Áhrifamáttur kveðjunnar
„GÓÐAN DAGINN. Hvernig hefurðu það?“
Þú hefur ábyggilega oft heilsað á þennan hátt. Og kannski hefur handaband eða faðmlag fylgt kveðjunni. Þótt kveðjur fólks séu ólíkar eftir því hvaðan það er þjóna þær sama tilgangi. Og ef þú heilsar ekki fólki gætirðu jafnvel talist ókurteis eða kuldalegur.
En það eiga ekki allir auðvelt með að heilsa. Sumir hika við að kasta kveðju á aðra vegna þess að þeir eru feimnir eða með lágt sjálfsmat. Og sumum finnst erfitt að heilsa fólki af öðrum kynþætti, menningu eða þjóðfélagsstöðu. Þá er gott að hafa í huga að jafnvel stutt kveðja getur haft jákvæð áhrif.
Hugleiddu hvaða áhrif það getur haft að heilsa fólki og hvað orð Guðs getur kennt okkur um kveðjur.
HEILSIÐ ,ÖLLUM MÖNNUM‘
Þegar Pétur postuli bauð Kornelíus, fyrsta heiðingjann, velkominn í kristna söfnuðinn sagði hann: „Guð fer ekki í manngreinarálit.“ (Post. 10:34) Síðar skrifaði Pétur að Guð vilji „að allir komist til iðrunar“. (2. Pét. 3:9) Við gætum í fyrstu tengt þessa ritningarstaði við þá sem eru að kynna sér Biblíuna. En Pétur gaf kristnum mönnum einnig þessa hvatningu: „Virðið alla menn, elskið samfélag þeirra sem trúa.“ (1. Pét. 2:17) Ættum við því ekki að heilsa öllu fólki, sama af hvaða kynþætti, menningarheimi eða bakgrunni það er? Þannig sýnum við því virðingu og kærleika.
Páll postuli hvatti kristna menn: „Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér.“ (Rómv. 15:7) Páll nefndi sérstaklega bræður sem höfðu verið honum styrkur. Nú á tímum herðir Satan árásina á þjóna Guðs og því þurfa bræður og systur á enn meiri styrk að halda. – Kól. 4:11; Opinb. 12:12, 17.
Dæmi úr Biblíunni sýna að það að heilsa öðrum gerir meira en að láta fólki finnast það vera velkomið.
HUGHREYSTING, HVATNING OG KÆRLEIKUR
Þegar tími var kominn til að flytja líf sonar Guðs í móðurlíf Maríu sendi Jehóva engil til þess að tala við hana. Engillinn sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“ En María „varð hrædd“ af því að hún vissi ekki hvers vegna engill væri að tala við sig. Þá sagði engillinn: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði.“ Hann útskýrði að það væri vilji Guðs að hún myndi fæða Messías. María var ekki lengur hrædd og svaraði: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ – Lúk. 1:26-38.
Engillinn fékk þann heiður að vera talsmaður Jehóva Guðs en samt sem áður áleit hann það ekki fyrir neðan sína virðingu að tala við ófullkomna manneskju. Hann byrjaði á því að heilsa. Hvað getum við lært af þessu fordæmi? Við ættum að vera reiðubúin að heilsa fólki og hvetja það. Með nokkrum vel völdum orðum getum við hjálpað öðrum og fullvissað þá um að þeir séu hluti af alheimsfjölskyldu Jehóva.
Páll kynntist mörgum úr söfnuðunum í Litlu-Asíu og Evrópu. Í bréfum hans er að finna margar persónulegar kveðjur. Við getum séð dæmi um það í 16. kafla Rómverjabréfsins. Hann sendi kveðjur til margra trúsystkina sinna. Hann nefndi Rómv. 16:1-16.
Föbe, „systur okkar“, og hvatti bræðurna: „Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur.“ Páll sendi kveðju til Prisku og Akvílasar: ,Ég votta þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða.‘ Hann sendi líka nokkrum sem eru nánast óþekktir í dag kveðjur – „Epænetusi, mínum elskaða,“ og einnig „Tryfænu og Tryfósu sem erfiða fyrir Drottin“. Páll var greinilega fús til að senda trúsystkinum sínum kveðjur. –Það hefur áreiðanlega glatt þau að fá svona hlýjar kveðjur. Kærleikurinn þeirra á milli og til Páls varð eflaust sterkari. Og án efa hvatti þetta aðra kristna menn sem heyrðu kveðjurnar og hjálpaði þeim að vera staðfastir. Að senda kveðjur, sem innihalda hrós og sýna persónulegan áhuga, styrkir vináttubönd og sameinar trúa þjóna Guðs.
Þegar Páll kom í höfn í Púteólí og lagði af stað til Rómar komu trúsystkini suður til að hitta hann. Þegar Páll sá þau nálgast úr fjarska „gerði hann Guði þakkir og hresstist í huga“. (Post. 28:13-15) Stundum náum við að heilsa bara með því að vinka eða brosa. En það getur samt verið uppörvandi, ekki síst fyrir þá sem eru niðurdregnir eða daprir.
SAMEIGINLEGUR GRUNDVÖLLUR
Lærisveinninn Jakob þurfti að veita alvarlega áminningu. Sumir í kristna söfnuðinum sýndu ótrúmennsku með því að vingast við heiminn. (Jak. 4:4) En tökum eftir hvernig Jakob byrjaði bréf sitt til safnaðarins:
„Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni.“ (Jak. 1:1) Safnaðarmenn hafa án vafa átt auðveldara með að taka við áminningunni þar sem þeir skynjuðu af kveðju Jakobs að þeir væru jafnir honum frammi fyrir Guði. Þegar við ávörpum aðra með hógværð getur það auðveldað okkur að ræða alvarleg málefni.
Áhrifarík kveðja, þótt stutt sé, þarf að vera einlæg og bera merki um kærleika jafnvel þó að enginn virðist taka eftir henni. (Matt. 22:39) Systir á Írlandi mætti í ríkissalinn þegar samkoman var rétt að hefjast. Hún var að drífa sig inn í salinn þegar bróðir sneri sér við, brosti og sagði: „Sæl. Gaman að sjá þig.“ Hún fékk sér sæti án þess að svara.
Nokkrum vikum síðar minntist hún á það við bróðurinn að hún hefði um tíma glímt við erfiðleika heima fyrir. Hún sagði: „Mér leið svo illa þetta kvöld að ég var næstum því hætt við að mæta á samkomu. Ég man ekki eftir miklu af því sem fram fór á samkomunni en ég man eftir kveðjunni þinni. Ég fann að ég var velkomin. Takk fyrir það.“
Bróðirinn vissi ekki hve mikil áhrif þessi stutta kveðja hans hafði haft. Hann segir: „Þegar hún sagði mér hvað þessi orð höfðu snert sig mikið leið mér vel. Ég var ánægður að hafa heilsað henni þetta kvöld.“
Salómon skrifaði: „Varpaðu brauði þínu út á vatnið. Þegar margir dagar eru liðnir muntu finna það aftur.“ (Préd. 11:1) Með því að gera sér grein fyrir hve mikil áhrif það getur haft að heilsa, sérstaklega trúsystkinum okkar, getum við hvatt aðra og fengið hvatningu sjálf. Vanmetum því aldrei áhrifamátt kveðjunnar.