Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 22

Sýndu þakklæti fyrir ósýnilegar gjafir Guðs

Sýndu þakklæti fyrir ósýnilegar gjafir Guðs

,Horfum á hið ósýnilega því að hið sýnilega er tímabundið en hið ósýnilega er eilíft.‘ – 2. KOR. 4:18.

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

YFIRLIT *

1. Hvað sagði Jesús um fjársjóði á himni?

TIL eru verðmæti sem ekki er hægt að sjá berum augum. Mestu verðmætin eru reyndar ósýnileg. Í fjallræðunni talaði Jesús um fjársjóði á himni sem eru langtum verðmætari en efnislegar eigur. Síðan bætti hann við: „Þar sem fjársjóður þinn er þar verður líka hjarta þitt.“ (Matt. 6:19–21) Hjartað knýr okkur til að keppast eftir því sem okkur finnst verðmætt, eða metum mikils. Við söfnum „fjársjóðum á himni“ með því að eignast gott mannorð hjá Guði. Jesús sagði að slík verðmæti eyddust ekki og að þeim yrði aldrei stolið.

2. (a) Hverju hvetur Páll okkur til að veita athygli samkvæmt 2. Korintubréfi 4:17, 18? (b) Hvað verður rætt í þessari grein?

2 Páll postuli hvetur okkur til að ,horfa á hið ósýnilega‘. (Lestu 2. Korintubréf 4:17, 18.) Hið ósýnilega felur meðal annars í sér þá blessun sem við munum njóta í nýjum heimi Guðs. Í þessari grein skoðum við ferns konar verðmæti sem við sjáum ekki berum augum en getum notið núna – vináttu við Guð, bænina, hjálp heilags anda og stuðning Guðs, Jesú og englanna í boðuninni. Við ræðum líka hvernig við getum sýnt að við erum þakklát fyrir þessa ósýnilegu fjársjóði.

VINÁTTA VIÐ JEHÓVA

3. Hver er mesti fjársjóðurinn sem við getum eignast og hvað gerir okkur kleift að eignast hann?

3 Verðmætast af öllu er vinátta við Jehóva Guð. (Sálm. 25:14) Hvernig getur Guð myndað vináttu við synduga menn og á sama tíma verið algerlega heilagur? Hann getur það vegna þess að lausnarfórn Jesú „tekur burt synd heimsins“. (Jóh. 1:29) Jehóva vissi að fyrirætlun sín um að sjá mannkyninu fyrir frelsara myndi ná fram að ganga. Þess vegna gat hann orðið vinur fólks sem var uppi áður en Kristur dó. – Rómv. 3:25.

4. Nefndu dæmi um menn sem lifðu fyrir daga kristninnar og urðu vinir Guðs.

4 Ræðum nú um nokkra menn sem lifðu fyrir daga kristninnar og urðu vinir Guðs. Abraham sýndi einstaka trú. Meira en 1.000 árum eftir að hann dó kallaði Jehóva hann ,vin sinn‘. (Jes. 41:8) Dauðinn getur ekki einu sinni gert vini Jehóva viðskila við hann. Abraham lifir í minni Jehóva. (Lúk. 20:37, 38) Job er annað dæmi. Jehóva lét í ljós traust sitt til hans í áheyrn fjölda engla á himnum. Jehóva kallaði hann ,ráðvandan og réttlátan‘ og sagði hann „óttast Guð og forðast illt“. (Job. 1:6–8) Og hvernig leit Jehóva á Daníel, sem þjónaði honum trúfastlega í 80 ár í landi þar sem fólk tilbað ekki Jehóva? Þrisvar fullvissuðu englar þennan aldraða mann um að hann væri elskaður af Guði. (Dan. 9:23; 10:11, 19) Við megum vera viss um að Jehóva þráir þann dag þegar hann reisir ástkæra vini sína upp til lífs á ný. – Job. 14:15.

Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir ósýnilega fjársjóði okkar? (Sjá 5. grein.) *

5. Hvað þarf að gera til að vera vinur Jehóva?

5 Hversu margir ófullkomnir menn nú á dögum eiga náið vináttusamband við Jehóva? Þeir skipta milljónum. Við vitum það vegna þess að margir karlar, konur og börn um heim allan sýna í verki að þau vilja vera vinir Guðs. „Ráðvandir menn eru alúðarvinir“ Jehóva. (Orðskv. 3:32) Þessi vinátta er möguleg vegna trúar þeirra á lausnarfórn Jesú. Á grundvelli hennar sýnir Jehóva okkur þá góðvild að leyfa okkur að vígjast sér og skírast. Þegar við stígum þessi mikilvægu skref göngum við til liðs við milljónir vígðra og skírðra lærisveina Krists sem eiga náið vináttusamband við æðstu persónu alheims.

6. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta vináttu okkar við Guð?

6 Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta vináttu okkar við Guð? Líkt og Abraham og Job, sem voru Guði trúfastir í meira en hundrað ár, verðum við að vera trúföst – óháð því hversu lengi við höfum þjónað Jehóva í þessum gamla heimi. Og líkt og Daníel verðum við að meta vináttu okkar við Guð meira en lífið. (Dan. 6:8, 11, 17, 23) Með hjálp Jehóva getum við tekist á við hvaða erfiðleika sem er og varðveitt náið samband við hann. – Fil. 4:13.

BÆNIN ER GJÖF FRÁ GUÐI

7. (a) Hvernig lítur Jehóva á bænir okkar samkvæmt Orðskviðunum 15:8? (b) Hvernig svarar Jehóva bænum okkar?

7 Bænin er líka verðmæt. Nánir vinir hafa yndi af að ræða hugsanir sínar og tilfinningar. Á það líka við um vináttu okkar við Jehóva? Já! Hann talar við okkur í orði sínu og þar tjáir hann okkur hugsanir sínar og tilfinningar. Við tölum við hann í bæn og getum sagt honum frá innstu hugsunum okkar og tilfinningum. Jehóva hefur ánægju af að hlusta á bænir okkar. (Lestu Orðskviðina 15:8.) Hann er kærleiksríkur vinur og hlustar ekki aðeins á bænir okkar heldur svarar þeim líka. Stundum svarar hann okkur fljótt. Og stundum þurfum við að halda áfram að biðja um tiltekið mál. En við getum verið sannfærð um að svarið kemur á réttum tíma og á sem bestan hátt. Svar Guðs getur auðvitað verið ólíkt því sem við búumst við. Í stað þess að fjarlægja prófraun má vera að hann gefi okkur visku og styrk til að ,standast hana‘. – 1. Kor. 10:13.

(Sjá 8. grein.) *

8. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta bænina?

8 Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir þá ómetanlegu gjöf sem bænin er? Ein leið er að fara eftir hvatningu Jehóva um að ,biðja stöðugt‘. (1. Þess. 5:17) Jehóva neyðir okkur ekki til að biðja. Þvert á móti virðir hann frjálsan vilja okkar og hvetur okkur til að ,halda áfram að biðja‘. (Rómv. 12:12) Við getum sýnt þakklæti okkar með því að biðja oft á dag. Við ættum auðvitað ekki að gleyma að þakka Jehóva og lofa hann í bænum okkar. – Sálm. 145:2, 3.

9. Hvernig lítur bróðir nokkur á bænina og hvernig lítur þú á hana?

9 Því lengur sem við þjónum Jehóva og sjáum hvernig hann svarar bænum okkar því dýpra ætti þakklæti okkar að rista. Chris er bróðir sem hefur þjónað Jehóva í fullu starfi síðustu 47 árin. „Mér finnst gott að nota tíma á hverjum morgni til að leita til Jehóva í bæn,“ segir hann. „Það er yndislegt að tala við Jehóva þegar daggardroparnir glitra í fyrstu geislum sólarinnar. Þá finn ég mig knúinn til að þakka honum fyrir allar gjafir hans, þar á meðal bænina. Og það er dásamlegt að sofna með hreina samvisku eftir að hafa farið með bæn í lok dags.“

HEILAGUR ANDI ER GJÖF FRÁ GUÐI

10. Hvers vegna ættum við að vera þakklát fyrir heilagan anda?

10 Kraftur Guðs er enn ein ósýnileg gjöfin sem við ættum að meta að verðleikum. Jesús hvatti okkur til að halda áfram að biðja um heilagan anda. (Lúk. 11:9, 13) Jehóva notar heilagan anda til að gefa okkur kraft – jafnvel kraft „sem er ofar mannlegum mætti“. (2. Kor. 4:7; Post. 1:8) Með hjálp heilags anda getum við staðist hvaða prófraun sem við verðum fyrir.

