Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það veitir gleði að vinna með Guði

Það veitir gleði að vinna með Guði

„Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.“ – 2. KOR. 6:1, Biblían 1981.

SÖNGVAR: 75, 74

1. Hvað hefur Jehóva boðið öðrum að gera þrátt fyrir að vera æðstur í alheiminum?

JEHÓVA er hinn æðsti í alheiminum. Hann skapaði alla hluti og býr yfir ótakmarkaðri visku og mætti. Job komst að raun um það. Eftir að Jehóva hafði spurt Job út í sköpunarverkið svaraði hann: „Nú skil ég að þú getur allt, ekkert, sem þú vilt, er þér um megn.“ (Job. 42:2) Jehóva getur gert hvaðeina sem hann ætlar sér án aðstoðar annarra. En allt frá upphafi hefur hann sýnt þann kærleika að bjóða öðrum að vinna með sér til að fyrirætlun sín næði fram að ganga.

2. Hvaða mikilvæga verk bauð Jehóva Jesú að vinna?

2 Fyrsta sköpunarverk Jehóva var einkasonur hans. Hann leyfði syni sínum að taka þátt í að skapa allt annað, bæði andlegt og efnislegt. (Jóh. 1:1-3, 18) Páll postuli skrifaði um Jesú: „Allt [var] skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.“ (Kól. 1:15-17) Jehóva heiðraði son sinn bæði með því að leyfa honum að taka þátt í að skapa og með því að segja öðrum frá mikilvægu hlutverki hans.

3. Hvað bauð Jehóva Adam að gera og hvers vegna?

3 Jehóva bauð líka mönnum að vinna með sér. Hann leyfði til dæmis Adam að gefa dýrunum nöfn. (1. Mós. 2:19, 20) Hugsa sér hve mikla ánægju Adam hlýtur að hafa haft af því að fylgjast með dýrunum, grandskoða einkenni þeirra og finna hverju og einu þeirra nafn við hæfi! Jehóva hefði sjálfur getað valið dýrunum nöfn – það var hann sem skapaði þau. En hann sýndi Adam þann kærleika að leyfa honum að vinna verkið. Guð gaf Adam líka tækifæri til að gera alla jörðina að paradís. (1. Mós. 1:27, 28) En því miður valdi Adam að hætta að vinna með Guði og kallaði þannig ógæfu yfir sig og alla afkomendur sína. – 1. Mós. 3:17-19, 23.

4. Hvernig vann fólk með Guði að því að vilji hans næði fram að ganga?

4 Síðar bauð Guð öðrum mönnum að eiga þátt í að láta vilja hans ná fram að ganga. Nói smíðaði örk sem varð honum og fjölskyldu hans til lífs í flóðinu mikla. Móse frelsaði Ísraelsþjóðina úr Egyptalandi og Jósúa leiddi hana inn í fyrirheitna landið. Salómon reisti musterið í Jerúsalem. María varð móðir Jesú. Allt þetta trúfasta fólk og margir aðrir unnu með Jehóva að því að vilji hans næði fram að ganga.

5. Hvaða starfi getum við átt þátt í og þarf Jehóva að nota okkur í þetta starf? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Nú á dögum býður Jehóva okkur að gera okkar besta til að styðja ríki Messíasar. Okkur standa ýmsir möguleikar til boða í þjónustu Jehóva. Að vísu geta ekki allir þjónað honum á sama hátt en við getum öll tekið þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið. Jehóva þarf auðvitað ekki að nota okkur í þetta starf. Hann gæti talað beint til fólks frá himnum. Jesús sagði að Jehóva gæti meira að segja látið steinana hrópa boðskapinn um konung Guðsríkis. (Lúk. 19:37-40) En Jehóva leyfir okkur að vera „samverkamenn“ sínir. (1. Kor. 3:9) Páll postuli skrifaði: „Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.“ (2. Kor. 6:1, Biblían 1981) Það er óverðskuldaður heiður að vinna með Guði og það veitir okkur ómælda gleði. Skoðum nokkrar ástæður fyrir því.

