Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum gestrisin – það er bæði ánægjulegt og mikilvægt

Verum gestrisin – það er bæði ánægjulegt og mikilvægt

„Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla.“ – 1. PÉT. 4:9.

SÖNGVAR: 100, 87

1. Hvaða erfiðleikum stóðu kristnir menn frammi fyrir á fyrstu öld?

EINHVERN tíma á árabilinu 62 til 64 skrifaði Pétur postuli bréf til þeirra sem bjuggu „sem útlendingar dreifðir meðal þjóðanna í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu“. (1. Pét. 1:1) Þessir söfnuðir í Litlu-Asíu samanstóðu af kristnum mönnum með ólíkan menningarlegan bakgrunn. Þeir sættu mikilli andstöðu og ofsóknum og þurftu á hvatningu og leiðsögn að halda. Þetta voru erfiðir tímar. „Endir allra hluta er í nánd,“ skrifaði Pétur. Innan við áratug síðar leið þjóðskipulag Gyðinga undir lok og Jerúsalem var lögð í rúst. Hvað gat hjálpað kristnum mönnum að komast í gegnum þetta erfiða tímabil? – 1. Pét. 4:4, 7, 12.

2, 3. Hvers vegna hvatti Pétur trúsystkini sín til að vera gestrisin? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Pétur hvatti trúsystkini sín meðal annars til að vera „gestrisin hvert við annað“. (1. Pét. 4:9) Gríska orðið, sem þýtt er „gestrisin“, merkir bókstaflega „kærleikur eða góðvild í garð ókunnugra“. Vert er þó að taka eftir að Pétur hvatti trúsystkini sín til að vera gestrisin „hvert við annað“, við þá sem þau þekktu og umgengust. En hvernig myndi það hjálpa þeim að sýna gestrisni?

3 Það myndi þjappa þeim enn betur saman. Hver er þín reynsla? Hefur þú orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að vera boðið heim til einhvers? Áttu ekki ánægjulegar minningar frá heimsókninni? Og styrktust ekki vináttuböndin þegar þú sýndir einhverjum í söfnuðinum gestrisni? Þegar við sýnum gestrisni kynnumst við bræðrum okkar og systrum nánar en við aðrar aðstæður. Kristnir menn á dögum Péturs þurftu að bindast enn nánari böndum eftir því sem ástandið versnaði. Það sama á við um kristna menn nú á „síðustu dögum“. – 2. Tím. 3:1.

4. Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

4 Hvaða tækifæri höfum við til að vera gestrisin „hvert við annað“? Hvað getur hindrað okkur í að vera gestrisin og hvernig getum við sigrast á því? Og hvernig getum við verið góðir gestir?

TÆKIFÆRI TIL AÐ SÝNA GESTRISNI

5. Hvernig getum við sýnt gestrisni á samkomum okkar?

5 Á samkomum: Við bjóðum alla velkomna sem sækja samkomur okkar. Þar nærumst við andlega saman og Jehóva og söfnuður hans eru gestgjafar okkar. (Rómv. 15:7) Þeir sem eru nýir eru einnig gestir Jehóva og við ættum að taka vel á móti þeim, hvernig sem þeir eru klæddir eða líta út. (Jak. 2:1-4) Gætirðu boðið gesti, sem virðist einn á báti, að sitja hjá þér? Hann kann eflaust að meta að fá hjálp til að fylgjast með dagskránni og að finna ritningarstaðina sem lesnir eru. Það er ágæt leið til að ,leggja stund á gestrisni‘. – Rómv. 12:13.

6. Hverjum ættum við fyrst og fremst að sýna gestrisni?

6 Að bjóða í mat eða hressingu: Á biblíutímanum fól gestrisni oft í sér að bjóða fólki heim í mat. (1. Mós. 18:1-8; Dóm. 13:15; Lúk. 24:28-30) Matarboð var boð um vináttu og frið. En hverjum ættum við fyrst og fremst að sýna gestrisni? Bræðrum og systrum í söfnuðinum okkar. Eftir því sem ástandið versnar er mikilvægara að styrkja vináttuböndin og eiga friðsamlegt samband við öll trúsystkini okkar. Árið 2011 færði hið stjórnandi ráð Varðturnsnám Betelfjölskyldunnar í Bandaríkjunum fram um 30 mínútur, frá 18:45 til 18:15. Hvers vegna? Í tilkynningunni kom fram að það myndi auðvelda Betelítum að njóta gestrisni hver annars. Aðrar deildarskrifstofur breyttu tímanum í kjölfarið. Þetta fyrirkomulag hefur þjappað Betelfjölskyldum enn betur saman.

