hirðmanni í Egyptalandi. – 1. Mós. 39:1.
4 En aðstæður Jósefs áttu eftir að versna. Eiginkona Pótífars sakaði Jósef ranglega um að hafa reynt að nauðga sér. Í stað þess að rannsaka hvort það væri á rökum reist lét Pótífar varpa Jósef í fangelsi þar sem hann var settur í fjötra. (1. Mós. 39:14–20; Sálm. 105:17, 18) Hugsaðu þér hvernig hinum unga Jósef hefur liðið þegar hann var ranglega sakaður um tilraun til nauðgunar. Og hugsa sér þá röngu mynd sem ásökunin gat hafa gefið af Jehóva. Jósef hafði sannarlega ástæðu til að vera niðurdreginn!
5. Hvernig tókst Jósef á við depurð?
5 Meðan Jósef var þræll og síðar í fangelsi gat hann lítið gert til að breyta aðstæðum. Hvað hjálpaði honum að vera jákvæður? Hann sinnti vel þeim verkum sem honum voru falin í stað þess að einblína á það sem hann gat ekki lengur gert. En það sem mestu máli skipti var að Jósef einbeitti sér að því að gleðja Jehóva. Þar af leiðandi blessaði Jehóva allt sem hann gerði. – 1. Mós. 39:21–23.
6. Hvernig hafa draumar Jósefs ef til vill hughreyst hann?
6 Kannski hefur Jósef líka fundist hughreystandi að rifja upp draumana sem Jehóva hafði látið hann dreyma. Þeir gáfu til kynna að hann myndi sjá fjölskyldu sína á ný og að aðstæður hans myndu batna. Og sú varð raunin. Þegar Jósef var 37 ára byrjuðu spádómlegir draumar hans að uppfyllast með 1. Mós. 37:7, 9, 10; 42:6, 9.
stórkostlegum hætti! –7. Hvað hjálpar okkur að takast á við erfiðleika samkvæmt 1. Pétursbréfi 5:10?
7 Það sem við getum lært. Frásagan af Jósef minnir okkur á að þessi heimur er grimmur og að við verðum fyrir óréttlæti. Trúsystkini okkar gæti jafnvel sært okkur. En ef við lítum á Jehóva sem klett okkar og athvarf missum við ekki kjarkinn eða hættum að þjóna honum. (Sálm. 62:7, 8; lestu 1. Pétursbréf 5:10.) Munum einnig að Jósef var líklega 17 ára þegar Jehóva lét hann dreyma þessa drauma. Jehóva ber augljóslega traust til ungra þjóna sinna. Margir nú til dags eru eins og Jósef og bera sams konar traust til Jehóva. Sumir þeirra hafa meira að segja verið settir í fangelsi fyrir rangar sakir því að þeir vildu ekki hvika frá hollustu sinni við Guð. – Sálm. 110:3.
TVÆR KONUR BUGAÐAR AF SORG
8. Hvað gengu Naomí og Rut í gegnum?
8 Naomí og fjölskylda hennar yfirgáfu heimili sitt í Júda vegna mikillar hungursneyðar og settust að sem útlendingar í Móab. Þar dó Elímelek eiginmaður Naomí og hún var ein eftir ásamt sonum sínum tveim. Seinna kvæntust synir hennar móabískum konum, þeim Rut og Orpu. Um tíu árum síðar létust synir Naomí líka og létu ekki eftir sig nein börn. (Rut. 1:1–5) Hugsaðu þér hversu sorgmæddar konurnar þrjár hafa verið. Rut og Orpa gátu auðvitað gifst aftur. En hver myndi annast hina öldruðu Naomí? Hún varð svo niðurdregin að hún sagði eitt sinn: „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara því að Hinn almáttugi hefur búið mér beiska harma.“ Niðurbrotin ákvað Naomí að snúa aftur til Betlehem, og Rut fór með henni. – Rut. 1:7, 18–20.
9. Hvernig hvatti Rut Naomí, samanber Rutarbók 1:16, 17, 22?
9 Það sem hjálpaði Naomí var tryggur kærleikur. Rut sýndi Naomí til dæmis tryggan kærleika með því að yfirgefa hana ekki. (Lestu Rutarbók 1:16, 17, 22.) Rut vann hörðum höndum í Betlehem við að tína bygg fyrir sig og Naomí. Þessi unga kona ávann sér því fljótt gott mannorð. – Rut. 3:11; 4:15.