ÞAÐ VEITIR OKKUR GLEÐI AÐ VINNA MEÐ GUÐI

6. Hvað fannst frumgetnum syni Guðs um að vinna við hlið föður síns?

6 Þjónar Jehóva hafa frá örófi alda haft ánægju af að vinna með honum. Frumgetnum syni Guðs er lýst sem persónugervingi viskunnar sem segir: ,Drottinn skapaði mig í upphafi ... ég var með í ráðum við hlið honum, var yndi hans dag hvern og lék mér fyrir augliti hans alla tíma.‘ (Orðskv. 8:22, 30) Jesús hafði mikla ánægju af að vinna við hlið föður síns. Hann gladdist bæði yfir því sem hann hafði áorkað og yfir að vita að Jehóva elskaði hann. En hvað um okkur?

Er hægt að hugsa sér ánægjulegra starf en að kenna einhverjum sannleikann? (Sjá 7. grein.)

7. Hvers vegna veitir boðunin okkur gleði?

7 Jesús sagði að það veitti gleði bæði að gefa og að þiggja. (Post. 20:35) Það veitti okkur gleði að kynnast sannleikanum og það veitir okkur líka gleði að segja öðrum frá honum. Þegar við segjum frá sannleika Biblíunnar sjáum við andlega hungrað fólk fyllast gleði við það að öðlast skilning á þeim dýrmætu sannindum sem er að finna í Biblíunni og eignast samband við Guð. Það snertir hjarta okkar að sjá það breyta bæði hugarfari sínu og lífsstíl. Við gerum okkur grein fyrir að það er ákaflega mikilvægt að boða fagnaðarerindið. Það gerir þeim sem sættast við Guð kleift að hljóta eilíft líf. (2. Kor. 5:20) Er hægt að hugsa sér ánægjulegra starf en það að hjálpa fólki að komast inn á veginn sem leiðir til eilífs lífs?

8. Hvað segja sumir um gleðina sem fylgir því að vinna með Jehóva?

8 Það gleður okkur mikið að sjá fólk taka við boðskapnum sem við flytjum. En það veitir okkur líka mikla ánægju að vita að við þóknumst Jehóva og að hann kann að meta það sem við leggjum á okkur í þjónustu hans. (Lestu 1. Korintubréf 15:58.) Marco, sem býr á Ítalíu, segir: „Ég hef ómælda gleði af því að vita að ég sé að gera mitt besta fyrir Jehóva en ekki fyrir einhvern sem gleymir því fljótt sem ég geri.“ Franco, sem einnig býr á Ítalíu, segir sömuleiðis: „Með Biblíunni og andlegu fæðunni minnir Jehóva okkur á það á hverjum degi að hann elskar okkur og að allt sem við gerum fyrir hann skiptir hann máli, jafnvel þótt okkur finnist það ómerkilegt. Þess vegna veitir það mér ánægju og tilgang í lífinu að vinna með Guði.“

ÞEGAR VIÐ VINNUM MEÐ GUÐI STYRKJUM VIÐ SAMBANDIÐ VIÐ HANN OG AÐRA

9. Hvers konar samband áttu Jehóva og Jesús og hvers vegna?

9 Þegar við vinnum með þeim sem við elskum styrkjum við sambandið við þá og kynnumst eiginleikum þeirra betur. Við kynnumst markmiðum þeirra og hvernig þeir vinna að þeim. Jesús vann ef til vill um milljarða ára með Jehóva og á þeim tíma tengdust þeir órjúfanlegum kærleiksböndum. Jesús sagði um samband þeirra: „Ég og faðirinn erum eitt.“ (Jóh. 10:30) Þeir voru sameinaðir og unnu alltaf saman sem ein heild.