7, 8. Hvernig getum við sýnt gestrisni ræðumönnum sem heimsækja söfnuðinn?

7 Þegar við fáum ræðumenn frá öðrum söfnuðum í heimsókn, farandhirða og stundum fulltrúa frá deildarskrifstofunni höfum við kjörið tækifæri til að sýna gestrisni. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 5-8.) Getur þú sýnt þeim gestrisni með því að bjóða þeim upp á létta hressingu eða í mat?

8 Systir ein í Bandaríkjunum segir: „Á liðnum árum höfum við hjónin oft boðið ræðumönnum og eiginkonum þeirra heim til okkar. Það hefur alltaf verið ánægjulegt, skemmtilegt og umfram allt trústyrkjandi.“

9, 10. (a) Hverjir gætu þurft á gistingu að halda um tíma? (b) Geta þeir sem búa í litlu húsnæði boðið fram aðstoð sína? Lýstu með dæmi.

9 Að bjóða gistingu: Til forna sýndu menn oft gestrisni með því að sjá fólki fyrir húsaskjóli. (Job. 31:32; Fílem. 22) Á okkar dögum er einnig þörf fyrir slíka gestrisni. Farandhirðar þurfa oft að fá gistingu þegar þeir heimsækja söfnuðina. Nemendur í skólum á vegum safnaðarins og sjálfboðaliðar við byggingarstörf þurfa oft á gistingu að halda. Fjölskyldur, sem missa heimili sín í náttúruhamförum, geta þurft á húsaskjóli að halda þar til búið er að endurbyggja hús þeirra. Við ættum ekki að hugsa sem svo að aðeins þeir sem eigi vegleg heimili séu í aðstöðu til að hjálpa. Þeir hafa ef til vill gert það margoft áður. Gætir þú kannski boðið fram heimili þitt, jafnvel þótt það sé lítið og látlaust?

10 Bróðir einn í Suður-Kóreu minnist þess með ánægju að hafa hýst nemendur sem sóttu skóla safnaðarins. Hann skrifar: „Ég var hikandi í byrjun vegna þess að við hjónin vorum nýgift og bjuggum í lítilli íbúð. En það var mjög ánægjulegt að hafa nemendurna hjá okkur. Það var lærdómsríkt fyrir okkur að sjá hversu ánægð hjón geta verið þegar þau vinna saman að andlegum markmiðum í þjónustunni við Jehóva.“

11. Hvers vegna þurfa nýir í söfnuðinum á gestrisni okkar að halda?

11 Nýir í söfnuðinum: Einstaklingar eða fjölskyldur flytjast kannski á safnaðarsvæði þitt. Sumir koma til að þjóna þar sem þörfin er meiri. Kannski eru brautryðjendur sendir til að aðstoða í söfnuðinum. Þeir þurfa að aðlagast nýjum aðstæðum – nýjum stað, nýjum söfnuði og jafnvel nýju tungumáli eða menningu. Þegar við bjóðum þeim heim til okkar eða í stuttar ferðir með okkur hjálpar það þeim að eignast nýja vini og aðlagast breyttum aðstæðum.

12. Hvernig sýnir frásagan að gestrisni þarf ekki að útheimta mikla vinnu?

12 Gestrisni þarf ekki að útheimta mikla vinnu. (Lestu Lúkas 10:41, 42.) Bróðir einn rifjar upp tímann þegar hann og eiginkona hans voru að byrja í trúboðsstarfi. Hann segir: „Við vorum ung, óreynd og með heimþrá. Kvöld eitt var konan mín með mjög mikla heimþrá og ekkert sem ég gerði virtist hjálpa. En um hálf átta um kvöldið var bankað á dyrnar. Fyrir utan stóð biblíunemandi með þrjár appelsínur handa okkur. Hana langaði til að bjóða nýju trúboðana velkomna. Við buðum henni inn og gáfum henni vatnsglas. Síðan hituðum við te og kakó. Við kunnum enn ekkert í svahílí og hún skildi ekki ensku. En þetta atvik var byrjunin á góðri vináttu við trúsystkinin á svæðinu.“

HVAÐ GETUR HINDRAÐ OKKUR Í AÐ VERA GESTRISIN?

