Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viðurkenningu hvers sækistu eftir?

Viðurkenningu hvers sækistu eftir?

„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ – HEBR. 6:10.

SÖNGVAR: 39, 30

1. Hvaða eðlilegu löngun höfum við öll og hvað felur það í sér?

HVERNIG líður þér þegar einhver sem þú þekkir og virðir gleymir hvað þú heitir eða jafnvel þekkir þig ekki? Það getur gert okkur döpur. Ástæðan er sú að við höfum öll eðlilega löngun til að hljóta viðurkenningu. En við viljum ekki aðeins að fólk viti hver við erum heldur líka hvers konar manneskjur við erum og hverju við höfum áorkað. – 4. Mós. 11:16; Job. 31:6.

2, 3. Hvernig getur þráin eftir viðurkenningu brenglast? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Eins og aðrar eðlilegar langanir gæti þessi þrá eftir viðurkenningu þó brenglast vegna ófullkomleikans eða orðið óeðlilega mikil. Við gætum farið að þrá óhóflega athygli frá öðrum. Heimur Satans ýtir undir löngun í frægð og frama en það beinir athyglinni frá þeim sem verðskuldar viðurkenningu og tilbeiðslu, Jehóva Guði, himneskum föður okkar. – Opinb. 4:11.

3 Sumir trúarleiðtogar á dögum Jesú höfðu rangt viðhorf til þess að hljóta viðurkenningu. Jesús varaði fylgjendur sína við slíku og sagði: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.“ Hann bætti síðan við: „Þeir munu fá því þyngri dóm.“ (Lúk. 20:46, 47) Jesús hrósaði hins vegar fátækri ekkju þegar hún gaf mjög lítið framlag sem enginn annar tók líklega eftir. (Lúk. 21:1-4) Jesús leit viðurkenningu allt öðrum augum en aðrir. Þessi grein hjálpar okkur að sjá viðurkenningu í réttu ljósi, að hafa það viðhorf sem Jehóva er ánægður með.

MESTA VIÐURKENNING SEM VIÐ GETUM HLOTIÐ

4. Hver er mesta viðurkenning sem við getum hlotið og hvers vegna?

4 Hver er þá mesta viðurkenningin sem við getum sóst eftir? Það er ekki sú athygli sem fólk sækist eftir á sviði menntunar, viðskipta og skemmtunar í þessum heimi. Öllu heldur er það sú athygli sem Páll lýsir með þessum hætti: „Nú, eftir að þið þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir ykkur, hvernig getið þið snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þið þræla undir þeim að nýju?“ (Gal. 4:9b) Hvílíkur heiður að geta verið í hópi þeirra sem „Guð þekkir“, hann sem er æðsti stjórnandi alheims! Hann vill eiga náið samband við okkur. Fræðimaður nokkur sagði að við „njótum jákvæðrar athygli hans“. Jehóva viðurkennir okkur sem vini sína en við erum einmitt sköpuð til að vera vinir hans. – Préd. 12:13, 14.

5. Hvað þurfum við að gera til að Guð þekki okkur?

5 Móse hlaut slíka blessun. Hann bað Jehóva um að fá að kynnast vegum hans betur. Jehóva svaraði þá: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ (2. Mós. 33:12-17) Jehóva getur líka þekkt okkur persónulega og því fylgir dásamleg blessun. En hvað þurfum við að gera til að verða vinir hans? Við þurfum að elska hann og vígja líf okkar honum. – Lestu 1. Korintubréf 8:3.

6, 7. Hvað gæti orðið til þess að við glötuðum sambandinu við Jehóva?