10. Hvernig sýndi Jehóva fátæku fólki eins og Naomí og Rut umhyggju?
10 Jehóva hafði gefið Ísraelsþjóðinni lög sem endurspegluðu umhyggju hans fyrir fátæku fólki eins og Naomí og Rut. Á uppskerutímanum átti fólk hans að skilja eftir útjaðar akursins til að fátækir gætu tínt það sem þar væri. (3. Mós. 19:9, 10) Naomí og Rut gátu þannig haldið sjálfsvirðingunni og þurftu ekki að betla mat.
11, 12. Hvernig gaf Bóas Naomí og Rut tilefni til að gleðjast?
11 Eigandi akursins sem Rut tíndi bygg á var auðugur maður að nafni Bóas. Trúfestin og kærleikurinn sem Rut sýndi Naomí tengdamóður sinni snart hann svo að hann keypti arfleifð fjölskyldunnar og tók sér hana fyrir eiginkonu. (Rut. 4:9–13) Hjónin eignuðust dreng sem þau nefndu Óbeð, en hann varð afi Davíðs konungs. – Rut. 4:17.
12 Ímyndaðu þér gleði Naomí þegar hún hélt á Óbeð litla og þakkaði Jehóva innilega í bæn. En Naomí og Rut eiga eftir að njóta enn meiri gleði í framtíðinni. Þegar þær fá upprisu komast þær að því að Óbeð varð forfaðir hins fyrirheitna Messíasar, Jesú Krists.
13. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af frásögunni um Naomí og Rut?
13 Það sem við getum lært. Við gætum orðið niðurdregin, jafnvel niðurbrotin þegar við göngum í gegnum erfiðleika. Við sjáum kannski ekki neina lausn á vandamálum okkar. En þá ættum við að treysta algerlega á himneskan föður okkar og halda okkur nálægt trúsystkinum okkar. Jehóva fjarlægir ekki alltaf erfiðleika okkar. Hann reisti til dæmis ekki eiginmann Naomí og syni hennar upp til lífs á ný. En hann hjálpar okkur að takast á við aðstæður, til dæmis fyrir atbeina bræðra og systra sem sýna okkur góðvild. –LEVÍTI SEM HÆTTI NÆSTUM AÐ ÞJÓNA JEHÓVA
14. Hvers vegna varð Levíti nokkur mjög niðurdreginn?
14 Sá sem skrifaði Sálm 73 var Levíti. Sem slíkur naut hann þess mikla heiðurs að þjóna í húsi Jehóva. En hann varð þó niðurdreginn um tíma. Hvers vegna? Hann fór að öfunda vonda og hrokafulla menn, ekki af því að hann vildi gera rangt heldur vegna þess að þeim virtist vegna vel. (Sálm. 73:2–9, 11–14) Þeir virtust hafa allt til alls – auð, gott líf og engar áhyggjur. Velgengni þeirra dró svo úr sálmaritaranum kjark að hann sagði: „Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi.“ Samband hans við Jehóva var augljóslega í mikilli hættu.
15. Hvernig tókst Levítanum sem skrifaði Sálm 73 að vinna bug á depurð, samanber Sálm 73:16–19, 22–25?
15 Lestu Sálm 73:16–19, 22–25. Levítinn „kom inn í helgidóma Guðs“. Þar, líklega meðal annarra tilbiðjenda Guðs, gat hann rólegur áttað sig á aðstæðum, hugsað skýrt og beðið til Guðs. Fyrir vikið gerði hann sér grein fyrir því að hann var farinn að hugsa óskynsamlega og kominn út á hættulega braut sem myndi að lokum skemma samband hans við Jehóva. Hann gerði sér líka ljóst að vondir menn væru á ,hálli jörð‘ og myndu hljóta „skelfilegan dauðdaga“. Til að vinna bug á öfund og depurð þurfti Levítinn að sjá hlutina frá sjónarhóli Jehóva. Þegar hann gerði það endurheimti hann innri frið og gleði. Hann sagði: „Hafi ég [Jehóva] hirði ég eigi um neitt á jörðu.“
16. Hvað getum við lært af Levíta nokkrum?
16 Það sem við getum lært. Við skulum aldrei öfunda vont fólk sem virðist vegna vel. Hamingja þess er yfirborðsleg og skammvinn, það á sér ekki varanlega framtíð. (Préd. 8:12, 13) Það dregur úr okkur kjark að öfunda það og getur jafnvel stofnað sambandi okkar við Jehóva í hættu. Ef þér líður einhvern tíma eins og Levítanum og ferð að öfunda hina vondu sem virðast vegna vel skaltu gera það sem Levítinn gerði. Fylgdu kærleiksríkum ráðum Jehóva og hafðu félagsskap við þá sem gera vilja hans. Þú finnur sanna gleði þegar þú elskar Jehóva meira en allt annað. Og þá víkurðu ekki af veginum sem leiðir til ,hins sanna lífs‘. – 1. Tím. 6:19.