13. Hvaða gagn höfum við af því að vera gestrisin?

13 Heldurðu aftur af þér þegar kemur að gestrisni? Ef svo er missirðu af tækifærum til að eiga ánægjulega samveru og mynda varanleg vináttubönd. Gestrisni er eitt besta meðalið við einmanaleika. En hvers vegna ætti einhver að halda aftur af sér að sýna gestrisni? Fyrir því geta verið nokkrar ástæður.

14. Hvað getum við gert ef við höfum ekki tíma og krafta til að sýna gestrisni eða njóta gestrisni annarra?

14 Tími okkar og kraftar: Þjónar Jehóva hafa mikið að gera og oft mörgum skyldum að gegna. Sumum finnst þeir hreinlega ekki hafa tíma eða krafta til að sýna öðrum gestrisni. Ef það á við um þig þarftu kannski að endurskoða dagskrána þína. Gætirðu gert einhverjar breytingar svo að þú hafir tíma og krafta til að sýna gestrisni eða njóta gestrisni annarra? Það er mikilvægt því að Biblían hvetur okkur til að vera gestrisin. (Hebr. 13:2) Það er alls ekki rangt að gefa sér tíma til þess heldur er hreinlega rétt að gera það. En þú gætir þurft að sleppa einhverju öðru sem skiptir minna máli.

15. Hvaða áhyggjur gera sumir sér varðandi gestrisni?

15 Hvernig við lítum á sjálf okkur: Hefur þig langað til að sýna gestrisni en ekki fundist þú geta það? Sumir eru feimnir og óttast að geta ekki haldið uppi samræðum eða að gestunum muni leiðast. Aðrir hafa lágar tekjur og finnst þeir ekki geta boðið upp á það sama og aðrir í söfnuðinum. Mundu þá að það er langtum mikilvægara að heimilið sé hreint, snyrtilegt og aðlaðandi en að það sé íburðarmikið.

16, 17. Hvað geturðu gert ef þú kvíðir því að bjóða gestum heim?

16 Ef þú kvíðir því að bjóða heim gestum ertu ekki einn á báti. Öldungur í Bretlandi segir: „Maður getur stundum verið svolítið taugaóstyrkur þegar maður undirbýr komu gesta. En eins og allt annað sem við gerum í þjónustunni við Jehóva vega kostirnir og ánægjan miklu þyngra en áhyggjurnar sem við gerum okkur. Ég hef notið þess einfaldlega að sitja með kaffibolla og spjalla við gesti.“ Gestum okkar líður vel ef við sýnum þeim einlægan áhuga. (Fil. 2:4) Flestir njóta þess að segja frá eigin reynslu og samverustundir eru kjörin tækifæri til að kynnast trúsystkinum okkar betur. Annar öldungur segir: „Þegar ég fæ vini úr söfnuðinum í heimsókn kynnist ég þeim betur, sérstaklega þegar þeir segja frá hvernig þeir kynntust sannleikanum. Þá á ég auðveldara með að setja mig í spor þeirra.“ Þegar maður sýnir öðrum einlægan áhuga verða samverustundirnar ánægjulegar.

17 Brautryðjandasystir nokkur hýsti nemendur sem sóttu skóla á vegum safnaðarins. Hún segir: „Í byrjun hafði ég áhyggjur vegna þess að heimili mitt er fábrotið og húsgögnin hef ég fengið notuð. En áhyggjurnar hurfu þegar ég talaði við eiginkonu eins kennarans. Hún sagði að þegar þau hjónin væru í farandstarfinu liði þeim best þegar þau byggju hjá andlega sinnuðum bræðrum og systrum sem hefðu kannski ekki mikið handa á milli en hefðu sömu stefnu í lífinu og þau – að þjóna Jehóva og lifa einföldu lífi. Þetta minnti mig á það sem mamma var vön að segja við okkur krakkana: ,Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika.‘“ (Orðskv. 15:17) Ef kærleikur býr að baki gestrisni okkar þurfum við ekki að kvíða því að bjóða gestum heim.

18, 19. Hvernig getur gestrisni hjálpað okkur að sigrast á neikvæðum tilfinningum í garð annarra?

