Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 9

Líkjum eftir Jesú og þjónum öðrum

Líkjum eftir Jesú og þjónum öðrum

„Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ – POST. 20:35.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

YFIRLIT *

1. Hvaða góða hugarfar ríkir meðal fólks Jehóva?

 BIBLÍAN spáði fyrir löngu að fólk Jehóva myndi ,koma fúslega‘ til að þjóna honum undir forystu sonar hans. (Sálm. 110:3) Spádómurinn er að rætast núna. Kappsamir þjónar Jehóva verja hundruð milljónum klukkustunda til boðunarinnar ár hvert. Þeir gera það fúslega og á eigin kostnað. Þeir taka sér líka tíma til að hugsa um efnislegar og tilfinningalegar þarfir trúsystkina sinna og til að styrkja trú þeirra. Öldungar og safnaðarþjónar nota ótalmarga klukkutíma í að undirbúa verkefni fyrir samkomur og heimsækja trúsystkini til að hvetja þau. Hvað knýr fólk Guðs til að gera þetta? Kærleikur til Jehóva og náungans. – Matt. 22:37–39.

2. Hvaða fordæmi setti Jesús okkur eins og kemur fram í Rómverjabréfinu 15:1–3?

2 Jesús setti okkur frábært fordæmi í að taka þarfir annarra fram yfir eigin þarfir. Við reynum okkar besta til að líkja eftir honum. (Lestu Rómverjabréfið 15:1–3.) Þeir sem gera það uppskera blessun. Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ – Post. 20:35.

3. Hvað skoðum við í þessari grein?

3 Í þessari grein skoðum við dæmi um það hvernig Jesús sýndi fornfýsi til að þjóna öðrum og hvernig við getum líkt eftir honum. Við ræðum líka hvernig við getum fengið meiri löngun til að þjóna öðrum.

LÍKJUM EFTIR JESÚ

Hvað gerði Jesús þótt hann væri þreyttur þegar mannfjöldi kom til hans? (Sjá 4. grein.)

4. Hvernig tók Jesús þarfir annarra fram yfir sínar eigin?

4 Jesús hjálpaði öðrum þótt hann væri þreyttur. Veltum fyrir okkur viðbrögðum Jesú þegar mannfjöldi kom til að hitta hann í fjallshlíð, líklega í grennd við Kapernaúm. Jesús hafði verið á bæn alla nóttina. Hann hlýtur að hafa verið mjög þreyttur en þegar hann sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um þá sem voru fátækir og veikir. Hann læknaði þá ekki bara heldur flutti eina mest hvetjandi ræðu allra tíma – fjallræðuna. – Lúk. 6:12–20.

Hvernig getum við líkt eftir fórnfýsi Jesú? (Sjá 5. grein.)

5. Hvernig líkir sá sem er höfuð fjölskyldunnar eftir fórnfýsi Jesú þegar hann er þreyttur?

5 Höfuð fjölskyldunnar líkir eftir Jesú. Sjáum fyrir okkur eftirfarandi aðstæður: Fjölskyldufaðir kemur heim úrvinda eftir langan vinnudag. Honum finnst freistandi að sleppa biblíunámsstund fjölskyldunnar en biður Jehóva innilega að gefa sér styrk til að sjá um námsstundina. Jehóva svarar bæn hans og námsstundin fer fram eins og venjulega. Börnin læra nokkuð mikilvægt þetta kvöld. Þau sjá að tilbeiðslan á Jehóva er foreldrunum mikilvægari en allt annað.

6. Nefndu dæmi um hvernig Jesús fórnaði tíma sínum til að hjálpa öðrum.

6 Jesús var örlátur á tíma sinn. Ímyndum okkur hvernig Jesú hefur liðið þegar hann frétti að vinur sinn, Jóhannes skírari, hefði verið hálshöggvinn. Jesús hlýtur að hafa verið mjög sorgmæddur. Biblían segir: „Þegar Jesús heyrði þetta [að Jóhannes væri dáinn] fór hann á báti á óbyggðan stað til að vera einn.“ (Matt. 14:10–13) Við getum skilið hvers vegna Jesús vildi vera einn. Margir kjósa að syrgja í einrúmi. En hann fékk ekki að vera einn. Mikill mannfjöldi hafði komið á óbyggða staðinn á undan honum. Hvernig brást Jesús við? Hann hugsaði um þarfir mannfjöldans og „kenndi í brjósti um fólkið“. Hann skildi að fólkið þurfti sárlega á hjálp og hughreystingu frá Guði að halda og var fljótur að mæta þeirri þörf. „Hann fór að kenna því [ekki bara smávegis heldur] margt.“ – Mark. 6:31–34; Lúk. 9:10, 11.

7, 8. Nefndu dæmi sem sýna hvernig kærleiksríkir öldungar líkja eftir Jesú þegar trúsystkini þeirra eru hjálparþurfi.