6 Við þurfum líka að varðveita dýrmætt samband okkar við himneskan föður okkar. Rétt eins og kristnir menn í Galatíu, sem Páll skrifaði, verðum við að varast að þjóna ,veikum og fátæklegum vættum‘ þessa heims, þar með talið að sækjast eftir hylli hans. (Gal. 4:9) Þessi trúsystkini Páls höfðu kynnst Guði það vel að þau voru orðin vinir hans. En þessi sami hópur hafði síðan „snúið aftur“ til þessara einskisnýtu vætta, það er að segja hluta sem heimurinn sækist eftir. Páll var efnislega að segja: „Fyrst þið hafið náð svona langt af hverju snúið þið ykkur þá aftur að þessum heimskulegu og einskisverðu hlutum sem þið höfðuð snúið baki við?“

7 Gæti eitthvað svipað komið fyrir okkur? Já. Þegar við kynntumst Jehóva fyrst fórnuðum við kannski ákveðnum frama í heimi Satans, rétt eins og Páll. (Lestu Filippíbréfið 3:7, 8.) Kannski höfnuðum við tækifærum til að hljóta æðri menntun eða afþökkuðum stöðuhækkun eða tækifæri til að þéna vel í viðskiptaheiminum. Ef til vill hefðum við getað orðið fræg og rík vegna hæfileika á sviði tónlistar eða íþrótta en við snerum baki við því öllu. (Hebr. 11:24-27) Það væri sannarlega óviturlegt af okkur að sjá eftir þessum góðu ákvörðunum og hugsa að við hefðum misst af góðum tækifærum. Slíkur hugsunarháttur gæti orðið til þess að við færum að sækjast eftir því sem við töldum áður tilheyra ,hinu veika og fátæklega‘ í þessum heimi. *

VERTU ÁKVEÐINN

8. Hvað gerir okkur ákveðnari í að sækjast eftir viðurkenningu Jehóva?

8 Hvernig getum við orðið ákveðnari í að sækjast eftir viðurkenningu Jehóva en ekki heimsins? Við þurfum að muna eftir tveim mikilvægum atriðum. Í fyrsta lagi hljótum við alltaf viðurkenningu Jehóva ef við þjónum honum trúfastlega. (Lestu Hebreabréfið 6:10; 11:6) Hann metur hvern þjón sinn að verðleikum og finnst það ,ranglátt‘ að gefa ekki gaum að þeim sem eru honum trúir. Jehóva „þekkir sína“. (2. Tím. 2:19) Hann „vakir yfir vegi réttlátra“ og veit hvernig á að bjarga þeim úr prófraunum. – Sálm. 1:6; 2. Pét. 2:9.

9. Nefndu dæmi um það hvernig Jehóva hefur sýnt að hann hefur velþóknun á þjónum sínum.

9 Jehóva hefur stundum sýnt með einstökum hætti að hann hefur velþóknun á þjónum sínum. (2. Kron. 20:20, 29) Hugsum til dæmis hvernig hann frelsaði þjóð sína við Rauðahafið þegar voldugur her faraós elti hana. (2. Mós. 14:21-30; Sálm. 106:9-11) Þetta var svo merkilegur atburður að fólk í þessum heimshluta talaði enn þá um hann 40 árum seinna. (Jós. 2:9-11) Það er uppörvandi að minna sig á hvernig Jehóva sýndi mátt sinn og kærleika því að innan skamms gerir Góg í Magóg árás á okkur. (Esek. 38:8-12) Þá verðum við mjög ánægð að hafa sóst eftir viðurkenningu Guðs okkar en ekki heimsins.

10. Hvaða mikilvæga atriði þurfum við að hafa í huga?

10 Við þurfum líka að muna eftir öðru mikilvægu atriði: Jehóva gæti sýnt með mjög óvæntum hætti að hann hefur velþóknun á okkur. Þeim sem gera góðverk til þess eins að sýnast fyrir mönnum er sagt að þeir fái alls engin laun frá Jehóva. Hvers vegna? Þeir hafa þegar fengið laun sín með því að hljóta lof annarra. (Lestu Matteus 6:1-5.) En Jesús sagði að faðir sinn, „sem sér í leynum“, horfi á þá sem hljóta ekki viðurkenningu fyrir góðverk sín í garð annarra. Hann sér verk hvers og eins og endurgeldur þau. En stundum launar Jehóva okkur með óvæntum hætti. Skoðum dæmi um það.