10. Hvers vegna styrkir boðunin samband okkar við Guð og við aðra?

10 Jesús bað Jehóva í bæn um að varðveita lærisveina sína. Hvers vegna? Hann bað: „Svo að þeir verði eitt eins og við.“ (Jóh. 17:11) Þegar við fylgjum meginreglum Guðs og tökum þátt í boðuninni kynnumst við aðlaðandi eiginleikum hans og það sameinar okkur. Við komumst að raun um hvers vegna það er skynsamlegt að treysta honum og fylgja leiðsögn hans. Þegar við nálægjum okkur Guði nálgast hann okkur. (Lestu Jakobsbréfið 4:8.) Við tengjumst líka trúsystkinum okkar nánari böndum þar sem við upplifum svipaða erfiðleika og gleði og þau, og eigum líka sameiginleg markmið. Við vinnum saman, gleðjumst saman og höldum út saman. Octavia, sem býr í Bretlandi, segir: „Ég eignast nánara samband við aðra þegar ég vinn með Jehóva þar sem vináttuböndin byggjast ekki lengur á yfirborðslegum tengslum heldur á sameiginlegu markmiði og stefnu í lífinu.“ Líður þér ekki eins? Laðastu ekki að öðrum þegar þú sérð þá leggja sig fram um að þóknast Jehóva?

11. Hvers vegna eignumst við enn nánara samband við Jehóva og trúsystkini okkar í nýja heiminum?

11 Þó að við tengjumst Guði og trúsystkinum okkar sterkum kærleiksböndum núna verða þau enn sterkari í nýja heiminum. Hugsaðu þér þá vinnu sem er fram undan! Við eigum eftir að taka á móti þeim sem fá upprisu og fræða þá um Jehóva og vilja hans. Og það þarf að breyta jörðinni í paradís. Þetta eru engin lítil verkefni en það verður sannarlega ánægjulegt að vinna þétt saman og verða að lokum fullkomin undir stjórn ríkis Messíasar. Mennirnir eignast þá æ nánara samband sín á milli og við Guð sem mun ,seðja allt sem lifir með blessun‘. – Sálm. 145:16.

ÞAÐ ER OKKUR TIL VERNDAR AÐ VINNA MEÐ GUÐI

12. Hvernig er boðunin okkur til verndar?

12 Við þurfum að standa vörð um samband okkar við Jehóva. Við erum ófullkomin og búum í heimi þar sem Satan djöfullinn ræður ríkjum, og því er hægur vandi fyrir okkur að tileinka okkur hugarfar og hátterni heimsins. Það mætti líkja anda heimsins við straummikla á sem ber okkur þangað sem við viljum ekki fara. Við þurfum að berjast gegn straumnum til að berast ekki með honum. Á svipaðan hátt þurfum við að leggja hart að okkur til að berast ekki með straumnum í heimi Satans. Þegar við boðum trúna einbeitum við okkur að mikilvægum og uppbyggjandi andlegum málum, ekki að hugsunum sem grafa undan trú okkar. (Fil. 4:8) Sömuleiðis styrkist sannfæring okkar, og athygli okkar beinist að loforðum Guðs og kærleiksríkum meginreglum. Það auðveldar okkur líka að halda andlegum herklæðum okkar heilum. – Lestu Efesusbréfið 6:14-17.

13. Hvað finnst votti einum í Ástralíu um boðunina?

13 Ef við höldum okkur uppteknum í boðuninni og öðrum verkefnum í þjónustu Jehóva höfum við hreinlega ekki tíma til að hafa of miklar áhyggjur af eigin vandamálum, og það er okkur til verndar. Joel, sem býr í Ástralíu, segir: „Boðunin hjálpar mér að missa ekki tengslin við veruleikann. Hún minnir mig á erfiðleikana sem fólk þarf að glíma við og á þá blessun sem ég hef öðlast við að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Boðunin auðveldar mér líka að vera auðmjúkur. Hún veitir mér tækifæri til að reiða mig á Jehóva og trúsystkini mín.“