7 Kærleiksríkir öldungar líkja eftir Jesú. Við metum mikils það sem fórnfúsir öldungar gera fyrir okkur. Mikið af því er gert án þess að boðberar almennt verði varir við það. Við slys eða önnur bráðatilfelli eru bræður í spítalasamskiptanefndinni strax tilbúnir að aðstoða trúsystkini sín. Slík bráðatilfelli verða oft að nóttu til. En þessir kæru öldungar finna til með trúsystkinum sínum og taka ásamt fjölskyldum sínum þarfir þeirra fram yfir sínar eigin.

8 Öldungar hjálpa líka til við byggingu ríkissala og annarra bygginga og taka þátt í hjálparstarfi eftir hamfarir. Og þeir nota ótalmarga klukkutíma í að kenna og hvetja okkur. Þessir bræður og fjölskyldur þeirra eiga skilið einlægt hrós okkar. Megi Jehóva blessa hugarfar þeirra. Öldungar þurfa rétt eins og aðrir að sjálfsögðu að gæta jafnvægis. Þeir ættu ekki að nota það mikinn tíma til að sinna verkefnum í þágu safnaðarins að það komi niður á þeirra eigin fjölskyldum.

HVERNIG GETUM VIÐ RÆKTAÐ MEÐ OKKUR FÓRNFÝSI?

9. Hvaða hugarfar ættu allir kristnir menn að rækta með sér samkvæmt Filippíbréfinu 2:4, 5?

9 Lestu Filippíbréfið 2:4, 5. Það eru ekki allir í söfnuðinum öldungar en við getum öll lært að líkja eftir fórnfýsi Jesú. Biblían segir að hann hafi orðið „eins og þræll“. (Fil. 2:7) Hugleiðum hvað það felur í sér. Vel metinn þræll, eða þjónn, leitaði tækifæra til að þóknast herra sínum. Sem þrælar Jehóva og þjónar bræðra okkar og systra langar okkur eflaust að koma Jehóva og trúsystkinum okkar að enn meira gagni. Að hugleiða eftirfarandi tillögur getur hjálpað okkur til þess.

10. Hvaða spurninga getum við spurt okkur?

10 Skoðaðu vandlega viðhorf þitt. Spyrðu þig: Hversu fús er ég til að nota tíma minn og krafta til að hjálpa öðrum? Hvernig myndi ég bregðast við ef ég væri beðinn um að heimsækja eldri bróður á hjúkrunarheimili eða bjóða eldri systur far á samkomur? Er ég fljótur að bjóða mig fram þegar þörf er á sjálfboðaliðum til að þrífa mótsstað eða viðhalda ríkissalnum? Þegar við vígðumst Jehóva lofuðum við honum að nota allt sem við eigum til að þjóna honum. Hann vill að við notum tíma okkar, orku og efnislegar eigur til að hjálpa öðrum. Við gleðjum hann þegar við gerum það af fúsu geði. Hvað getum við gert ef við sjáum að við þurfum að bæta okkur?

11. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að rækta með okkur fórnfýsi?

11 Biddu innilega til Jehóva. Segjum að þú sjáir að þú þurfir að bæta þig á einhverju sviði en hafir ekki löngun til að gera nauðsynlegar breytingar. Leitaðu þá til Jehóva í innilegri bæn. Vertu hreinskilinn. Segðu Jehóva hvernig þér líður og biddu hann að gefa þér „bæði löngun og kraft til að gera það sem gleður hann“. – Fil. 2:13.

12. Hvernig getur ungur skírður bróðir hjálpað söfnuðinum?

12 Ef þú ert ungur skírður bróðir skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að rækta með þér löngun til að gera meira fyrir söfnuðinn. Í sumum löndum eru fleiri öldungar en safnaðarþjónar og margir af safnaðarþjónunum eru á miðjum aldri eða eldri. Eftir því sem söfnuður Jehóva stækkar þurfum við fleiri unga bræður til að aðstoða öldungana við að annast fólk Guðs. Það veitir þér gleði að þjóna á hvern þann hátt sem þörf er á. Það er vegna þess að þú gleður Jehóva þegar þú gerir það, þú öðlast gott mannorð og nýtur ánægjunnar sem fylgir því að hjálpa öðrum.

Kristið fólk frá Júdeu flúði yfir Jórdan til borgarinnar Pellu. Þeir sem höfðu komið þangað fyrr dreifðu mat til trúsystkina sem voru nýkomin. (Sjá 13. grein.)

13, 14. Hvað getum við gert til að hjálpa trúsystkinum okkar? (Sjá forsíðumynd.)