AUÐMJÚK UNG KONA HLÝTUR ÓVÆNTA VIÐURKENNINGU

11. Hvernig hlaut hin unga María viðurkenningu Jehóva?

11 Þegar tíminn var kominn fyrir son Guðs að fæðast sem mannsbarn valdi Guð Maríu, auðmjúka unga mey, til að vera móðir þessa sérstaka barns. María bjó í Nasaret, ómerkilegri borg langt frá Jerúsalem og hinu mikilfenglega musteri. (Lestu Lúkas 1:26-33.) Hvers vegna valdi Jehóva Maríu í þetta hlutverk? Engillinn Gabríel sagði henni að hún hefði „fundið náð hjá Guði“. Við sjáum af því sem hún sagði við Elísabetu, frænku sína, að hún átti mjög náið samband við Jehóva. (Lúk. 1:46-55) Jehóva hafði fylgst með Maríu og hún hlaut þessa óvæntu blessun vegna trúfesti sinnar.

12, 13. Með hvaða hætti hlaut Jesús viðurkenningu þegar hann fæddist og þegar farið var með hann í musterið 40 dögum síðar?

12 Þegar Jesús fæddist tilkynnti Jehóva ekki háttsettum ráðamönnum og stjórnendum Jerúsalemborgar og Betlehem um fæðingu hans. Hann sendi öllu heldur engla til auðmjúkra hirða sem gættu fjár í haga fyrir utan Betlehem. (Lúk. 1:46-55) Þeir fengu að heyra hvað hafði gerst og fóru þá til að líta á nýfætt barnið. (Lúk. 2:15-17) Það hlýtur að hafa komið Maríu og Jósef gleðilega á óvart að Jesús skyldi vera heiðraður með þessum hætti. Taktu eftir hvernig Satan fer allt öðruvísi að en Jehóva. Þegar Satan leiddi stjörnuspekinga til Jesú og foreldra hans fréttist af fæðingu Jesú og öll Jerúsalem komst í uppnám. (Matt. 2:3) Þessi vitneskja fólks um fæðingu Jesú leiddi til þess að mörg saklaus börn voru drepin. – Matt. 2:16.

13 Fjörtíu dögum eftir fæðingu Jesú átti María að bera fram fórn fyrir Jehóva í musterinu. Hún fór því með Jósef og Jesú til Jerúsalem sem var um níu kílómetra frá Betlehem. (Lúk. 2:22-24) Á leiðinni velti hún kannski fyrir sér hvort presturinn, sem var við störf, myndi heiðra Jesú með einhverjum hætti. Jesús hlaut vissulega viðurkenningu en þó ekki með þeim hætti sem María gæti hafa búist við. Jehóva valdi Símeon, ,réttlátan og guðrækinn‘ mann, ásamt spákonunni Önnu, 84 ára gamalli ekkju, til að staðfesta að barnið yrði hinn fyrirheitni Messías eða Kristur. – Lúk. 2:25-38.

14. Hvaða blessun hlaut María frá Jehóva?

14 Hvað um Maríu? Hlaut hún viðurkenningu fyrir að hugsa vel um son Guðs og ala hann upp af trúfesti? Já, Jehóva lét skrá orð hennar og verk í Biblíuna. Að því er virðist var hún ekki í aðstöðu til að ferðast með Jesú í þau þrjú og hálft ár sem þjónusta hans stóð yfir. Hún þurfti að vera um kyrrt í Nasaret, kannski af því að hún var orðin ekkja. Þótt hún missti af mörgu sem Jesús gerði gat hún verið viðstödd þegar hann dó. (Jóh. 19:26) María var líka í Jerúsalem ásamt lærisveinunum dagana fyrir hvítasunnu þegar heilögum anda var úthellt. (Post. 1:13, 14) Hún var sennilega andasmurð með öllum hinum sem voru saman komnir. Ef sú var raunin þýðir það að hún hafi fengið tækifæri til að vera með Jesú á himnum um alla eilífð. Það eru fögur laun fyrir trúfasta þjónustu hennar.

