Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Berum umhyggju fyrir ,öllum mönnum‘

Berum umhyggju fyrir ,öllum mönnum‘

ÞEGAR Jesús kenndi lærisveinunum að boða fagnaðarerindið varaði hann við því að fólk myndi ekki alltaf taka boðskapnum vel. (Lúk. 10:3, 5, 6) Sumir sem við hittum í boðuninni bregðast illa við og eru jafnvel fjandsamlegir. Óneitanlega getur verið erfitt að bera umhyggju fyrir þeim sem taka þannig á móti okkur.

Sá sem er umhyggjusamur tekur eftir þörfum og vandamálum annarra, hefur samkennd með þeim og langar til að hjálpa þeim. Ef við hættum að bera umhyggju fyrir þeim sem við hittum í boðuninni getum við misst eldmóðinn og náum minni árangri. Þegar við temjum okkur að vera umhyggjusöm fáum við aftur á móti aukinn eldmóð, rétt eins og við höldum báli lifandi með því að bæta á eldinn. – 1. Þess. 5:19.

Hvernig getum við orðið enn umhyggjusamari, jafnvel þegar á reynir? Skoðum þrjár góðar fyrirmyndir – Jehóva, Jesú og Pál postula.

LÍKJUM EFTIR UMHYGGJU JEHÓVA

Jehóva hefur um þúsundir ára þurft að þola að nafn hans sé smánað. Samt sem áður er hann „góður við vanþakkláta og vonda“. (Lúk. 6:35) Góðvild Jehóva birtist í því að hann er þolinmóður því að hann „vill að allir menn verði hólpnir“. (1. Tím. 2:3, 4) Þótt hann hafi óbeit á hinu illa eru mennirnir dýrmætir í augum hans og hann vill ekki að neinn týni lífi. – 2. Pét. 3:9.

Jehóva veit hversu vel Satan hefur tekist að blinda huga vantrúaðra. (2. Kor. 4:3, 4) Margir hafa lært falskenningar frá barnæsku og hafa mótast af röngum viðhorfum. Það getur gert þeim erfitt um vik að taka við sannleikanum. En Jehóva hefur mikinn áhuga á að hjálpa þeim. Hvernig vitum við það?

Tökum sem dæmi viðhorf Jehóva til Nínívebúa forðum daga. Þó að þeir væru grimmir og ofbeldisfullir sagði Jehóva við Jónas: „Ætti ég ekki að sjá aumur á Níníve, hinni miklu borg, þar sem meira en hundrað og tuttugu þúsundir manna búa, sem þekkja vart hægri höndina frá þeirri vinstri?“ (Jónas 4:11) Jehóva vorkenndi Nínívebúum því að þeir þekktu ekki sannleikann um hann og sendi því Jónas til að vara þá við eyðingu borgarinnar.

Fólk er dýrmætt í okkar augum, rétt eins og í augum Jehóva. Við getum líkt eftir Jehóva með því að reyna okkar besta til að hjálpa öllum að kynnast honum, jafnvel þótt þeir séu ekki líklegir til að taka við sannleikanum.

LÍKJUM EFTIR UMHYGGJU JESÚ

Jesús, líkt og faðir hans, fann til með þeim sem voru andlega þurfandi. „Er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.“ (Matt. 9:36) Jesús sá undir yfirborðið. Hann vissi að trúarleiðtogarnir höfðu kennt fólkinu lygar og farið illa með það. Hann vissi líka að margir myndu láta ýmislegt aftra sér frá því að taka við boðskapnum. En hann „kenndi því margt“ engu að síður. – Mark. 4:1-9.

Látum það ekki draga úr okkur kjarkinn þó að einhver vilji ekki hlusta í fyrstu.

Aðstæður fólks geta breyst og hið sama er að segja um viðhorf þess til sannleikans.

Við þurfum að sjá undir yfirborðið þegar fólk bregst illa við boðskap okkar. Hvers vegna ætli það bregðist svona við? Sumum er illa við Biblíuna eða kristna trú vegna slæmrar hegðunar þeirra sem segjast vera kristnir. Kannski hafa einhverjir heyrt lygar um það hverju við trúum. Og aðrir gætu óttast að verða fyrir aðkasti í samfélaginu eða fjölskyldunni ef þeir tala við okkur.