13 Vertu vakandi fyrir þörfum annarra. Páll postuli hvatti Hebrea: „Gleymið ekki að gera gott og gefa öðrum af því sem þið eigið því að Guð er ánægður með slíkar fórnir.“ (Hebr. 13:16) Það voru orð í tíma töluð. Stuttu eftir að kristnir menn í Júdeu fengu þetta bréf þurftu þeir að yfirgefa heimili sín, störf og ættingja sem voru ekki í trúnni og flýja til fjalla. (Matt. 24:16) Það var örugglega brýn þörf á að þeir hjálpuðu hver öðrum. Ef þeir höfðu áður en þetta gerðist farið eftir leiðbeiningum Páls um að gefa öðrum af því sem þeir áttu var auðveldara en ella að aðlagast nýjum aðstæðum.

14 Bræður okkar og systur láta okkur kannski ekki alltaf vita hvers þau þarfnast. Bróðir hefur kannski misst konuna sína. Þarf hann hjálp í tengslum við máltíðir, ferðir eða húsverk? Hann segir kannski ekkert af því að hann vill ekki láta hafa fyrir sér. En hann kynni kannski vel að meta að við ættum frumkvæðið og byðumst til að veita nauðsynlega aðstoð. Við ættum ekki bara að gera ráð fyrir að einhver annar sjái um hlutina eða að sá sem er hjálparþurfi láti okkur alltaf vita hvernig við getum verið til aðstoðar. Spyrðu þig: Hvaða hjálp kynni ég að meta ef ég væri í þessum sporum?

15. Hvað felur það í sér að vera fórnfús?

15 Gerðu öðrum auðvelt að biðja um hjálp. Þú þekkir eflaust bræður og systur í söfnuðinum sem eru alltaf tilbúin að hjálpa. Þau vekja aldrei hjá okkur þá tilfinningu að við séum að ónáða þau. Við vitum að við getum reitt okkur á þau ef við þurfum á hjálp að halda og við viljum líkja eftir þeim. Alan, öldungur á fimmtugsaldri, vill að öðrum finnist auðvelt að leita til sín. Hann segir um fordæmi Jesú: „Jesús var önnum kafinn en fólk á öllum aldri laðaðist að honum og því fannst auðvelt að leita til hans. Það skildi að honum var annt um það. Mig langar af öllu hjarta að líkja eftir honum og vera þekktur fyrir að vera hjálpfús, hlýlegur og umhyggjusamur.“

16. Hvernig getur það að fara eftir því sem segir í Sálmi 119:59, 60 hjálpað okkur að líkja vel eftir fordæmi Jesú?

16 Látum það ekki draga úr okkur kjark að geta ekki líkt fullkomlega eftir Jesú. (Jak. 3:2) Sá sem er að læra ákveðna list getur ekki líkt fullkomlega eftir meistara sínum. En hann tekur framförum eftir því sem hann lærir af mistökum sínum og leggur sig fram um að líkja eftir meistaranum. Á svipaðan hátt getum við náð góðum árangri í að líkja eftir fordæmi Jesú ef við förum eftir því sem við höfum lært í sjálfsnámi okkar og gerum okkar besta til að sigrast á veikleikum okkar. – Lestu Sálm 119:59, 60.

ÞAÐ ER GAGNLEGT AÐ VERA FÓRNFÚS

Þegar öldungar líkja eftir fórnfýsi Jesú eru þeir hinum ungu fordæmi til eftirbreytni. (Sjá 17. grein.) *

17, 18. Hvað hlýst af því að líkja eftir fórnfýsi Jesú?

17 Fórnfýsi er smitandi. Öldungur sem heitir Tim segir: „Sumir mjög ungir bræður hafa tekið góðum framförum og verið útnefndir safnaðarþjónar. Eitt af því sem var þeim hvatning var þegar aðrir sýndu fórnfýsi og þeir vildu líkja eftir þeim. Þessir ungu bræður hjálpa söfnuðinum og styðja öldungana.“

18 Við búum í heimi þar sem eigingirni er ríkjandi. En fólk Jehóva sker sig úr. Fórnfýsi Jesú hefur snert okkur og við erum staðráðin í að líkja eftir honum. Við getum ekki fetað fullkomlega í fótspor hans en við getum fetað „náið í fótspor hans.“ (1. Pét. 2:21) Við verðum glöð þegar við gerum okkar besta til að líkja eftir fórnfýsi Jesú því að við vitum að það gleður Jehóva.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

^ gr. 5 Jesús tók alltaf þarfir annarra fram yfir sínar eigin. Í þessari grein skoðum við hvernig við getum líkt efir honum. Við skoðum líka hvernig við höfum varanlegt gagn af því að líkja eftir fórnfýsi Jesú.

^ gr. 57 MYND: Ungur bróðir sem heitir Dan sér tvo öldunga koma í heimsókn til föður hans á spítala. Kærleiksríkt fordæmi þeirra snertir hann. Hann finnur hjá sér löngun til að vera vakandi fyrir þörfum annarra í söfnuðinum. Annar ungur bróðir sem heitir Ben tekur eftir hve umhyggjusamur Dan er. Fordæmi hans er Ben hvatning til að taka þátt í að þrífa ríkissalinn.