JESÚS HLÝTUR VIÐURKENNINGU FÖÐUR SÍNS

15. Hvernig hlaut Jesús viðurkenningu föður síns meðan hann var á jörðinni?

15 Jesús sóttist ekki eftir að fá heiður trúarleiðtoga eða stjórnenda síns tíma. En Jehóva lýsti yfir velþóknun sinni á honum við þrjú mismunandi tækifæri þegar hann talaði sjálfur af himni. Það hlýtur að hafa verið mjög hvetjandi fyrir Jesú. Um leið og hann hafði verið skírður í ánni Jórdan sagði Jehóva: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matt. 3:17) Að því er virðist var Jóhannes skírari sá eini sem heyrði þetta fyrir utan Jesú. Um ári fyrir dauða Jesú heyrðu síðan þrír af postulunum Jehóva segja um hann: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matt. 17:5) Að lokum, aðeins nokkrum dögum fyrir dauða Jesú, talaði Jehóva aftur til sonar síns af himni. – Jóh. 12:28.

Hvað lærum við af því að skoða hvernig Jesús hlaut viðurkenningu Jehóva? (Sjá 15.-17. grein.)

16, 17. Hvernig heiðraði Jehóva Jesú með óvæntum hætti?

16 Jesús vissi að hans biði niðurlægjandi dauðdagi, að hann yrði álitinn guðlastari. Hann bað samt að vilji Jehóva yrði gerður en ekki sinn eigin. (Matt. 26:39, 42) „Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis.“ Þannig sóttist hann ekki eftir viðurkenningu heimsins heldur aðeins viðurkenningu föður síns. (Hebr. 12:2) Hvernig lét Jehóva velþóknun sína í ljós?

17 Þegar Jesús var á jörðinni talaði hann um að hann langaði til að hljóta aftur þá dýrð sem hann hafði áður haft hjá föður sínum á himnum. (Jóh. 17:5) Ekkert bendir til þess að Jesús hafi búist við einhverju meiru. Hann átti ekki von á að fá neins konar „stöðuhækkun“ á himnum. En hvað gerði Jehóva? Hann heiðraði hann með óvæntum hætti. Hann reisti hann upp, hækkaði hann í tign og gaf honum það sem enginn annar hafði fengið fram að því – ódauðlegt líf á himnum. * (Fil. 2:9; 1. Tím. 6:16) Hvílík viðurkenning sem Jesús hlaut fyrir trúfesti sína.

18. Hvað hjálpar okkur að sækjast ekki eftir viðurkenningu þessa heims?

18 Hvað hjálpar okkur að sækjast ekki eftir viðurkenningu þessa heims? Höfum hugfast að Jehóva launar alltaf trúföstum þjónum sínum og veitir þeim viðurkenningu, oft með óvæntum hætti. Hver veit hvaða óvænta blessun bíður okkar í framtíðinni? En núna, meðan við göngum í gegnum erfiðleika og raunir í þessum illa heimi, skulum við stöðugt minna okkur á að heimurinn líður undir lok og sömuleiðis öll sú viðurkenning sem frá honum hlýst. (1. Jóh. 2:17) Jehóva, kærleiksríkur faðir okkar, er ekki ranglátur. ,Hann gleymir ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýnum honum.‘ (Hebr. 6:10) Við munum vissulega hljóta velþóknun Jehóva – jafnvel með þeim hætti sem við getum ekki ímyndað okkur núna.

^ gr. 7 Aðrar biblíuþýðingar þýða orðið „fátæklegur“ sem „gagnslaus“, „gjaldþrota“, „blásnauður“ og „vesæll“.

^ gr. 17 Þar sem ekki er minnst á ódauðleika í Hebresku ritningunum gæti þetta hafa verið óvænt blessun.