Spurningar frá lesendum
Hvenær varð Jesús æðstiprestur og er munur á því hvenær nýi sáttmálinn var fullgiltur og hvenær hann tók gildi?
Jesús varð æðstiprestur þegar hann lét skírast árið 29. Hvernig vitum það? Við skírn sína bauð Jesús sjálfan sig fram sem fórn á táknrænu altari sem táknar „vilja“ Guðs. (Gal. 1:4; Hebr. 10:5–10) Þar sem þetta altari hefur verið til frá því að Jesús skírðist hlýtur hið mikla andlega musteri – sem táknar það fyrirkomulag sem Jehóva hefur gert til að við getum tilbeðið hann á réttan hátt og byggist á lausnarfórninni – að hafa orðið til á sama tíma. Altarið gegnir mikilvægu hlutverki í þessu musteri. – Matt. 3:16, 17; Hebr. 5:4–6.
Eftir að hið mikla andlega musteri hafði verið grundvallað var þörf á æðstapresti til að þjóna þar. Til að sinna því hlutverki var Jesús smurður ,heilögum anda og gefinn kraftur‘. (Post. 10:37, 38; Mark. 1:9–11) En hvernig vitum við að Jesús var smurður æðstiprestur áður en hann dó og var reistur upp til himna? Við sjáum það af hlutverki Arons og arftaka hans sem þjónuðu sem æðstuprestar undir Móselögunum.
Samkvæmt lögmálinu mátti aðeins æðstipresturinn ganga inn í hið allra helgasta í tjaldbúðinni og seinna í musterinu. Þetta rými var aðskilið frá hinu heilaga með fortjaldi. Það var aðeins á friðþægingardeginum sem æðstipresturinn gekk fram hjá fortjaldinu. (Hebr. 9:1–3, 6, 7) Rétt eins og Aron og arftakar hans voru smurðir æðstuprestar áður en þeir gengu „gegnum [bókstaflegt] fortjaldið“ hlýtur Jesús að hafa verið smurður æðstiprestur í hinu mikla andlega musteri Jehóva áður en hann dó og gekk „gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn“ og inn í himininn. (Hebr. 10:20) Þess vegna sagði Páll postuli að Jesús hefði ,komið sem æðstiprestur‘ og gengið síðan „gegnum hina meiri og fullkomnari tjaldbúð sem er ekki gerð með höndum manna“, og inn í „sjálfan himininn“. – Hebr. 9:11, 24.
Nýi sáttmálinn tók gildi um leið og hann var fullgiltur. Hvernig vitum við það? Þegar Jesús steig upp til himna og færði Jehóva andvirði fullkomins mannslífs síns sem hann fórnaði í okkar þágu setti hann af stað ferli sem fullgilti, eða löggilti nýja sáttmálann. Það var líka þá sem sáttmálinn tók gildi. Hvað fól þetta ferli í sér?
Fyrst kom Jesús fram fyrir Jehóva. Síðan færði hann Jehóva andvirði fórnar sinnar. Og að síðustu viðurkenndi Jehóva verðgildi úthellts blóðs Jesú. Nýi sáttmálinn tók ekki gildi fyrr en öllu þessu ferli var lokið.
Biblían segir ekki nákvæmlega hvenær Jehóva tók við andvirði fórnar Jesú. Við getum því ekki sagt upp á hár hvenær nýi sáttmálinn var fullgiltur og tók gildi. En við vitum að Jesús steig upp til himna tíu dögum fyrir hvítasunnu. (Post. 1:3) Það var einhvern tíma á þessum tíu dögum sem hann færði Jehóva andvirði fórnar sinnar og Jehóva tók við því. (Hebr. 9:12) Það kom greinilega í ljós á hvítasunnu. (Post. 2:1–4, 32, 33) Nýi sáttmálinn var augljóslega bæði fullgiltur og virkur.
Í stuttu máli sagt var nýi sáttmálinn bæði fullgiltur og tók gildi eftir að Jehóva hafði tekið við andvirði úthellts blóðs Jesú. Jesús er milligöngumaður sáttmálans og þjónar sem æðstiprestur. – Hebr. 7:25; 8:1–3, 6; 9:13–15.