18 Hvernig við lítum á aðra: Fer einhver í söfnuðinum í taugarnar á þér? Ef þú gerir ekkert til þess að sigrast á neikvæðum tilfinningum í garð hans gætu þær orðið viðvarandi. Þig langar kannski ekki að bjóða einhverjum heim sem þér líkar ekki við. Eða ef til vill hefur einhver sært þig og þú átt erfitt með að gleyma því.

19 Í Biblíunni segir að við getum bætt samskipti okkar við aðra, jafnvel óvini okkar, ef við sýnum þeim gestrisni. (Lestu Orðskviðina 25:21, 22.) Þegar við sýnum öðrum gestrisni getur það auðveldað okkur að sigrast á neikvæðum tilfinningum og stuðlað að friðsælla sambandi. Það getur orðið til þess að við sjáum þá góðu eiginleika sem Jehóva tók eftir þegar hann laðaði gest okkar að sannleikanum. (Jóh. 6:44) Óvænt heimboð getur verið byrjun á góðri vináttu ef kærleikur býr að baki. Hvernig geturðu látið kærleika knýja þig til verka? Til dæmis með því að fylgja hvatningunni í Filippíbréfinu 2:3: „Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ Höfum augun opin fyrir því sem trúsystkini okkar gera betur en við. Kannski getum við lært af trúfesti þeirra, þolgæði, hugrekki eða einhverjum öðrum kristnum eiginleika. Þá þykir okkur enn vænna um þau og það auðveldar okkur að vera gestrisin.

AÐ VERA GÓÐUR GESTUR

Gestgjafar búa sig gjarnan vel undir komu gesta sinna. (Sjá 20. grein.)

20. Hvernig getum við staðið við orð okkar þegar við þiggjum heimboð og hvers vegna ættum við að gera það?

20 Sálmaritarinn Davíð spurði: „Drottinn, hver fær að leita hælis í tjaldi þínu?“ (Sálm. 15:1) Síðan benti hann á eiginleika sem Guð leitar að í fari gesta sinna: „Sá sem heldur eiða sína þótt það sé honum til tjóns.“ (Sálm. 15:4) Gestir í tjaldi Jehóva þurfa meðal annars að vera orðheldnir. Ef við þiggjum heimboð ættum við ekki að afboða það af litlu tilefni. Gestgjafinn hefur kannski nú þegar undirbúið komu okkar og öll fyrirhöfnin verður þá til einskis. (Matt. 5:37) Sumir afboða stundum eitt heimboð til þess að þiggja annað sem þá langar frekar að þiggja. En ber það vitni um kærleika og virðingu? Við ættum öllu heldur að sýna þakklæti fyrir gestrisnina og það sem okkur er boðið. (Lúk. 10:7) Og ef ófyrirsjáanlegar aðstæður verða til þess að við þurfum að afboða okkur sýnum við tillitssemi og virðingu með því að láta gestgjafann vita í tíma.

21. Hvernig getum við verið góðir gestir með því að virða almennar siðvenjur?

21 Við ættum einnig að virða almennar siðvenjur. Sums staðar þykir sjálfsagt að fólk komi óboðið í heimsókn en annars staðar er gert ráð fyrir að fólk láti vita áður en það kemur. Á sumum stöðum er gestum færður besti maturinn á heimilinu en annars staðar er gestum og heimilisfólki gert jafnt undir höfði. Sums staðar er venja að gestir komi með eitthvað á matarborðið en annars staðar þykir það ekki nauðsynlegt. Í sumum löndum ríkir sú venja að gestir afþakka kurteislega heimboð einu sinni til tvisvar áður en þeir þiggja það en í öðrum löndum þykir það ókurteisi. Við ættum alltaf að gera okkar besta til að gestgjafinn sé ánægður að hafa boðið okkur.

22. Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt að við séum „gestrisin hvert við annað“?

22 Pétur sagði: „Endir allra hluta er í nánd.“ (1. Pét. 4:7) Nú er endirinn nær en nokkru sinni fyrr og við stöndum frammi fyrir mestu þrengingu allra tíma. Eftir því sem álagið eykst í þessum heimi þurfum við að styrkja kærleiksböndin við bræður okkar og systur enn meir. Aldrei hafa orð Péturs til kristinna manna átt betur við en nú: „Verið gestrisin hvert við annað.“ (1. Pét. 4:9) Það er ánægjulegt og mikilvægt fyrir okkur að vera gestrisin, nú og um alla eilífð.