(Sjá 11. grein.) *

11. Hvernig getur heilagur andi hjálpað okkur?

11 Heilagur andi getur hjálpað okkur að gera verkefnum okkar í þjónustu Guðs góð skil. Hann getur aukið hæfileika okkar og getu. Hann gerir okkur kleift að axla ábyrgð okkar sem fylgjendur Krists. Við vitum að árangurinn af erfiði okkar er ekki sjálfum okkur að þakka heldur hjálp heilags anda Guðs.

12. Hvaða hjálp getum við beðið Jehóva um að heilagur andi veiti okkur samkvæmt Sálmi 139:23, 24?

12 Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir heilagan anda Guðs? Ein leið er að biðja Guð um að heilagur andi hjálpi okkur að koma auga á rangar hugsanir eða langanir sem kunna að leynast í hjarta okkar. (Lestu Sálm 139:23, 24.) Þegar við gerum það getur Jehóva notað anda sinn til að vekja athygli okkar á röngum hugsunum eða tilhneigingum. Og ef við verðum vör við rangar hugsanir eða langanir ættum við að biðja hann um að andi hans gefi okkur styrk til að berjast á móti þeim. Þannig sýnum við að við erum staðráðin í að forðast hvaðeina sem gæti orðið til þess að Jehóva hætti að veita okkur hjálp heilags anda. – Ef. 4:30.

13. Hvernig getum við orðið enn þakklátari fyrir heilagan anda?

13 Við verðum enn þakklátari fyrir heilagan anda þegar við hugleiðum allt það sem hann áorkar nú á dögum. Áður en Jesús steig upp til himna sagði hann lærisveinum sínum: „Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir ... til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Nú er þetta að rætast á stórkostlegan hátt. Með hjálp heilags anda hefur um átta og hálf milljón fólks hvaðanæva úr heiminum orðið tilbiðjendur Jehóva. Og við búum í andlegri paradís vegna þess að andi Guðs hjálpar okkur að rækta með okkur fallega eiginleika eins og kærleika, gleði, frið, þolinmæði, góðvild, gæsku, trú, mildi og sjálfstjórn. Þessir eiginleikar mynda ,ávöxt andans‘. (Gal. 5:22, 23) Heilagur andi er sannarlega dýrmæt gjöf!

STUÐNINGUR FRÁ HIMNI Í BOÐUNINNI

14. Hvaða ósýnilega stuðning fáum við þegar við tökum þátt í boðuninni?

14 Enn einn fjársjóðurinn sem við eigum er að vinna með Jehóva og himneskum hluta safnaðar hans. (2. Kor. 6:1) Við gerum það í hvert sinn sem við tökum þátt í boðuninni. Páll sagði um sjálfan sig og þá sem sinna þessu starfi: „Við erum samverkamenn Guðs.“ (1. Kor. 3:9) Við erum líka samverkamenn Jesú þegar við boðum trúna. Munum að eftir að Jesús sagði fylgjendum sínum að ,gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum‘ bætti hann við: „Ég er með ykkur.“ (Matt. 28:19, 20) Og hvað um englana? Það er blessun að fá leiðsögn engla þegar við boðum „eilífan fagnaðarboðskap ... þeim sem búa á jörðinni“. – Opinb. 14:6.

15. Nefndu dæmi úr Biblíunni sem sýnir fram á veigamikinn þátt Jehóva í boðun okkar.

15 Hverju er áorkað með stuðningi frá himni? Þegar við sáum boðskapnum um ríki Guðs fara sáðkorn að vaxa í móttækilegum hjörtum. (Matt. 13:18, 23) Hver lætur þessi sannleikskorn vaxa og bera ávöxt? Jesús sagði að enginn gæti orðið lærisveinn sinn nema ,faðirinn drægi hann‘. (Jóh. 6:44) Í Biblíunni er skýrt dæmi um það. Páll boðaði eitt sinn hópi kvenna trúna fyrir utan borgina Filippí. Tökum eftir því sem segir um eina þeirra, konu að nafni Lýdía: „Jehóva opnaði hjarta hennar svo að hún meðtók það sem Páll sagði.“ (Post. 16:13–15) Jehóva hefur á svipaðan hátt dregið milljónir manna til sín.