Sumir sem við hittum í boðuninni hafa orðið fyrir áföllum sem hafa leikið þá hart. Trúboði að nafni Kim segir: „Á svæðinu okkar býr fólk sem hefur misst allar eigur sínar í stríði. Það hefur enga raunverulega von. Það er vonsvikið og mjög tortryggið. Á þessu svæði hittum við oft fólk sem er á móti starfi okkar. Einu sinni var ráðist á mig þegar ég var að boða trúna.“

Hvernig fer Kim að því að bera umhyggju fyrir fólki á svæðinu þrátt fyrir svona viðbrögð? Hún segir: „Þegar fólk kemur illa fram við mig reyni ég að hafa í huga það sem segir í Orðskviðunum 19:11: ,Það er viska að vera seinn til reiði.‘ Ég á auðveldara með að bera umhyggju fyrir fólkinu þegar ég hugsa til þess hvað það hefur mátt þola. Og það eru heldur ekki allir fjandsamlegir. Suma á þessu svæði heimsækjum við reglulega og eigum við þá góðar samræður.“

Við getum velt fyrir okkur hvernig við myndum bregðast við boðskapnum ef við værum í sporum fólks á svæðinu. Hvað ef við hefðum til dæmis ítrekað heyrt lygar um Votta Jehóva? Þá myndum við kannski líka bregðast illa við og hefðum þörf á að aðrir sýndu okkur umhyggju. Jesús sagði að við ættum að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við ættum því að reyna að setja okkur í spor annarra og vera þolinmóð, jafnvel þegar reynir verulega á þolinmæðina. – Matt. 7:12.

LÍKJUM EFTIR UMHYGGJU PÁLS

Páll postuli var umhyggjusamur í garð þeirra sem brugðust ókvæða við boðun hans. Af hverju? Hann gleymdi ekki hvernig hann hafði sjálfur verið. Hann sagði: ,Fyrrum lastmælti ég, ofsótti og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði.‘ (1. Tím. 1:13) Hann vissi að Jehóva og Jesús höfðu sýnt honum mikla miskunn. Að öllum líkindum sá hann sjálfan sig í sumum þeirra sem hann boðaði trúna.

Stundum hitti Páll fólk sem hafði sterka trú á falskenningar. Hvernig brást hann við? Í Postulasögunni 17:16 segir að þegar Páll var í Aþenu hafi það verið honum „mikil skapraun að sjá að borgin var full af skurðgoðum“. En hann notaði það sem skapraunaði honum til að kenna fólkinu á áhrifaríkan hátt. (Post. 17:22, 23) Hann lagaði boðunaraðferðir sínar að bakgrunni hvers og eins þannig að hann gæti „að minnsta kosti frelsað nokkra“. – 1. Kor. 9:20-23.

Við getum líkt eftir Páli þegar við hittum fólk sem er neikvætt eða trúir falskenningum. Við getum notað það sem við vitum um fólkið til að koma ,gleðitíðindunum‘ á framfæri. (Jes. 52:7) Systir að nafni Dorothy segir: „Mörgum á svæðinu okkar hefur verið kennt að Guð sé strangur og dómharður. Ég hrósa þeim fyrir að hafa sterka trú á Guð og beini síðan athygli þeirra að því sem Biblían segir um kærleika hans og loforð um framtíðina.“

,SIGRUM ILLT MEÐ GÓÐU‘

Eftir því sem líður á ,síðustu daga‘ megum við búast við því að viðmót margra sem við hittum í boðuninni fari síversnandi. (2. Tím. 3:1, 13) En við megum ekki láta það verða til þess að við missum gleðina eða hættum að bera umhyggju fyrir fólki. Jehóva getur gefið okkur styrk til að ,sigra illt með góðu‘. (Rómv. 12:21) Brautryðjandi, sem heitir Jessica, segir: „Ég hitti oft fólk sem skortir auðmýkt og gerir lítið úr okkur og boðskapnum. Það finnst mér stundum óþolandi. Þegar ég byrja að tala við fólk fer ég með bæn í hljóði og bið Jehóva að hjálpa mér að líta manneskjuna sömu augum og hann gerir. Þannig get ég einbeitt mér að því að hjálpa viðkomandi í stað þess að einblína á hvernig mér líður.“

Við höldum áfram að leita að þeim sem vilja finna sannleikann.

Með tímanum verða sumir móttækilegir fyrir sannleikanum ef við gefumst ekki upp.

Við ættum líka að vera hvetjandi við samstarfsfélaga okkar í boðuninni. Jessica segir: „Ég reyni að tala ekki of mikið um það ef annað okkar verður fyrir aðkasti. Í staðinn beini ég samræðunum að einhverju jákvæðu, eins og því góða sem boðunin kemur til leiðar þó að sumir bregðist illa við.“

Jehóva veit mætavel hvað við þurfum að kljást við í boðuninni og það gleður hann innilega þegar við líkjum eftir miskunn hans. (Lúk. 6:36) Að sjálfsögðu eru takmörk fyrir því hve lengi hann sýnir fólki umhyggju og þolinmæði. Við getum treyst því að hann viti nákvæmlega hvenær sé rétti tíminn til að binda enda á þetta heimskerfi. Þangað til er boðun okkar afar áríðandi. (2. Tím. 4:2) Höldum því áfram að boða trúna af kappi og bera umhyggju fyrir ,öllum mönnum‘.