14. Hvernig sýnir úthald okkar í boðuninni að andi Guðs sé með okkur?

14 Boðunin styrkir líka sannfæringu okkar um að andi Guðs sé með okkur. Lýsum þessu með dæmi. Segjum sem svo að þér sé boðin vinna við að dreifa næringarríku brauði meðal fólks í samfélaginu. Þú fengir hvorki laun fyrir vinnuna né styrk fyrir kostnaðinum sem þú þyrftir að leggja út. Þar að auki kæmistu fljótlega að raun um að flestir kærðu sig ekki um brauðið og sumir hefðu jafnvel óbeit á þér fyrir að dreifa því. Hve lengi myndirðu endast í þannig vinnu? Neikvæð viðbrögð fólksins drægju eflaust úr þér og þú hefðir áreiðanlega ekki kjark til að halda mjög lengi út. En mörg okkar hafa haldið boðuninni ótrauð áfram ár eftir ár á eigin kostnað þrátt fyrir fyrirlitningu og háð af hálfu vanþakkláts fólks. Sannar það ekki að andi Guðs starfi með okkur?

ÞEGAR VIÐ VINNUM MEÐ GUÐI SÝNUM VIÐ KÆRLEIKA TIL HANS OG TIL ANNARRA

15. Hvernig tengist boðun fagnaðarerindisins fyrirætlun Guðs með mannkynið?

15 Hvernig tengist boðun fagnaðarerindisins kærleiksríkri fyrirætlun Jehóva með mannkynið? Ætlun hans var að mennirnir lifðu að eilífu á jörð, og hann skipti ekki um skoðun þótt Adam hefði syndgað. (Jes. 55:11) Hann gerði ráðstafanir til að mennirnir yrðu frelsaðir undan synd og dauða. Í þeim tilgangi kom Jesús til jarðar og fórnaði lífi sínu fyrir alla hlýðna menn. En til að fólk gæti verið hlýðið þurfti það að fá að vita til hvers Guð ætlaðist af því. Þess vegna kenndi Jesús fólki hvaða kröfur Guð gerði til þess og fól lærisveinum sínum einnig að kenna því. Með því að hjálpa öðrum að sættast við Guð eigum við hlut í þeirri kærleiksríku ráðstöfun hans að frelsa mannkynið undan synd og dauða.

16. Hvernig tengist boðun fagnaðarerindisins æðstu boðorðum Guðs?

16 Þegar við hjálpum öðrum inn á veginn sem leiðir til eilífs lífs sýnum við að við elskum bæði náungann og Jehóva „sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:4) Þegar Jesús var spurður hvert væri æðst allra boðorðanna sem Guð hafði gefið Ísraelsþjóðinni svaraði hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22:37-39) Þegar við tökum þátt í boðun fagnaðarerindisins sýnum við að við hlýðum þessum boðum. – Lestu Postulasöguna 10:42.

17. Hvað finnst þér um þann heiður að fá að boða fagnaðarerindið?

17 Við höfum hlotið einstaka blessun! Jehóva hefur falið okkur verkefni sem veitir okkur gleði, styrkir samband okkar við hann og við aðra og verndar okkar andlega mann. Það gefur okkur líka tækifæri til að sýna kærleika okkar til Guðs og til náungans. Jehóva á sér milljónir þjóna um alla jörð sem búa við afar mismunandi aðstæður. En hvort sem við erum ung eða gömul, rík eða fátæk, kraftmikil eða veikburða gerum við allt sem við getum til að segja öðrum frá trú okkar. Þú ert örugglega sammála Chantel sem býr í Frakklandi. Hún segir: „Máttugasta persóna alheims, skapari allra hluta, hinn sæli Guð, segir við mig: ,Farðu og talaðu! Talaðu í mínu nafni, talaðu frá hjartanu. Ég styrki þig með orði mínu, Biblíunni, stuðningi frá himni ofan, trúsystkinum á jörð, stöðugri þjálfun og nákvæmum leiðbeiningum á réttum tíma.‘ Hvílíkur heiður að gera það sem Jehóva biður okkur um og vinna með honum!“