VEIKLEIKAR PÉTURS GERÐU HANN NIÐURDREGINN
17. Hvaða ástæður hafði Pétur fyrir því að verða niðurdreginn?
17 Pétur postuli var magnaður maður en hann gat líka verið frekar hvatvís og stundum fljótur til að tjá tilfinningar sínar. Hann átti það þess vegna til að segja eða gera eitthvað sem hann sá síðar eftir. Þegar Jesús til dæmis sagðist myndu þjást og deyja ávítti Pétur hann og sagði: „Þú átt alls ekki að þurfa að ganga í gegnum þetta.“ (Matt. 16:21–23) Þá leiðrétti Jesús Pétur. Þegar hópur manna kom til að handtaka Jesú hjó Pétur í hvatvísi eyrað af þjóni æðstaprestsins. (Jóh. 18:10, 11) Aftur leiðrétti Jesús lærisveininn. Auk þess hafði Pétur gortað sig af því að hann myndi aldrei yfirgefa Krist þótt hinir postularnir myndu gera það! (Matt. 26:33) En þetta oftraust á sjálfum sér varð honum að falli. Hann óttaðist menn og afneitaði því Jesú þrisvar sinnum. Pétur „gekk út og grét beisklega“, algerlega niðurbrotinn. (Matt. 26:69–75) Hann hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvort Jesús myndi nokkurn tíma fyrirgefa sér.
18. Hvernig hjálpaði Jesús Pétri að vinna bug á depurð?
18 En Pétur lét ekki depurð ná tökum á sér. Hann náði sér á strik eftir að hafa hrasað og hélt áfram að þjóna Jehóva með hinum postulunum. (Jóh. 21:1–3; Post. 1:15, 16) Hvað hjálpaði Pétri? Fyrir það fyrsta hafði Jesús beðið þess að trú Péturs myndi ekki bregðast og hann hvatti Pétur til að snúa aftur til að styrkja bræður sína. Jehóva svaraði þessari innilegu bæn. Síðar birtist Jesús Pétri, vafalaust til að uppörva hann. (Lúk. 22:32; 24:33, 34; 1. Kor. 15:5) Jesús birtist líka postulunum eftir að þeir höfðu veitt alla nóttina án árangurs. Þá gaf hann Pétri tækifæri til að staðfesta hversu heitt hann elskaði sig. Jesús hafði fyrirgefið kærum vini sínum og fól honum frekari verkefni. – Jóh. 21:15–17.
19. Hvernig hjálpar Sálmur 103:13, 14 okkur að líta syndir okkar sömu augum og Jehóva?
19 Það sem við getum lært. Miskunnsemi Jesú sést vel á því sem hann gerði fyrir Pétur, og hann endurspeglar föður sinn fullkomlega. Þegar við gerum mistök ættum við þess vegna ekki að álíta okkur vonlaus. Höfum í huga að Satan vill að við hugsum þannig. Leggjum okkur heldur fram um að líta sjálf okkur – og þá sem syndga gegn okkur – sömu augum og himneskur faðir okkar, augum miskunnar og kærleika. – Lestu Sálm 103:13, 14.
20. Hvað skoðum við í næstu grein?
20 Frásögurnar af Jósef, Naomí og Rut, Levítanum og Pétri fullvissa okkur um að Jehóva sé „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta“. (Sálm. 34:19) Hann leyfir að við göngum í gegnum erfiðleika og að við séum stundum niðurdregin. En þegar við höldum út í erfiðleikum með hjálp Jehóva styrkist trú okkar. (1. Pét. 1:6, 7) Í næstu grein skoðum við enn frekar hvernig Jehóva styður trúfasta þjóna sína sem eru niðurdregnir, kannski vegna eigin ófullkomleika eða erfiðra aðstæðna.
SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar
^ gr. 5 Jósef, Naomí og Rut, maður sem var Levíti og Pétur postuli urðu öll niðurdregin um tíma. Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva hughreysti þau og styrkti. Við skoðum einnig hvað við getum lært af reynslu þeirra og hvernig Guð hjálpaði þeim á kærleiksríkan hátt.
^ gr. 56 MYND: Naomí, Rut og Orpa voru sorgmæddar og niðurdregnar þegar þær misstu maka sína. Síðar glöddust Rut og Naomí með Bóasi yfir fæðingu Óbeðs.