16. Hver ætti að fá heiðurinn af öllu sem við áorkum í boðuninni?

16 Hver stendur á bak við allan árangur okkar í boðuninni? Páll svaraði því þegar hann skrifaði um söfnuðinn í Korintu: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir sá ekki máli sem gróðursetur né sá sem vökvar heldur Guð sem gefur vöxtinn.“ (1. Kor. 3:6, 7) Við ættum líkt og Páll alltaf að gefa Jehóva heiðurinn af öllu sem við áorkum í boðuninni.

17. Hvernig getum við sýnt að við metum mikils að fá að vinna með Guði, Kristi og englunum?

17 Hvernig getum við sýnt að við metum mikils að fá að vinna með Guði, Kristi og englunum? Með því að að nota hvert tækifæri til að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum. Hægt er að gera það á marga vegu, eins og til dæmis „opinberlega og hús úr húsi“. (Post. 20:20) Margir hafa einnig ánægju af að boða trúna óformlega. Þegar þeir hitta einhvern ókunnugan heilsa þeir vingjarnlega og reyna að hefja samræður. Ef hann bregst vel við reyna þeir nærgætnislega að beina samtalinu að boðskapnum um ríki Guðs.

(Sjá 18. grein.) *

18, 19. (a) Hvernig vökvum við sannleikskorn? (b) Segðu frá hvernig Jehóva hjálpaði biblíunemanda.

18 Þar sem við erum „samverkamenn Guðs“ megum við ekki aðeins gróðursetja sannleikskorn. Við verðum líka að vökva þau. Þegar einhver sýnir áhuga viljum við gera okkar besta til að fylgja áhuganum eftir eða sjá til þess að einhver annar hafi samband við hann með það að markmiði að hefja biblíunámskeið. Það gleður okkur að sjá hvernig Jehóva hefur áhrif á huga og hjarta nemandans eftir því sem náminu miðar áfram.

19 Tökum sem dæmi Raphalalani, galdralækni í Suður-Afríku. Honum líkaði það sem hann lærði í biblíunámi sínu. Hins vegar fannst honum mjög erfitt að meðtaka það sem orð Guðs segir um að reyna að hafa samband við látna forfeður. (5. Mós. 18:10–12) Smám saman leyfði hann Guði að móta hugarfar sitt og með tímanum hætti hann að stunda galdralækningar þótt það þýddi að hann missti lífsviðurværi sitt. Raphalalani, sem er nú sextugur, segir: „Ég er vottum Jehóva innilega þakklátur fyrir að aðstoða mig á svo marga vegu. Þeir hjálpuðu mér meðal annars að finna vinnu. En fyrst og fremst er ég þakklátur Jehóva fyrir að hjálpa mér að gera breytingar á lífi mínu til að geta tekið þátt í boðuninni sem skírður vottur hans.“

20. Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

20 Í þessari grein höfum við rætt um ferns konar verðmæti sem við sjáum ekki berum augum. Verðmætast af öllu er að eiga Jehóva að nánasta vini okkar. Sú vinátta gerir okkur kleift að njóta góðs af öðrum verðmætum – að nálgast hann í bæn, finna fyrir hjálp heilags anda hans og fá stuðning frá himni í boðuninni. Verum staðráðin í að meta enn betur þessa ósýnilegu fjársjóði. Og hættum aldrei að þakka Jehóva fyrir að vera svona dásamlegur vinur.

SÖNGUR 145 Loforð Guðs um paradís

^ gr. 5 Í síðustu grein ræddum við nokkrar sýnilegar gjafir frá Guði. Í þessari grein beinum við athyglinni að verðmætum sem við getum ekki séð berum augum og skoðum hvernig við getum sýnt að við erum þakklát fyrir þau. Það mun einnig hjálpa okkur að meta enn betur þann sem gefur slíkar gjafir, Jehóva Guð.

^ gr. 58 MYND: (1) Systir hugsar um vináttu sína við Jehóva meðan hún virðir fyrir sér sköpunarverk hans.

^ gr. 60 MYND: (2) Sama systir biður Jehóva um styrk til að segja frá fagnaðarboðskapnum.

^ gr. 62 MYND: (3) Heilagur andi hjálpar systurinni að vera hugrökk og segja frá ríki Guðs við óformlegar aðstæður.

^ gr. 64 MYND: (4) Systirin kennir konunni sem hún talaði við. Systirin boðar trúna og kennir með stuðningi englanna.